Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2041  —  650. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um gagnsæi við ákvarðanatöku í opinberum hlutafélögum.


     1.      Telur ráðherra að nægilegt gagnsæi ríki við ákvarðanatöku í opinberum hlutafélögum og félögum í eigu ríkisins, einkum þegar kemur að úthlutun takmarkaðra gæða?
    Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028, sem lögð var fram á Alþingi 28. mars 2023, er á bls. 182–184 fjallað um helstu áskoranir, tækifæri til umbóta og áhættuþætti í eignaumsýslu félaga í eigu ríkisins. Þar kemur fram að ráðherra hyggist halda áfram að efla eigandahlutverk ríkisins og tryggja skilvirkari stjórnarhætti gagnvart ríkisfyrirtækjum með því að koma á fót miðlægri umsýslu eignarhaldsins. Þannig skapist tækifæri til að ná fram hagrænum og samfélagslegum ábata af eignarhaldi ríkisins með skýrari kröfum og markmiðssetningu frá eiganda til stjórna félaga og með bættu upplýsingaflæði milli stjórna félaga og eiganda. Einnig felast tækifæri í bættri nýtingu efnahagsreiknings ríkisins með reglubundinni endurskoðun á eignarhaldi ríkisins á einstökum félögum. Ásamt því felast tækifæri í bættri upplýsingagjöf til almennings um samfélagsleg markmið, fjárhagslegan ávinning og stjórnarskipan félaganna með aukinni notkun stafrænnar miðlunar. Fyrirhuguð breyting á fyrirkomulagi umsýslu ríkisfyrirtækja er í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda um að leggja niður Bankasýslu ríkisins sem ætti einnig að styðja við ofangreind markmið hvað varðar eignarhald á fjármálafyrirtækjum.
    Helsti áhættuþáttur í eignaumsýslu félaga ríkisins er sá að eignasafnið samanstendur af fjölda mismunandi fyrirtækja hvað stærð, hlutverk og samkeppnisumhverfi varðar og því getur verið flókið að viðhalda viðunandi yfirsýn yfir stöðu og þróun einstakra félaga eða geira. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að því að efla enn frekar yfirsýn yfir stöðu og þróun einstakra félaga og miðla henni opinberlega, m.a. með sérstöku upplýsingasvæði á vefStjórnarráðsins þar sem er einnig að finna Ársskýrslu ríkisfyrirtækja.
    Samkvæmt 44. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra móta almenna eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins. Í almennri eigandastefnu ríkisins, sem gefin var út í september árið 2021, er grundvöllur eignarhalds skilgreindur ásamt meginreglum eigandastefnu sem félögin eiga að lúta. Einnig eru settar fram kröfur og viðmið eiganda til ákveðinna þátta, til að mynda stjórnarhátta, stefnumörkunar, reksturs félags, upplýsingagjafar og samskipta við eiganda.
    Eigandahlutverk ríkisins byggist á viðurkenndum leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja og sérstaklega leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu, auk almennra viðmiða um hlutverk og skyldur eiganda.
    Með hliðsjón af framangreindu má telja að gagnsæi við ákvarðanatöku í opinberum hlutafélögum sé í góðu horfi hér á landi og uppfylli þau viðmið sem litið er til í samanburðarlöndum. Eigi að síður verður áfram unnið að því að tryggja sem mest gagnsæi í þessum efnum.

     2.      Hefur ráðherra áform um að beita sér fyrir því að tryggja aukið gagnsæi og ábyrgð við ákvarðanatöku í opinberum hlutafélögum og félögum í eigu ríkisins?
    Ráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um nýtt fyrirkomulag varðandi umsýslu á eignarhaldi ríkisfyrirtækja til að bæta yfirsýn og tryggja aukið gagnsæi.