Ferill 839. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1681  —  839. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um kulnun.


     1.      Er til læknisfræðileg greining á kulnun? Ef svo er, hver eru greiningarskilmerki kulnunar?
    
Kulnun hefur ekki verið skilgreind af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem sjúkdómur. Hins vegar er kulnun skilgreind af WHO sem ástand tengt vinnuumhverfi og byggir á þremur skilmerkjum:
          a.      Mikil þreyta eða örmögnun (e. feelings of energy depletion or exhaustion).
          b.      Áhugaleysi og/eða neikvæðni gagnvart vinnu (e. increased mental distance from one's job, or feelings of negativism or cynicism related to one's job).
          c.      Minnkuð afköst (e. reduced professional efficacy).
    
     2.      Hvert er umfang tilvísana og vottorða þar sem kulnun er tilgreind sem ástæða?
    Þar sem ekki er um skilgreindan sjúkdóm að ræða er ekki haldið utan um þessa tölfræði hjá embætti landlæknis.

     3.      Hver er tíðni læknisfræðilegrar greiningar á kulnun og hvernig hefur hún þróast undanfarin ár?
    Umfangið er ekki ljóst þar sem ekki fer fram kerfisbundin söfnun upplýsinga úr vottorðum eða tilvísunum.