Ferill 1050. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1812  —  1050. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um þættina Skuggastríð.


     1.      Hver er ástæða þess að Ríkisútvarpið tók ekki þátt í samstarfi annarra norrænna ríkismiðla um gerð þáttanna Skuggastríð?
    Með hliðsjón af kostnaði og engri tengingu við Ísland, á þeim tímapunkti er verkefnið var til kynningar, sbr. svar við 2. spurningu, var það metið svo að RÚV gæti ekki lagt verkefninu lið á því stigi sem það var ámálgað.

     2.      Leituðu norrænu miðlarnir til Ríkisútvarpsins um samstarf við gerð þáttanna?
    Á norrænum fundi sem fulltrúi RÚV sat vorið 2022 var m.a. kynnt óljós hugmynd að verkefninu sem síðar varð að þáttunum „Skuggastríð“. Á því stigi var hugmyndin ómótuð og hafði á þeim tímapunkti ekki neina snertifleti við Ísland eða svæðið í kringum landið, orkuinnviði eða sæstrengi. Þó lá fyrir að leggja ætti í umfangsmikla rannsókn og mögulegir þátttakendur í verkefninu yrðu að leggja til bæði mannskap og fjármuni.
    RÚV hefur jafnframt bent á að fréttaskýringaþátturinn Kveikur hefur ítrekað fjallað um ferðir og umsvif Rússa umhverfis landið sem og áhyggjur af sæstrengjum og ótryggum innviðum.