Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 510  —  215. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um kostnað vegna komu ferðamanna á Landspítala.


     1.      Hvað hafa komur ósjúkratryggðra ferðamanna á dag- og göngudeildir Landspítala verið margar árin 2023 og 2022?
     2.      Hver er fjöldi ósjúkratryggðra ferðamanna sem hafa leitað á bráðamóttöku Landspítala árin 2023 og 2022?

    Fjölda koma ferðamanna á bráðamóttökur Landspítala sem og á aðrar dag- og göngudeildir spítalans árin 2022 og 2023 má sjá í eftirfarandi töflu. Fjöldi tímabilsins september til desember 2023 hefur verið áætlaður út frá meðalfjölda koma í janúar til maí sama ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hver var kostnaðurinn af komum ósjúkratryggðra ferðamanna á fyrrgreindu tímabili?
    Kostnað sjúklingahóps í töflu í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar má sjá hér að aftan, um er að ræða metinn kostnað af komum ferðamanna á bráðamóttökur annars vegar og á aðrar dag- og göngudeildir hins vegar. Fyrir tímabilið september til desember 2023 er miðað við meðalkostnað á sjúkling yfir tímabilið frá janúar til ágúst sama ár.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hvaða áhrif telur ráðherra að þessar komur hafi á álag á Landspítala?
    Samkvæmt mati Landspítala frá 2019 fer 30–50% meiri tími í þjónustu við einstaklinga af erlendu bergi brotna samanborið við sjúkratryggða Íslendinga vegna flóknari samskipta og ólíkrar menningar. Mikilvægt er að tryggja viðeigandi mönnun réttra starfsstétta til að mæta því álagi.
    Á fyrstu átta mánuðum ársins voru í heild 234.932 komur á dag- og göngudeildir og 56.600 komur á bráðamóttökur Landspítala. Komum hafði fjölgað um 22.944 (10,8%) á dag- og göngudeildir og um 2.585 (4,3%) á bráðamóttökur frá árinu áður. Eins og fram kemur í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar voru komur erlendra ferðamanna 964 á dag- og göngudeildir og 1.985 á bráðamóttökur spítalans á sama tímabili. Miðað við 40% viðbótartíma við þjónustu ferðamanna samsvarar það 1.350 viðbótarkomum á dag- og göngudeildir og 2.779 á bráðamóttöku eða 0,6% fjölgun koma á dag- og göngudeildir og 4,9% fjölgun koma á bráðamóttöku. Unnið hefur verið að því í samvinnu við aðra veitendur heilbrigðisþjónustu að fækka komum á bráðamóttökuna undanfarin ár og fækkaði sem dæmi komum á deildina sumarið 2022 um 1.865 (16%) miðað við árið áður.

     5.      Hvernig hefur gengið að innheimta kostnað af komum ósjúkratryggðra á Landspítala á fyrrgreindu tímabili?
    Innheimta reikninga vegna ósjúkratryggðra getur tekið langan tíma en um 35% ósjúkratryggðra sjúklinga á bráðamóttökuna í Fossvogi staðgreiða (hlutfallið á öðrum deildum er ekki unnt að aðgreina, en það gæti verið eitthvað hærra). Um miðjan júní 2023 voru ógreiddar 23 m.kr. af heildarupphæð útsendra reikninga vegna koma á bráðamóttökuna í Fossvogi sem voru tæp 10% af heildartekjum ársins 2022 vegna ósjúkratryggðra. Það er mat Landspítala að tekjur dugi fyrir kostnaði, þótt frá séu taldar þær tekjur sem afskrifast eftir árangurslausar innheimtur.
    Reikningar vegna ósjúkratryggðra fara frá Landspítala í lögfræðiinnheimtu alla jafna einu ári eftir útsendingu en þá er talið að innanhússinnheimta sé fullreynd.

     6.      Hefur verið brugðist við fjölgun ferðamanna með greiningu ráðuneytis á áhrifum á heilbrigðiskerfið og hvernig þeirri fjölgun verði mætt af hálfu stjórnvalda?
    Gert var mat á áhrifum fjölgunar ferðamanna á innviði, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu, á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 2018–19. Samkvæmt þeirri greiningu var álagið undir þolmörkum hvað varðar komur á heilsugæslustöðvar en farið að nálgast þolmörk hvað varðar komur á sjúkrahús, bráðamóttökur og vegna sjúkraflutninga. Heilbrigðisráðuneytið hefur safnað gögnum um komur ósjúkratryggðra ferðamanna á heilbrigðisstofnanir síðustu ár og verið í samræðum við stofnanirnar um áhrif á rekstur og álag. Þetta samráð varð meðal annars til þess að sett var á fót aukið viðbragð í Öræfum vegna ferðamanna sumarið 2023 og gefnar hafa verið út leiðbeiningar til skemmtiferðaskipa um þjónustu íslenska heilbrigðiskerfisins.
    Unnið er að ítarlegri úttekt á áhrifum fjölgunar ferðamanna á heilbrigðiskerfið og stefnt að því að ljúka þeirri vinnu á vormánuðum 2024.