Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 435  —  415. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um skipun nefndar til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldri kórónuveirunnar í ljósi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.


Flm.: Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Hildur Sverrisdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldri kórónuveirunnar í ljósi 67., 71. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Skipan nefndarinnar fari eftir tilnefningum Lagastofnunar Háskóla Íslands, Lögmannafélags Íslands og dómstólasýslunnar sem tilnefni formann. Skýrslan verði kynnt Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2024.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkisstjórn Íslands skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga á sviði lögfræði, sem fái það hlutverk að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldri kórónuveirunnar í stjórnskipulegu tilliti. Lagalegar hliðar sóttvarnaaðgerða voru ekki til skoðunar í skýrslu nefndar um áfallastjórnun stjórnvalda í COVID-19, sem skilað var til forsætisráðherra í októbermánuði 2022. Í þeirri skýrslu er þó talið athyglisvert að ekki hafi í ríkari mæli verið leitað formlegra heimilda Alþingis vegna opinberra sóttvarnatakmarkana. „Alþingi hefði jafnframt sjálft getað látið þessi mál til sín taka, en valdi þó almennt að gera það ekki“ (bls. 503). Brýnt er að þetta verði greint nánar áður en næsti heimsfaraldur ríður yfir, enda situr ríkisstjórn Íslands í umboði Alþingis, en ekki öfugt, sbr. 1. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Mikilvægt er að dreginn verði lærdómur af heimsfaraldri kórónuveirunnar á öllum sviðum, ekki síst hvað varðar þær aðgerðir sem gripið var til og voru til þess fallnar að skerða frelsi og ferðir almennings.
    Lagt er til að skýrsla nefndarinnar liggi fyrir eigi síðar en haustið 2024 og hún þá kynnt Alþingi eins fljótt og kostur er. Í skipunarbréfi nefndarinnar verði meginverkefni hennar skýrt sem greining á lögmæti sóttvarnaaðgerða í ljósi mannréttindaákvæða stjórnarskrár. Þannig verði nefndinni m.a. falið að greina hvort sóttvarnaaðgerðir byggðar á 12. gr. sóttvarnalaga hafi staðist kröfur stjórnarskrárinnar um lögmæti slíkra aðgerða, hvort þar til bærir aðilar hafi í reynd farið með ákvörðunarvald um sóttvarnaaðgerðir í faraldrinum og togstreita milli sóttvarnaaðgerða og stjórnarskrárvarinna mannréttinda greind nánar.
    Sóttvarnaaðgerðum á grundvelli 12. gr. sóttvarnalaga í heimsfaraldri kórónuveirunnar var beitt til verndar lífi og heilsu almennings. Tilefni þingsályktunartillögu þessarar er að fá greiningu á þeim afleiðingum sem sóttvarnaaðgerðir í kórónuveirufaraldrinum höfðu á önnur mannréttindi íbúa landsins, þ.m.t. ferða-, funda- og tjáningarfrelsi. Mikilvægt er að stjórnvöld gangi ekki lengra en nauðsyn krefur þegar skerða þarf frelsi almennings í þágu almannahagsmuna. Til að tryggja að draga megi lærdóm af faraldrinum er rétt að greining verði gerð á stjórnskipulegu gildi sóttvarnaaðgerða, líkt og gerð var greining á áfallastjórnun stjórnvalda vegna faraldursins af völdum COVID-19. Þá er rétt að skoðað verði hvaða kröfur stjórnarskráin geri um aðkomu Alþingis að setningu íþyngjandi reglna eða aðgerða.