Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2138, 153. löggjafarþing 945. mál: kosningalög o.fl. (ýmsar breytingar).
Lög nr. 62 22. júní 2023.

Lög um breytingu á kosningalögum, lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka og sveitarstjórnarlögum (ýmsar breytingar).


I. KAFLI
Breyting á kosningalögum, nr. 112/2021.

1. gr.

     Á eftir orðunum „í fjögur ár“ í 6. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: í senn.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Helgafellssveit, Stykkishólmsbær“ í 1. tölul. kemur: Sveitarfélagið Stykkishólmur.
  2. Í stað orðanna „Húnavatnshreppur, Blönduósbær“ í 1. tölul. kemur: Húnabyggð.
  3. Í stað orðanna „Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur“ í 1. tölul. kemur: og Skagafjörður.
  4. Orðin „Skútustaðahreppur“ og „Svalbarðshreppur“ í 2. tölul. falla brott.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „sjö“ í 1. málsl. kemur: sex.
  2. Í stað orðsins „ellefu“ í 3. málsl. kemur: tólf.


4. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Skal yfirkjörstjórn kosin af Alþingi eftir hverjar almennar þingkosningar og skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara.

5. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Kjörstjórnarmaður, sbr. 15. gr., og fulltrúi í landskjörstjórn skal víkja sæti ef til úrskurðar er mál:
  1. er varðar maka hans eða sambúðarmaka, enda sé sambúðin skráð í þjóðskrá, eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti við ættleiðingu, eða
  2. ef að öðru leyti en greinir í a-lið eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

     Ágreiningi um hæfi kjörstjórnarmanns og fulltrúa í landskjörstjórn til að úrskurða í máli má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála skv. 22. gr.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Kæru vegna ákvörðunar um hæfi, sbr. 18. og 72. gr.
  2. 7. tölul. 2. mgr. fellur brott.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Úrskurð úrskurðarnefndar kosningamála má bera undir dómstóla innan þriggja vikna frá birtingu hans. Um rekstur málsins fer eftir almennum reglum um meðferð einkamála að öðru leyti en því að það sætir flýtimeðferð skv. XIX. kafla þeirra laga.


7. gr.

     Í stað orðsins „annan“ í 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: þriðja.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar alþingiskosningar fara fram eftir tilkynningu um þingrof skal viðmiðunardagur kjörskrár vera kl. 12 á hádegi 32 dögum fyrir kjördag.
  2. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé nafni eða lögheimili kjósanda ekki miðlað úr þjóðskrá samkvæmt lögum um skráningu einstaklinga skal nafn eða lögheimili hans ekki birt í kjörskrá.
  3. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Þjóðskrá Íslands skal tryggja að fyrir hendi sé rafræn uppfletting í kjörskrá þannig að kjósandi geti með innslætti á kennitölu sinni fengið upplýsingar um hvar hann er á kjörskrá.


9. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo: Fari alþingiskosningar fram eftir tilkynningu um þingrof skal auglýsingin birt eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag.

10. gr.

     Á eftir e-lið 2. mgr. 32. gr. laganna koma tveir nýir stafliðir, f- og g-liður, svohljóðandi:
  1. danskur, finnskur, norskur eða sænskur ríkisborgari skráir lögheimili sitt hér á landi eftir viðmiðunardag kjörskrár,
  2. Þjóðskrá Íslands hefur leiðrétt lögheimilisskráningu kjósanda aftur í tímann á grundvelli laga um lögheimili og aðsetur.


11. gr.

     Við 1. mgr. 35. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fari alþingiskosningar fram eftir tilkynningu um þingrof skal beiðni sveitarstjórnar borin fram svo fljótt sem verða má. Svar landskjörstjórnar við beiðninni skal jafnframt liggja fyrir svo fljótt sem auðið er.

12. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar alþingiskosningar fara fram eftir tilkynningu um þingrof skulu öll framboð tilkynnt eigi síðar en kl. 12 á hádegi 30 dögum fyrir kjördag.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
  1. Í stað 1. og 2. mgr. kemur ein ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Hverjum framboðslista við alþingiskosningar skal fylgja:
    1. yfirlýsing allra þeirra sem eru á listanum um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift,
    2. upplýsingar um heiti stjórnmálasamtakanna og listabókstaf þeirra, samkvæmt skrá ráðuneytisins, sbr. lög um starfsemi stjórnmálasamtaka,
    3. tilkynning frá þeim stjórnmálasamtökum sem boðið hafa fram listann um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans sem taki við athugasemdum um ágalla sem kunna að vera á framboðinu,
    4. yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi; tilgreina skal nafn meðmælanda, lögheimili hans og kennitölu; fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki,
    5. yfirlýsing meðmælenda um fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann sé boðinn fram; allir listar sem bornir eru fram fyrir sömu stjórnmálasamtök eiga saman þegar jöfnunarsætum er úthlutað skv. 110. gr.; ef yfirlýsinguna vantar telst listi vera sérstakt framboð.

  3. 1. málsl. 3. mgr., sem verður 2. mgr., orðast svo: Hverjum framboðslista við sveitarstjórnarkosningar skal fylgja yfirlýsing, upplýsingar og tilkynning skv. a-, b- og c-lið 1. mgr. og yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi.
  4. Í stað orðsins „Kjörstjórnarfulltrúar“ í 4. málsl. 5. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: Kjörstjórnarmenn í landskjörstjórn, yfirkjörstjórnum og umdæmiskjörstjórnum.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 41. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sbr. a-lið 2. mgr. og 3. mgr. 39. gr.“ í d-lið kemur: sbr. d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 39. gr.
  2. Í stað orðanna „skv. a-lið 2. mgr. og 3. mgr. 39. gr.“ í e-lið kemur: sbr. d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 39. gr.


15. gr.

     Í stað orðanna „sbr. b-lið 2. mgr. 39. gr.“ í d-lið 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: sbr. e-lið 1. mgr. 39. gr.

16. gr.

     C-liður 1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo: merkja lista stjórnmálasamtaka með hliðsjón af auglýsingu um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar ef við á, en ef stjórnmálasamtök eru ekki á skrá ráðuneytisins, sbr. lög um starfsemi stjórnmálasamtaka, skal merkja listana í samræmi við ákvörðun yfirkjörstjórnar, sbr. lög um starfsemi stjórnmálasamtaka.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 47. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Stjórnartíðindum“ í 1. málsl. kemur: Lögbirtingablaði.
  2. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fari alþingiskosningar fram eftir tilkynningu um þingrof skal auglýst eigi síðar en 24 dögum fyrir kjördag.
  3. 2. málsl. orðast svo: Yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsir framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag.
  4. Á eftir 2. málsl., sem verður 3. málsl., kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Auglýsingu skal birta á vef sveitarfélagsins og víðar ef yfirkjörstjórn ákveður.


18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ákvörðun landskjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 22. gr., innan 20 klukkustunda frá því að hún var afhent honum.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Þegar niðurstaða liggur fyrir um gildi framboða skal landskjörstjórn auglýsa þau í Lögbirtingablaði, á vef sínum og í fjölmiðlum eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag.


19. gr.

     Í stað orðanna „og 2. mgr. 46. gr.“ í 4. mgr. 54. gr. laganna kemur: 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 50. gr.

20. gr.

     Í stað orðanna „sbr. 5. mgr. 77. gr.“ í 55. gr. laganna kemur: sbr. 6. mgr. 77. gr.

21. gr.

     Á eftir 59. gr. laganna kemur ný grein, 59. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Reglugerðarheimild.
     Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra setja reglugerð um umboðsmenn, þ.m.t. réttindi þeirra og skyldur við framlagningu framboðslista og framboða og við ákvarðanatöku um gildi framboðslista og framboða, til að innsigla atkvæðakassa, við framkvæmd atkvæðagreiðslu á kjörfundi og utan kjörfundar, við upphaf og lok kjörfundar, við talningu atkvæða, við úthlutun þingsæta og við staðfestingu kosningaúrslita, auk almennra ákvæða um eftirlitsstörf þeirra.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar skal hefja kosningu utan kjörfundar 29 dögum fyrir kjördag og 23 dögum fyrir kjördag fari kosningar til Alþingis fram eftir tilkynningu um þingrof. Við forsetakjör skal hefja kosningu utan kjörfundar þegar landskjörstjórn hefur auglýst hverjir séu í kjöri, sbr. 50. gr. Við þjóðaratkvæðagreiðslu skal hefja kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur.
  3. Í stað orðanna „Kosning utan kjörfundar skal a.m.k. standa fram til kl. 17“ í 2. mgr. kemur: Sýslumaður skal tryggja að í umdæmi hans sé unnt að greiða atkvæði utan kjörfundar á a.m.k. einum kjörstað í að lágmarki fjórar klukkustundir.


23. gr.

     Við 4. mgr. 69. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra setja reglugerð um óleyfilegan kosningaáróður í nágrenni kjörstaða, kosningaspjöll og aðra starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

24. gr.

     72. gr. laganna orðast svo:
     Ef kjörstjóri er í framboði skal hann víkja sæti og annar þar til bær gegna störfum hans, og fer um málsmeðferð við skipun nýs kjörstjóra skv. 2. mgr.
     Nú víkur kjörstjóri sæti og skipar þá ráðherra að fengnum tillögum landskjörstjórnar annan kjörstjóra. Hafi kjörstjóri starfað í umboði sýslumanns skal hann skipa annan kjörstjóra. Nú víkur kjörstjóri skv. 1. mgr. 71. gr. sæti og skipar þá ráðherra sem fer með utanríkismál annan kjörstjóra.
     Ekki má atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fara fram á heimili frambjóðanda.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
  1. 3. og 4. málsl. 5. mgr. orðast svo: Aftan á sendiumslagið skal rita nafn og heimilisfang kjósandans. Auk þess er heimilt að rita númer kjörstaðar og kjördeildar aftan á sendiumslagið og/eða setja þar sérstakt merki sem getur innihaldið upplýsingar um kjörstað, kjördeild og kennitölu kjósandans.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Í reglugerð sem ráðherra setur að fenginni tillögu landskjörstjórnar má mæla fyrir um móttöku, skráningu og meðferð atkvæðisbréfa í vörslu kjörstjóra og kjörstjórnar sveitarfélags.


26. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Kjósandi, sem“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Kjósandi, sem fram að kjördegi.
  2. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra og er umboðsmönnum lista í umdæmi heimilt að setja á hann innsigli sín.
  3. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kjörstjóri getur ákveðið að atkvæðakassa skuli samnýta fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis hans eftir því sem við á.
  4. Í stað orðanna „Kjörstjóra er“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Fram að kjördegi er kjörstjóra.
  5. 3. mgr. orðast svo:
  6.      Fyrir alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslu er nægjanlegt að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandinn er á kjörskrá. Við sveitarstjórnarkosningar er nægjanlegt að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandinn er á kjörskrá.


27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 77. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
  2. 3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Atkvæðisbréf skal varðveitt í atkvæðakassa.
  3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Atkvæðisbréf sem berst kjörstjórn sveitarfélags, sbr. 5. mgr. 74. gr., skal kjörstjórn tölusetja og skrá samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð, sbr. 6. mgr. 74. gr.
  5. 4. mgr., sem verður 5. mgr., orðast svo:
  6.      Atkvæðakassa ásamt viðeigandi skrá skv. 1. mgr. afhendir kjörstjóri síðan hlutaðeigandi kjörstjórn eftir nánara samkomulagi, en þó svo tímanlega að kassinn sé kominn henni í hendur eigi síðar en þegar kjörfundi er slitið. Sé um að ræða samnýttan kassa, sbr. 1. mgr. 76. gr., er kjörstjóra heimilt að rjúfa innsigli hans og afhenda atkvæðin flokkuð. Kjörstjóri skal bjóða fulltrúum viðkomandi kjörstjórna og viðkomandi umboðsmönnum að vera viðstaddir.
  7. Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 6. mgr., sem verður 7. mgr., kemur: 5. mgr.


28. gr.

     Við 1. mgr. 81. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra setja reglugerð um óleyfilegan kosningaáróður í nágrenni kjörstaða, kosningaspjöll og aðra starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

29. gr.

     Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 88. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þurfi kjósandi aðstoð skv. 89. gr. skal tryggt að hann geti neytt kosningarréttar síns.

30. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 99. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Fari flokkun atkvæða og undirbúningur talningar þeirra fram áður en kjörfundi lýkur skal það gert fyrir luktum dyrum þar sem talið er.
  2. Á eftir orðinu „lokað“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: innsiglað.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Ráðherra setur reglugerð, að fenginni tillögu landskjörstjórnar, m.a. um viðmið um húsnæði þar sem talning fer fram, framkvæmd talningar við almennar kosningar, meðferð ágreiningsseðla, meðhöndlun kjörgagna og kjörskráa, gerð og skil talningar- og kosningaskýrslna, um geymslu og frágang kjörgagna á milli talninga og um frágang að lokinni talningu, þ.m.t. um eyðingu kjörseðla og annarra gagna.


31. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 100. gr. laganna orðast svo: Yfirkjörstjórn skal boða umboðsmenn skv. X. kafla til að vera viðstaddir talningu atkvæða og fylgjast með framkvæmd hennar og uppgjöri.

32. gr.

     3. mgr. 105. gr. laganna orðast svo:
     Atkvæði greitt utan kjörfundar telst greitt lista þótt kjósandi hafi ritað nafn frambjóðanda sem er látinn eða eftir atvikum strikað yfir það, sbr. 43. gr. og 2. mgr. 73. gr.

33. gr.

     106. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Talning við alþingiskosningar.
     Landskjörstjórn úthlutar þingsætum skv. 108.–112. gr. og útbýr kosningaskýrslu um niðurstöður kosninganna, úthlutun þingsæta við alþingiskosningarnar og yfirlit yfir þingmenn og varaþingmenn eftir kjördæmum. Landskjörstjórn skal einnig útbúa kosningaskýrslu um úrslit kosninganna í hverju kjördæmi fyrir sig þegar tekið hefur verið tillit til breytinga kjósenda á röð frambjóðenda. Skýrslurnar skulu birtar á vef landskjörstjórnar.
     Þegar yfirkjörstjórn hefur lokið talningu atkvæða hvers framboðslista, fjölda greiddra atkvæða og fjölda ógildra og auðra seðla skal hún skila landskjörstjórn fyrri hluta talningarskýrslu þar sem þessar upplýsingar koma fram.
     Á grundvelli talningarskýrslna skv. 2. mgr. skal landskjörstjórn reikna skiptingu kjördæmissæta og jöfnunarsæta til framboðslista skv. 109. og 110. gr.
     Þegar útreikningi skv. 3. mgr. er lokið skal yfirkjörstjórn skila landskjörstjórn seinni hluta talningarskýrslu þar sem fram koma atkvæðatölur frambjóðanda í einstök sæti eftir að tekið hefur verið tillit til breytinga kjósenda á röð frambjóðenda, sbr. 112. gr.
     Landskjörstjórn ákveður form talningarskýrslna og lætur yfirkjörstjórnum í té.

34. gr.

     1. málsl. 108. gr. laganna orðast svo: Þegar landskjörstjórn hafa borist allar talningarskýrslur eftir almennar alþingiskosningar, sbr. 106. gr., úthlutar landskjörstjórn þingsætum, kjördæmissætum og jöfnunarsætum.

35. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 113. gr. laganna:
  1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Landskjörstjórn úthlutar þingsætum skv. 109.–112. gr. og útbýr kosningaskýrslu um niðurstöður kosninganna, úthlutun þingsæta við alþingiskosningarnar og yfirlit yfir þingmenn og varaþingmenn eftir kjördæmum. Landskjörstjórn skal einnig útbúa kosningaskýrslu um úrslit kosninganna í hverju kjördæmi fyrir sig þegar tekið hefur verið tillit til breytinga kjósenda á röð frambjóðenda. Skýrslurnar skulu birtar á vef landskjörstjórnar.
  3. Við 1. mgr., sem verður 2. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynninguna má senda í stafrænt pósthólf á vegum stjórnvalda, sbr. lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
  4. Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur: 2. mgr.


36. gr.

     Á eftir 1. málsl. 119. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynninguna má senda í stafrænt pósthólf á vegum stjórnvalda, sbr. lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

37. gr.

     Á eftir 119. gr. laganna kemur ný grein, 119. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Yfirlýsing um kosningaúrslit og skil á kosningaskýrslum.
     Jafnskjótt og tilkynning, sbr. 119. gr., hefur verið send skal yfirkjörstjórn sveitarfélags lýsa úrslitum kosninganna með því að birta á vef sveitarfélagsins upplýsingar um úrslitin og hverjir náðu kosningu sem aðalmenn og hverjir eru varamenn.
     Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal innan þriggja daga frá því að úrslitum er lýst skila landskjörstjórn kosningaskýrslu, á eyðublaði sem landskjörstjórn lætur í té, þar sem gerð er grein fyrir úrslitum kosninganna, sbr. 116.–118. gr., heildarfjölda greiddra atkvæða og fjölda ógildra og auðra seðla. Landskjörstjórn skal birta kosningaskýrslurnar á vef sínum.

38. gr.

     3. mgr. 120. gr. laganna orðast svo:
     Á fundi, sbr. 2. mgr., tilkynnir landskjörstjórn um niðurstöður forsetakjörs eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Í kjölfarið auglýsir landskjörstjórn úrslitin og gefur út kosningaskýrslu um niðurstöðuna og birtir hana á vef sínum.

39. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 125. gr. laganna:
  1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Uppkosning er endurtekning á fyrri kosningu. Nota skal sömu kjörskrá og notast var við á þeim kjördegi sem fyrri kosningin fór fram. Framboðslistar eru þeir sömu og í fyrri kosningu. Fari uppkosning fram vegna þess að kosning heils lista í kjördæmi eða sveitarfélagi hefur verið úrskurðuð ógild skal sá listi ekki vera á meðal framboðslista við uppkosninguna.
  3. Við 1. mgr., sem verður 2. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Landskjörstjórn ákveður og auglýsir kjördag í samráði við yfirkjörstjórnir.


40. gr.

     Á eftir b-lið 137. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: ef maður beitir þvingunarráðstöfunum eða ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til þess að koma í veg fyrir að maður bjóði sig fram eða til þess að neyða hann til að bjóða sig fram.

41. gr.

     139. gr. laganna orðast svo:
     Kostnaður við sveitarstjórnarkosningar greiðist af sveitarfélögum nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Kostnaður landskjörstjórnar, svo sem vegna kjörgagna og áhalda er hún lætur kjörstjórnum í té vegna sveitarstjórnarkosninga, greiðist úr ríkissjóði.
     Kostnaður við aðrar kosningar samkvæmt lögum þessum og annar kostnaður við framkvæmd laga þessara, svo sem kostnaður vegna úrskurðarnefndar kosningamála og landskjörstjórnar, greiðist úr ríkissjóði. Kostnaður vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skal greiddur úr ríkissjóði en fari atkvæðagreiðsla fram á grundvelli 2. tölul. 2. mgr. 69. gr. ber viðkomandi sveitarfélag kostnaðinn.
     Ráðherra skal í reglugerð, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, kveða á um fjárframlög ríkisins til sveitarfélaga vegna hlutverks þeirra við framkvæmd annarra kosninga en sveitarstjórnarkosninga. Jafnframt skal þar eftir samráð við Þjóðskrá Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga kveðið á um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra verkefna sem Þjóðskrá Íslands fer með og nauðsynleg eru við framkvæmd kosninga.

42. gr.

     Á eftir orðunum „sama kjördæmi“ í 1. málsl. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: eða í sama sveitarfélagi.

43. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir ákvæði laganna um notkun rafrænnar kjörskrár skal notast við prentaða kjörskrá í kosningum sem fram fara á grundvelli laga þessara þar til landskjörstjórn í samráði við ráðuneytið og Þjóðskrá Íslands hefur tekið ákvörðun um innleiðingu hennar.
     
     b. (II.)
     Ráðherra skal skipa starfshóp sem falið verður að vinna að nánari útfærslu næmisgreiningar. Í þeim starfshópi eigi sæti fulltrúar landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna kjördæma og annarra hagaðila. Við skipun í starfshópinn skal gætt að jafnræði milli fulltrúa landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

II. KAFLI
Breyting á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006.

44. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. e laganna:
  1. Í stað orðanna „Stjórnarráðs Íslands“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
  2. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: og upplýsingum um breytingar á skráningu skv. 1. mgr. 2. gr. i.


45. gr.

     Fyrirsögn 2. gr. k laganna orðast svo: Listabókstafur og heiti stjórnmálasamtaka í kosningum til Alþingis.

46. gr.

     Á eftir 2. gr. k laganna kemur ný grein, 2. gr. l, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Listabókstafur og heiti stjórnmálasamtaka í kosningum til sveitarstjórna.
     Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr. 2. gr. k bjóða fram lista í kosningum til sveitarstjórna skulu þau um leið og framboðslista er skilað til yfirkjörstjórnar leggja þar fram beiðni um úthlutun listabókstafs og staðfestingu á heiti framboðs.
     Yfirkjörstjórn skal við ákvörðun listabókstafs hafa hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka, sbr. skrá skv. 1. mgr. 2. gr. k. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka skal ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skrá um listabókstafi skv. 1. mgr. 2. gr. k. Telji yfirkjörstjórn að svo sé skal það tilkynnt samtökunum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr. Óski tvö eða fleiri framboð eftir úthlutun sama listabókstafs skal það framboð hafa forgang sem fyrr skilaði inn framboði sínu. Þeim lista sem ekki hlýtur umbeðinn listabókstaf skal þegar í stað gert kleift að óska eftir nýjum bókstaf. Komi ekki fram ný beiðni skal yfirkjörstjórn merkja þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni og við á.

III. KAFLI
Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011.

47. gr.

     Í stað orðanna „kosningarrétt eiga til sveitarstjórnar samkvæmt lögum um kosningar“ í 3. mgr. 38. gr. laganna kemur: hafa kosningarrétt í íbúakosningum sveitarfélagsins, sbr. 2. og 3. mgr. 133. gr.

48. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 107. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „36 daga“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 20 daga.
  2. Orðin „og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar“ í 4. mgr. falla brott.


49. gr.

     Á eftir orðunum „almennrar atkvæðagreiðslu“ í 1. málsl. 2. mgr. 108. gr. laganna kemur: meðal allra íbúa sveitarfélagsins.

50. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 119. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „36 daga“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 20 daga.
  2. Orðin „og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar“ í 5. mgr. falla brott.


51. gr.

     133. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Íbúakosningar sveitarfélaga.
     Atkvæðagreiðsla í íbúakosningu skal vera leynileg og atkvæðisréttur jafn. Heimilt er að halda íbúakosningu þar sem atkvæði er greitt með pósti og/eða að íbúakosning fari fram á tilteknu tímabili í stað þess að hún fari fram á tilteknum kjördegi. Einungis er heimilt að auglýsa atkvæðagreiðslu sem fer fram á grundvelli laga þessara undir heitinu íbúakosning.
     Rétt til þátttöku í íbúakosningu á:
  1. hver íslenskur, danskur, finnskur, sænskur eða norskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning hefst og á skráð lögheimili í sveitarfélaginu,
  2. erlendur ríkisborgari, annar en greinir í a-lið, ef hann hefur átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir upphaf kosningar, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar.

     Sveitarstjórn er heimilt að miða kosningaaldur við 16 ár í íbúakosningum.
     Í íbúakosningu um einstök málefni sveitarfélags sem fram fer að frumkvæði sveitarstjórnar og ekki er bindandi, sbr. 3. mgr. 107. gr., er sveitarstjórn heimilt að ákveða að kosningarréttur sé bundinn ákveðnum aldri, að kosningarréttur sé bundinn við lögheimili í tilteknum hluta sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 107. gr., og/eða að ekki sé gerð krafa um ríkisfang eða búsetutíma. Ákvörðun sveitarstjórnar er háð því skilyrði að hægt sé að gefa út kjörskrá fyrir þann hóp kjósenda sem um ræðir.
     Þjóðskrá Íslands skal gera kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna og um gerð hennar gilda ákvæði reglugerðar, sbr. 7. mgr. Þjóðskrá Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga við gerð kjörskrár fyrir íbúakosningar sveitarfélaga og skal hún vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Heimilt er að kveða í reglugerð, sbr. 7. mgr., á um að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um leiðréttingar á kjörskrá sé skotið til ráðuneytisins.
     Sveitarfélög setja sér reglur um hvernig kosið skuli í nefnd fyrir hluta sveitarfélagsins, sbr. 38. gr., og skulu reglurnar birtar í Stjórnartíðindum eigi síðar en 30 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst. Að öðru leyti gilda um slíkar kosningar sveitarstjórnarlög og reglugerð, sbr. 7. mgr.
     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem mælt er fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag íbúakosninga sveitarfélaga, þ.m.t. um skipan og starfshætti kjörstjórnar, kjörskrá, framkvæmd talningar, kjörgögn, aðstoðarmenn kjósenda, umboðsmenn, kostnað við kosningar, fyrirkomulag atkvæðagreiðslu með pósti o.fl. Í reglugerðinni skal jafnframt mælt fyrir um þau lágmarksatriði sem fram skulu koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar um skipan nefndar fyrir hluta sveitarfélags, sbr. 38. gr., þ.m.t. reglur um kjörgengi frambjóðenda.
     Kærur um ólögmæti íbúakosninga skulu sendar ráðuneytinu til úrlausnar innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.

52. gr.

     Á eftir 134. gr. laganna kemur ný grein, 134. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Refsiákvæði vegna íbúakosninga.
     Kærum vegna brota á grundvelli 133. og 134. gr., að svo miklu leyti sem þau heyra ekki undir úrskurð sveitarstjórna, kjörstjórna eða ráðuneytis, skal beina til héraðssaksóknara og fer um þau að hætti sakamála. Það varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum:
  1. ef sveitarstjórn, kjörstjórn eða starfsmaður sveitarfélags hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana,
  2. ef kjósandi ónýtir af ásettu ráði atkvæðaseðil sinn við kosningu,
  3. ef maður njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið,
  4. ef maður vanrækir af ásettu ráði að koma til skila atkvæðisbréfi sem honum hefur verið trúað fyrir eða tefur vísvitandi fyrir sendingu atkvæða og kjörgagna,
  5. ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verður settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, eða maður er ekki settur á kjörskrá eða er tekinn út af kjörskrá sem á rétt á að vera þar, eða maður verði látinn greiða atkvæði í stað annars manns sem stendur á kjörskrá; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í kjördæmi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá, ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum laga þessara eða eftir öðrum lögum,
  6. ef maður gefur út villandi kosningaleiðbeiningar,
  7. ef kjörstjórnarmaður eða starfsmaður sveitarfélags njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið, eða gefur vísvitandi villandi kosningaleiðbeiningar,
  8. ef kjörstjórnarmaður, starfsmaður sveitarfélags eða aðstoðarmaður kjósanda sem aðstoð veitir segir frá því hvernig kjósandi sem hann hefur aðstoðað hefur greitt atkvæði,
  9. ef kjörstjórnarmaður, starfsmaður sveitarfélags eða sá sem tekið hefur að sér flutning kjörgagna tefur fyrir að þau komist til skila,
  10. ef maður greiðir atkvæði á tveimur stöðum við sömu kosningar,
  11. ef maður ber fé eða fríðindi á mann eða heitir manni fé eða fríðindum til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, eða ef maður sviptir mann atvinnu eða hlunnindum eða ógnar manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni,
  12. ef maður tekur fé eða fríðindi fyrir að greiða atkvæði, láta vera að greiða atkvæði eða greiða atkvæði á ákveðinn hátt,
  13. ef aðstoðarmaður kjósanda aðstoðar fleiri en þrjá kjósendur við sömu kosningu.

     Það varðar fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum:
  1. ef maður beitir þvingunarráðstöfunum eða ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að raska kosningafrelsi manns, með því að neyða hann til að greiða atkvæði, með því að meina honum að greiða atkvæði eða neyða hann til að greiða atkvæði á annan veg en hann vill,
  2. ef maður vísvitandi rangfærir atkvæðagreiðslu, annaðhvort með því að glata atkvæði, breyta atkvæði, skemma eða glata atkvæðasendingu, búa til kjörseðla, sem líkjast mjög þeim sem notaðir eru við kosningu, og hagnýtir þá sjálfur eða lætur þá frá sér til þess að aðrir geti ruglað úrslit talningar atkvæða eða á annan hátt.


53. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi nema III. kafli sem öðlast gildi 1. september 2023.

54. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um Þjóðskrá Íslands, nr. 70/2018: Í stað orðsins „kjörskrárstofn“ í d-lið 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: kjörskrá.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2023.