Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Nr. 6/154.

Þingskjal 812  —  234. mál.


Þingsályktun

um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna stefnumótandi aðgerðir til ársins 2025 til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi. Aðgerðirnar byggist á sýn um Ísland sem þekkingarsamfélag.

I. FRAMTÍÐARSÝN

    Hugvitið, hin ótakmarkaða auðlind, verði grunnur að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Sjónum verði beint að sjálfbærri þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi í stað þess að byggja á takmörkuðum auðlindum sem hafa í gegnum tíðina valdið sveiflukenndu efnahagsástandi.

II. MEGINMARKMIÐ

    Stefnumótandi aðgerðir um þekkingarsamfélag á Íslandi skuli byggjast á þremur meginsviðum sem hvert um sig hafi að geyma tiltekin meginmarkmið og aðgerðir svo að framtíðarsýnin geti orðið að veruleika. Sviðin skiptist í háskóla- og vísindastarf, nýsköpun og hugverkaiðnað og fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi.
     1.      Meginmarkmið í háskóla- og vísindastarfi verði að auka gæði náms og námsumhverfis í samkeppnishæfum háskólum. Rannsóknarhlutverk háskóla verði aukið og metnaður og hugvit virkjað í því skyni að efla þekkingu og skapa ný tækifæri fyrir vísindafólk. Stefnumótun og samhæfing á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði efld. Hlutverk háskóla- og vísindafólks í samfélagslegri umræðu verði jafnframt aukið.
     2.      Meginmarkmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði verði bætt samkeppnisstaða og velsæld byggð á nýsköpun og hugviti. Ísland verði eftirsóknarverður staður fyrir fleiri ný störf og atvinnugreinar sem byggðar verði á rannsóknum, þróun, nýsköpun og hugviti. Stjórnvöld stuðli að hagnýtingu nýrra lausna til að takast á við samfélagslegar áskoranir, svo sem loftslagsmál og öldrun þjóðarinnar. Jafnframt verði gætt að því að velsæld og hagvöxtur haldist í hendur við varðveislu og viðhald á tungumáli og menningararfi þjóðarinnar.
     3.      Meginmarkmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi verði að tengja byggðir landsins og Ísland við umheiminn en jafnframt að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulífs. Stuðlað verði að sjálfbærri þróun á landsvísu með nýtingu stafrænna lausna, almennu aðgengi að áreiðanlegu netsambandi um ljósleiðara og háhraðafarnet auk ásættanlegs netöryggis á hverjum tíma til að svo megi verða.

III. STEFNUMÓTANDI AÐGERÐIR

    Unnið verði að markmiðum um eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi með eftirfarandi aðgerðum sem unnar verði í samstarfi við hagaðila og endurskoðaðar árlega í tengslum við undirbúning fjármálaáætlunar og fjárlaga. Framvindu aðgerða verði lýst í mælaborði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og árlegri skýrslu um framgang þingsályktunarinnar.

1. Aðgerðir sem styðji markmið í háskóla- og vísindastarfi.
    1.1.    Átak í STEAM-kennsluaðferðum.
    1.2.    Fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum.
    1.3.    Aukið samstarf háskóla.
    1.4.    Sameiginleg innritunargátt háskóla.
    1.5.    Nýtt reiknilíkan fyrir fjármögnun háskólastarfs.
    1.6.    Nýtt Vísinda- og nýsköpunarráð.
    1.7.    Aukin alþjóðavæðing í háskóla- og vísindastarfi.
    1.8.    Aukið jafnrétti í háskólum með sérstakri áherslu á fjölgun ungra karla í háskólanámi og aukið fjarnám.
    1.9.    Endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.

2. Aðgerðir sem styðji við markmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði.
    2.1.     Skilvirkara stuðningsumhverfi nýsköpunar.
    2.2.     Uppbygging sameiginlegra rannsóknarinnviða.
    2.3.     Aukin nýting hugverkaréttinda.
    2.4.     Liðkað fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga.
    2.5.     Innleiðing nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu.
    2.6.     Hugvitið virkjað í þágu loftslagsmála, sjálfbærni og matvælaframleiðslu.
    2.7.     Stefna mótuð um sjálfbæran hugverkaiðnað.
    2.8.     Alþjóðasamstarf í þágu rannsókna, nýsköpunar og stafrænna málefna.
    2.9.     Jöfn tækifæri í nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra.

3. Aðgerðir sem styðji við markmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi.
    3.1.     Uppbygging öflugs upplýsingasamfélags í alþjóðlegu samstarfi.
    3.2.     Ísland verði gígabitaland.
    3.3.     Samfellt háhraðafarnet á öllum stofnvegum.
    3.4.     Aukið öryggi með nýja fjarskiptasæstrengnum IRIS.
    3.5.     Umgjörð og regluverk um stafræna þróun.
    3.6.     Geta til viðbragða við netöryggisógnum og -atvikum betur tryggð.
    3.7.     Lykilaðgerðum í netöryggisstefnu komið í framkvæmd.
    3.8.     Aðgengi að háhraðafjarskiptasambandi ýti undir störf og nám óháð búsetu.
    3.9.     Áhersla á jafnrétti við forgangsröðun aðgerða um aukið netöryggi.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 2023.