Ferill 896. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1895  —  896. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga,
nr. 54/1971 (verkefnaflutningur til sýslumanns).


(Eftir 2. umræðu, 30. maí.)


1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    IHS fer með verkefni við innheimtu meðlaga sem ekki eru falin sýslumanni með lögum.
    IHS skal vera sameign allra sveitarfélaga landsins og stýrt af verkefnisstjórn skipaðri af ráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga skv. 2. gr.
    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga stendur straum af kostnaði vegna reksturs og skuldbindinga IHS.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Með yfirstjórn IHS fer þriggja manna verkefnisstjórn sem í eiga sæti tveir fulltrúar skipaðir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þ.m.t. formaður stjórnar, og einn fulltrúi skipaður af ráðherra til tveggja ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga ákvarðar þóknun fulltrúa í verkefnisstjórn sem greiðist af IHS.
    Verkefnisstjórn ber að gæta að réttindum og skyldum IHS. Verkefnisstjórnin fer með forræði yfir IHS, ráðstafar hagsmunum og svarar fyrir skyldur stofnunarinnar. Verkefnisstjórninni ber að vinna að því að allar eignir og öll réttindi stofnunarinnar komi fram og verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt ásamt því að innheimta kröfur stofnunarinnar, gæta þess að engin réttindi stofnunarinnar fari forgörðum og að gripið verði til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi stofnunarinnar.
    Verkefnisstjórn skal bera ákvarðanir sem hafa verulega þýðingu undir Samband íslenskra sveitarfélaga til samþykktar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sýslumaður ber ábyrgð á innheimtu meðlaga og öðrum framfærsluframlögum sem hið opinbera hefur milligöngu um að inna af hendi samkvæmt lögum um almannatryggingar og á grundvelli þjóðréttarlegra samninga um innheimtu meðlaga.
     b.      1. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „Stofnunin getur enn fremur, að beiðni ráðuneyta, með sama hætti tekið að sér“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Sýslumaður getur, að beiðni ráðuneyta, tekið að sér.
     d.      3. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 3. gr. a laganna kemur: Sýslumanni.

5. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Meðlagsskyldu foreldri er skylt að endurgreiða sýslumanni meðlag með barni sínu, skilgetnu eða óskilgetnu, þegar og með þeim hætti sem sýslumaður krefst.
     c.      Í stað orðanna „barnsfaðir (meðlagsskyldur)“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: meðlagsskylt foreldri; og í stað orðsins „hann“ í sama málslið kemur: foreldrið.
     d.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Um dráttarvexti fer skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
     e.      Í stað orðanna „Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ í 3. málsl. 3. mgr., 1. málsl. 4. mgr., 1. málsl. 5. mgr. og 1. málsl. 6. mgr. kemur: Sýslumanni.
     f.      Í stað orðsins „stjórnin“ og „stjórninni“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: sýslumaður; og: sýslumanni.
     g.      Í stað orðanna „hagsmunum Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ í 6. mgr. kemur: hagsmunum sýslumanns.
     h.      7. mgr. orðast svo:
                      Vanræki meðlagsskylt foreldri að einhverju eða öllu leyti að verða við innheimtukröfu, getur sýslumaður krafið launagreiðanda um að halda eftir hluta af launum þess sem nemur greiðslu hinnar ógreiddu kröfu. Skulu slíkar kröfur ganga fyrir öðrum kröfum, þar á meðal kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs. Launagreiðendur skulu halda slíku innheimtufé aðgreindu frá eigin fé eða fé fyrirtækisins. Vanræki launagreiðandi að verða við kröfu sýslumanns ber hann ábyrgð gagnvart sýslumanni allt að þeirri fjárhæð sem hann hefur greitt meðlagsskyldu foreldri eftir að krafa sýslumanns barst honum. Sama gildir ef launagreiðandi tekur ekki tilskilda fjárhæð af launum meðlagsgreiðanda eða ef hann skilar ekki innheimtu meðlagsfé til sýslumanns innan hálfs mánaðar. Gera má lögtak hjá launagreiðanda vegna vanrækslu hans í þessu sambandi með sama hætti og hjá meðlagsskyldu foreldri. Lögtaksrétturinn fyrnist ekki.
     i.      3. málsl. 8. mgr. fellur brott.
     j.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 9. mgr. kemur: sýslumanni.
     k.      Við 10. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kröfur á hendur meðlagsskyldu foreldri njóta lögtaksréttar.
     l.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Unnt er að fá ákvarðanir sýslumanns sem byggjast á lögum þessum endurskoðaðar með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins á grundvelli VII. kafla  stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ákvörðun sýslumanns er kæranleg innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um ákvörðun. Að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum þessum fer um meðferð máls samkvæmt stjórnsýslulögum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Innheimtustofnunarinnar“ í 1. mgr. kemur: IHS.
     b.      Í stað orðsins „stofnunarinnar“ í 3. mgr. kemur: IHS.
     c.      5. mgr. fellur brott.

8. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að ákveða að þau verkefni sem sýslumanni eru falin í lögum þessum verði á hendi eins sýslumanns. Ákvörðun skal tekin að höfðu samráði við þann ráðherra sem fer með málefni sýslumanna.

9. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga, staða forstjóra og öll störf hjá stofnuninni eru lögð niður frá 1. janúar 2024. Starfsfólki, öðru en forstjóra, sem uppfyllir skilyrði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, skal boðið starf hjá sýslumanni. Um rétt starfsfólks til starfa hjá embætti sýslumanns fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ákvæði um auglýsingaskyldu í 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

    b. (II.)
    Fram til 1. janúar 2024 er sýslumanni heimilt í samráði við forstjóra að undirbúa flutning verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns og starfsemi innheimtunnar, þ.m.t. starfsmannahald og skipulag.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að kveða nánar á um þau verkefni sem tengjast innheimtu meðlaga.
    Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að semja við sýslumann um að annast hluta verkefna stofnunarinnar við innheimtu meðlaga o.fl. Samningur samkvæmt þessu ákvæði er háður samþykki ráðherra sem fara með málefni Innheimtustofnunar og sýslumanns.

    c. (III.)
    Leggja skal IHS niður 1. janúar 2028 og skulu allar eignir, skuldbindingar, réttindi og skyldur stofnunarinnar flytjast til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

10. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um innheimtu meðlaga o.fl.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024 og við gildistöku þeirra tekur sýslumaður við stjórnsýsluverkefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem flytjast til ríkisins.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 8. gr. og b-liður 9. gr. þegar gildi.
    Ríkissjóður tekur við öllum óinnheimtum kröfum Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem stofnast hafa fyrir 1. janúar 2024. Við gildistöku laganna tekur ríkissjóður við fasteign, skrifstofubúnaði og innheimtu- og upplýsingakerfum í eigu stofnunarinnar. Lífeyrisskuldbindingar stofnunarinnar, miðað við framreiknaða stöðu við yfirfærsluna, skulu jafnframt greiddar upp af stofnuninni með greiðslu í ríkissjóð og ábyrgð þeirra færast til ríkisins. Aðrar eignir, skuldbindingar, réttindi og skyldur Innheimtustofnunar skulu vera eftir í stofnuninni.
    Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem fær nafnið IHS 1. janúar 2024, fer áfram með þau réttindi, skyldur, eignir og skuldbindingar stofnunarinnar sem ekki verða sérstaklega fluttar frá stofnuninni á grundvelli 3. mgr.
    Lög þessi eiga við um umsóknir um ívilnanir samkvæmt reglugerð nr. 491/1996, sbr. lög nr. 54/1971, sem stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er með til meðferðar við gildistöku þessara laga og ekki er lokið á þeim tíma. Lög þessi eiga ekki við um stjórnvaldsákvarðanir sem stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga eða starfsmenn hennar hafa tekið áður en lög þessi tóku gildi.
    Sýslumaður tekur yfir samninga og samkomulög sem stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur samþykkt á grundvelli reglugerðar nr. 491/1996, sbr. lög nr. 54/1971, og skulu þeir halda gildi sínu.
    Ákvæði 1., 2. og 6. gr. laga nr. 54/1971 falla úr gildi 1. janúar 2028.

12. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 1. mgr. kemur: sýslumanni.
                      2.      2. mgr. fellur brott.
                      3.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Tilkynning til sýslumanns.
                  b.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: sýslumaður.
     2.      Lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar:
                  a.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: sýslumaður.
                  b.      Í stað orðanna „Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ og „stofnuninni“ í 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: sýslumanns; og: honum.
     3.      Lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.: Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971“ í d-lið 1. mgr. 63. gr. a laganna kemur: innheimtu meðlaga o.fl.
     4.      Lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna:
                  a.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: sýslumaður.
                  b.      3. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
                      Heimilt er að skuldajafna kröfum sýslumanns um meðlag foreldris sem embættinu hefur verið falið að innheimta á móti greiðslum skv. 1. og 2. mgr.
     5.      Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt: Í stað orðanna „Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ í 8. mgr. A-liðar 68. gr. og sömu orða í 14. mgr. B-liðar 68. gr., ákvæði til bráðabirgða XXV, ákvæði til bráðabirgða XXXI, ákvæði til bráðabirgða XXXVIII, 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXIII, 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXXI og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXXIII í lögunum kemur: sýslumanns.
     6.      Lög nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda: Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ í 3. mgr. kemur: sýslumanns.
                  b.      Orðin „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 1. málsl. 8. mgr. falla brott.
                  c.      Í stað orðanna „lífeyrissjóðs og Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: og lífeyrissjóðs.
     7.      Lög nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga:
                  a.      Í stað „2,111%“ í a-lið 8. gr. a laganna kemur: 2,036%.
                  b.      D-liður 10. gr. laganna orðast svo: Til greiðslu útgjalda samkvæmt lögum um innheimtu meðlaga o.fl.
     8.      Lög nr. 74/2020, um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða: Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: sýslumaður.
     9.      Lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga: Í stað orðanna „laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971“ í i-lið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: laga um innheimtu meðlaga o.fl.
     10.      Lög nr. 90/1989, um aðför: Á eftir orðunum „skv. 9.“ í 1. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: og 10.