Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 739  —  481. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2023.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í frumvarpinu er fjallað um þær breytingar sem gera þarf á útgjaldaheimildum ríkissjóðs frá þegar samþykktum fjárlögum. Í 1. mgr. 26. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, segir um frumvarp til fjáraukalaga að ráðherra sé heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál.
    Til að tryggja aga í ríkisfjármálum þarf að rökstyðja í frumvarpi til fjáraukalaga að ekki hafi verið unnt að bregðast við með öðrum hætti en með nýtingu heimildar ráðherra til að leggja fram það frumvarp, sbr. 26. gr. laga um opinber fjármál. Nokkrar leiðir eru færar til að mæta óvæntum útgjöldum á annan hátt. Hér kemur fyrst til skoðunar útgjaldasvigrúm hvers fjárlagaliðar í fjárlögum þess árs sem fjáraukalög ná til og eftir það nýting fjármuna úr almenna varasjóðnum á fjárlagaárinu. Í 24. gr. laga um opinber fjármál er fjallað um almenna varasjóðinn (A1-hluta) en bæði það ákvæði og ákvæðið um frumvarp til fjáraukalaga kveða á um að varasjóði annars vegar og fjáraukalögum hins vegar sé ætlað að bregðast við ríkisútgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg og sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti.
    Þau málefnasvið sem óskað er eftir auknum fjárheimildum til í frumvarpinu eru:
     *      heilbrigðismál,
     *      mennta- og menningarmál,
     *      umhverfis-, orku- og loftslagsmál,
     *      samgöngu- og fjarskiptamál,
     *      almanna- og réttaröryggismál, og
     *      önnur málefnasvið, sem tilheyra málefnasviðum 1–4, 6, 8, 10, 12–14, 16 og 34–35.
    Í umfjöllun um þessi málefnasvið er ekki fjallað um hvort útgjaldasvigrúm hafi verið tæmt eða hvort leitað hafi verið í almenna varasjóðinn, eða það sem mest er um vert, hvort hinar auknu fjárheimildir séu til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, líkt og ákvæði 26. gr. laga um opinber fjármál gerir skýra kröfu um. Það er miður. Frumvarpið ber merki um skort á aga í stjórnun opinberra fjármála.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimildir ríkissjóðs verði auknar um 83,5 milljarða kr., eða um 6,3% frá þegar samþykktum fjárheimildum. Vaxtagjöld ríkissjóðs reyndust 26 milljörðum kr. hærri en áætlað var og lífeyrisskuldbindingar jukust um 44 milljarða kr. umfram áætlun fjárlaga. Þá eru aðrar breytingar á frumgjöldum áætlaðar 13 milljarðar kr.
    Heildartekjur voru einnig 116 milljörðum kr. hærri en í samþykktum fjárlögum. Þar af aukast skatttekjur og tryggingagjöld um 101 milljarð kr. Af einstökum sköttum aukast tekjur af tekjuskatti lögaðila mest frá áætlun fjárlaga eða um 29 milljarða kr. Þrátt fyrir þetta aukast skuldir ríkissjóðs á milli ára.
    Heildarskuldir ríkissjóðs eru í árslok 2023 áætlaðar um 1.706 milljarðar kr. en voru áætlaðar 1.560 milljarðar kr. í fjárlögum fyrir árið 2023. Hækkunin nemur 146 milljörðum kr. Áætlað er að skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu verði 32,7% af VLF í árslok 2023 sem eru óbreyttar horfur frá fjárlögum fyrir árið 2023. Áætlað er að halli á rekstri ríkissjóðs í ár verði um 45 milljarðar kr., 1,1,% af VLF. Það er ríflega 74 milljarða kr., eða 1,9% af VLF, betri afkoma en búist var við í áætlun fjárlaga. Halli á ríkissjóði og skuldir eru því ekki á réttri braut. Stóraukin vaxtabyrði ber þess merki og sýnir að greiða þarf niður skuldir eigi ekki að stefna í óefni.
    Verðbólgan hefur sýnilega sett strik í ríkisreikninginn. Með hækkandi vaxtastigi aukast vaxtagjöld ríkissjóðs sem og lífeyrisskuldbindingar. Það er hagur okkar allra að ná tökum á verðbólgunni. Á þessu ári er útlit fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs verði 106 milljarðar kr. Á næsta ári er útlit fyrir að þau aukist og verði 117 milljarðar kr. Eins og staðan er nú fer tíundi hluti allra tekna ríkissjóðs í vaxtagreiðslur. Ef ekkert verður aðhafst mun það hlutfall aukast. Gríðarlega mikilvægt er að draga úr skuldum ríkissjóðs. Ein helsta breytan í þjóðhagkerfum er hvort hið opinbera í hverju landi geti staðið undir eigin skuldbindingum og staðið við eigin fjárhagsáætlanir. Slíkt getur haft mikil áhrif á efnahagslífið.
    Í frumvarpinu er fjallað um hugsanleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesskaga á fjárhag ríkissjóðs. Þar er nefnt að svigrúm sé til staðar í almennum varasjóði að umfangi 3,8 milljarðar kr. Nú liggur fyrir að útgjöld ríkissjóðs munu aukast á þessu ári vegna jarðhræringanna og er þegar gert ráð fyrir auknum útgjaldaheimildum, þar af 2,7 milljörðum kr. vegna varnargarðs, 2 milljörðum kr. vegna tímabundins stuðnings til greiðslu launa og 375 millj. kr. vegna húsnæðisstuðnings. Það er afar mikilvægt að samfélagið styðji við bakið á Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum en ríkisstjórnin getur ekki réttlætt aukna skattheimtu, þegar fé er til í hinum almenna varasjóði, til nákvæmlega þeirra verkefna sem skattinum er ætlað að standa undir. Fyrr í haust var lagður á nýr skattur á almenning sem sagður var nauðsynlegur til að greiða fyrir varnargarðinn í kringum Svartsengi. Voru lög um hann samþykkt með hraði, frumvarpið var rætt við þrjár umræður samdægurs og loks samþykkt um kvöldið. Framkvæmdir um vernd hinna mikilvægu innviða voru þegar hafnar á Reykjanesskaga við samþykkt laganna en hin nýja skattheimta hefst ekki fyrr en um áramót, 1. janúar 2024. Hér var því nýr skattur keyrður í gegn með offorsi og að ósekju. 1. minni hluti ítrekar stuðning við allar aðgerðir sem miða að því að aðstoða Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum en beinir því til ríkisstjórnarinnar að klæða ekki ótengda skattlagningu í búning stuðningsaðgerða.
    Í frumvarpinu er lögð til fjárheimild vegna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega að fjárhæð 66.381 kr. en sams konar eingreiðsla hefur verið afgreidd í fjáraukalögum síðustu þrjú ár. 1. minni hluti fagnar því að samstaða hafi náðst á Alþingi um þennan mikilvæga stuðning en leggur jafnframt áherslu á að þeir ellilífeyrisþegar sem lökust hafa kjörin fái einnig sambærilegan stuðning. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram breytingartillögu þess efnis. Tillagan boðar að þeir ellilífeyrisþegar sem hafa tekjur undir frítekjumörkum laga um almannatryggingar, þ.e. svo lágar tekjur að þeir fái greiddan óskertan lífeyri almannatrygginga, fái greidda eingreiðslu að sömu fjárhæð og örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins myndi eingreiðslan ná til 2.135 manna, þar af 1.007 öryrkja, sem fá nú greiddan ellilífeyri í stað örorku almannatrygginga. Vert er að benda á að þegar öryrkjar ná 67 ára aldri verða þeir fyrir tekjuskerðingu vegna þess að aldursviðbótin svokallaða fellur niður. Hér er því um að ræða hóp sem svo sannarlega þarf á þessari aðstoð að halda. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir í samhengi fjáraukalaganna, aðeins 142 milljónir kr. sem þarf svo að hægt verði að veita rúmlega 2.000 fátækum eldri borgurum lífsbjörg.
    Við í Flokki fólksins viljum einnig leggja fram breytingartillögu þess efnis að greiddur verði upp rekstrarhalli SÁÁ, en samtökin starfa samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands sem þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Til þess að uppfylla þjónustukröfur samningsins þurfa SÁÁ að greiða með rekstrinum um 400 millj. kr. á ári. Það er með öllu óásættanlegt að ríkið sé í raun að kaupa sjálfsagða heilbrigðisþjónustu af almannaheillasamtökum á undirverði.
    Við leggjum einnig til að veittar verði 150 millj. kr. til góðgerðafélaga sem annast matarúthlutanir. Fátækt fólk finnur verulega fyrir hækkandi verðlagi og sérstaklega um jólin. Því er útlit fyrir mikla aðsókn til þeirra góðgerðafélaga sem veita fólki stuðning í formi matargjafa og úthlutunar á annars konar nauðsynjavörum í aðdraganda jóla.

Alþingi, 12. desember 2023.

Eyjólfur Ármannsson.