Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1639  —  668. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um endurgreiðslur vegna útgáfu bóka á íslensku.


     1.      Hvernig hafa árlegar heildarendurgreiðslur vegna útgáfu bóka á íslensku, samkvæmt lögum nr. 130/2018, skipst á milli innlendra og erlendra aðila síðan lögin tóku gildi? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða:
                  a.      beinan launakostnað vegna útgáfu bókar,
                  b.      beinar verktakagreiðslur vegna útgáfu bókar,
                  c.      laun höfundar eða rétthafa,
                  d.      prentkostnað og hliðstæðan kostnað vegna útgáfu í öðru formi en á prenti,
                  e.      þýðingarkostnað og kostnað vegna prófarkalesturs,
                  f.      auglýsinga- og kynningarkostnað sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu bókar eða
                  g.      eigin vinnu, sbr. 7. gr. laganna.

    Sú sundurliðun sem óskað er eftir í fyrirspurninni, í a–g-lið, er tekin orðrétt úr 6. gr. laga nr. 130/2018. Tölfræðigögn um endurgreiðslur vegna útgáfu bóka á íslensku, sem unnin eru hjá Rannís, liggja hins vegar ekki fyrir með sömu sundurliðun eins og nánar er gerð grein fyrir í svari þessu.
    Í meðfylgjandi töflu má sjá skiptingu kostnaðarliða fyrir árið 2019 og jafnframt fylgja töflur með ítarlegri greiningu fyrir árin 2020 og 2021, þ.e. tvö fyrstu heilu ár sjóðsins.

2019

Kostnaðarliðir Upphæðir % kostnaðar Fjöldi umsókna % umsókna
Auglýsingar 31.237.463 10,0% 135 50,8%
Hljóðupptaka 39.360.681 12,6% 137 51,5%
Höfundarlaun 35.520.483 11,4% 178 66,9%
Hönnun 23.645.881 7,6% 126 47,4%
Kynning 3.098.473 1,0% 39 14,7%
Lestur* 48.687.281 15,6% 253 95,1%
Ljósmyndir 1.495.625 0,5% 33 12,4%
Prentun 73.611.518 23,6% 137 51,5%
Rafbókavinna 1.369.287 0,4% 52 19,5%
Útgáfuréttur 10.951.352 3,5% 47 17,7%
Þýðing 48.355.846 15,5% 92 34,6%
Styrkir -5.410.180 -1,7% 11 4,1%
Alls kostnaður 311.923.710 Alls fjöldi ums. 266
Endurgreitt 2019 77.980.928

*Eftir 2019 var „lestri“ skipt upp í ritstjórn, prófarkalestur og upplestur.

2020

Kostnaðarliðir Kostnaður % kostnaðar Fjöldi umsókna % umsókna
Auglýsingar 185.006.343 11,6% 655 71,0%
Hljóðupptaka 84.901.742 5,3% 372 40,3%
Upplestur 35.967.253 2,3% 328 35,6%
Höfundarlaun 285.677.015 17,9% 590 64,0%
Hönnun 143.392.879 9,0% 613 66,5%
Kynning 32.915.242 2,1% 261 28,3%
Ljósmyndir 30.862.803 1,9% 129 14,0%
Prentun 426.705.011 26,8% 586 63,6%
Prófarkalestur 47.112.791 3,0% 322 34,9%
Rafbókavinna 2.970.111 0,2% 139 15,1%
Ritstjórn 144.651.344 9,1% 375 40,7%
Lestur 25.177.304 1,6% 101 11,0%
Útgáfuréttur 46.269.647 2,9% 168 18,2%
Þýðing 145.487.428 9,1% 292 31,7%
Styrkur -43.651.235 -2,7% 78 8,5%
Alls kostnaður 1.593.445.678 Alls fjöldi ums. 922
Endurgreitt 2020 398.361.420

2021

Kostnaðarliðir Kostnaður % kostnaðar Fjöldi umsókna % umsókna
Auglýsingar 193.070.470 12,9% 484 66%
Hljóðbók-Hljóðvinnsla 72.853.523 4,9% 271 37%
Hljóðbók-Upplestur 34.987.824 2,3% 244 33%
Höfundarlaun 301.486.437 20,2% 462 63%
Hönnun 129.184.194 8,6% 509 70%
Kynning 22.132.794 1,5% 194 27%
Ljósmyndir 30.461.531 2,0% 116 16%
Prentun 420.541.012 28,1% 516 70%
Prófarkalestur 52.875.122 3,5% 433 59%
Rafbókavinna 4.422.040 0,3% 106 14%
Ritstjórn 146.503.797 9,8% 441 60%
Lestur 0,0% 0%
Útgáfuréttur 29.567.031 2,0% 132 18%
Þýðing 105.994.578 7,1% 219 30%
Styrkur -49.198.432 -3,3% 91 12%
Alls kostnaður 1.494.881.921 Alls fjöldi ums. 732
Endurgreitt 373.720.480

    Varðandi 2019 verður að hafa í huga að aðeins hluti bókaútgáfu ársins kemur þar fram. Útgefendur hafa níu mánuði frá útgáfudegi til að sækja um endurgreiðslu og því vantar meginþorra bóka sem voru útgefnar eftir mitt ár 2019, þ.m.t. „jólabókaflóðið“. Árið 2020 er því í raun fyrsta fulla árið í starfsemi sjóðsins. Einnig má hafa til hliðsjónar samantekt á vef sjóðsins. 1
    Tölfræði ársins 2022 liggur ekki fyrir. Rétt er að gera þann fyrirvara að í e-lið 6. gr. laganna eru „þýðing“ og „prófarkalestur“ sett undir sama hatt. Þetta hefur lítið með hvort annað að gera nema að lesa próförk að þýðingum eins og öðrum texta til útgáfu. Hvað varðar g-lið 6. gr., „eigin vinna“, þá á það aðeins við þau fáu tilfelli þar sem útgefandi er einstaklingur. Þetta er ekki sérstakur liður heldur velur viðkomandi þann lið sem kemst næst þeirri vinnu sem fólst í útgáfunni (oftast er valið „ritstjórn“). Sem fyrr segir eru þetta fá tilfelli.
    Hvað varðar a- og b-lið 6. gr. laganna er erfitt er að sjá skiptingu milli beinna launa (innanhússvinnu útgefanda) og verktakagreiðslna. Ástæðan er sú að umsóknarkerfið greinir aðeins á milli vinnuþátta (svo sem ritstjórnar, hönnunar og prófarkalesturs) en ekki þess hvort sú vinna fer fram innan húss eða ekki. Nefndin sem metur umsóknir gengur úr skugga um það þegar hún skoðar umsóknir og fylgiskjöl þeirra og krefst skýringa ef svo ber undir. Hægt er að ganga út frá því að ritstjórn sé í flestum tilfellum innanhússvinna.
    Stundum getur verið erfitt að greina á milli prófarkalesturs og ritstjórnar í umsókn; í sumum umsóknum er varla minnst á prófarkalestur, bara ritstjórn, og í öðrum er því öfugt farið. Ritstjórn getur verið verktakavinna sem og prófarkalestur. Hönnun og umbrot getur verið innanhússvinna, einnig prófarkalestur og þýðing (innanhússþýðing á þó einkum við smábarnabækur, en það er afar lágt hlutfall þýðinga).
    Skipting á milli innlendra og erlendra aðila er sem hér segir:
    Ár 2019:    Alls endurgreiddar 77.980.958 kr. Innlendir aðilar 62.153.762 kr., erlendir aðilar 15.827.196 kr.
    Ár 2020:    Alls endurgreiddar 398.361.527 kr. Innlendir aðilar: 365.207.132 kr., erlendir aðilar 33.154.395 kr.
    Ár 2021:    Alls endurgreiddar 373.689.321 kr. Innlendir aðilar: 344.372.951 kr., erlendir aðilar 29.316.370 kr.

     2.      Þar sem lögunum er ætlað að styrkja útgáfu á íslensku, telur ráðherra eðlilegt að tekið sé tillit til íslensks handverks og útgáfu að öðru leyti, svo sem í prentun og auglýsingagerð?
    Samkvæmt Bókasambandi Íslands voru 83,5% bókatitla árið 2022 prentaðir erlendis. Það er mat nefndar um endurgreiðslu vegna útgáfu bóka á íslensku, eftir skoðun á umsóknum undanfarin þrjú ár, að íslenskt prent sé einkum bækur í mjúku bandi og kiljur og jafnframt að blaðsíðufjöldi og upplög séu lág. Hlutfallstala á íslensku og erlendu prenti myndi því breytast ef heildarfjöldi prentaðra blaðsíðna væri skoðaður.
    Prent- og bókbandstækni hefur um allan heim þróast í átt að hraða og sjálfvirkni á síðustu áratugum. Íslenskar prentsmiðjur eru hér engir eftirbátar og hér á landi eru starfræktar mjög öflugar prentsmiðjur. Vegna þess eðlis íslensks bókamarkaðar að prenta stór upplög fjölda bóka síðari hluta ársins, fyrst og fremst vegna hins árlega jólabókaflóðs, er það hins vegar mikil áskorun fyrir þær að anna öllu prenti innan lands á þeim tíma.
    Einungis beinn kostnaður við auglýsingabirtingu er endurgreiðsluhæfur kostnaður. Vinna og annar kostnaður við auglýsinga- og kynningarmál er ekki endurgreiðsluhæf, sbr. 5. gr. c í reglugerð um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.
    Tölur um hlutfall kostnaðar, annars vegar vegna birtinga auglýsinga á samskiptamiðlum í eigu erlendra fyrirtækja og hins vegar á íslenskum net-, pappírs- og ljósvakamiðlum eru ekki tiltækar í umsóknakerfi endurgreiðslu.
    Ráðherra telur fulla ástæðu til að endurskoða regluverk varðandi þessi mál ef það mætti verða til þess að aukinn hluti bóka yrði í kjölfarið prentaður hér á landi. Undirbúningur stendur yfir að endurskoðun á regluverki varðandi endurgreiðslur vegna útgáfu bóka á íslensku og gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirrar vinnu verði kynntar í samráðsgátt stjórnvalda síðar á árinu.
1     www.rannis.is/sjodir/menning-listir/studningur-vid-utgafu-boka-a-islensku/tolfraedi-og-arsskyrslur/