Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2042  —  520. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá mennta- og barnamálaráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.

    Í kjölfar skipulagsbreytingar í mennta- og barnamálaráðuneyti í júní 2022 var skipað í embætti þriggja skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra. Skipanirnar fjórar eru tímabundnar. Um er að ræða ný embætti skrifstofustjóra en á sama tíma voru fjögur embætti skrifstofustjóra lögð niður.
    Frá 28. nóvember 2021 til loka árs 2022 voru þrettán starfsmenn ráðnir til starfa. Þar af voru fjórir starfsmenn ráðnir ótímabundið. Níu starfsmenn voru ráðnir tímabundið, þar af sjö í ný störf. Ný og tímabundin störf tengjast einkum innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og stefnu um Barnvænt Ísland, undirbúningi heildarlaga um skólaþjónustu og málefnum barna á flótta og barna með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Fjögur embætti skrifstofustjóra voru auglýst laus til umsóknar með auglýsingum sem voru birtar í júní 2022. Skipað var í þrjú þessara embætta en ákveðið að skipa engan umsækjanda í það fjórða. Þá voru fjórir lögfræðingar ráðnir til starfa í kjölfar auglýsingar, einn ótímabundið og þrír í tímabundin störf.
    Aðrir starfsmenn hafa komið til starfa á grundvelli heimildar til að ráða í störf og embætti án auglýsingar, til að mynda á grundvelli flutnings starfsmanna eða vegna starfa sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs og veikinda.

     3.      Hver er fjöldi stöðugilda á málefnasviðum mennta- og barnamálaráðuneytis samanborið við fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum í nóvember 2017?
    Breytingar á ráðuneytum á málefnasviðum mennta- og barnamálaráðuneytis frá 2017 flækja samanburð stöðugilda. Við flutning stjórnarmálefna við myndun ríkisstjórnar 28. nóvember 2021, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, skiptust málaflokkar mennta- og menningarmálaráðuneytis milli fimm ráðuneyta, þ.m.t. mennta- og barnamálaráðuneytis, en þangað komu jafnframt málaflokkar frá félagsmálaráðuneyti. Félagsmálaráðuneyti varð til árið 2018 þegar velferðarráðuneyti var skipt í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Því liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum. Samkvæmt áætlun sem gerð var í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti voru stöðugildi á málefnasviðum mennta- og barnamálaráðuneytis í nóvember 2017 52,1 en voru í lok desember 2022 58,7.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá mennta- og barnamálaráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Áætlaður viðbótarkostnaður á kjörtímabilinu vegna tímabundinnar fjölgunar starfsfólks miðað við lok árs 2022 er 152 millj. kr. Ekki liggur fyrir langtímaáætlun um fjölda starfsfólks í ráðuneytinu.