Ferill 664. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1537  —  664. mál.
Leiðrétt fjárhæð.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um kostnað vegna afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.


     1.      Hver var kostnaður ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd á ári hverju árin 2017–2022?
    Samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, ber Útlendingastofnun ábyrgð á að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd. Telji umsækjandi að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki farið fram með réttum hætti, mat stofnunarinnar á aðstæðum hans sé rangt eða ef hann er ósáttur að öðru leyti við ákvörðun Útlendingastofnunar getur hann kært ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kærunefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem við úrlausn kærumála hefur sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi. Úrskurðir kærunefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og verður lögmæti þeirra einungis borið undir dómstóla. Að þessu virtu hefur ráðuneytið enga beina aðkomu að afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.
    Í töflu 1 má finna upplýsingar frá Útlendingastofnun um kostnað vegna reksturs verndarsviðs stofnunarinnar á árunum 2017 til 2022. Líkt og þar greinir var heildarrekstrarkostnaður stofnunarinnar vegna málsmeðferðar og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd um 7,17 milljarðar kr. á umræddu tímabili. Vakin er athygli á að í upphafi árs 2022 tók félags- og vinnumarkaðsráðuneytið við ábyrgð á þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Þar af leiðandi er ekki tilgreindur sá kostnaður sem hlaust af þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd árið 2022.

     Tafla 1.    Rekstrarkostnaður verndarsviðs Útlendingastofnunar á árunum 2017 til 2022, sundurliðað eftir málsmeðferð og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd útlendingamála er rekstrarkostnaður hennar vegna afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd ekki sérstaklega aðgreindur frá annarri starfsemi nefndarinnar. Fyrir liggur þó að stærstur hluti starfsemi nefndarinnar fer í meðferð slíkra mála. Vísar nefndin til þess að á því tímabili sem um ræðir hafi nefndin almennt verið með einn starfsmann af um 10–15 starfsmönnum hverju sinni í eiginlegum úrskurðarskrifum tileinkaðan öðrum málum en alþjóðlegri vernd, svo sem dvalarleyfum, vegabréfsáritunum og brottvísunum. Þá fari eitthvert hlutfall rekstrarkostnaðar til annarra starfa, svo sem formanns, nefndarmanna, yfirlögfræðings, rekstrarfulltrúa og ritara. Á umræddu tímabili hafi hlutfall verndarmála af heildarinnkomnum málum verið á bilinu 80–85%. Sé tekið mið af því hlutfalli megi áætla að heildarrekstrarkostnaður kærunefndar vegna málsmeðferðar og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd hafi á árunum 2017 til 2022 verið um 1,36 milljarðar kr.

     Tafla 2.    Hlutfall af rekstrarkostnaði kærunefndar útlendingamála á árunum 2017 til 2022 sem fór í málsmeðferð og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, sé miðað við hlutfall slíkra mála af heildarinnkomnum málum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver var kostnaður ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna réttaraðstoðar í málum um alþjóðlega vernd skv. 30. gr. laga um útlendinga á ári hverju árin 2017–2022?
    Samkvæmt 30. gr. laga um útlendinga skal Útlendingastofnun tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd talsmann við meðferð máls hjá stjórnvöldum. Þjónustan fer fram á lægra og æðra stjórnsýslustigi og hefst við skipun talsmanns og lýkur við endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Samkvæmt 42. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, er heimilt að semja við tiltekinn eða tiltekna aðila um að veita réttaraðstoð og skal kostnaður greiðast úr ríkissjóði. Með vísan til þessa ákvæðis og á grundvelli samnings sinnti Rauði krossinn á Íslandi (RKÍ) réttaraðstoð og talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd árið 2017 til febrúar 2018.
    Í mars 2018, að undangengnu útboði, gerðu ráðuneytið, Útlendingastofnun og RKÍ með sér annan samning um aðstoð og þjónustu við einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Á grundvelli samningsins var það hlutverk RKÍ að sinna réttaraðstoð vegna umsókna á lægra og æðra stjórnsýslustigi og félagslegum stuðningi fyrir umsækjendur á meðan þeir biðu niðurstöðu eða flutnings úr landi. Gildistími samningsins var til þriggja ára, nánar tiltekið til 28. febrúar 2021, og gátu aðilar samið um framlengingu hans tvisvar sinnum í eitt ár í senn. Sú heimild var nýtt einu sinni og hélt samningurinn því gildi sínu til 28. febrúar 2022. Þá var gengið frá tímabundinni framlengingu samningsins út apríl 2022 til að tryggja óskerta þjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á meðan beðið var eftir því að nýtt fyrirkomulag á talsmannaþjónustu tæki við.
    Samkvæmt samningnum fékk RKÍ greiddar 310 millj. kr. á ári auk verðbóta sem féllu árlega frá árinu 2019. Af þeirri fjárhæð fóru annars vegar 222.456.335 kr. í launakostnað vegna 21,25 starfsmanna, þ.e. 15 talsmanna og 6,25 starfsmanna til að sinna félagsþjónustu, og hins vegar 87.543.665 kr. vegna annars kostnaðar, svo sem vegna verkefna, aðstöðu og umsýslu. Samningurinn gerði ekki ráð fyrir nánari sundurliðun á launakostnaði og því er ekki unnt með einföldum hætti að aðgreina þann kostnað sem fór í stöðugildi talsmanna og þeirra sem sinntu félagsþjónustu.

     Tafla 3.    Greiðslur til RKÍ vegna talsmanna- og félagsþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá árinu 2017 til og með apríl 2022.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Nýtt fyrirkomulag á talsmannaþjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd tók við í maí 2022 og geta áhugasamir lögfræðingar skilað inn umsókn til Útlendingastofnunar til að fara á talsmannalista stofnunarinnar. Nú eru um 90 talsmenn skráðir á listann sem er birtur á heimasíðu stofnunarinnar. Í samræmi við 42. gr. reglugerðar um útlendinga fá talsmenn greiddar 16.500 kr. fyrir hverja byrjaða klukkustund, að viðbættum virðisaukaskatti, en hámarksfjöldi tíma á hvert mál tekur mið af tímatöflu stofnunarinnar. Jafnframt fá talsmenn greiddar allt að 90 mínútur í túlkakostnað til að sinna birtingu ákvarðana en talsmenn RKÍ sinntu áður því hlutverki. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun nam kostnaður hennar vegna talsmannaþjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd 170 millj. kr. á tímabilinu frá maí 2022 til loka þess árs.

     3.      Hver var kostnaður ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna brottvísana skv. XII. kafla laga um útlendinga á ári hverju árin 2017–2022?
    Í skriflegu svari dómsmálaráðherra frá 25. apríl 2022 við fyrirspurn þingmanns um kostnað við flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi, sbr. þskj. 391, 127. mál, má finna ítarlega samantekt um heildarkostnað lögreglu vegna flutninga í fylgd úr landi á árunum 2019, 2020 og 2021. Að þessu virtu og með hliðsjón af umfangi þess að taka saman slíkar upplýsingar hverju sinni, auk þess sem fjárhagsárið 2022 liggur ekki fyrir, vísar ráðuneytið til þeirra upplýsinga sem þar koma fram. Vakin er athygli á að sama skriflega svar var veitt 16. janúar 2023 við sömu fyrirspurn annars þingmanns um brottvísanir umsækjenda um alþjóðlega vernd, sbr. þskj. 924, 420. mál.

     4.      Hver var kostnaður ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna beitingar þvingunar- og rannsóknarúrræða skv. XIII. kafla laga um útlendinga á ári hverju árin 2017–2022?
    Í XIII. kafla laga um útlendinga er fjallað um þau þvingunar- og rannsóknarúrræði sem lögregla og önnur stjórnvöld hafa til að tryggja framkvæmd laganna. Í 109. gr. er lögreglu veitt heimild til að leggja hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur verið til upplýsinga um hver útlendingur er. Í 110. gr. er lögreglu veitt heimild til að leita á útlendingi, á heimili hans eða í hirslum og hjá samverkamanni ef rökstuddur grunur leikur á að hann haldi eftir eða leyni gögnum eða upplýsingum um hver hann er eða fyrri dvalarstað. Í 111. gr. er lögreglu veitt heimild til að taka ljósmyndir og fingraför útlendings í fjórum nánar tilgreindum tilvikum. Í 112. gr. er Útlendingastofnun veitt heimild til að krefjast rannsóknar á erfðaefni, þ.e. DNA-rannsóknar, í málum þar sem sýna þarf fram á fjölskyldutengsl á grundvelli laganna. Í 113. gr. er Útlendingastofnun veitt heimild, villi umsækjandi um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur, til að leggja fyrir að viðkomandi gangist undir líkamsrannsókn til að ákvarða aldur hans. Í 114. gr. er lögreglu veitt heimild til að skylda útlending til að tilkynna sig eða dveljast á ákveðnum stað í ákveðnum tilvikum. Loks er lögreglu í 115. gr. veitt heimild til að handtaka útlending og færa í gæsluvarðhald við tilteknar aðstæður.
    Samkvæmt framansögðu er um fjölmörg ólík þvingunar- og rannsóknarúrræði mismunandi stjórnvalda að ræða. Þá er vinna við framkvæmd þeirra yfirleitt hluti af hefðbundnu starfi umræddra stjórnvalda án þess að kostnaðurinn við þau verkefni sé sérstaklega aðgreindur. Að þessu virtu er vandkvæðum bundið og í flestum tilvikum ómögulegt að taka saman með einföldum hætti og í stuttu máli þann kostnað sem óskað er eftir. Engu að síður liggur fyrir hjá Útlendingastofnun að bókfærður kostnaður hennar vegna framkvæmdar erfðagreininga skv. 112. gr. laganna var um 8,7 millj. kr. á umræddu tímabili og um 8,3 millj. kr. vegna framkvæmdar aldursgreininga skv. 113. gr. laganna.

     Tafla 4.    Kostnaður Útlendingastofnunar vegna framkvæmdar erfða- og aldursgreininga á árunum 2017 til 2022.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Varðandi kostnað við beitingu 115. gr. laganna um handtöku og gæsluvarðhald þá eru, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun, útgjöld ekki sérstaklega aðgreind fyrir fanga í gæsluvarðhaldi. Meðaltalskostnaður á hvern fanga í fangelsinu á Hólmsheiði, þar á meðal gæsluvarðhaldsfanga, hefur aftur á móti verið á bilinu 34–39 þús. kr. á dag á umræddu tímabili. Eins og nánar greinir í skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn um gæsluvarðhald og fangelsisvistun útlendinga, sbr. þskj. 1041, 671. mál, hafa 30 útlendingar verið vistaðir í fangelsinu á Hólmsheiði á umræddu tímabili í mislangan tíma í senn. Ef miðað er við þá tölfræði sem þar greinir má áætla að kostnaður vegna beitingar 115. gr. laganna hafi á árunum 2017 til 2022 verið um 8–9 millj. kr. Eins og áður greinir tekur sú fjárhæð þó ekki mið af öllum þeim kostnaði sem fylgir því að beita umræddu úrræði, svo sem að fara með kröfu um gæsluvarðhald fyrir dómi, skipun verjanda útlendings, flutningi milli staða o.s.frv.