Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 806  —  339. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um nýskráningu léns.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er ráðherra enn þeirrar skoðunar að ekki sé gerð krafa um kennitölu rétthafa við nýskráningu léns eins og fram kemur í svari ráðherra á þskj. 1187 á 153. löggjafarþingi í ljósi þess að sú krafa er í reynd gerð að íslenskir rétthafar skrái kennitölu sína?

    Internet á Íslandi hf. (ISNIC) er einkafyrirtæki en ekki stjórnvald og heyrir ekki stjórnarfarslega undir ráðuneytið. ISNIC gegnir hlutverki skráningarstofu samkvæmt 8. gr. laga um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021, og sér um skráningu léna undir landsléninu .is og rekstur á tæknilegum innviðum því tengdum. Starfsemi ISNIC lýtur eftirliti Fjarskiptastofu skv. 13. gr. sömu laga. Leitað var til ISNIC vegna fyrirspurnarinnar og byggjast svör ráðherra á upplýsingum frá fyrirtækinu.
    Svar á þskj. 1187 á 153. löggjafarþingi byggist ekki á skoðunum ráðherra, heldur upplýsingum sem aflað var frá ISNIC. Fyrirtækið áréttar að það krefst hvorki kennitalna frá innlendum né erlendum rétthöfum léna, enda er engin slík krafa um kennitölur í reglum ISNIC um lénaskráningar né heldur í lögum nr. 54/2021. Þessar upplýsingar komi fram á lénaskráningarsíðu ISNIC, en þar segir við kennitölureitinn: „Þarf bara fyrir íslenska greiðendur.“ Þá kemur fram í svörum ISNIC að íslenskar kennitölur séu notaðar til þess að stofna bankakröfu í íslenskum banka, fyrir reikningsgerð í íslenskum krónum, jafnframt því sem upplýsingar eru sóttar í þjóð- og fyrirtækjaskrá til hægðarauka fyrir notendur.
    Standi vilji innlends aðila til þess að skrá lén án kennitölu þarf hann að stofna auðkenni fyrir rétthafann án kennitölu og annað fyrir greiðandann, sem er reyndar með kennitölu fyrir stofnun kröfu í íslenskum banka og reikning í íslenskum krónum með virðisaukaskatti. Fjölmörg lén eru greidd af þriðja aðila, þ.e. af hýsingarfyrirtækjum eða umboðsmönnum, án þess að rétthafi léns sé skráður með kennitölu. Þá segir í svörum ISNIC að fyrirtækið noti ekki kennitölur sem viðskiptamannanúmer heldur svokallað NIC-auðkenni, sem samanstendur af upphafsstöfum viðkomandi, númeri og IS-endingunni. ISNIC birtir aldrei kennitölur rétthafa eða greiðenda, sbr. skráningarskírteini hvin.is. 1
    Að endingu má nefna að Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp ráðherra um breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um íslensk landshöfuðlén og lögum um Fjarskiptastofu, 205. mál, þar sem lagðar eru til breytingar á 9. gr. laga um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021, sem varðar þær upplýsingar sem krafist er við skráningu léns. Þá er í frumvarpinu lagt til að við lögin bætist ný grein, 11. gr. a, sem hefur að geyma ákvæði um þær upplýsingar sem krafist er um rétthafa léns.

1     www.isnic.is/is/whois/search?query=hvin.is&query=hvin.is&type=all