Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2249  —  495. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um landsmarkmið í loftslagsmálum.


     1.      Hvenær hyggst ríkisstjórnin endurskoða og styrkja landsmarkmið í loftslagsmálum, líkt og aðildarríki Parísarsamningsins voru hvött til í lokayfirlýsingu COP27 í Sjarm el-Sjeik?
    Eins og mörg önnur ríki sem Ísland ber sig gjarnan saman við hafa verið sett hér metnaðarfull loftslagsmarkmið. Ísland tilkynnti um uppfært markmið til loftslagssamningsins í febrúar 2021. Markmiðið hljóðar upp á 55% heildarsamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990, í samfloti með ESB og Noregi. Þetta nýja markmið er umtalsvert metnaðarfyllra en fyrra markmið um 40% heildarsamdrátt ríkjanna á umræddu tímabili.
    Markmið Íslands um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beina ábyrgð Íslands, kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040, fyrst þjóða, er með metnaðarfyllri markmiðum ríkja.
    Ekki hefur verið tekin frekari ákvörðun um að uppfæra landsmarkmið Íslands gagnvart loftslagssamningnum.
    Samkvæmt 8. tölul. 4. gr. Parísarsamningsins skulu ríki uppfæra landsmarkmið sín á fimm ára fresti. Með ákvörðun á 3. fundi Parísarsamningsins sem fram fór í Glasgow árið 2021 (CMA3) var þetta áréttað og ríkin skyldu næst uppfæra landsmarkmið sín árið 2025 til næstu tíu ára, og svo framvegis á fimm ára fresti. Bakgrunnur þess að ríki eru hvött til að uppfæra sín markmið oftar en tilgreint er í ákvörðunum samningsins er ekki hvað síst ákall til þeirra ríkja sem ekki hafa sett fram skýr töluleg markmið um samdrátt í losun og ekki sett fram markmið sem ná yfir allar gastegundir sem skilgreindar eru sem gróðurhúsalofttegundir.

     2.      Í hverju mun slík uppfærsla helst felast, sérstaklega gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandinu?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvenær má vænta uppfærslu á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til að endurspegla þann aukna metnað sem nauðsynlegur er?
    Núgildandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var sett fram árið 2020. Í áætluninni er mat lagt á væntan árangur þeirra aðgerða sem þar eru settar fram varðandi samdrátt í losun, auk þess sem fjármögnun er tilgreind þar sem við á. Samkvæmt lögum um loftslagsmál skal uppfæra áætlunina eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.
    Undirbúningur er hafinn að því að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að hinum hertu markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það felst til dæmis í greiningum á fyrirliggjandi aðgerðum til orkuskipta og hvaða áfangar hafa náðst, greiningum á tölfræðigögnum og hvaða greiningar þarf til að meta framtíðaraðgerðir og möguleika.
    Í stjórnarsáttmála kemur jafnframt fram að í samráði við sveitarfélög og atvinnulíf sé ætlunin að setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hverja atvinnugrein, því að ljóst er að ýmis tækifæri eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í flestum geirum samfélagsins sem og tækifæri til að virkja einstaklinga, atvinnulíf, félagasamtök og stofnanir til að vinna að verkefnum í þágu loftslagsmála.
    Umfangsmikið samtal við atvinnulífið um aðgerðir til að draga úr losun hefur staðið yfir og fyrstu niðurstöður litu dagsins ljós í vor. Þær niðurstöður verða mikilvægt innlegg fyrir uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.