Ferill 912. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1702  —  912. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (úrgangur í náttúrunni).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Svönu Helgadóttur og Trausta Ágúst Hermannsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og Ingu Dóru Hrólfsdóttur og Gunnhildi Sif Oddsdóttur frá Umhverfisstofnun.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 3. málsl. 3. mgr. 17. gr. náttúruverndarlaga þess efnis að óheimilt sé að skilja eftir úrgang í náttúrunni og að úrgangur skuli meðhöndlaður í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs.

Umfjöllun.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að stofnunin er sammála markmiði frumvarpsins um að skýra betur skyldur almennings hvað varðar umgengni í náttúrunni, þ.e. að bannað sé að losa sig við úrgang í náttúrunni. Stofnunin benti hins vegar á að í 4. mgr. 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, er kveðið á um að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma. Ákvæðið nái einnig til losunar úrgangs í náttúrunni og breyti frumvarpið því ekki lagalegri stöðu þeirra sem skilja eftir úrgang í náttúrunni. Meiri hlutinn tekur undir það en telur ákvæði frumvarpsins þrátt fyrir það til mikilla bóta þar sem það er til þess fallið að auka skilning almennings á þeim skyldum sem fylgja því að fara um land á grundvelli almannaréttar, þ.m.t. að skilja engan úrgang eftir í náttúrunni. Þá er með frumvarpinu gerð skýrari tenging milli náttúruverndarlaga og laga um meðhöndlun úrgangs. Að lokum leggur meiri hlutinn áherslu á nauðsyn þess að tryggt verði að upplýsingar um hvar hægt sé að losa sig við úrgang séu aðgengilegar ferðamönnum og öðrum sem um landið ferðast en öðruvísi verður markmiði frumvarpsins ekki náð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bjarni Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 5. maí 2023.

Vilhjálmur Árnason,
form., frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ingibjörg Isaksen.
Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson. Þórunn Sveinbjarnardóttir.