Ferill 860. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 13/153.

Þingskjal 1761  —  860. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023–2027.


    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun fyrir árin 2023–2027.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG ÁHERSLUR

    Aðgerðaáætlunin verði leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila verði skýr og að gráum svæðum verði útrýmt. Gildistími aðgerðaáætlunarinnar verði árin 2023–2027. Staða aðgerða og framgangur þróunarverkefna verði gerð aðgengileg og skýr, m.a. til að auðvelda eftirfylgni.
    Áætluninni verði skipt í fimm þætti, hverjum með sínum undirverkefnum. Þættirnir verði: A. Samþætting, B. Virkni, C. Upplýsing, D. Þróun og E. Heimili.
     A.     Samþætting.
    Aðgerðir samþættingar stuðli að skilgreindri samþættri félags- og heilbrigðisþjónustu sem ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á og veitt verði fólki sem býr í heimahúsi. Lögð verði áhersla á að íbúar upplifi að þjónustuúrræði styðji við búsetu þeirra heima og að hægt verði að treysta á að eitt þjónustuúrræði taki við af öðru þegar þjónustuþörf eykst. Prófaðar verði mismunandi leiðir fyrir mismunandi þjónustusvæði til samþættingar með þróunarverkefnum og verði þau svæði svokallaðir undanfarar.
     B.     Virkni.
    Í þeim hluta sem varðar virkni eldra fólks verði dregnar fram aðgerðir sem stuðli að heilbrigðri öldrun og því að eldra fólk þurfi síðar eða síður á dvöl í sértækum þjónustuúrræðum að halda. Aðstaða til alhliða heilsueflingar, andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar, verði í boði og vel kynnt. Öldrunarráðgjöf verði til staðar fyrir þá sem á þurfa að halda enda hafi hún það að markmiði að auka virkni fólks með því að umhverfið sé aðlagað að þörfum þess.
     C.     Upplýsing.
    Upplýsingar verði aðgengilegar og gögnum safnað til að varpa ljósi á stöðu og staðreyndir varðandi eldra fólk. Aðgerðir í þessum kafla varpi frekara ljósi á hvert umfang þjónustu við eldra fólk í heimahúsi er hvað varðar þörf, framboð og umfang, einnig að mat á stöðu þróunarverkefna verði aðgengilegt meðan á þeim stendur og niðurstöður liggi fyrir við lok aðgerðaáætlunar.
     D.     Þróun.
    Í þróunarhluta aðgerðaáætlunar verði áhersla lögð á fulla nýtingu hjálpartækja og hraðari innleiðingu á velferðartækni. Auk þess verði unnið að nauðsynlegum breytingum á lögum og reglugerðum.
     E.     Heimili.
    Lögð verði áhersla á aðgerðir sem styðja við búsetu fólks á eigin heimili og að húsnæði geti breyst í takt við breyttar aðstæður fólks. Einnig verði lögð áhersla á að nýta þau ár sem aðgerðaáætlun nær yfir til að prófa tillögur sem gætu komið fram að nýjum útfærslum á þjónustu sem styðja við sjálfstæða búsetu þrátt fyrir umfangsmiklar þjónustuþarfir.

II. AÐGERÐAÁÆTLUN

A. Samþætting.
A.1. Þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu.
    Á árinu 2023 hefjist skilgreind þróunarverkefni á 4–6 svæðum á landinu þar sem félags- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er eldra fólki í heimahúsi verði samþætt undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn. Samhliða þróunarverkefnum verði markvisst innleidd velferðartækni.
    Markmið aðgerðarinnar verði að eldra fólk fái markvissa og samfellda þjónustu heim samkvæmt faglegu mati. Fyrir liggi niðurstöður úr þróunarverkefnum frá fjórum svæðum að lágmarki við lok tímabils.
    Lýsing: Leitað verði eftir samstarfi við 4–6 þjónustusvæði sem hafa áhuga á að vinna skilgreind þróunarverkefni til þriggja eða fjögurra ára. Leitast verði eftir að fá reynslu af ólíkum leiðum hvað varðar ábyrgð á rekstri þjónustunnar sem og öðrum þjónustuþáttum sem möguleiki er á að samþætta betur við heimaþjónustu. Má í því sambandi nefna dagdvöl, heimaendurhæfingarteymi, öldrunarráðgjöf, dvalar- og hjúkrunarheimili og heimasjúkraþjálfun. Þjónustusvæði fái stuðning og ráðgjöf við innleiðingu, eftirfylgd og við mat á árangri verkefna.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2027.

A.2. Heimaendurhæfingarteymi.
    Til að styðja við þróunarverkefni um samþættingu félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn verði stöðugildi fjármagnað til að koma á fót heimaendurhæfingarteymi á hverju svæði sem þátt tekur í verkefninu.
    Markmið aðgerðar verði að hvert þátttökusvæði hafi tækifæri til að fullreyna aðkomu heimaendurhæfingarteymis í allt að þrjá mánuði áður en til hefðbundinnar heimaþjónustu kemur.
    Lýsing: Í upphafi þróunarverkefna verði unnið með svæðunum að því að ákveða hvernig best verði að stofna heimaendurhæfingarteymi sem verði að jafnaði fyrsta val í þjónustuveitingu til stærsta hluta þeirra sem sótt er um heimaþjónustu fyrir.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2027.

A.3. Efling og þróun dagdvalar.
    Fleiri eigi kost á þjónustu dagdvalar með áherslu á skilgreint og öflugt samstarf á milli dagdvalar og heimaþjónustu.
    Markmið aðgerðarinnar verði að fresta sem lengst þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili með því að aðlaga þjónustu dagdvalar þannig að hún komi betur til móts við þarfir eldra fólks sem býr heima og fjölskyldur þess, auk þess sem skýrara sé fyrir hverja úrræðið er og hverju það eigi að skila og að við lok tímabils verði minnst 100 dagdvalarrými sem flokkast sem sveigjanleg dagdvalarrými.
    Lýsing:
     a.      Skilgreint hlutverk og markmið dagdvalar verði endurskoðað með áherslu á að úrræði styðji betur við þarfir fólks sem býr heima.
     b.      Greind verði áætluð þörf fyrir dagdvöl og þörf á sveigjanlegri opnunartíma dagdvalar. Á grunni greininganna verði unnið að gerð samninga um sveigjanlega dagdvöl um land allt, bæði í almennri og sérhæfðri dagdvöl fyrir fólk með heilabilun.
     c.      Skilgreind verði viðmið um fjölda dagdvalarrýma á landsvísu og greiðsluþátttöku gesta.
     d.      Lagt verði mat á hvaða matstæki eigi að nota til að meta þörf eldra fólks fyrir dagdvöl, meta framvindu og hvernig forgangi skuli háttað.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2026.

A.4. Þróunarverkefni stuttinnlagna.
    Komið verði á möguleika á innlögn til skamms tíma á hjúkrunarheimili. Alls verði tíu slík rými á höfuðborgarsvæðinu og fjögur rými á landsbyggðinni.
    Lýsing: Hjúkrunarheimili geti boðið upp á stuttinnlögn fyrir þá sem lokið hafa bráðameðferð á sjúkrahúsum en þurfa af einhverjum ástæðum á lengri dvöl að halda, t.d. meðan beðið er eftir hjálpartækjum eða umfangsmikil heimaþjónusta er skipulögð.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2026.

A.5. Samræmt matstæki og aðgengi að upplýsingum milli þjónustuaðila.
    Tekið verði upp á landsvísu eitt samræmt matstæki til að meta þörf eldra fólks fyrir heimaþjónustu á hverju svæði fyrir sig. Upplýsingar sem varða þjónustu verði aðgengilegar þeim sem málið varðar með tilliti til þess að veita þjónustu.
    Lýsing:
     a.      Gert verði mat á því hvort og þá hvaða mælitæki InterRAI henti til innleiðingar fyrir þjónustu sem veitt er fólki í heimahúsi þannig að hægt verði að leggja heildstætt og samræmt mat á þörf fyrir heimaþjónustu á hverju svæði fyrir sig. Gerð verði úttekt á mælitækinu sem segi til um gagnsemi mælitækisins, möguleikum til þróunar þess og þjónustu rekstrarleyfishafa við notendur tækisins áður en til innleiðingar kemur.
     b.      Gert verði mat á því hvort hægt sé að kalla sérstaklega fram sömu mælikvarða og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) notar fyrir heilbrigða öldrun og ef ekki, hvernig hægt væri að safna þeim upplýsingum.
     c.      Gert verði mat á því hvernig hægt sé að skrá umönnunarábyrgð og umönnunarbyrði aðstandenda þannig að ólaunað framlag sé dregið fram.
     d.      Unnið verði að lausn á því að upplýsingar sem skráðar eru af heimahjúkrun í heilbrigðisgrunn og skipta máli varðandi framgang þjónustunnar geti flætt yfir í upplýsingagrunn félagslegrar heimaþjónustu og öfugt.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2025.

A.6. Ein gátt fyrir allar beiðnir fagfólks um heimaþjónustu og dagdvöl.
    Að fagfólk sem sækir um heimaþjónustu, þ.m.t. heimasjúkraþjálfun, heimaendurhæfingarteymi og dagdvöl, geti sótt um þjónustuna í gegnum eina þjónustugátt.
    Lýsing: Gerð verði úttekt og mat lagt á reynslu af því að allar beiðnir frá heilbrigðisstofnunum um samþætta heimaþjónustu í Reykjavík séu sendar í gegnum sjúkraskrárkerfið Sögu. Á grunni þess mats verði tekin ákvörðun um hvort sú leið eða önnur verði valin fyrir eina umsóknargátt í samvinnu við sveitarfélög.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2024.

A.7. Öryggiskerfi og aukið samstarf við heimaþjónustu.
    Hækkað verði hlutfall þeirra sem hafa aðgang að niðurgreiddu öryggiskerfi (t.d. öryggishnappi) og aukin samvinna milli sveitarfélaga og þeirra sem þjónusta öryggiskerfi.
    Lýsing: Skoðað verði hvernig hægt sé að nýta öryggishnappa eða önnur öryggiskerfi fyrir eldra fólk sem þjónustuúrræði innan heimaþjónustu, sem og hvernig hægt sé að tengja þjónustuaðila öryggiskerfa betur við félags- og heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heimilum eldra fólks. Horft verði til reynslu annarra landa.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2025.

B.     Virkni.
B.1. Alhliða heilsuefling.
    Aðgengi eldra fólks að alhliða heilsueflingu, þ.e. andlegri, félagslegri og líkamlegri, verði tryggt um land allt og að unnið verði eftir áherslum WHO varðandi áratug heilbrigðrar öldrunar.
    Lýsing:
     a.      Upplýsingar um alla virkni, hreyfingu, félagsstarf, sjálfboðaliðastarf og annað sem flokkast getur undir alhliða heilsueflingu verði aðgengilegar á Ísland.is.
     b.      Í samvinnu við sveitarfélög og heilsugæslu verði skoðað hvernig hægt sé að efla enn frekar þjónustumiðstöðvar sem vettvang alhliða heilsueflingar og tengja þær betur við heimaþjónustu.
     c.      Notaður verði þekkingarvefurinn Heilsuvera þar sem þróað verði sjálfsmat þar sem viðkomandi geti fylgst með heilsu sinni og fengið leiðbeiningar um heilsueflandi aðgerðir út frá niðurstöðu matsins.
     d.      Ákvarðað verði hvar starfshópur áratugar heilbrigðrar öldrunar skuli staðsettur innan stjórnsýslunnar. Gerð verði skilgreining á verkefni starfshóps, ábyrgð og skipun hópsins.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2024.

B.2. Upplýsinga- og ráðgjafarþjónusta og sérhæfður stuðningur fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess.
    Fólk með heilabilun og aðstandendur þess um land allt hafi aðgang að sérhæfðum stuðningi og standi til boða almenn upplýsinga- og ráðgjafarþjónusta.
    Lýsing:
     a.      Tryggt verði aðgengi að sérhæfðum stuðningi fyrir allt landið með því að ráðnir verði þrír ráðgjafar með góða þekkingu á heilabilun. Viðræður fari fram við hagaðila um staðsetningu þeirra og starfsstað.
     b.      Gerður verði samningur til þriggja ára um rekstur upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu með síma- og netspjalli fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess. Með samningnum verði veitt fjármagn til að kosta einn ráðgjafa allan samningstímann. Sú þekking sem fæst á tímabilinu verði notuð til að efla sérhæfðari ráðgjöf sem sveitarfélög/heilsugæsla geta veitt í nærumhverfi.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2025.

B.3. Efld öldrunarráðgjöf.
    Eldra fólk búi við þær aðstæður að geta sem allra lengst haldið virkni sinni heima við með því að tryggja að til staðar séu öldrunarráðgjafar sem starfa með einstaklingum sem þurfa á umfangsmikilli þjónustu að halda og fjölskyldum þeirra og að skilgreindir málstjórar/þjónustustjórar séu til að reka mál viðkomandi.
    Lýsing:
     a.      Unnið verði í samstarfi við hlutaðeigandi aðila að skilgreiningu á því hvað felist í öldrunarráðgjöf og verklagi um hvernig tryggja megi að um land allt sé aðgengi að öldrunarráðgjöf.
     b.      Unnið verði í samstarfi við hlutaðeigandi aðila að skilgreiningu á því hvenær, hvar og hvernig málstjórahlutverk heilsugæslu eða sveitarfélags virkjast.
     c.      Unnið verði að verkefni þar sem samvinna milli félagsráðgjafa spítala og öldrunarráðgjafa sem starfa við heimaþjónustu verði efld og unnið verði að skilgreiningum á ábyrgð hvers og eins.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2027.

C. Upplýsing.
C.1. Vitundarvakning um heilbrigða öldrun.
    Dregið verði úr félagslegri einangrun og aldursfordómum og þekking aukin meðal almennings á mikilvægi alhliða heilsueflingar, samveru og samskipta milli kynslóða ásamt því að vekja fólk til umhugsunar um hvernig það geti sem best tryggt sér farsælt líf á efri árum.
    Lýsing:
     a.      Unnið verði að kynningarátaki á Ísland.is sem upplýsingamiðju fyrir upplýsingar um þjónustu við eldra fólk. Auk þess verði farið í vitundarvakningarátak með notkun kynningarmyndbanda, auglýsinga og fyrirlestra þar sem gagnlegum og gagnreyndum upplýsingum verði komið á framfæri til almennings með áherslu á forvarnagildi og lýðheilsu.
     b.      Í tengslum við áratug heilbrigðrar öldrunar verði undirbúinn árlegur dagur til að draga athyglina að mikilvægri þátttöku eldra fólks.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2027.

C.2. Efling upplýsinga, rannsókna, nýsköpunar og þróunar í þjónustu við eldra fólk.
    Fyrir liggi aðgengilegar, tímanlegar og samræmdar tölfræðilegar upplýsingar og niðurstöður úttekta og rannsókna sem hægt verði að nota við ákvarðanatöku um skipulag þjónustu og forgangsröðun fjármuna vegna félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk.
    Lýsing:
     a.      Stutt verði við fyrirhugaða eflingu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) þar sem markmið og verkefni stofunnar verði útvíkkað, bæði hvað varðar aðkomu aðila að henni og hlutverk hennar innan öldrunarfræða.
     b.      Á einum stað verði safnað tímanlegum og samræmdum upplýsingum sem varða félags- og heilbrigðisþjónustu eldra fólks sem og stöðu þess hvað líðan og velferð varðar.
     c.      Rannsókn verði gerð á framgangi og niðurstöðum þróunarverkefna.
     d.      Gert verði kostnaðarmat meðan á þróunarverkefnum stendur og eftir að þeim lýkur til að meta hvort breyting verði, og þá hver, fyrir þjónustuaðila af samþættri heimaþjónustu. Upplýsingar verði kynntar aðilum með reglulegu millibili.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti beri ábyrgð á a- og b-lið og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti á c- og d-lið.
    Tímabil: 2024–2027.

C.3. Ein upplýsingagátt fyrir allt landið varðandi upplýsingar um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess.
    Að hægt verði með einföldum hætti að nálgast upplýsingar, viðeigandi umsóknareyðublöð og almenna ráðgjöf um allt það sem varðar þjónustu við eldra fólk, bæði félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Hægt verði að notast við netspjall eða símtal gerist þess þörf.
    Lýsing: Í samstarfi við Ísland.is verði unnið að þróunarverkefni til þriggja ára um upplýsinga- og ráðgjafargátt fyrir allt landið með upplýsingum um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess. Þar verði hægt að nálgast eftir póstnúmerum upplýsingar og umsóknareyðublöð, en auk þess verði hægt að fá almenna ráðgjöf varðandi réttindi og þjónustu. Byrjað verði með tvo ráðgjafa sem sinni almennri ráðgjöf. Ráðgjafarnir verði í sambandi við aðra aðila, svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustuna. Samhliða ráðgjöfinni verði gögnum safnað um helstu atriði sem eldra fólk og aðstandendur þess þurfa ráðgjöf um og stuðning við. Á grunni þeirra upplýsinga sem safnað verði gegnum ráðgjöfina verði lagt mat á framtíðarskipulag ráðgjafar/hagsmunagæslu fyrir eldra fólk.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2027.

C.4. Upplýst starfsfólk.
    Að starfsfólk sem sinnir eldra fólki hafi aðgang að fræðslu sem styður við búsetu fólks heima, virkni og vellíðan.
    Lýsing: Fræðsluefni verði þróað eða staðfært með aðkomu m.a. háskólasamfélagsins, símenntunarmiðstöðva og stéttarfélaga með áherslu á persónumiðaða þjónustu, þjónustu við fólk með heilabilun, velferðartækni, tilfinningavanda eldra fólks, lausnamiðaða nálgun og teymisvinnu.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2025.

D. Þróun.
D.1. Endurskoðun laga og bráðabirgðaákvæði vegna þróunarverkefna.
    Löggjöf um réttindi, þátttöku og skipulag þjónustu við eldra fólk verði endurskoðuð til að mæta betur þörfum eldra fólks og löggjöf hamli ekki framgangi þróunarverkefna.
    Lýsing: Settur verði á fót starfshópur til að vinna að tillögum um breytingar á lögum sem varða eldra fólk. Sérstaklega verði horft til þess að löggjöf sé skýr varðandi ábyrgðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Breytingar verði gerðar á viðeigandi lögum sem stoð fyrir þróunarverkefni.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2025.

D.2. Miðstöð velferðartæknilausna og notkunar hjálpartækja.
    Að hlutur velferðartækni í allri þjónustu sem veitt er eldra fólki verði aukinn og innleitt það verklag að nauðsynleg hjálpartæki séu sett upp við upphaf heimaþjónustu.
    Lýsing: Starfshópi sem skipaður verði hlutaðeigandi aðilum verði falið að gera lýsingu á hlutverki miðstöðvar um velferðartækni og leggja mat á staðsetningu slíkrar starfsemi og leiðir til að tengja notkun hjálpartækja við miðstöðina.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Tímabil: 2023–2024.

E. Heimili.
E.1. Opinber skilgreining á húsnæði fyrir eldra fólk.
    Eldra fólk geti gengið að því gefnu hvaða þjónusta er í boði í húsnæði sem skilgreint er fyrir eldra fólk. Einnig að fyrir liggi í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga hvar reistar verði og hversu margar íbúðir fyrir eldra fólk.
    Lýsing:
     a.      Starfshópi verði falið að greina þarfir og koma með tillögur um skilgreiningar á húsnæði fyrir eldra fólk. Jafnframt geri hann tillögu um hvar slíkum skilgreiningum verði best fyrir komið til að þær nái markmiðum sínum.
     b.      Könnuð verði þörf og möguleikar á því að þjónustuíbúðum sem sveitarfélög eiga og skilgreindar eru sem félagslegt húsnæði geti verið úthlutað til eldra fólks eingöngu vegna þjónustuþarfa.
     c.      Gerð verði könnun á því hvaða væntingar þeir sem nú eru 50–65 ára hafa til búsetu á efri árum.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2024.

E.2. Nýjungar í búsetufyrirkomulagi eldra fólks.
    Kortlögð verði tækifæri sem gefast til að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst heima með því að greina, skoða og prófa að nýta hluta fjármagns sem ella færi í rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma í þjónustu sem fellur nær sjálfstæðri búsetu.
    Lýsing:
     a.      Hugmyndateymi. Stofnað verði teymi m.a. með aðilum frá ráðuneytum, sveitarfélögum og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu sem vinni í anda framtíðarfræða við að fanga möguleika til nýbreytni á nýtingu þess fjármagns sem í dag fer til reksturs og uppbyggingar dagdvalar og hjúkrunarheimila utan höfuðborgarsvæðis. Unnið verði með þeim sveitarfélögum og hjúkrunarheimilum sem hafa áhuga á að fara í slíka rýni.
     b.      Framtíðarteymi. Stofnað verði teymi um nýjungar í búsetufyrirkomulagi eldra fólks sem er í þörf fyrir fjölbreytta þjónustu. Teymið hafi það hlutverk að greina fyrirliggjandi tillögur, m.a. varðandi greiðsluþátttöku íbúa á hjúkrunarheimilum. Teyminu verði ætlað að leggja fram tillögu að þróunarverkefni um breytt fyrirkomulag búsetuúrræða og greiðslufyrirkomulags.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2026.

E.3. Húsnæðisstuðningur vegna breytinga á heimilum eldra fólks.
    Að til staðar verði fjárhagslegur og tæknilegur stuðningur og aðstoð til að gera nauðsynlegar breytingar á heimili fólks þegar mat liggur fyrir um nauðsyn þeirra til að eldra fólk geti haft búsetu heima.
    Lýsing: Starfshópur greini þörf og komi með tillögur um styrki, mat og fyrirkomulag til að fjármagna breytingar og skipuleggja breytingar á heimilum þeirra sem þyrftu að öðrum kosti að flytjast á hjúkrunarheimili.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Tímabil: 2024–2027.

Samþykkt á Alþingi 10. maí 2023.