Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 570  —  442. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um alþjóðlegar skuldbindingar og frumvarpsgerð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða verklagsreglur gilda við frumvarpsgerð í ráðuneytinu þegar ákvarðað er hvað eigi að koma fram í þeim kafla greinargerðar stjórnarfrumvarps er fjallar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar?
     2.      Hvernig metur ráðuneytið það hvort tilefni sé til þess að skoða tiltekinn alþjóðasamning í þeirri vinnu og þá hvort tilefni sé til þess að minnast á niðurstöður þeirrar skoðunar í greinargerð frumvarps?
     3.      Hvernig er vinnulag ráðuneytisins varðandi hvort og þá hvernig það skoðar samræmi frumvarpa sinna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lagt er til að verði lögfestur á kjörtímabilinu, sbr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?


    Um umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar í stjórnarfrumvörpum gildir samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, nr. 791/2018. Að auki er fjallað um mat á samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út af forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og skrifstofu Alþingis í nóvember 2007. Á grundvelli samþykktarinnar og handbókarinnar gefur dómsmálaráðuneytið út leiðarvísi um undirbúning og vinnslu stjórnarfrumvarpa og er hann birtur á innri vef Stjórnarráðsins. Þá fer um undirbúning lagafrumvarpa um EES eftir reglum forsætisnefndar Alþingis um þinglega meðferð EES-mála.
    Með hliðsjón af málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis geta frumvörp sem undirbúin eru í ráðuneytinu verið mismunandi að umfangi og efni. Íslensk stjórnvöld gæta að samræmi laga og alþjóðlegra skuldbindinga og því er metið hverju sinni út frá efnistökum hvort ástæða er til að skoða alþjóðasamninga í tengslum við undirbúning frumvarps. Jafnframt til að tryggja að íslenska ríkið geti uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar sínar er litið til þess hvort þeir sem koma til með að beita þeim reglum sem frumvarpið fjallar um þurfi að þekkja til viðkomandi alþjóðasamnings. Sérfræðingar mennta- og barnamálaráðuneytis leggja mat á þessi atriði hverju sinni og endurspeglast það mat í frumvarpinu.
    Í ljósi málaflokka mennta- og barnamálaráðuneytis og ábyrgðar ráðuneytisins samkvæmt þingsályktun nr. 28/151, um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er þess sérstaklega gætt að fjallað sé um samræmi frumvarpa við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Aðrir samningar sem varða ákveðna þjóðfélagshópa, eins og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, koma jafnframt til skoðunar eftir efni þeirra frumvarpa sem eru í undirbúningi hverju sinni.