Ferill 815. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1813  —  815. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um Íslandsbanka og samþjöppun á fjármálamarkaði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra rétt að ríkið beiti hlutafjáreign sinni í Íslandsbanka til að stuðla að frekari samþjöppun á fjármálamarkaði?

    Málefni viðskiptabanka, sem og málefni fjármálamarkaðar, heyra samkvæmt forsetaúrskurði undir fjármála- og efnahagsráðherra. Samkeppnismál heyra undir menningar- og viðskiptaráðherra og tekur svar þetta mið af því.
    Gert er ráð fyrir að með spurningunni sé vísað til frétta í fjölmiðlum af samrunaviðræðum milli Íslandsbanka hf. og Kviku banka hf., sbr. einnig fréttatilkynningar þar um frá stjórn Kviku banka, dags. 2. febrúar sl., og frá stjórn Íslandsbanka, dags. 9. febrúar sl. Í síðarnefndu tilkynningunni kemur fram að stjórn Íslandsbanka leggi áherslu á að bankarnir viðhaldi samkeppnislegu sjálfstæði á meðan á samrunaviðræðum standi. Jafnframt að stjórnin leggi áherslu á opin samskipti við viðeigandi eftirlitsaðila í ferlinu. Þá er vakin athygli á því í framangreindri tilkynningu að samruni félaganna sé háður samþykki hluthafafundar beggja félaga auk viðeigandi eftirlitsaðila.
    Verði af ákvörðun um samruna framangreindra félaga er hann tilkynningarskyldur til Samkeppniseftirlitsins á grundvelli 1. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, nr. 44/2005. Fer um tilkynninguna, og málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins um samrunann, eftir ákvæðum 17. gr. a – 17. gr. g laganna.
    Samkeppniseftirlitið nýtur trausts og sjálfstæðis gagnvart ráðherra í störfum sínum. Telur ráðherra ekki tilefni til að tjá sig frekar um efni fyrirspurnarinnar að svo stöddu, að öðru leyti en því að ráðherra leggur áherslu á mikilvægi heilbrigðrar samkeppni í öllum geirum atvinnulífsins.
    Fjármálageirinn er þjóðhagslega mikilvægur og saga hans að hluta þyrnum stráð. Nauðsynlegt er að horft sé til sjónarmiða um almannahagsmuni, gagnsæis og trausts varðandi aðkomu ríkisins. Ráðherra telur að til grundvallar þurfi auk þess að liggja að hagsmunir eigenda/hluthafa í Íslandsbanka séu í fyrirrúmi.