Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1746  —  619. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn félags- og vinnumarkaðsráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Í gildi er stefna, forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi), frá 16. júní 2022. Markmiðið með stefnunni er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, nr. 1009/2015.
    Samkvæmt reglugerðinni er bæði atvinnurekanda og starfsfólki óheimilt að leggja starfsfólk í einelti á vinnustað, áreita það kynferðislega, sem og á grundvelli kyns, eða beita það ofbeldi. Í viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO kemur m.a. fram að hafi starfsfólk orðið fyrir, orðið vitni að eða hafi rökstuddan grun um að tilvik tengt EKKO hafi átt sér stað skuli það upplýsa sinn næsta yfirmann eða mannauðsstjóra (eða annan ábyrgðaraðila málaflokksins innan ráðuneytisins). Þá skuli ráðuneytin upplýsa á sínum innri vefjum ef gerður hefur verið samstarfssamningur við fagaðila, sem er starfsfólki ráðuneytis til aðstoðar og ráðgjafar í EKKO-málum, eða fela fagaðila að taka mál í ferli þegar um samskiptavanda eða formlega tilkynningu er að ræða.
    Starfsfólk félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins getur því í samræmi við framangreint leitað til mannauðsstjóra ráðuneytisins eða næsta yfirmanns, vegna vanvirðandi meðferðar, sem beinir hverju tilviki fyrir sig í viðeigandi farveg. Þá getur starfsfólk miðlað upplýsingum til næsta yfirmanns um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda, þ.m.t. meint brot á framangreindri reglugerð nr. 1009/2015, sem og til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, t.d. umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlits ríkisins, á grundvelli laga um vernd uppljóstrara, nr. 40/2020.

     2.      Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Síðastliðin fimm ár hafa verið gerðir samningar um sálfræðiþjónustu vegna handleiðslu starfsmanna Réttindagæslu fatlaðs fólks. Samningarnir voru gerðir við Áfalla- og sálfræðimiðstöðina, Nýjar Áttir ehf. og Kvíðameðferðarstöðina. Nemur kostnaður vegna þeirra 1.995.800 kr. Samningar um sálfræðiþjónustu fyrir annað starfsfólk ráðuneytisins síðastliðin fimm ár hafa ekki verið gerðir. Það hefur þó ekki staðið í vegi fyrir því að starfsfólki stæði til boða slík þjónusta hefði talist þörf á henni en ekki reyndi á það á umræddu tímabili.

     3.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Ekki er fyrir að fara neinum kostnaði ráðuneytisins síðastliðin fimm ár af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað að undanskildum þeim sem tilgreindur hefur verið í 2. tölul. fyrirspurnarinnar, þ.e. 1.995.800 kr. vegna handleiðslu starfsmanna Réttindagæslu fatlaðs fólks.