Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 780  —  468. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og viðskiptaráðuneyti, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, LEX – lögmannsstofu, AECO – Samtökum leiðangursskipa á norðurslóðum, Farfuglum ses., McRent ehf., Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa, embætti landlæknis, Skattinum, sveitarfélaginu Skagafirði, Fjallabyggðarhöfnum, Múlaþingi, Ísafjarðarbæ, Akureyrarbæ, Gára ehf., Cruise Iceland, Iceland Travel, FRÍSK – félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, Samtökum sjálfstæðra skóla, Hömrum – útilífsmiðstöð skáta á Akureyri, Sjávarborg, Samtökum ferðaþjónustunnar, FHG – félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, Ferðaþjónustunni Álfheimum og Félagi atvinnurekanda.
Nefndinni bárust 43 erindi um málið, þ.e. 42 umsagnir og minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem eru aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis.

Umfjöllun.
Lægra áfengisgjald á tiltekið magn áfengra drykkja til lítilla sjálfstæðra framleiðenda (18. gr.).
    Í 18. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um gjald á áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, en þar er mælt fyrir um 50% lækkun á áfengisgjaldi fyrir tiltekið magn áfengra drykkja sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, þ.e. bjór, og framleiddir eru af litlum og sjálfstæðum framleiðendum. Í umsögnum sem nefndinni bárust voru umsagnaraðilar á öndverðum meiði um þessa tillögu. Annars vegar var breytingunni fagnað og hvatt til þess að gengið yrði lengra í samræmi við tilskipun Evrópuráðsins nr. 92/83/EBE og að farin yrði sambærileg leið og gert hefði verið í Danmörku og Finnlandi. Hins vegar var bent á að með þessu væri dregið úr áhrifum áfengisgjaldsins sem væri til þess ætlað að takmarka skaða vegna áfengisneyslu. Jafnframt kom fram að mikilvægt væri að hefja heildrænt lýðheilsumat á fyrirhuguðum aðgerðum og lagasetningu sem gæti haft áhrif á lýðheilsu.
    Meiri hlutinn styður breytinguna og telur að hún sé þýðingarmikið skref fyrir starfsemi lítilla framleiðenda víðs vegar um landið en að hún hafi að sama skapi óveruleg áhrif á áfengisgjald almennt eða áfengisneyslu í landinu.

Breytingartillögur.
Gistináttaskattur (1. gr.).
    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011. Gistináttaskattur kemur aftur til framkvæmda árið 2024 en álagningu hans var frestað tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Nú er lagt til að gildissvið laganna verði rýmkað þannig að gistináttaskattur verði jafnframt lagður á rekstraraðila skemmtiferðaskipa og nái til þess tímabils þegar skip dvelja innan tollsvæðis ríkisins. Þá er lagt til að greiddur verði gistináttaskattur af hverri seldri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest sem er 18 ára og eldri, en í lögum er miðað við selda gistináttaeiningu. Loks er lagt til að gistináttaskattur verði í öllum tilvikum 300 kr.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust voru ýmis sjónarmið reifuð sem snerta gistináttaskatt. Nefnt var að gistináttaskattur legðist hlutfallslega meira á þá sem selja ódýra gistingu. Jafnframt var bent á að gildandi fyrirkomulag um að miða skuli gistináttaskatt við hverja selda einingu kæmi sér betur fyrir þá sem bjóða upp á ódýrari gistingu enda væru herbergin frekar ætluð fleiri einstaklingum. Nefndin fjallaði talsvert um útfærslu á gistináttaskatti og hafði sjónarmið umsagnaraðila til hliðsjónar.
    Meiri hlutinn leggur til þríþætta breytingu á útfærslu gistináttaskatts. Í fyrsta lagi er lagt til að áfram verði miðað við að gistináttaskattur sé lagður á hverja selda gistináttaeiningu í stað þess að miðað sé við hvern dvalargest. Með þessu vill meiri hlutinn koma til móts við þær ábendingar sem fram komu um þann stutta fyrirvara sem aðilar hafa haft til að aðlagast breyttu fyrirkomulagi. Það hafi hins vegar legið ljóst fyrir að skattur á gistináttaeiningu hefði að öllu óbreyttu tekið gildi á ný á næsta ári. Meiri hlutinn vill jafnframt með þessari breytingu koma til móts við sjónarmið þeirra sem bjóða ódýrari gistingu og herbergi sem ætluð eru fleiri gestum, eins og víða er gert á landsbyggðinni.
    Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingu á fjárhæð gjaldsins. Fyrir gistingu skv. a-lið 3. mgr. 2. gr. laganna verði gjaldið 600 kr., fyrir gistingu, skv. b-lið 3. mgr. 2. gr. verði gjaldið óbreytt, eða 300 kr., enda sé um að ræða tjaldsvæði og þar með ódýrustu gistiaðstöðu. Loks er lagt til að fyrir gistingu skv. c-lið 3. mgr. 2. gr. verði gjaldið 1.000 kr.
    Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til að undanþága skv. b-lið 3. gr. um að undanskilja greiðslu á gistináttaskatti vegna dvalargesta sem eru yngri en 18 ára falli brott. Í þeim efnum er bent á að fram kom í umsögnum að utanumhald vegna aldurs gesta geti verið flókið og til trafala. Auk þess á slík undanþága ekki við í ljósi breyttrar tilhögunar gjaldsins. Miðað við þessar nýju forsendur mun gistináttaskattur skila 3,8 milljörðum kr. í tekjur árið 2024.
    Vinna stendur nú yfir með hagaðilum um gjaldtöku í ferðaþjónustu til framtíðar. Verið er að skoða og leggja mat á ólíkar leiðir að breyttu gjalda- og skattumhverfi sem gæti orðið megintekjustofn gjaldtöku í ferðaþjónustu í stað gistináttaskatts. Meðal annars er til skoðunar innleiðing á gjaldi sem einnig hefði þann tilgang að stýra álagi á ferðamannastöðum.
    Að lokum beinir meiri hlutinn því til stjórnvalda að taka til skoðunar fyrirkomulag gistináttaskatts með það fyrir augum að auka skilvirkni í kerfinu. Meiri hlutinn telur að skoða þurfi hvernig taka megi tillit til gistingar sem leigð er út á stafrænum vettvangi, eins og Airbnb. Jafnframt þarf að taka til skoðunar hvort unnt sé að koma því við að gistináttaskattur verði lagður á breiðari grunni. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að ýmis gisting er seld hér á landi án þess að á hana verði lagður gistináttaskattur, svo sem heimagisting og gisting á vegum húsbílaleigna. Huga þarf að jafnræði þeirra sem hafa sölu gistinátta að atvinnustarfsemi. Þá þurfi stjórnvöld að kanna hvernig betur verði komið við eftirliti með þeim sem stunda þann atvinnurekstur að bjóða gistingu á stafrænum vettvangi. Í þeim efnum er mikilvægt að huga að því að öllum reglum um starfsemina sé fylgt, þar með talið skilum á opinberum gjöldum, þannig að samkeppnisstöðu á þessum markaði verði ekki raskað. Meiri hlutinn styður þær breytingar sem fram koma í 12. gr. um upplýsingaskyldu rekstraraðila stafrænna vettvanga og telur þær skref í rétta átt.

Breytingartillögur skv. umsögn Skattsins (I. kafli).
    Í umsögn Skattsins eru lagðar til nokkrar breytingar á I. kafla frumvarpsins um breytingu á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011. Um er að ræða breytingar sem eru að meginstefnu ýmist tæknilegar eða til þess að auka skýrleika laganna. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram sú afstaða þess að flestar þeirra breytinga sem Skatturinn leggur til séu til bóta. Meiri hlutinn leggur til breytingar til samræmis við það sem fram kemur í 1. kafla í minnisblaði ráðuneytisins. Nánar tiltekið er um að ræða eftirfarandi breytingar (með vísan til viðeigandi liðar í breytingartillögu):
     1.      Viðbót við skilgreiningu hugtaksins „gistiaðstaða“ þannig að enginn vafi leiki á því að gistiaðstaða í skemmtiferðaskipum falli undir ákvæði laganna (b-liður 1. tölul.).
     2.      Lagt til að í 1. málsl. 2. gr. verði orðinu „greiða“ breytt í „innheimta“ með vísan til almennrar málvenju (a-liður 2. tölul.).
     3.      Í a-lið 2. gr. er lagt til að ekki skuli leggja gistináttaskatt á sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt. Í ljósi þess að ætlunin sé að skattskylda taki til rekstraraðila skemmtiferðaskipa, óháð virðisaukaskattsskyldu, er lagt til að við liðinn bætist tilvísun til 2. mgr. 4. gr. laganna (b-liður 2. tölul.).
     4.      Til að taka á vafa um það hvaða gjalddaga beri að miða við í tilvikum rekstraraðila skemmtiferðaskipa sem tilgreind eru í 4. mgr. 4. gr. laga um gistináttaskatt, með áorðnum breytingum, er lagt til að vísað verði til 3. og 4. mgr. í 1. málsl. 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins (b-liður 4. tölul.).
     5.      Þá eru lagðar til breytingar þannig að vísað verði til „ríkisskattstjóra“ í stað Skattsins þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir (b-liður 3. tölul. og a-liður 4. tölul.).
     6.      Að lokum er lagt til að orðunum „og seljendum vara og þjónustu“ verði bætt við skilgreiningu á stafrænum vettvangi í 12. gr. (11. liður).

Tekjuskattsskylda erlendra aðila (12. tölul. c-liðar 7. gr.).
    Í 12. tölul. c-liðar 7. gr. er lagt til að við 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga bætist nýr töluliður sem kveði á um að allir aðilar sem njóta hvers konar annarra tekna, eða ígildi tekna, en þeirra sem taldar eru upp í öðrum töluliðum þess ákvæðis frá íslenskum aðilum eða föstum starfsstöðvum, þó ekki af vörusölu, beri takmarkaða skattskyldu. Í umsögnum frá KPMG og Deloitte komu fram ábendingar um að tillagan fæli í sér mun víðtækari skattlagningarrétt en nú væri fyrir hendi. Ákvæðið mætti skilja sem svo að hvers kyns þjónusta erlendra aðila, jafnframt sú sem innt væri af hendi á erlendri grundu, yrði gerð skattskyld hér á landi ef kaupandi þjónustunnar væri íslenskur aðili. Bent var á að ekki mætti finna sams konar ákvæði í lögum á Norðurlöndum og þá væri þetta jafnframt án fordæmis innan EES. Einnig kom fram að þótt breytingunni væri ætluð takmörkuð áhrif í þeim tilvikum þar sem tvísköttunarsamningar væru fyrir hendi gæti þetta haft í för með sér óbeinan kostnað vegna aukins umstangs og hættu á að erlendir aðilar drægju úr þjónustuframboði sínu hér á landi. Meiri hlutinn fellst á framangreind sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis að töluliðurinn falli brott.

Sala bújarða (9. gr.).
    Í 9. gr. eru lagðar til orðalagsbreytingar á 4. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt í tengslum við frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum, þ.e. vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í tengslum við lok búrekstrar. Ákvæðið hefur í framkvæmd verið túlkað á þá leið að öflun íbúðarhúsnæðis þurfi að vera í tengslum við lok búreksturs og er sú framkvæmd fest í sessi með umræddri breytingu. Í umsögn Deloitte, sem nefndinni barst, var bent á óskýrleika sem finna mætti í 3. málsl. 4. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt. Þar kæmi ekki fram áskilnaður eða skilyrði fyrir rekstrarformi búrekstursins. Óljóst væri því hvort bóndi, sem hefði haft búrekstur sinn í einkahlutafélagi og ætti ýmist bújörðina persónulega eða hún væri í eigu félagsins, uppfyllti skilyrði ákvæðisins. Þá kom fram að með setningu laga nr. 133/2001, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var lögfest heimild fyrir einstaklinga til að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag að ákveðnum skilyrðum uppfylltum án þess að skattskyldur söluhagnaður myndaðist. Einstaklingar í búrekstri hefðu hugsanlega ekki fylgt hvatningu hins opinbera um að færa reksturinn í einkahlutafélag ef þeir hefðu vitað að með því myndu þeir, áratug síðar, glata rétti sínum til nýtingar á heimild 4. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt sem ætlað væri að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði.
    Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur að ekki sé rétt að mismuna bændum við kynslóðaskipti eftir því hvort rekstur hefur verið á persónulegri kennitölu eða í einkahlutafélagi. Er því lögð til breyting á orðalagi ákvæðisins þess efnis.

Skilyrði lækkunar áfengisgjalds vegna áfengra drykkja sem framleiddir eru af litlum, sjálfstæðum framleiðendum (18. gr.).
    Í umsögn KPMG er bent á að orðalag b-liðar 2. tölul. 1. mgr. 18. gr. um að yfirráð annars framleiðanda séu óheimil hæfi ekki þeirri reglu sem verið sé að lögfesta. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu enda ber orðalag ákvæðisins þess ekki merki að um sé að ræða skilyrði fyrir ívilnun heldur bann við tiltekinni háttsemi. Að höfðu samráði við ráðuneytið er lögð til orðalagsbreyting á ákvæðinu til samræmis við tillögu í umsögn KPMG.

Afnám tollfrelsis skemmtiferðaskipa (19. gr.).
    Í 19. gr. er lögð til breyting á 6. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Í henni felst að skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis en notuð eru í innanlandssiglingu hér við land í allt að fjóra mánuði á ári á hverju tólf mánaða tímabili, njóti ekki lengur tollfrelsis. Í umsögnum sem nefndinni bárust var bent á að umrædd skip hefðu haft jákvæð fjárhagsleg áhrif á smærri áfangastaði á landsbyggðinni. Þá var bent á að enginn fyrirvari hefði verið á afnámi tollfrelsis og þar af leiðandi engin leið fyrir fyrirtæki að bregðast við þar sem ferðir næstu ára hafi nú þegar verið seldar. Áhrif afnáms tollfrelsisins hafi ekki verið að fullu metin, en fram kemur í frumvarpinu að breyting þessi kunni að varða fjárhagslega hagsmuni ríkissjóðs. Þær fjárhæðir liggi þó ekki fyrir. Að þessu gættu leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að gildistöku ákvæðisins verði frestað um eitt ár og beinir því til stjórnvalda að taka málið aftur til skoðunar í samráði við hagsmunaaðila. Þá sé brýnt að fjárhagslegar afleiðingar verði metnar.

Framlenging á virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagns- og vetnisbifhjól, létt bifhjól sem ganga fyrir rafmagni og reiðhjól (ný grein).
    Í 9.–13. mgr. ákvæðis XXIV til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er kveðið á um virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagns- og vetnisbifhjól, létt bifhjól sem ganga fyrir rafmagni og reiðhjól. Meiri hlutinn leggur til að framangreind ívilnun verði framlengd um eitt ár enda sé um að ræða umhverfisvæn farartæki sem eru til þess fallin að draga úr bílaumferð og fjölga í hópi þeirra sem ferðast með vistvænum hætti.

Tímabundin framlenging á undanþágu vegna vörugjalda á húsbíla (ný grein).
    Í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, er kveðið á um tímabundna undanþágu vegna útreikninga vörugjalda af húsbílum. Ákvæði þetta var fyrst lögfest að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á 150. löggjafarþingi (þskj. 1057, 450. mál) til að bregðast við aðstæðum húsbíla í kjölfar viðamikilla breytinga á fyrirkomulagi álagningar vörugjalds vegna breytinga á útblástursmælingum. Gildistími ákvæðisins hefur þrívegis verið framlengdur um eitt ár í senn að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en hefur þó ávallt veriðáréttar að um tímabundið úrræði er að ræða. Jafnframt hafa stjórnvöld verið hvött til að finna varanlega lausn. Í umsögn sem nefndinni barst var óskað eftir því að umrætt ákvæði yrði framlengt enn á ný þar sem fyrirtæki stæðu frammi fyrir óvissu og verulegri hækkun á vörugjöldum. Meiri hlutinn telur að orðið sé tímabært að innheimta vörugjöld af húsbílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í samræmi við útblástur þeirra. Þó verði að telja rétt að gefa aðilum ákveðinn tíma til að aðlagast. Meiri hlutinn leggur því til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur til 1. október á næsta ári.

Framlenging á bráðabirgðaákvæði búvörulaga um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis (ný grein).
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða EE í búvörulögum, nr. 22/1993, verði framlengdur um eitt ár. Þar kemur fram að ákvæðið kveði á um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis. Með framlengingu er tryggt nægilegt framboð til hagsbóta fyrir neytendur, komið í veg fyrir skortstöðu og dregið úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla í þeim tilvikum þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt. Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.

Aðrar tæknilegar breytingar.
    Í umsögn KPMG var bent á að nákvæmara væri að við a-lið 7. gr. og 11. tölul. c-liðar 7. gr. bættust orðin „hér á landi“. Í minnisblaði ráðuneytisins kom fram að með hliðsjón af rökstuðningi KPMG fyrir breytingunni mætti skilja ákvæðið á þann veg að í því fælist rýmri skattlagningarheimild en stefnt var að. Því væri tilefni til þess að taka breytinguna upp. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis.
    Í 13. gr. er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um tekjuskatt til eins árs þar sem kveðið er á um styrki til hreinorkubíleigenda úr Orkusjóði, sbr. lög nr. 76/2020. Í umsögn KPMG kom fram að ranglega væri vísað til 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Rétt tilvísun væri til 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Þá var bent á að orðalag ákvæðisins mætti vera skýrara. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og leggur til breytt orðalag í samræmi við tillögu KPMG.
    Að lokum eru lagðar til nokkrar tæknilegar breytingar sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Breytingartillögur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er lagt til að tvö ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um tekjuskatt. Fyrra ákvæðið varðar samkomulag sem þrír stærstu viðskiptabankar landsins gerðu í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja. Samkomulagið varðaði niðurfellingu vaxta og verðbóta af skuldum vegna íbúðalána Grindvíkinga í nóvember og desember 2023 og janúar 2024. Í minnisblaðinu segir að útfærsla á niðurfellingu verði á forræði banka og takmarkar hún ekki að þeir geti veitt viðskiptavinum sínum frekari fyrirgreiðslu. Auk niðurfellingar hafa viðskiptabankar boðið Grindvíkingum greiðsluskjól en í því felst frestun á öllum afborgunum á íbúðalánum. Seinna ákvæðið varðar heimild ráðherra til að kveða á um niðurfellingu eða takmörkun á skyldu til fyrirframgreiðslu tekjuskatts á árinu 2024 fram að álagningu opinberra gjalda það ár vegna tekna ársins 2023. Fram kemur í minnisblaði að nýti ráðherra heimildina muni tekjuskattur utan staðgreiðslu koma í auknum mæli eða alfarið til greiðslu á reglubundnum gjalddögum eftir almenna álagningu opinberra gjalda á árinu 2024. Með vísan til framangreinds og nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingu á lögum um tekjuskatt.

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist annars vegar við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og hins vegar við lög um tryggingagjald. Í minnisblaði segir um þessi ákvæði að lagt sé til að launagreiðendur, sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti vegna náttúruhamfara í Grindavík, geti óskað eftir greiðslufresti á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð á afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem falla munu í gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Greiðslur sem frestað er falla í gjalddaga og eindaga 15. apríl 2024 enda hafi skilyrði frestunar verið til staðar. Leggur meiri hlutinn til breytingu í samræmi við framangreint.

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um virðisaukaskatt. Þar kemur fram að í ljósi aðstæðna vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sé lagt til að á ótvíræðan hátti verði kveðið á um að ríkisskattstjóra skuli heimilt að fella niður álag vegna vanskila á virðisaukaskatti, sbr. 27. gr. laganna, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra vegna uppgjörstímabils, sbr. 24. gr., frá og með 1. september 2023 til og með 31. desember 2024, enda kunni utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik að hamla almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Ljóst er að miklir hagsmunir geta verið í húfi fyrir þá aðila sem sjá ekki fram á að geta staðið skil á virðisaukaskatti á gjalddaga þess uppgjörstímabils sem um ræðir, til að mynda vegna rekstrarstöðvunar í kjölfar náttúruhamfara. Gert er að skilyrði að virðisaukaskattsskyldur aðili hafi haft skráð lögheimili og/eða skráða starfsstöð í Grindavíkurbæ hinn 10. nóvember 2023 þegar bærinn var rýmdur vegna náttúruhamfara. Einnig er gert að skilyrði að virðisaukaskattsskyldur aðili hafi haft skráð lögheimili og/eða skráða starfsstöð í Grindavíkurbæ í lok þess uppgjörstímabils sem fellur undir tímabil niðurfellingar álags. Með vísan til framangreinds og nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingu á lögum um virðisaukaskatt.

Tillaga um afgreiðslu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Bjarni Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 13. desember 2023.

Teitur Björn Einarsson,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Steinunn Þóra Árnadóttir.