Ferill 694. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1543  —  694. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um griðasvæði hvala.


     1.      Hvaða ástæður voru fyrir því að sendinefnd Íslands vék af fundi þegar kom að atkvæðagreiðslu um griðasvæði hvala í Suður-Atlantshafi (e. South Atlantic Whale Sanctuary) á síðasta ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins? Var útgangan ákveðin fyrir fram?
    Einkum sjónarmið um túlkun alþjóðaréttar hvað varðar valdbærni stofnana til þess að ákveða stjórnunarráðstafanir af þeim toga sem lagt var til. Frekari tími gefst til að rýna mismunandi sjónarmið hvað þessa túlkun varðar fyrir næsta ársfund þar sem ætla má að sambærileg tillaga verði lögð fram.

     2.      Hvaða aðilar komu að útgönguákvörðuninni af Íslands hálfu og hafði fulltrúi hvalveiðifyrirtækja í sendinefnd Íslands einhver áhrif á afstöðu sendinefndarinnar?
    Matvælaráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Fulltrúi hagsmunaaðila kom ekki að þeirri ákvörðun.

     3.      Hver var aðkoma ráðherra að ákvörðun um útgöngu sendinefndar Íslands?
    Fagskrifstofur ráðuneytanna veittu fyrirmæli um hver viðbrögð sendinefndar skyldu vera.

     4.      Hver var afstaða Íslands þegar tillögur um griðasvæði hvala í Suður-Atlantshafi komu til atkvæða á ársfundum Alþjóðahvalveiðiráðsins 2011 og 2016?
    Lokuð svæði eru meðal þeirra ráðstafana sem Alþjóðahvalveiðiráðið getur sett skv. gr. 5.1 í stofnsamningi sínum. Afstaða Íslands á fundum 2011 og 2016 var sú að benda á að tillögur um almenn griðasvæði standist ekki þau skilyrði sem gr. 5.2 setur fyrir svæðalokunum.

     5.      Hefur íslenska ríkið einhverja hagsmuni af því að ekki verði komið á fót griðasvæði hvala í Suður-Atlantshafi?

    Sjá svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Hver er afstaða ráðherra til þeirra griðasvæða hvala sem Alþjóðahvalveiðiráðið hefur áður samþykkt að koma á fót, annars vegar í Suður-Íshafinu og hins vegar í Indlandshafi (e. Southern Ocean Whale Sanctuary og Indian Ocean Whale Sanctuary)?
    Afstaða ráðherra er almennt sú að mikilvægt sé að vernda stærri hluta hafsvæða, sérstaklega í ljósi nýrra skuldbindinga á vettvangi samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem kveður m.a. á um að vernda 30% af hafsvæðum fyrir árið 2030.