Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1696  —  596. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (afnám tegundatilfærslu í deilistofnum botnfisks o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svönu Helgadóttur og Daða Tryggvason frá Fiskistofu, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Guðjón Þorbergsson, Birki Hjálmarsson, Jón Kristin Sverrisson og Hrefnu Karlsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Örvar Marteinsson frá Samtökum smærri útgerða og Agnar Braga Bragason og Jón Þránd Stefánsson frá matvælaráðuneyti.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fiskistofu, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum smærri útgerða.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar tegundatilfærslu á deilistofnum botnfisks, þess efnis að ekki verði hægt að nýta sveigjanleika í aflamarkskerfinu hvað varðar deilistofna botnfisks (gullkarfa og grálúðu). Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að flytja allt að 15% af aflamarki deilistofna uppsjávartegunda (kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar) frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að veiða allt að 3% umfram aflamark hryggleysingja og allt að 5% umfram aflamark í deilistofnum uppsjávartegunda (kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar) enda dragist umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir, í samræmi við heimildir sem gilda um aðra nytjastofna.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögn Fiskistofu er á það bent að stofnunin þurfi svigrúm til þess að uppfæra kerfi sín og aðlaga að nýjum reglum verði frumvarpið samþykkt. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og leggur til breytingu á gildistöku frumvarpsins svo að hún miðist við næstkomandi fiskveiðiár.
    Meiri hlutinn leggur að beiðni ráðuneytis til breytingar á b-lið 1. gr. frumvarpsins. Við vinnslu frumvarpsins var í ákvæðinu fyrst miðað við 10% flutningsheimild aflamarks uppsjávartegunda á milli ára en heimildin var hækkuð í 15% í kjölfar samráðsferlis. Þá hafi nýlega verið gerður samningur um aflareglur í kolmunna þar sem kveðið var á um 10% flutningsheimild. Algengt sé að samið sé um 10% flutningsheimildir milli ára í strandríkjasamningum, enda verði veiðar stöðugri og fyrirsjáanlegri innan samnings, t.d. vegna gagnkvæmra aðgangsheimilda og minni heildarveiði. Eðlilegt sé að hafa hærri flutningsheimildir þegar ekki er í gildi samningur en einnig mikilvægt að svigrúm til breytinga eða lækkunar flutningsheimilda komi strandríkin sér saman um slíkt í samningum.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      B-liður 1. gr. orðist svo: 3. mgr. orðast svo:
                 Heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, úthafsrækju, humars og íslenskrar sumargotssíldar, 10% af aflamarki hörpudisks og 5% af aflamarki rækju á grunnslóð og hryggleysingja frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta ef ekki er í gildi samningur með aðild Íslands milli strandríkja um hverja tegund, en annars gilda ákvæði viðkomandi samninga um flutningsheimild milli ára. Ráðherra getur með reglugerð, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, hækkað fyrrgreind hlutföll aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.
     2.      2. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. september 2023.

    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 4. maí 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Helgi Héðinsson. Teitur Björn Einarsson.
Hanna Katrín Friðriksson.