Ferill 976. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1989  —  976. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rebekku Hilmarsdóttur, Skúla Kristin Skúlason og Jón Þránd Stefánsson frá matvælaráðuneyti, Halldór Gunnar Ólafsson frá Sjávarlíftæknisetrinu BioPol, Jóhann A. Jóhannsson grásleppusjómann, Einar Helgason frá Strandveiðifélaginu Króki, Valentínus Guðnason, Þröst Inga Auðunsson og Pál F. Aðalsteinsson frá Bátafélaginu Ægi í Stykkishólmi, Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, Auðun Helgason frá Landssamtökum eigenda sjávarjarða, Svönu Helgadóttur og Ernu Jónsdóttur frá Fiskistofu, Guðmund J. Óskarsson frá Hafrannsóknastofnun og Axel Helgason frá Bátasmiðjunni ehf.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bátasmiðjunni ehf., Bátafélaginu Ægi í Stykkishólmi, Fiskistofu, Grími Barða Grétarssyni, Hafrannsóknastofnun, Halldóri Gunnari Ólafssyni, Jóhanni A. Jónssyni, Jóhanni Gunnarssyni o.fl., Klemens Sigurðssyni, Landssambandi smábátaeigenda, Landssamtökum eigenda sjávarjarða, Ólafi Hallgrímssyni, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Strandveiðifélaginu Króki – félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu, Stykkishólmsbæ, Sveitarfélaginu Skagafirði, Valentínusi Guðnasyni og Þresti Inga Auðunssyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á grásleppu en fram til þessa hefur stjórn veiða á grásleppu verið háð rétti til veiða og leyfum Fiskistofu. Þá er lagt til að lögfesta staðbundin veiðisvæði grásleppu. Aflahlutdeild einstakra skipa verði ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengin hefur verið á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis frá Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip á afmörkuðu tímabili. Þá er mælt fyrir um að framsal aflahlutdeildar í grásleppu og flutningur aflamarks í grásleppu á milli staðbundinna veiðisvæða verði óheimill nema í undantekningartilvikum þegar náttúrulegar aðstæður breytast verulega. Til að tryggja nýliðun í greininni er ráðherra heimilað að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti. Megintilgangur frumvarpsins er að auka fyrirsjáanleika við grásleppuveiðar og að tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar. Á undanförnum árum hefur veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Líkt og að framan greinir bárust nefndinni 18 umsagnir um málið. Umsagnirnar bera það með sér að skoðanir eru skiptar um hvort hlutdeildarsetja beri grásleppu eða ekki. Vísast til umsagna um málið til frekari glöggvunar. Eftir stendur að álitaefni um málið eru allnokkur, hefur nefndin fengið marga af þeim aðilum sem sendu inn umsagnir um málið á sinn fund og telur í því ljósi nauðsynlegt að skerpa nánar á áhersluatriðum í frumvarpinu.

Hámarksaflahlutdeild.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aflahlutdeild í grásleppu verði dreifð innan staðbundinna veiðisvæða og er lagt til að sett verði 2% hámarksaflahlutdeild í grásleppu. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að aflahæsta skip hverrar vertíðar á árunum 2014–2019 hafi verið með meðalhámarksaflahlutdeild um 1,2% og er meðaltal hæsta afla á skip um 60 tonn. Fyrir nefndinni komu fram áhyggjur um samþjöppun á aflaheimildum. Líkt og að framan greinir telur nefndin mikilvægt að tryggja að aflaheimildir í grásleppu safnist ekki á hendur fárra og að þær haldist innan svæða. Með það að markmiði leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að hámarksaflahlutdeild hvers skips á grásleppuveiðum miðist við 1,5% í stað 2%, líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Viðmiðunarár.
    Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að útfæra nánar þau viðmiðunarár veiðireynslu sem kveðið er á um í 8. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofa úthluti aflahlutdeild í grásleppu til einstakra skipa að teknu tilliti til veiðireynslu og skal miða við þrjú bestu veiðitímabil leyfisins sem skráð er á skipið frá og með árinu 2014 til og með árinu 2022. Að mati meiri hlutans er ljóst að árið 2020, þegar veiðar á grásleppu voru stöðvaðar áður en til veiða kom að nokkru marki á tilteknum svæðum, hentar illa til að gefa rétta mynd af heildarveiði eftir tilteknum svæðum. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að viðmiðunartímabil veiða skv. 8. gr. miðist við veiðireynslu frá og með árinu 2014 til og með árinu 2022, að veiðiárinu 2020 undanskildu.

    Meiri hlutinn leggur auk þess til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „gjald“ í lokamálslið 4. gr. komi: þjónustugjald.
     2.      Á eftir orðinu „veiðisvæði“ í 5. gr. komi: grásleppu.
     3.      Í stað hlutfallstölunnar „2%“ í 6. gr. komi: 1,5%.
     4.      Við lokamálslið 8. gr. bætist: að undanskildu árinu 2020.

Alþingi, 6. júní 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Þórarinn Ingi Pétursson,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Friðjón R. Friðjónsson. Teitur Björn Einarsson.