Ferill 1133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1890  —  1133. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um frestun launahækkana æðstu ráðamanna þjóðarinnar.


Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Sigurjón Þórðarson og Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um að fyrirhugaðri hækkun launa æðstu ráðamanna, sem ella myndu hækka til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins, verði frestað. Frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Lagt er til að fela ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um frestun á fyrirhuguðum launahækkunum æðstu ráðamanna. Um er að ræða þá hópa háttsettra opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa sem hafa launakjör sem mælt er fyrir um í lögum og eru uppfærð árlega til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Ákvæði þess efnis er m.a. að finna í lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, lögum um Stjórnarráð Íslands og lögum um dómstóla.
    Fyrirhuguð launahækkun mun að óbreyttu hækka laun alþingismanna langt umfram þær krónutöluhækkanir sem samið var um í kjarasamningum undanfarinna missera fyrir þorra launamanna. Það er með öllu ótækt að kjörnir fulltrúar fái mun meiri launahækkun en hinn almenni vinnumarkaður á meðan þjóðinni blæðir í okurvöxtum og óðaverðbólgu.