Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1447  —  680. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda og barna sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra.


     1.      Eru upplýsingar sem finna má á vef Stjórnarráðsins um sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda og barna sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 38/2018, réttar? Ef ekki, hvenær var teymið skipað og hvar má afla upplýsinga um það?
    Sérfræðingateymi vegna barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir skv. 20. gr. laga nr. 38/2018 tók formlega til starfa í janúar 2021. Finna má upplýsingar um teymið á vef Stjórnarráðs Íslands en þær voru uppfærðar 20. febrúar 2023. Upplýsingar um sérfræðingateymið má einnig finna á vefsíðu Barna- og fjölskyldustofu.

     2.      Hvernig er sjónarmiða fötlunarréttar og þekkingar á honum gætt í störfum teymisins?
    Sérfræðingateymið er þverfaglegt teymi sérfræðinga með mikla reynslu á ólíkum sviðum. Teymið fer eftir lögum og reglum sem varða málefni fatlaðs fólks, þ.m.t. lögum nr. 38/2018. Að auki er lögð áhersla á að í gögnum sem teymið fær til sín vegna beiðna komi fram afstaða barns.

     3.      Hvernig er málsmeðferð teymisins háttað og hvaða verklagsreglur eru til um framkvæmdina?
    Fjallað er um hlutverk teymisins í 20. og 21. gr. laga nr. 38/2018. Teymið hefur sett sér verklagsreglur um ferli mála sem koma inn til teymisins.

     4.      Hvernig er tilvísunum/beiðnum til teymisins háttað?
    Teymið er hýst hjá Barna- og fjölskyldustofu og tilteknir starfsmenn þeirrar stofnunar starfa að hluta fyrir teymið. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 38/2018 hefur teymið heimild til að afla og vinna með nauðsynlegar persónuupplýsingar. Á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu er að finna umsóknareyðublað vegna beiðna. Fylla þarf út umsóknareyðublaðið og senda inn í gegnum örugga rafræna samskiptagátt ásamt fylgigögnum en á umsóknareyðublaðinu eru jafnframt talin upp þau gögn sem þurfa að fylgja með beiðni til teymisins.

     5.      Hversu margar tilvísanir/beiðnir hefur teymið fengið frá því að lög nr. 38/2018 tóku gildi 1. október 2018?
    Í heildina hafa komið beiðnir vegna 41 barns inn í teymið sem eru með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir í samræmi við 20. gr. laga nr. 38/2018.

     6.      Hvað hefur teymið komið að mörgum málum fatlaðra barna frá gildistöku laga nr. 38/2018?
    Í heildina hafa komið beiðnir vegna 41 barns inn í teymið sem eru með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir í samræmi við 20. gr. laga nr. 38/2018 og teymið komið að meðferð þeirra mála.

     7.      Í hversu mörgum málum hefur teymið veitt formlega ráðgjöf um veitingu stoðþjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og að hvaða þjónustuformi hefur ráðgjöfin um þjónustuveitingu miðast?
    Hlutverk teymisins er m.a. að meta hvort önnur þjónusta en búseta utan heimilis sé fullreynd. Í mörgum tilvikum er barn þegar í búsetu utan heimilis þegar beiðni berst teyminu. Áður en álit teymis liggur fyrir er farið ítarlega yfir öll gögn og metið hvort önnur þjónusta sé fullreynd. Teymið veitir formlega ráðgjöf í öllum málum.

     8.      Hversu margar ákvarðanir um búsetu fatlaðs barns utan heimilis hefur teymið tekið frá gildistöku laga nr. 38/2018, í hvaða úrræði hafa börnin verið flutt og á grundvelli hvaða laga hefur ákvörðun um búsetu og þjónustu verið reist, barnaverndarlaga, nr. 80/2002, laga nr. 38/2018 eða hvorra tveggja laganna?
    Teymið leggur mat á hvort þjónusta við barn á heimili fjölskyldu þess eða öðru heimili í nærsamfélagi þess sé fullreynd og þörf sé fyrir vistun utan heimilis í sérsniðnu úrræði. Það er síðan sveitarfélagsins að taka ákvörðun um fyrirkomulag búsetu utan heimilis eftir aðstæðum hverju sinni, þ.m.t. hvort barnaverndarþjónusta viðkomandi sveitarfélags hefur aðkomu að máli barnsins. Þá er það sveitarfélagsins að taka ákvörðun um búsetustað barns.

     9.      Er heimilt að ákvarða um búsetu fatlaðs barns utan heimilis án aðkomu sérfræðingateymisins og ef svo er, á hvaða lagagrundvelli hvílir ákvörðunin og meðferðin?
    Í 2. mgr. 21. gr. laganna kemur fram að sveitarfélögum sé heimilt að útbúa sérstakt húsnæði fyrir fötluð börn með miklar þroska- og geðraskanir, enda hafi að mati sérfræðingateymisins skv. 20. gr. verið fullreynt að styðja barnið á heimili fjölskyldu þess eða öðru heimili í nærsamfélagi þess og gera því kleift að viðhalda sambandi við upprunafjölskyldu sína, sbr. jafnframt ákvæði reglugerðar um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir, nr. 1038/2018. Ákvæði 21. gr. laganna og reglugerðarinnar eru skýr að því leyti að heimild sveitarfélaga til að útbúa sérstakt húsnæði til að vista barn utan heimilis til lengri tíma er nátengd niðurstöðu sérfræðingateymisins.
    Dvöl barna utan heimilis getur þó jafnframt verði byggð á öðrum lagagrundvelli. Sveitarfélögum er heimilt að bjóða fötluðum börnum upp á skammtímadvöl vegna mikilla umönnunarþarfa umfram jafnaldra, sbr. 17. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og 5. gr. reglugerðar um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum nr. 1037/2018.

     10.      Hversu margar ákvarðanir um búsetu og/eða vistun fatlaðs barns utan heimilis hafa verið teknar án aðkomu teymisins frá því að lög nr. 38/2018 tóku gildi?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda ákvarðana sveitarfélaga um búsetu og/eða vistun fatlaðs barns utan heimilis án aðkomu sérfræðingateymisins.

     11.      Verði sveitarfélag ekki við ákvörðun teymisins, hvert geta einstaklingar þá leitað til að fá ákvörðun framfylgt?
    Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, eru kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála, þ.m.t. ákvarðanir sveitarfélags um þjónustu við börn með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir og ákvarðanir sérfræðingateymisins, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 38/2018.