Ferill 952. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2098  —  952. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um tekjuskatt
(eftirlitsheimildir, endurgreiðsla og séreignarsparnaður).


Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í því verðbólguástandi sem nú ríkir eru ráðstöfunartekjur almennings skertar. Vextir á fasteignalánum hafa víðast hækkað um 3–4 prósentustig á liðnu ári og nálgast það að hafa þrefaldast sé litið til þess tíma þegar vextir voru lægstir. Þetta leiðir til verulegs aukins kostnaðar fyrir fólk með venjuleg óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum. Þessu til viðbótar mun stór hópur lántakenda, sem festu vexti þegar þeir voru hvað lægstir, brátt færast yfir á breytilega vexti. Um 4.500 manns munu lenda í því á þessu ári og enn fleiri á því næsta.
    Á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands þann 7. júní 2023, vegna nýrrar yfirlýsingar hennar, varaði seðlabankastjóri við yfirvofandi þyngingu á greiðslubyrði lána og hvatti fólk til að huga að því að lengja lánstíma og breyta lánafyrirkomulagi. Þótt það dragi úr greiðslubyrði í hverjum mánuði leiðir það til aukins kostnaðar og minni eignamyndunar til langs tíma. Venjulegt fólk tekur kostnaðinn af verðbólgunni á sig af fullum þunga á meðan ríkisstjórnin þenur opinber útgjöld og vinnur gegn tilraunum Seðlabanka Íslands til þess að draga úr verðbólgu með hækkun stýrivaxta.
    Í aðstæðum sem þessum er nauðsynlegt að verja heimilin í landinu. Leiði verðbólgan og stýrivaxtahækkanir til aukins greiðsluvanda almennings veldur það ekki aðeins skerðingu á ráðstöfunartekjum heldur einnig því að hærra hlutfall fjölskyldna mun missa húsnæði sitt. Það mun lengja tímann sem það tekur samfélagið að ná efnahagslegum bata og stöðugleika á ný.
    Annar minni hluti leggur því til að við frumvarpið verði bætt ákvæði sem heimilar fólki að nýta viðbótariðgjald séreignarsparnaðar sem afborgun inn á óverðtryggt lán. Sú breyting er til þess fallin að fækka þeim sem lenda í verulegum greiðsluvanda vegna íbúðalána. Heimildin er sambærileg þeirri sem nú þegar stendur kaupendum fyrstu eignar til boða og mun því einnig tryggja aukið jafnræði milli fólks þegar kemur að ráðstöfun séreignarsparnaðar.
    Annar minni hluti leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 6. gr. bætist tveir nýir stafliðir, er verði b- og c-liður, svohljóðandi:
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er rétthafa á tímabilinu 30. júní 2023 til og með 31. desember 2024 heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán.
     c.      Við 1. málsl. 9. mgr. bætist: og á gjalddaga afborgana eftir því sem við á.

Alþingi, 8. júní 2023.

Guðbrandur Einarsson.