Ferill 1043. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1876  —  1043. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um ábyrgð sveitarfélaga á innviðum.


     1.      Hvaða innviðum bera sveitarfélög ábyrgð á?
    Sveitarfélögum er á grundvelli ýmissa laga falið að sinna verkefnum sem fela í sér rekstur, eignarhald og utanumhald þjónustumannvirkja sem mynda undirstöðu efnahagslífs, þ.e. að bera ábyrgð á ákveðnum innviðum. Hér má helst nefna:
          Lög um sjóvarnir, nr. 28/1997, kveða á um að sveitarfélög skuli vera eigendur þeirra mannvirkja sem lögin taka til.
          Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, kveða á um að sveitarstjórn annist framkvæmdir við varnarvirki.
          Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, kveða á um að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að skólp sé hreinsað eftir því sem við á samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp.
          Vegalög, nr. 80/2007, kveða á um að sveitarfélög skuli vera veghaldarar sveitarfélagsvega. Það eru vegir innan þéttbýlis og ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar.
          Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, kveða á um að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu.
          Lög um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, og vatnalög, nr. 15/1923, kveða á um að sveitarfélög skuli starfrækja vatnsveitu í þéttbýli í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna. Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt að starfrækja vatnsveitu.
    Þá er sveitarfélögum jafnframt heimilt að taka upp ýmis verkefni sem fela í sér rekstur og utanumhald innviða. Hér má sérstaklega nefna að samkvæmt hafnalögum, nr. 61/2003, geta hafnir verið í eigu sveitarfélaga. Þá skulu fyrirtæki sem annast flutning eða dreifingu raforku og kerfisstjórnun vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila, sbr. raforkulög, nr. 65/2003.

     2.      Hver er ábyrgð sveitarfélaga gagnvart íbúum sveitarfélags ef þeir verða fyrir tjóni vegna skorts, skemmda eða bilana á innviðum?
    Ábyrgð sveitarfélaga á tjóni sem stafar af eignum eða innviðum í þeirra eigu ræðst af almennum reglum skaðabótaréttar og/eða þeim sérreglum sem gilda um hverja starfsemi fyrir sig.