Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 719  —  450. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011 (breytingar á úthlutunarreglum).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti frá innviðaráðuneyti, Byggðastofnun, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Bændasamtökunum.
    Nefndinni barst ein umsögn sem er aðgengileg á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á útreikningi flutningsjöfnunarstyrkja skv. 6. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011. Annars vegar er lagt til að endurgreiðsluhlutfall flutningskostnaðar sé hækkað. Hins vegar er lögð til viðbót við 4. mgr. 6. gr. laganna, sem felur í sér að ekki skuli lækka hlutföll samþykktra umsókna sem eru undir tilteknu hlutfalli af fjárveitingu hvers árs né lækka samþykktar umsóknir niður fyrir tiltekið hlutfall af fjárveitingu hvers árs hjá sama aðila.

Umfjöllun nefndar.
Almennt.
    Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, tóku gildi 1. janúar 2012. Markmið þeirra er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur sem eru staðsettir nær markaði, sbr. 1. gr. laganna.
    Tilefni frumvarpsins eru ábendingar um að þeir styrkir sem veittir eru á grundvelli laganna skiluðu sér ekki með nægilega sanngjörnum hætti til minni framleiðenda. Gagnrýni frá umsækjendum hafi verið á þá leið að lægstu styrkir séu of lágir en þeir sem sækja um lægstu styrkina eru almennt þeir sem standa höllustum fæti vegna smæðar sinnar. Ef þeir hætta að sækja aukist styrkfjárhæðir til stærri aðila og hafi neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu minni aðila. Meiri hlutinn telur mikilvægt að löggjafinn bregðist við þeirri stöðu.
    Með frumvarpinu er lagt til að endurgreiðsluhlutfall flutningskostnaðar verði hækkað úr 10% í 15% af flutningskostnaði ef ferð er lengri en 390 km á styrksvæði 1, eins og það er skilgreint í 4. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun. Þá er lagt til að hlutfall endurgreiðslu á styrksvæði 2, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna, verði hækkað úr 10% í 20% vegna lengdar ferðar á bilinu 150–390 km, en 30% af endurgreiðslu ef ferð er lengri en 390 km. Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að staða vöruflutninga virðist vera sú að stór hluti flutninga af landsbyggðinni með áfangastað á landsbyggðinni hafi viðkomu í flutningsmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Framleiðendur sem sendi vörur á landsbyggðina þurfi því að borga fyrir einn legg, á meðan framleiðendur á landsbyggðinni borga almennt fyrir tvo.
    Með frumvarpinu er auk þess lögð til viðbót við 4. mgr. 6. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun sem kveður á um að ekki skuli lækka hlutföll samþykktra umsókna sem eru undir 1,25% af fjárveitingu hvers árs né lækka samþykktar umsóknir niður fyrir 1,25% af fjárveitingu hvers árs hjá sama aðila. Meiri hlutinn vísar til þess sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að undanfarin ár hafi framkvæmdin verið með þeim hætti að endurgreiðsluhlutfall umsókna hafi lækkað til þess að ekki sé farið fram úr fjárheimildum, og hafa umsækjendur því ekki fengið nema 57-67% af samþykktri fjárhæð greidda. Þá segir að flutningskostnaður hafi aukist og flutningsjöfnunarstyrkir lækkað að raunvirði, sem komi verst niður á þeim framleiðendum sem flytja minnst og sækja um lægstan styrk, vegna þess að styrkumsóknir hafa ekki svarað kostnaði. Meiri hlutinn telur brýnt að bregðast við framangreindu.
    Meiri hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu mikilvægar til þess að jafna samkeppnisstöðu smærri aðila gagnvart þeim sem stærri eru á markaði og svara þannig kalli minni framleiðenda á landsbyggðinni um að styrkveitingar skili sér með sanngjarnari hætti til umsækjenda. Telur meiri hlutinn breytingarnar stuðla að því að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með þegar svæðisbundin flutningsjöfnun var kynnt til sögunnar árið 2011, þ.e. að hafa jákvæð áhrif á byggðir landsins sem staðsettar eru fjarri markaði, en framleiðsla er einn af hornsteinum byggðaþróunar og atvinnusköpunar.

Breytingartillaga.
Styrkir vegna olíuvara (ákvæði til bráðabirgða).
    Meiri hlutinn telur að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að orkuskipti séu ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og verða í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Liður í fullum orkuskiptum er að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara, sem mælt er fyrir um í 7. gr. laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, samræmdust ekki framangreindum áherslum stjórnvalda í loftslagsmálum, og enn fremur þeim áherslum sem íslenskt samfélag og þær þjóðir sem við berum okkur saman við hafa unnið að í tengslum við orkuskipti.
    Í 12. gr. laganna kemur fram að lögin falli úr gildi 31. desember 2025. Þar með falla úr gildi heimildir til veitingar styrkja til að tryggja framboð olíuvara með því að jafna flutningskostnað á olíuvörum sem eru til notkunar innan lands til svæða sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til þá breytingu við frumvarpið að við lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem ráðherra verði gert, fyrir árslok 2024, að gefa Alþingi skýrslu sem feli í sér áætlun um hvernig styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara verði lækkaðir í þrepum og að lokum felldir niður á gildistíma laganna. Á grundvelli þeirrar skýrslu væntir nefndin þess að unnt verði að grípa til viðeigandi lagabreytinga með það að markmiði að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti.
    Þá undirstrikar meiri hlutinn mikilvægi þess að styrkir renni til framleiðenda en meðal markmiða laganna er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði. Við lækkun í þrepum eða niðurfellingu þeirra styrkja sem nú renna til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara telur meiri hlutinn rétt að þeir styrkir renni til framleiðenda á landsbyggðinni í samræmi við markmið laganna.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal fyrir árslok 2024 gefa Alþingi skýrslu sem felur í sér áætlun um hvernig styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara verði lækkaðir í þrepum og að lokum felldir niður á gildistíma laganna.

Alþingi, 11. desember 2023.

Bjarni Jónsson,
form.
Ingibjörg Isaksen,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Orri Páll Jóhannsson. Njáll Trausti Friðbertsson. Vilhjálmur Árnason.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.