Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 243  —  240. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu o.fl.).

Frá mennta- og barnamálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um leikskóla, nr. 90/2008.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „velferð“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: farsæld.
     b.      Á eftir orðinu „efla“ í a-lið 2. mgr. kemur: farsæld og.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Börnum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð stefnunnar.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sveitarfélög skulu tryggja að þjónusta leikskóla sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna.

3. gr.

    Á eftir orðinu „velferð“ í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: og farsæld.

4. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsfólki leikskóla ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld barna. Starfsfólki ber að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim á skilvirkan hátt. Starfsfólki leikskóla ber að taka þátt í samstarfi í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. eftir atvikum að taka sæti í stuðningsteymi.

5. gr.

    Á eftir orðinu „velferð“ í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: og farsæld.

6. gr.

    Á eftir orðinu „velferð“ í 1. málsl. 10. gr. laganna kemur: og farsæld.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sérþarfir“ í 4. málsl. 1. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: stuðningsþarfir.
     b.      Í stað orðsins „sérþarfa“ í 2. mgr. kemur: stuðningsþarfa.

8. gr.

    Við 1. mgr. 13. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við gerð aðalnámskrár skal farsæld barna höfð að leiðarljósi. Börnum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð aðalnámskrár.

9. gr.

    Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Börnum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð skólanámskrár.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „félagsþjónustu sveitarfélaga“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: aðra þjónustuveitendur.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fer um samræmingu og samþættingu einstakra mála samkvæmt ákvæðum þeirra.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi Jafnframt skal leggja áherslu á að skólaþjónusta sé samfelld og samþætt annarri þjónustu í þágu velferðar og farsældar barna.

11. gr.

    Á eftir 22. gr. a laganna kemur ný grein, 22. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tengiliður, málstjóri, stuðningsteymi og stuðningsáætlun.

    Öll leikskólabörn og foreldrar þeirra skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Tengiliður er starfsmaður skóla sem hefur viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu barna, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Um rétt barna, sem hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma, til málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar fer samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

12. gr.

    Á eftir 3. mgr. 30. gr. a laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fer um vinnslu upplýsinga samkvæmt ákvæðum þeirra, einkum 23. gr. laganna.

II. KAFLI

Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.

13. gr.

    Á eftir orðinu „velferð“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: farsæld.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Nemendum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð stefnu um grunnskólahald.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Sveitarfélögum ber að tryggja að þjónusta grunnskóla sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna.

15. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að stuðla að samþættingu þjónustu sem veitt er á vegum skólakerfisins við aðra þjónustu sem er veitt í þágu barna.

16. gr.

    Á eftir orðinu „velferð“ í 5. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: og farsæld.

17. gr.

    Á eftir orðinu „velferð“ í 3. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: og farsæld.

18. gr.

    Á eftir 2. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsfólki grunnskóla ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld nemenda. Starfsfólki ber að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum nemanda sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim á skilvirkan hátt. Starfsfólki grunnskóla ber að taka þátt í samstarfi í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. eftir atvikum að taka sæti í stuðningsteymi.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      6. og 7. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nemendur eiga rétt á að tjá sig um mál sem þá varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Við meðferð og úrlausn máls sem varðar nemanda skal taka tillit til sjónarmiða og skoðana nemandans í samræmi við hagsmuni hans hverju sinni.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim, stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila og veitir leiðbeiningar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Allir nemendur grunnskóla og foreldrar þeirra skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Tengiliður er starfsmaður skóla sem hefur viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu barna, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

20. gr.

    Við 3. mgr. 14. gr. laganna bætist: og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

21. gr.

    Á eftir orðinu „þeirra“ í 1. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna kemur: stuðningsþörfum.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Orðin „sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „sérþarfir“ tvívegis í 2. mgr. kemur: stuðningsþarfir.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Stuðningur við nemendur.

23. gr.

    Á eftir 17. gr. a laganna kemur ný grein, 17. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Málstjóri, stuðningsteymi og stuðningsáætlun.

    Um rétt nemenda, sem hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma, til málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar fer samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

24. gr.

    Í stað orðsins „barnaverndaryfirvöldum“ í 4. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.

25. gr.

    Í stað orðsins „sérþarfir“ í 4. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: stuðningsþarfir.

26. gr.

    Á eftir 1. mgr. 24. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við gerð aðalnámskrár skal farsæld nemenda höfð að leiðarljósi. Nemendum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð aðalnámskrár.

27. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 29. gr. laganna bætist: og nemendur.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í tómstunda- og félagsstarfi skal velferð og farsæld nemenda höfð að leiðarljósi.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Starfsfólki sem sinnir tómstunda- og félagsstarfi ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld nemenda. Starfsfólki ber að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum nemanda sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim á skilvirkan hátt. Starfsfólki sem sinnir tómstunda- og félagsstarfi ber að taka þátt í samstarfi í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. eftir atvikum að taka sæti í stuðningsteymi.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við framkvæmd skólaþjónustu skal leggja áherslu á að þjónusta sé samfelld og samþætt annarri þjónustu í þágu farsældar barna.
     b.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Upplýsa skal tengilið eða málstjóra um niðurstöður athugana ef þjónusta er samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Tekið skal mið af niðurstöðum athugana við gerð stuðningsáætlana.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                      Innan hvers skóla skal samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda með stofnun nemendaverndarráðs. Jafnframt skal grunnskóli stuðla að almennu samstarfi við aðra þjónustuveitendur og samstarfi á vettvangi samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.
     d.      Í stað orðsins „sérþarfir“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: stuðningsþarfir.
     e.      Við 7. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja um tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum í reglugerð um nemendaverndarráð til ráðuneytis. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða. Ráðherra er heimilt að fela Mennta- og skólaþjónustustofu að veita undanþágur samkvæmt þessari grein.

30. gr.

    Í stað orðsins „sérþarfir“ tvívegis í 4. mgr. 43. gr. a laganna kemur: stuðningsþarfir.

31. gr.

    Á eftir 3. mgr. 47. gr. a laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fer um vinnslu upplýsinga samkvæmt ákvæðum þeirra, einkum 23. gr. laganna.

III. KAFLI

Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008.

32. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innan framhaldsskóla skal velferð og farsæld nemenda höfð að leiðarljósi.

33. gr.

    Á eftir 3. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsfólki framhaldsskóla ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld allra nemenda. Starfsfólk skal fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum nemanda, undir 18 ára aldri, sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim á skilvirkan hátt. Starfsfólki framhaldsskóla ber að taka þátt í samstarfi í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. eftir atvikum að taka sæti í stuðningsteymi.

34. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við gerð aðalnámskrár skal farsæld nemenda höfð að leiðarljósi. Nemendum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð aðalnámskrár.

35. gr.

    Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nemendum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð skólanámskrár.

36. gr.

    Við 33. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Allir nemendur framhaldsskóla, undir 18 ára aldri, og foreldrar þeirra skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Tengiliður er starfsmaður skóla sem hefur viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu barna, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Um rétt nemenda, undir 18 ára aldri, sem hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma, til málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar fer samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Orðin „sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fylgjast skal með velferð og farsæld nemenda og meta þörf fyrir þjónustu í því skyni að tryggja þeim viðeigandi stuðning, kennslu og námsaðstoð við hæfi.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Stuðningur við nemendur.

38. gr.

    Í stað orðsins „forráðamanna“ í 3. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna kemur: forsjáraðila.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Orðin „með sérþarfir“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fer um vinnslu upplýsinga samkvæmt ákvæðum laga þeirra, einkum 23. gr. laganna.

IV. KAFLI

Breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998.

40. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í íþróttastarfi með börnum skal velferð og farsæld þeirra höfð að leiðarljósi.

41. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
    Öllum þeim sem starfa á grundvelli laga þessara ber að fylgjast með velferð og farsæld barna, leitast við að greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

V. KAFLI

Breyting á æskulýðslögum, nr. 70/2007.

42. gr.

    Á eftir orðunum „velferð þeirra“ í 4. málsl. 1. gr. laganna kemur: og farsæld.

43. gr.

    Á eftir 2. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Öllum þeim sem starfa á grundvelli laga þessara ber að fylgjast með velferð og farsæld barna, leitast við að greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

44. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 153. löggjafarþingi (þskj. 1452, 922. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram óbreytt. Frumvarpið er samið í mennta- og barnamálaráðuneyti og felur í sér breytingar á lögum á málefnasviði ráðuneytisins einkum í því skyni að samræma löggjöf við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, og styrkja umgjörð um þjónustu og snemmtækan stuðning í þágu barna. Jafnframt miðar frumvarpið að því að auka vægi réttinda barna og tryggja betra samræmi þeirra lagabálka sem um ræðir við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var árið 2013, sbr. lög nr. 19/2013 (hér eftir barnasáttmálinn).

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá vori 2018 hefur staðið yfir umfangsmikil vinna við breytingar í þágu farsældar barna sem meðal annars hefur falist í víðtækri heildarendurskoðun lagaumhverfisins. Árið 2021 voru samþykkt lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, sem fela í sér breytta nálgun í þjónustu við börn. Samþykkt laganna og þær breytingar á verklagi sem þar er að finna kalla á endurskoðun annarrar löggjafar þar sem fjallað er um þjónustu í þágu barna og er gert ráð fyrir því að sú vinna fari fram á þriggja til fimm ára innleiðingartímabili laganna.
    Á sama tíma hefur verið lögð rík áhersla á að auka vægi réttinda barna við alla stefnumótun stjórnvalda. Sumarið 2021 samþykkti Alþingi þingsályktun um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, nr. 28/151 (þskj. 1702, 762. mál). Þar er að finna ýmsar aðgerðir sem miða að því að tryggja markvissa innleiðingu sáttmálans hér á landi, þ.m.t. aðgerð sem lýtur að því að íslensk löggjöf verði endurskoðuð í því skyni að tryggja betra samræmi við ákvæði sáttmálans.
    Á 152. löggjafarþingi samþykkti Alþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemmtækur stuðningur), sbr. lög nr. 78/2022. Lögin miða að því að samræma löggjöf á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytis að ákvæðum laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarp þetta er að mörgu leyti sambærilegt enda megintilgangurinn með framlagningu beggja frumvarpa sá sami.
    Frumvarpið er mikilvægur liður í því að styrkja enn frekar umgjörð um þjónustu í þágu barna og stuðla að því að öll börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, taka til allrar þjónustu sem er veitt börnum á ýmsum málefnasviðum mennta- og barnamálaráðuneytis, þ.m.t. í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Þá taka lögin einnig til annars skipulags starfs og þjónustu sem veitt er af hálfu annarra aðila, meðal annars í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Um þessa starfsemi gilda nokkrir mismunandi lagabálkar og er markmiðið með frumvarpinu að endurskoða ákvæði þeirra í því skyni að tryggja samræmi og árétta skyldur og ábyrgð þeirra aðila sem koma að því að veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu.
    Ljóst er að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru nauðsynlegur liður í því að tryggja að lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, komist að fullu til framkvæmda. Nái þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu ekki fram að ganga er ljóst að ósamræmi verður til staðar í gildandi lögum.
    Rétt er að geta þess að mennta- og barnamálaráðherra áformar jafnframt að leggja fram frumvarp til laga um nýja þjónustustofnun á sviði menntamála á 154. löggjafarþingi sem og frumvarp til nýrra laga um skólaþjónustu. Með þeim breytingum er ætlunin að styrkja heildstæða skólaþjónustu þvert á skólastig og landsvæði og auka stuðning og ráðgjöf við þá aðila sem sinna skólamálum, sem er ásamt frumvarpi þessu mikilvægur liður í því tryggja farsæla innleiðingu og framkvæmd laga nr. 86/2021.
    Eins og áður segir er innleiðingartímabil laga nr. 86/2021 þrjú til fimm ár. Við lok innleiðingartímabils verður lagt mat á hvort þörf er á frekari lagabreytingum til að ná fram markmiðum laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laga um leikskóla, nr. 90/2008, laga um grunnskóla, nr. 91/2008, laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, íþróttalaga, nr. 64/1998, og æskulýðslaga, nr. 70/2007.
    Í fyrsta lagi eru lagðar til nauðsynlegar breytingar sem miða að því að samræma hugtakanotkun laga á málefnasviði ráðuneytisins við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem lúta sérstaklega að stefnumótun og áætlanagerð. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er lögð rík áhersla á heildstæða stefnumótun þegar kemur að málefnum barna, einkum er lýtur að þjónustu í þágu barna. Í þeim lögum sem lagt er til að breyta er að finna fjölmörg ákvæði um stefnumótun. Mikilvægt er að við alla stefnumótun og almenna áætlanagerð sem tengist þjónustu í þágu farsældar barna sé litið til þess að tryggja aukna samfellu þvert á þjónustukerfi og málefnasvið með heildarsýn og sameiginleg markmið að leiðarljósi. Þá eru einnig lagðar til breytingar sem miða að því að tryggja aukna aðkomu barna að stefnumótun í samræmi við ákvæði barnasáttmálans.
    Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér breytingar sem lúta að því að tryggja snemmtækan stuðning. Skólakerfið sem og íþrótta- og æskulýðsvettvangurinn gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að efla þjónustu í þágu barna og bjóða viðeigandi stuðning um leið og þörf krefur.
    Í fjórða lagi eru með frumvarpinu lagðar til ákveðnar breytingar er lúta að skyldum þeirra aðila sem veita þjónustu í þágu barna. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eru þeir aðilar sem koma að þjónustu í þágu barna annars vegar skilgreindir sem þjónustuveitendur en það eru aðilar sem veita farsældarþjónustu. Hins vegar eru það aðilar sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns en undir slíka þjónustu fellur allt skipulagt starf annarra en þjónustuveitenda sem á þátt í að stuðla að farsæld barns, t.d. íþrótta- og æskulýðsstarf.
    Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra hlutverk tengiliða, málstjóra og stuðningsteyma. Með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er lögð ákveðin skylda á tengiliði og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. til að veita foreldrum og börnum leiðsögn um þjónustu sem er í boði, aðstoð við að fá aðgang að tiltekinni þjónustu og upplýsingar um skipulag hennar. Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar í því skyni að tryggja aðkomu þessara aðila á viðeigandi stöðum.
    Í sjötta lagi eru lagðar til breytingar sem miða að því að samræma ákvæði laganna við ákvæði barnasáttmálans. Er þar einkum litið til ákvæðis 12. gr. sáttmálans um þátttöku barna. Miða þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu sérstaklega að því að auka vægi þátttöku barna við stefnumótun. Rétt er að taka fram að fyrirhugað er að leggja til frekari breytingar sem stuðla að framangreindu markmiði um aukið samræmi við ákvæði barnasáttmálans þegar fram hefur farið heildstæð kortlagning á lagaumhverfinu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við undirbúning frumvarpsins var sérstaklega litið til þess að vinna á virkan hátt að því að ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, komi til framkvæmda. Þannig er í frumvarpinu til að mynda áréttað að við meðferð og úrlausn mála skuli tekið tillit til sjónarmiða og skoðana barns í samræmi við hagsmuni þess hverju sinni. Þá er að finna fjölmörg ákvæði þar sem skylda stjórnvalda skv. 12. gr. barnasáttmálans er sérstaklega áréttuð. Er það í samræmi við þingsályktun nr. 28/151 um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins til íslenskra stjórnvalda.
    Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, er kveðið á um það að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Um velferð og farsæld barna og barnafjölskyldna er jafnframt fjallað í ýmsum alþjóðlegum samningum sem íslenska ríkið er aðili að. Þar hefur ríkið skuldbundið sig að þjóðarétti til að grípa til ráðstafana, þ.m.t. á sviði löggjafar, til að tryggja að þau réttindi sem þar eru viðurkennd komi til framkvæmda. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru til þess fallnar að stuðla að þeim markmiðum.

5. Samráð.
    Frumvarpið tengist breytingum í þágu barna sem voru unnar á grundvelli víðtæks samráðs stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þingmannanefndar um málefni barna og ýmissa hagsmunaaðila. Frá því að boðað var til heildarendurskoðunar í málefnum barna og ungmenna árið 2018 hafa stjórnvöld haft samráð við fagfólk sem starfar við þjónustu í þágu farsældar barna, hagsmunasamtök, börn og ungmenni. Frumvarpsdrögin voru undirbúin í góðu samráði, þ.m.t. við Barna- og fjölskyldustofu, Samband íslenskra sveitarfélaga og þingmannanefnd um málefni barna.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 24. febrúar 2023 (mál nr. S-44/2023) og var frestur til umsagna veittur til 10. mars 2023. Alls bárust sjö umsagnir í samráðsgátt frá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, Landssamtökunum Þroskahjálp, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands. Að auki barst ein umsögn frá einstaklingi. Almennt voru umsagnir jákvæðar og tekið fram að ekki væru gerðar efnislegar athugasemdir við frumvarpsdrögin.
    Í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar var gerð athugasemd við að í frumvarpsdrögunum væri eingöngu fjallað um nemendur upp að 18 ára aldri. Frumvarpið miðar að því að tryggja samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Í lögunum er barn skilgreint sem einstaklingur undir 18 ára aldri og var því ekki talið rétt að koma til móts við athugasemdina. Þó þykir rétt að taka fram að með þeim breytingum sem lagðar eru til á ákvæðum laga um framhaldsskóla í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að innan framhaldsskóla skuli velferð og farsæld allra nemenda höfð að leiðarljósi. Þá þykir einnig rétt að taka fram að í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er sérstaklega kveðið á um skyldu stuðningsteymis til að gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu í þágu barns eftir að það nær fullorðinsaldri.
    Í umsögn Reykjavíkurborgar voru lagðar til breytingar á því ákvæði frumvarpsins sem fjallar um framkvæmd skólaþjónustu og nemendaverndarráð. Í umsögninni er lagt til að ákvæðið verði orðað með opnari hætti, með hliðsjón af góðri reynslu sveitarfélagsins af störfum svonefndra lausnateyma. Fyrir liggur að áformað er að gera frekari breytingar á ákvæðinu í tengslum við nýja löggjöf um skólaþjónustu þar sem meðal annars er áætlað að taka til sérstakrar skoðunar mismunandi útfærslur þverfaglegrar teymisvinnu innan skólakerfisins. Var því ekki talið rétt að gera breytingar á frumvarpinu með tilliti til umsagnarinnar.
    Að auki var gerð athugasemd við þá útfærslu í frumvarpsdrögunum að vísa á tilteknum stöðum til þarfa nemenda en á öðrum stöðum til stuðningsþarfa. Litið var til þessa við lokaútfærslu frumvarpsins og lagt til að hugtakið stuðningsþarfir yrði notað á öllum stöðum.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra, aðila sem starfa með börnum og barnafjölskyldum, sveitarfélaga, íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra aðila sem láta sig hagsmuni barna varða. Samþykkt frumvarpsins hefur jákvæð áhrif á réttindi barna og stuðlar að því að íslensk stjórnvöld uppfylli í auknum mæli skyldur sínar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, eins og nánar er fjallað um í kafla 4 í greinargerð þessari og kafla 6.3 í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 86/2021 (þskj. 440, 354. mál).
    Frumvarpinu er ætlað að stuðla að innleiðingu laga um um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, með því að tryggja að engar lagalegar hindranir standi í vegi fyrir innleiðingunni. Í fjármálaáætlun 2022–2026 og fjárlögum fyrir árið 2022 eru 1.898 millj. kr. veittar til að standa straum af kostnaði hjá ríki og sveitarfélögum við innleiðingu verkefnisins. Þar af er gert ráð fyrir að árlega muni u.þ.b. 1.100 millj. kr. renna til sveitarfélaganna með árlegri úthlutun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Frá árinu 2023 er árleg fjárhæð 1.848 millj. kr. en fjárhæð til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er óbreytt á tímabili fjármálaáætlunar. Þær breytingar sem eru lagðar til í frumvarpinu eru þess eðlis að þær rúmast innan þeirra fjárveitinga sem þegar eru ætlaðar í innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og kalla ekki á viðbótarútgjöld umfram það sem nú er.
    Áætlanir um hagræn og fjárhagsleg áhrif verkefnisins gera ráð fyrir umtalsverðum samfélagslegum ávinningi af innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Aukinn snemmtækur stuðningur og samþætting þjónustu fækkar áföllum sem börn verða fyrir og eykur seiglu þeirra svo ólíklegra verður að áföll valdi frávikum frá farsæld. Ávinningurinn spannar æviskeið þeirra einstaklinga sem njóta þessarar þjónustu og tekur því nokkurn tíma að koma að fullu fram. Fyrstu árin eftir innleiðingu verkefnisins verður kostnaður við aukna þjónustu í þágu barna meiri en hagrænn og fjárhagslegur ávinningur af innleiðingunni. Til lengri tíma vegur ávinningurinn þó þyngra, ekki síst þegar sú kynslóð sem fær þjónustu samkvæmt lögunum frá fæðingu kemst út á vinnumarkaðinn. Niðurstaða matsins er að samþætting þjónustu í þágu farsældar barna sé arðbær langtímafjárfesting sem bætir afkomu hins opinbera til lengri tíma.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt ákvæði 2. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til á 1. og 2. mgr. ákvæðisins bætist við sú skylda að farsæld barna sé höfð að leiðarljósi. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er farsæld barns skilgreind sem aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Þannig er farsæld barns nátengd velferð og hag barns. Þykir því rétt að vísað sé sérstaklega til farsældar barna í markmiðsákvæði laga um leikskóla. Fyrstu æviár barna eru mikilvæg fyrir mótun hvers einstaklings og þroska til framtíðar og er því lykilatriði að tiltaka farsæld barna í leikskólastarfi sérstaklega í ákvæðinu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist umfjöllun um þátttöku barna við gerð stefnu um leikskólahald. Er það til þess fallið að samræma ákvæði laganna betur við ákvæði barnasáttmálans, einkum ákvæði 12. gr. Þá er breytingin til þess fallin að mæta athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda sem hefur hvatt til þess að stjórnvöld tryggi að þátttaka barna og ungmenna hafi meira vægi í samfélaginu, þ.m.t. í skólum og við stefnumótun um skólahald og í menntamálum, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkis.
    Þá er lagt til að við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein. Þar er lagt til að ábyrgð sveitarfélaga á því að tryggja samfellda og samþætta þjónustu leikskóla sé áréttuð. Á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, ber öllum þeim sem bera ábyrgð á grundvelli laganna, þ.m.t. sveitarfélögum, að tryggja heildarsýn og samfellu í þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Innan leikskóla er börnum og fjölskyldum þeirra veitt ýmiss konar þjónusta og er mikilvægt að hún sé samfelld og samþætt.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til afmarkaðar breytingar á 1. mgr. 5. gr. laga um leikskóla sem miða að því að tiltaka sérstaklega farsæld barna í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu.

Um 4. gr.

    Lagt er til að við ákvæði 7. gr. laganna sem fjallar um starfsfólk leikskóla bætist ný málsgrein. Þar er skylda starfsfólks á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sérstaklega áréttuð. Rík skylda er lögð á þá aðila sem veita farsældarþjónustu til að fylgjast með öllum börnum og bregðast við með skilvirkum hætti um leið og þörf krefur. Um er að ræða áréttingu á ákvæði 13. gr. laga nr. 86/2021 sem fjallar um skyldur þjónustuveitenda.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til sú breyting á 9. gr. laganna að foreldrum beri jafnframt að veita upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir farsæld barna.

Um 6. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðinu eru sambærilegar öðrum breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu sem miða að því að árétta að í öllu starfi innan leikskóla, þ.m.t. í samskiptum starfsfólks og foreldra, sé farsæld barna höfð að leiðarljósi.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að fjallað verði um þarfir barna og þörf fyrir stuðning í ákvæði 12. gr. gildandi laga fremur en sérþarfir þeirra. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lögð á það sérstök áhersla að börn og fjölskyldur fái stuðning sem endurspegli þörf barns hverju sinni. Þær orðalagsbreytingar sem lagðar eru til á ákvæðinu eru til þess fallnar að endurspegla markmiðið með skýrari hætti en núverandi orðalag.

Um 8. gr.

    Lagt er til að við ákvæði 1. mgr. 13. gr. laganna bætist tveir nýir málsliðir. Í fyrsta lagi er lagt til að sérstaklega verið kveðið á um að litið sé til farsældar barna við mótun aðalnámskrár. Mikilvægt er að aðalnámskrá taki mið af opinberri stefnu stjórnvalda í málefnum barna og þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Með þessum breytingum er litið til þess að skapa skýrari heildarsýn.
    Í öðru lagi er fjallað um þátttöku barna við gerð aðalnámskrár. Þrátt fyrir að það sé ekki sérstaklega orðað í ákvæðinu þykir rétt að taka fram að við slíka þátttöku er mikilvægt að líta til þátttöku barna á leikskólaaldri. Ákvæðið sjálft útilokar þó ekki aðkomu barna á öðrum aldri.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðinu miða með sama hætti og þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæði 5. gr. gildandi laga að því að tryggja betra samræmi við 12. gr. barnasáttmálans og að því að koma til móts við athugasemdir barnaréttarnefndarinnar sem hefur hvatt til þess að stjórnvöld tryggi að þátttaka barna og ungmenna hafi meira vægi í samfélaginu, þ.m.t. í skólum og við stefnumótun um skólahald og í menntamálum, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Um 9. gr.

    Í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu miða þær breytingar sem lagðar eru til á 1. mgr. 14. gr. laganna að því að draga fram mikilvægi þess að börnum sé gefinn kostur á að taka þátt í gerð skólanámskrár.

Um 10. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 22. gr. laganna, sem fjallar um framkvæmd skólaþjónustu, í því skyni að tryggja samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Rétt er að taka fram að áformað er að leggja til frekari breytingar á ákvæðinu í tengslum við fyrirhugaðar lagabreytingar sem tengjast skólaþjónustu.
    Í a- og b-lið eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 22. gr. laganna. Breytingarnar miða að því að tryggja að samráð sé viðhaft við alla þá aðila sem kunna að sinna þjónustu í þágu barna, ekki eingöngu félagsþjónustu sveitarfélaga, líkt og ákvæðið kveður nú á um. Jafnframt miða þær að því að árétta að hafi samþættingu verið komið á skuli um samræmingu og samþættingu mála fara eftir ákvæðum laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Í lögum nr. 86/2021 er ákveðnum aðilum, þ.e. tengiliðum og málstjórum samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna, falin ákveðin ábyrgð þegar kemur að því að samræma mál. Þar sem samþætting þjónustu á grundvelli laganna er þjónustuboð þykir þó engu að síður mikilvægt að tryggja að til staðar sé aðili sem sinnir sambærilegu hlutverki í þeim tilvikum þar sem samþættingu hefur ekki verið komið á. Þannig er lagt til að það hlutverk verði áfram í höndum leikskólastjóra, í samráði við aðra aðila eftir því sem þurfa þykir.
    Í c-lið er áréttað mikilvægi þess að tryggja heildarsýn og samfellu í allri þjónustu sem veitt er í þágu barna.

Um 11. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði sem fjallar um rétt barna og foreldra til þjónustu tengiliðs og eftir atvikum málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar.
    Lagt er til að í 1. mgr. ákvæðisins verði fjallað um rétt barna og foreldra til þjónustu tengiliðs. Skv. 17. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er tengiliður barns á skólaaldri almennt starfsmaður skólans þar sem barn er við nám.
    Þá er lagt til í 2. mgr. að vísað verði til að kveðið verði á um að um málstjórn, teymisvinnu og einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir fyrir börn sem þurfa fjölþætta þjónustu á öðru og þriðja stigi til lengri tíma fari samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.

Um 12. gr.

    Í 30. gr. a laga um leikskóla er að finna almennar reglur um miðlun persónuupplýsinga. Með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lögð rík áhersla á samfellu í þjónustu þvert á þjónustukerfi, hvort sem það er þjónusta á vegum skólakerfisins, félagslega kerfisins, heilbrigðiskerfisins eða annarra aðila og gilda því sérstakar reglur um miðlun og vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli þeirra.
    Lagt er til að sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, fari um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Þegar þjónusta er samþætt á grundvelli laga nr. 86/2021 er heimilt að vinna með og miðla nauðsynlegum upplýsingum þvert á þjónustukerfi og því gilda sérstakar reglur á grundvelli laganna. Í lögum nr. 86/2021 er það skilyrði sett fyrir vinnslu upplýsinga að fyrir liggi beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu. Í lögum um leikskóla er að finna ákvæði sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga en ekki er um að ræða jafn víðtæka vinnslu og heimil er á grundvelli laga nr. 86/2021. Því þykir rétt að árétta sérstaklega þær reglur sem gilda á grundvelli síðarnefndu laganna.

Um 13. gr.

    Samkvæmt 2. gr. laga um grunnskóla skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Framangreint hlutverk og markmið samræmist vel ákvæðum laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem er ætlað að stuðla að farsæld barna.
    Með ákvæðinu er þó lagt til að við bætist að grunnskólum beri jafnframt að stuðla að farsæld nemenda. Rétt þykir að árétta sérstaklega farsæld í ákvæðinu og tengja markmiðsákvæði laganna þannig betur við markmiðsákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Er sú vísun jafnframt til þess fallin að varpa ljósi á að innan grunnskóla skuli unnið eftir lögum nr. 86/2021.

Um 14. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til sams konar breytingar á ákvæði 5. gr. laga um grunnskóla og lagðar eru til á sambærilegu ákvæði laga um leikskóla.
    Lagt er til að við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður um aðkomu barna að mótun stefnu um skólahald. Er það til þess fallið að samræma ákvæði laganna betur við ákvæði barnasáttmálans, einkum ákvæði hans um þátttöku barna. Þá er breytingin til þess fallin að mæta athugasemdum barnaréttarnefndarinnar til íslenskra stjórnvalda sem hefur hvatt til þess að stjórnvöld tryggi að þátttaka barna og ungmenna hafi meira vægi í samfélaginu, þ.m.t. í skólum og við stefnumótun um skólahald og í menntamálum, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkis.
    Þá eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 5. gr. laganna. Þar er lagt til að ábyrgð sveitarfélaga á því að tryggja samfellda og samþætta þjónustu innan grunnskólans sé áréttuð. Á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, ber öllum þeim sem bera ábyrgð á grundvelli laganna, þ.m.t. sveitarfélögum að tryggja heildarsýn og samfellu í þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Með breytingunum er því lagt til að í ákvæðinu verði ekki lengur kveðið á um að sveitarfélög beri ábyrgð á samstarfi skóla við aðila utan hans. Breytingunum er ekki ætlað að draga úr mikilvægi þess að sveitarfélög hugi að slíku samstarfi heldur er þeim ætlað að tryggja betra samræmi við orðalag laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og skýra betur hvað felst í ábyrgð sveitarfélaga að þessu leyti.

Um 15. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við upptalningu á meginhlutverkum skólanefndar bætist tilvísun til samþættingar þjónustu sem veitt er á vegum skólakerfisins við aðra þjónustu sem veitt er börnum og barnafjölskyldum, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Talið er rétt að árétta sérstaklega hlutverk skólanefnda þegar kemur að því að stuðla að samþættri þjónustu í þágu barna með það að markmiði að unnið sé eftir þeirri heildarsýn sem farsældarlögin kveða á um við veitingu allrar þjónustu á vegum skólakerfisins.

Um 16. gr.

    Í samræmi við markmið laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lagt til að skólaráð fylgist jafnframt með farsæld nemenda. Er sú viðbót í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum gildandi laga með frumvarpi þessu og miða að því að tryggja að við veitingu allrar þjónustu í þágu barna sé litið til þess að nálgast öll mál með heildstæðum hætti með farsæld barna að leiðarljósi.

Um 17. gr.

    Í samræmi við markmið laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er lagt til að hlutverk foreldrafélags verði jafnframt að stuðla að farsæld nemenda.

Um 18. gr.

    Í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lagt til að við ákvæði 12. gr. laganna, sem fjallar um starfsfólk grunnskóla, bætist ný málsgrein. Þar verði skylda starfsfólks á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sérstaklega áréttuð. Rík skylda er lögð á þá aðila sem veita farsældarþjónustu til að fylgjast með öllum börnum og bregðast við með skilvirkum hætti um leið og þörf krefur. Um er að ræða áréttingu á ákvæði 13. gr. laga nr. 86/2021 sem fjallar um skyldur þjónustuveitenda.

Um 19. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í a-lið miða að því að tryggja betra samræmi 1. mgr. 13. gr. laganna við 12. gr. barnasáttmálans. Í ákvæði gildandi laga eru talin upp tiltekin atriði sem nemendur eiga rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um og einnig er í ákvæðinu vísað til ákvarðana sem snerta nemendur. Þá segir að tekið skuli mið af sjónarmiðum nemenda eins og unnt er. Ákvæði gildandi laga er ekki í fullu samræmi við ákvæði 12. gr. barnasáttmálans þar sem kveðið er á um það að barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
    Með breytingum á 6. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna er litið til þess að þau málefni sem varða nemendur geta lotið að öllum atriðum sem tengjast starfsemi skólans og þar með fleiri þáttum en taldir eru upp í ákvæði gildandi laga. Þá er ekki talið rétt að takmarka ákvæðið við tilteknar ákvarðanir sem varða nemendur þar sem nemendur geta haft hagsmuni af öðrum atriðum en beinlínis tengjast ákvörðunum um málefni þeirra.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til á 7. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna er áhersla lögð á að við úrlausn máls skuli taka tillit til sjónarmiða og skoðana nemanda í samræmi við hagsmuni hans hverju sinni. Þannig er lagt til að ekki sé lengur vísað til þess að sjónarmið nemenda skuli metin eins og unnt er hverju sinni heldur er skýrt að ávallt skuli tekið tillit til skoðana og sjónarmiða nemandans í samræmi við hagsmuni hans hverju sinni.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar á ákvæði laga um grunnskóla sem fjallar um verkefni umsjónarkennara sem fela í sér aðlögun vegna tilkomu tengiliðar sem mælt er fyrir um í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að styðja við börn og foreldra í grunnskóla. Skv. 3. mgr. 13. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hvílir á öllum þjónustuveitendum skylda til að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt á fullnægjandi hátt og bregðast við þeim. Í b-lið er lagt til að sú skylda umsjónarkennara, sem er þjónustuveitandi í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, verði útfærð með þeim hætti að leggja á hann skyldur til að fylgjast náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeina þeim í námi og starfi og aðstoða og ráðleggja þeim. Rétt er að árétta að ákvæðið er nánast samhljóða 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. gildandi laga. Þó er lagt til að gerðar verði breytingar sem fela í sér að dregið er úr lögbundnum skyldum umsjónarkennara til að aðstoða og ráðleggja nemendum og foreldrum um persónuleg mál. Telja verður að tilkoma tengiliða dragi úr þörfinni á því að svo víðtæk skylda sé í lögum lögð á umsjónarkennara. Þá er lagt til að við skyldur umsjónarkennara bætist að veita leiðbeiningar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Þá er lagt til í c-lið að bæta við nýrri málsgrein sem fjallar um rétt nemenda og foreldra til aðgangs að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns. Frá því að barn hefur skólagöngu er tengiliður starfsmaður viðkomandi skóla, sbr. 17. gr. laga nr. 86/2021. Fram til þessa hefur sambærilegu hlutverki að ákveðnu leyti verið sinnt af mismunandi starfsmönnum innan skólakerfisins.

Um 20. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á ákvæði 14. gr. gildandi laga sem fela í sér vísun til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Um 21. gr.

    Lagt er til að við ákvæði 16. gr. gildandi laga sem fjallar um móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku bætist við að tekið sé mið af stuðningsþörfum nemenda, liggi þær fyrir við gerð áætlunar. Er það til þess fallið að tryggja betri þjónustu við þann hóp barna sem um ræðir.

Um 22. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar sem miða að því að fella brott vísun í eldri lög um málefni fatlaðs fólks, sem féllu úr gildi með setningu laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Þá er lagt til að í stað orðanna sérþarfir sé fjallað um stuðningsþarfir og er það í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu sem miða að því að samræma hugtakanotkun við orðalag laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Um 23. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við ákvæði gildandi laga bætist nýtt ákvæði sem fjallar um rétt barna og foreldra til þjónustu málstjóra, stuðningsteyma og stuðningsáætlunar. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er kveðið á um málstjórn, teymisvinnu og einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir fyrir öll börn sem þurfa fjölþætta þjónustu á öðru og þriðja stigi til lengri tíma og er um að ræða áréttingu á þeim reglum.

Um 24. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til afmörkuð breyting þar sem lagt er til að málum sé vísað til barnaverndarþjónustu fremur en barnaverndaryfirvalda líkt og fjallað er um í gildandi ákvæði. Í barnaverndarlögum eru barnaverndaryfirvöld skilgreind með víðtækum hætti og undir skilgreininguna falla fjölbreyttir aðilar sem sinna barnavernd. Þannig er nákvæmara að vísa til þess að mál skuli tilkynnt til barnaverndarþjónustu en ætla má að þannig hafi ákvæðið verið framkvæmt fram til þessa þrátt fyrir opið orðalag þess. Breytingarnar eru þó ekki til þess fallnar að útiloka aðkomu annarra barnaverndaryfirvalda að málum, gerist þess þörf, en þá er gengið út frá því að ákvæði barnaverndarlaga og eftir atvikum annarra laga gildi um meðferð málsins.

Um 25. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breytt hugtakanotkun og að fjallað verði um stuðningsþarfir nemenda fremur en sérþarfir þeirra. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lögð á það sérstök áhersla að börn og barnafjölskyldur fái stuðning sem endurspegli þörf barns hverju sinni. Þær orðalagsbreytingar sem lagðar eru til á ákvæði 20. gr. laganna eru til þess fallnar að endurspegla markmiðið með skýrari hætti en núverandi orðalag.

Um 26. gr.

    Lagt er til að við ákvæði 24. gr. gildandi laga um grunnskóla bætist ný málsgrein sem fjallar annars vegar um mikilvægi þess að litið sé til farsældar nemenda við gerð aðalnámskrár og hins vegar um þátttöku nemenda við gerð aðalnámskrár. Í samræmi við aðrar breytingar sem tengjast stefnumótun og lagðar eru til á sambærilegum ákvæðum laga um leikskóla og laga um framhaldsskóla með frumvarpi þessu þykir rétt að taka fram að mikilvægt er að líta sérstaklega til aðkomu nemenda á grunnskólaaldri við gerð aðalnámskrár grunnskóla þó að ákvæðið sjálft útiloki hvorki aðkomu yngri né eldri barna.

Um 27. gr.

    Lagt er til að við ákvæði gildandi laga bætist að skólanámskrá skuli undirbúin í samvinnu og samráði við nemendur í anda þess að fjalla með skýrari hætti um mikilvægi þátttöku barna við stefnumótun og áætlanagerð í lögum.

Um 28. gr.

    Í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lagt til að við ákvæði 33. gr. gildandi laga sem fjallar tómstunda- og félagsstarf bætist nýr málsliður sem áréttar mikilvægi þess að í öllu starfi með börnum sé velferð þeirra og farsæld höfð að leiðarljósi. Þá er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þar sem skylda starfsfólks á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er sérstaklega áréttuð. Rík skylda er lögð á þá aðila sem veita farsældarþjónustu til að fylgjast með öllum börnum og bregðast við með skilvirkum hætti um leið og þörf krefur. Um er að ræða sérstaka áréttingu á ákvæði 13. gr. laga nr. 86/2021 sem fjallar um skyldur þjónustuveitenda.

Um 29. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á ákvæði 40. gr. gildandi laga sem fjallar um framkvæmd skólaþjónustu. Breytingarnar miða að því að tryggja samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Rétt er að taka fram að áformað er að leggja til frekari breytingar á ákvæðinu í tengslum við fyrirhugaðar lagabreytingar sem tengjast skólaþjónustu.
    Í a-lið eru lagðar til breytingar sem miða að því að tryggja samfellu og samþættingu í veitingu skólaþjónustu við aðra þjónustu sem veitt er í þágu farsældar barna.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra aðkomu tengiliða og málstjóra að málum. Tengiliðum og málstjórum er á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna falin ákveðin ábyrgð þegar kemur að því að aðstoða við að tryggja að fram fari mat á þörfum barns. Til þess að tengiliðir og málstjórar geti sinnt hlutverkum sínum er mikilvægt að þeir hafi upplýsingar um niðurstöður athugana á þörfum nemenda. Sérstaklega er litið til þess að tekið sé mið af niðurstöðum athugana við gerð stuðningsáætlana á grundvelli laga nr. 86/2021.
    Í c-lið eru lagðar til afmarkaðar breytingar sem miða einkum að því að árétta samstarf við fleiri þjónustuveitendur en ákvæði gildandi laga fjallar um. Jafnframt er lagt til að hluti ákvæðis gildandi laga verði færður í 7. mgr. 40. gr. laganna. Er ákvæðið þannig sett fram með skýrari hætti enda tengist veiting undanþága með beinni hætti þeim hluta ákvæðisins sem fjallar um setningu reglugerðar um efnið.
    Í d-lið er eingöngu um að ræða orðalagsbreytingu sem miðar að því að tryggja betra samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Í e-lið eru eingöngu um að ræða tilfærslu þriggja málsliða sem nú eru í 4. mgr. ákvæðisins. Er sú framsetning talin skýrari. Einnig eru lagðar til breytingar á heiti Menntamálastofnunar í samræmi við fyrirhugaðar lagabreytingar þar að lútandi.

Um 30. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breytt hugtakanotkun í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu.

Um 31. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við ákvæði 47. gr. a gildandi laga bætist ný málsgrein sem kveður á um að sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fari um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Þegar þjónusta er samþætt á grundvelli laga nr. 86/2021 er heimilt að vinna með og miðla nauðsynlegum upplýsingum þvert á þjónustukerfi og því gilda sérstakar reglur á grundvelli laganna. Í lögum nr. 86/2021 er það skilyrði sett fyrir vinnslu upplýsinga að fyrir liggi beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu. Í ákvæðum gildandi laga um grunnskóla er að finna ákvæði sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga en ekki er um að ræða jafn víðtæka vinnslu og heimil er á grundvelli laga nr. 86/2021. Því þykir rétt að árétta sérstaklega þær reglur sem gilda á grundvelli síðarnefndu laganna.

Um 32. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á ákvæði 2. gr. laganna sem fjallar um hlutverk framhaldsskóla.
    Lagt er til að við 1. mgr. ákvæðisins bætist nýr málsliður sem kveður á um það að innan framhaldsskóla skuli velferð og farsæld nemenda höfð að leiðarljósi. Er sú breyting í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu.

Um 33. gr.

    Í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lagt til að í ákvæði 8. gr. laganna, sem fjallar um starfsfólk framhaldsskóla, verði skylda starfsfólks á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sérstaklega áréttuð. Rík skylda er lögð á þá aðila sem veita farsældarþjónustu til að fylgjast með öllum börnum og bregðast við með skilvirkum hætti um leið og þörf krefur. Um er að ræða sérstaka áréttingu á ákvæði 13. gr. laga nr. 86/2021 sem fjallar um skyldur þjónustuveitenda. Nemendur framhaldsskóla eru á mismunandi aldri og sumir þeirra komnir yfir 18 ára aldur. Líta þarf til þess að ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna gilda um börn undir 18 ára aldri og því er aðeins unnt að tengja þær sérstöku skyldur við nemendur sem ekki hafa náð 18 ára aldri. Það dregur þó ekki úr mikilvægi þess að starfsfólk fylgist með og stuðli markvisst að velferð og farsæld allra nemenda líkt og fyrri hluti ákvæðisins kveður á um.

Um 34. gr.

    Lagt er til að við ákvæði 1. mgr. 21. gr. laganna bætist tveir nýir málsliðir. Í fyrsta lagi er lagt til að sérstaklega verið kveðið á um að litið sé til farsældar nemenda við mótun aðalnámskrár. Mikilvægt er að aðalnámskrá og allt starf innan framhaldsskólans taki mið af opinberri stefnu stjórnvalda í málefnum barna og ungmenna og þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Í öðru lagi er lagt til að fjallað sé um þátttöku nemenda við gerð aðalnámskrár. Þrátt fyrir að það sé ekki sérstaklega orðað í ákvæðinu þykir rétt að taka fram að við slíka þátttöku er mikilvægt að líta til aðkomu nemenda á framhaldsskólaaldri. Ákvæðið sjálft útilokar þó ekki aðkomu annarra barna eða ungmenna. Þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðinu miða að því að tryggja betra samræmi við 12. gr. barnasáttmálans og að því að koma til móts við athugasemdir barnaréttarnefndarinnar sem hefur hvatt til þess að stjórnvöld tryggi að þátttaka barna og ungmenna hafi meira vægi í samfélaginu, þ.m.t. í skólum og við stefnumótun um skólahald og í menntamálum, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Um 35. gr.

    Í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu sem miða að því að auka þátttöku nemenda er lagt til að nemendur fái tækifæri til að taka þátt í gerð skólanámskrár.

Um 36. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við 33. gr. gildandi laga bætist tvær nýjar málsgreinar sem fjalla um rétt nemenda og foreldra til þjónustu tengiliðs og eftir atvikum málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar.
    Lagt er til með 1. mgr. ákvæðisins að fjallað verði um rétt nemenda, undir 18 ára aldri, og foreldra þeirra til þjónustu tengiliðs. Skv. 17. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er tengiliður nemanda á skólaaldri almennt starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Rétt er að taka fram að stundi nemandi á framhaldsskólaaldri ekki nám á viðkomandi engu að síður rétt á þjónustu tengiliðs innan félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.
    Þá er lagt til í 2. mgr. að kveðið verði á um að um málstjórn, teymisvinnu og einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir fyrir börn sem þurfa fjölþætta þjónustu á öðru og þriðja stigi til lengri tíma fari samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.

Um 37. gr.

    Með a-lið er lagt til að vísun í lög nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, verði felld brott. Lögin voru felld brott með setningu laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
    Með b-lið er lagt til að á eftir 1. mgr. 34. gr. laganna komi ný málsgrein þar sem fjallað er um mikilvægi þess að fylgst sé vel með velferð og farsæld nemenda og þörf þeirra fyrir þjónustu í því skyni að þeim sé tryggður stuðningur við hæfi.
    Í c-lið er lögð til breyting á fyrirsögn ákvæðisins sem endurspeglar aðrar breytingar sem lagðar eru til á orðalagi þess.

Um 38. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breytt hugtakanotkun. Breytingin miðar að því að í ákvæðinu sé vísað til forsjáraðila barna fremur en forráðamanna þeirra. Breytt hugtakanotkun hefur ekki áhrif á merkingu ákvæðisins né túlkun þess. Um er að ræða hugtakanotkun sem er í betra samræmi við aðra löggjöf og þá þróun sem orðið hefur síðustu ár þar sem fallið hefur verið frá því að nota orðið forráðamenn.

Um 39. gr.

    Með a-lið er lögð til breytt hugtakanotkun í samræmi við breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu þannig að lögð er áhersla á sérstakan stuðning fyrir nemendur fremur en sérþarfir m.a. í samræmi við markmið laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Í b-lið er lagt til að við ákvæði 1. mgr. 55. gr. gildandi laga bætist nýr málsliður sem fjallar um að sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fari um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Þegar þjónusta er samþætt á grundvelli laga nr. 86/2021 er heimilt að vinna með og miðla nauðsynlegum upplýsingum þvert á þjónustukerfi og því gilda sérstakar reglur á grundvelli laganna. Í lögum nr. 86/2021 er það skilyrði sett fyrir vinnslu upplýsinga að fyrir liggi beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu. Í ákvæðum gildandi laga um framhaldsskóla er að finna ákvæði sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga en ekki er um að ræða jafn víðtæka vinnslu og heimil er á grundvelli laga nr. 86/2021. Því þykir rétt að árétta sérstaklega þær reglur sem gilda á grundvelli síðarnefndu laganna.

Um 40. gr.

    Lagt er til að við markmiðsákvæði íþróttalaga bætist ný málsgrein sem fjallar sérstaklega um markmið íþróttastarfs með börnum. Tilkoma laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna felur í sér breytta nálgun þegar kemur að þjónustu í þágu velferðar og farsældar barna. Í lögunum er áhersla lögð á samfellu og samþættingu í þjónustu með það að markmiði að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Á það bæði við í málum tiltekinna barna sem og við almenna stefnumótun. Mikilvægt er að innan íþróttahreyfingarinnar sé unnið að þessum markmiðum enda ljóst að til þess að unnt sé að skapa heildarsýn og samfellu í þjónustu í þágu barna þurfa allir aðilar að vinna að sama markmiði.

Um 41. gr.

    Lagt er til að við ákvæði íþróttalaga bætist ný grein þar sem áréttuð er sérstök skylda aðila sem starfa á grundvelli laganna til að fylgjast með og bregðast við þörfum barna. Ákvæðið er sambærilegt ákvæði 14. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Þá er ákvæðið jafnframt í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á markmiðsákvæði gildandi íþróttalaga.

Um 42. gr.

    Með þeim breytingum sem lagðar eru til á 1. gr. laganna bætist við að farsæld barna skuli höfð að leiðarljósi í öllu starfi með börnum og ungmennum. Farsæld barns er í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, skilgreind sem aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Viðbótin er því í samræmi við þau atriði sem talin eru upp í gildandi lögum og þau gildi sem þar er að finna. Þó þykir rétt að vísa sérstaklega til farsældar barna í því skyni að tryggja að í öllu æskulýðsstarfi sé unnið eftir þeim markmiðum sem fjallað er um í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Skírskotunin er einnig í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum æskulýðslaga með frumvarpi þessu.

Um 43. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við ákvæði 10. gr. laganna sem fjallar um starfsskilyrði í æskulýðsstarfi bætist ný málsgrein þar sem sérstök skylda aðila sem sinna æskulýðsstarfi til að fylgjast með og bregðast við þörfum barna er áréttuð. Ákvæðið er sambærilegt 14. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.

Um 44. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.