Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 738  —  336. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um inntökupróf í læknisfræði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða viðmið eru höfð til hliðsjónar þegar uppbygging og efni inntökuprófs í læknisfræði við Háskóla Íslands er ákvarðað?
     2.      Stendur til að fjölga nemendum sem teknir eru inn í nám í læknisfræði að loknu inntökuprófi? Ef ekki, hvers vegna ekki?


    Leitað var umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands um fyrirspurnina og byggjast svör ráðherra á upplýsingum frá henni.
    Inntökuprófið er staðpróf sem lagt er fyrir í rafræna prófakerfinu INSPERA. Meginhluti prófsins (70%) eru krossaspurningar um efni sem byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla og hefur svo verið frá því að inntökuprófið var sett á laggirnar. Í þessum hluta er prófað úr náttúrufræði, eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, íslensku, ensku, sálfræði, sögu og félagsfræði. 1     Spurningarnar koma úr spurningasafni, sem er afrakstur samstarfs læknadeildar og kennara úr fjölmörgum framhaldsskólum landsins. Allar spurningar í þessum prófhluta hafa sama vægi en fjöldi spurninga í hverjum prófhluta er ekki fastákveðinn milli ára. Aðrir prófhlutar byggjast ekki á ákveðnu námsefni (30%), en leggja mat á almenna þekkingu, yrta rökfærslu/ upplýsingalæsi og nálgun og úrlausn siðfræðilegra vandamála. Þessir prófhlutar eru einnig á formi krossaspurninga, fyrir utan stuttar ritgerðir í spurningum um siðfræðileg álitamál. Gert er ráð fyrir að próftaki hafi tileinkað sér almenna þætti í námi framhaldsskóla, hafi eitthvað fylgst með þjóðfélagsmálum og umræðu og geti lesið texta og dregið af þeim ályktanir. Ekki er unnt að vísa í ákveðið námsefni framhaldsskóla heldur verður að gera ráð fyrir að efnið sé samþætt úr ýmsum námshlutum framhaldsskólanna.
    Mikilvægt er að bæta heilbrigðisþjónustu og aðgengi að henni en til að svo megi vera er ætlunin að fjölga nemendum í læknisfræði úr 60 í 75 á árinu 2024 og svo upp í 90 í áföngum fram til ársins 2028. Í samræmdu átaki stjórnvalda um eflingu náms í heilbrigðisgreinum mun ráðuneytið styðja við þessi áform og er ráðgert að ráðherra og rektor Háskóla Íslands undirriti fljótlega yfirlýsingu að því tilefni.

1     www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MRN/Adalnamskra%20framhaldsskola_2 _utg_breyt_2015_.pdf