Ferill 666. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2285  —  666. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um samninga um skólaþjónustu.


     1.      Hvaða einkaaðilar hafa gert samninga við sveitarfélög um framkvæmd lögbundinnar skólaþjónustu grunnskóla undanfarinn áratug, svo sem um rekstur grunnskóla, innleiðingu nýrra kennsluaðferða, gerð námsefnis og fleira þess háttar?
    Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, skulu sveitarfélög tryggja að skólaþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í skólaþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. Í reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum, nr. 444/2019, er því m.a. lýst hvað felst í inntaki og markmiði skólaþjónustu. Með hliðsjón af framangreindu felst rekstur grunnskóla, svo sem rekstur sérskóla, skv. 42. gr. laga um grunnskóla, og rekstur sjálfstætt rekinna grunnskóla, sbr. X. kafla sömu laga, ekki í lögbundinni skólaþjónustu. Þá er rétt að taka fram að gerð námsefnis er lögbundið hlutverk Menntamálastofnunar, sbr. lög um Menntamálastofnun, nr. 91/2015.
    Skólaþjónusta sveitarfélaga og skipulag hennar hefur tekið á sig margvíslegar myndir. Í flestum tilvikum eru sveitarfélög annaðhvort með eigin skólaþjónustu með föstum starfsmönnum eða eigin skólaþjónustu og aðkeypta þjónustu í bland. Í einhverjum tilvikum er skólaþjónustan samstarfsverkefni í formi byggðasamlags og í sumum tilvikum er um að ræða annars konar fyrirkomulag. Í undantekningartilvikum er engin formleg skólaþjónusta til staðar. 1 Þá hefur vinna við gerð frumvarps um skólaþjónustu varpað ljósi á að skólaþjónusta er skilgreind með ólíkum hætti milli sveitarfélaga og hvað felst í þeirri þjónustu. Þar af leiðandi hefur skólaþjónusta verið útfærð á ólíkan hátt milli sveitarfélaga enda hefur þjónustan sem slík ekki verið samhæfð fram til þessa. Með frumvarpi um skólaþjónustu er gert ráð fyrir að ráða bót á þessu.
    Í tilefni fyrirspurnarinnar óskaði ráðuneytið eftir umbeðnum upplýsingum frá sveitarfélögum. Viðbrögð bárust frá 41 sveitarfélagi og í meiri hluta tilvika átti ekki við að sveitarfélög hafi gert samninga við einkaaðila eða Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA). Þó verður að hafa til hliðsjónar annars vegar áðurnefnt fyrirkomulag skólaþjónustu og að svörin geta þannig náð m.a. til fleiri sveitarfélaga en viðbrögð bárust frá þar sem í einhverjum tilvikum getur verið um að ræða byggðasamlag um skólaþjónustu. Hins vegar þarf einnig að hafa til hliðsjónar að skilgreining á því hvað felst í skólaþjónustu getur verið ólík á milli sveitarfélaga. Að lokum skal tekið fram að svör sveitarfélaganna byggjast m.a. á upplýsingum sem þau hafa aðgang að en misjafnt var eftir sveitarfélögum hvort fyrir lágu upplýsingar um samninga um lögbundna skólaþjónustu sem einstakir skólar gera við einkaaðila eða MSHA og greiða fyrir af sínum fjárframlögum.
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir þá einkaaðila sem sveitarfélög hafa gert samninga við um framkvæmd skólaþjónustu grunnskóla undanfarinn áratug. Þá er sundurgreindur eftir aðilum sá heildarkostnaður sveitarfélaga sem þau hafa greitt til viðkomandi undanfarinn áratug. Ekki lágu tölulegar upplýsingar fyrir í öllum tilvikum og í einhverjum tilvikum er þjónustan nefnd en ekki tilgreint hvaða einkaaðila er um að ræða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





     2.      Hve mikið hafa sveitarfélög greitt til einkaaðila vegna slíkra samninga undanfarinn áratug? Svar óskast sundurgreint eftir aðilum.
    Sjá töflu í 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða sveitarfélög hafa gert samninga við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) um lögbundna skólaþjónustu?
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir þau sveitarfélög sem hafa gert samninga við MSHA ásamt yfirliti yfir hvers konar skólaþjónustu er um að ræða og kostnað undanfarin fimm ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     4.      Hvers konar lögbundin skólaþjónusta fer fram á grundvelli samninga sveitarfélaga við MSHA?
    Sjá töflu í 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Hve mikið hafa sveitarfélög greitt fyrir þjónustu MSHA á hverju ári undanfarin fimm ár?
    Sjá töflu í 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Hver er kostnaður af innleiðingu byrjendalæsis í grunnskólum landsins á vegum MSHA, hvernig dreifist hann á skóla og hvaða aðilar fá greiðslur vegna innleiðingar og ráðgjafar vegna hennar og hve miklar?
    Samkvæmt þeim svörum sem bárust frá sveitarfélögunum má ráða að í einhverjum tilvikum eigi þessi spurning ekki við eða að ekki liggi fyrir með haldbærum hætti hver kostnaðurinn er af innleiðingu byrjendalæsis í grunnskólum landsins á vegum MSHA eða hvernig hann dreifist á skóla. Af svörum sveitarfélaganna má þó ráða að aðrir aðilar hafa ekki fengið greiðslur vegna innleiðingar og ráðgjafar vegna byrjendalæsis.

     7.      Eru aðrar lestrarkennsluaðferðir en byrjendalæsi innleiddar eða í innleiðingu í grunnskólum landsins?
    Sveitarfélög nefndu fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir sem hafa verið innleiddar þegar kemur að lestrarkennslu og lestrarþjálfun í grunnskólum. Dæmi um aðrar lestrarkennsluaðferðir sem eru innleiddar eða í innleiðingu í grunnskólum landsins eru eftirfarandi:
          Eitt skref í einu.
          G-Pal.
          Heildaraðferð.
          Hljóðaðferð.
          Hugtakakort.
          Kórlestur.
          K-Pal.
          Kveikjum neistann.
          Lesferill.
          Lestur á talmálsgrunni (LTG).
          Læsi fyrir lífið.
          Læsisfimman.
          Orð af orði.
          Orðhlutaleið.
          PALS.



1    Skólaþjónusta sveitarfélaga við leik- og grunnskóla. Niðurstöður spurningakönnunar til leikstjóra, grunnskólastjóra og forsvarsaðila skólaþjónustu.