Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 836  —  542. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur og fleiri lögum (úrbætur í brunavörnum).

(Eftir 2. umræðu, 15. des.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018.

1. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráning aðseturs innan lands vegna óviðráðanlegra atvika.

    Skráning aðseturs innan lands er heimil þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sitt að skipan yfirvalda vegna náttúruhamfara, saknæmrar háttsemi eða annarra óviðráðanlegra atvika. Skilyrði er að fyrir liggi ákvörðun lögreglustjóra um rýmingu húsnæðis á tilteknu svæði vegna hættuástands eða yfirvofandi hættuástands.
    Í ákvörðun lögreglustjóra skal koma fram til hvaða svæðis eða svæða umrædd ákvörðun nær. Einungis þeim einstaklingum sem ákvörðun nær til er heimil aðsetursskráning á grundvelli 1. mgr. Skráning gildir þar til lögreglustjóri tilkynnir Þjóðskrá Íslands að skilyrði hennar séu ekki lengur fyrir hendi. Einstaklingum er heimilt að halda aðsetursskráningu í allt að eitt ár frá tilkynningu lögreglustjóra meðan húsnæði er gert íbúðarhæft.
    Skráning aðseturs innan lands er einnig heimil þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sitt tímabundið vegna bruna eða annars tilfallandi tjóns á húsnæði sem krefst umfangsmikilla viðgerða. Skilyrði er að fyrir liggi staðfesting lögreglustjóra á brunanum eða frá viðkomandi tryggingafélagi. Einstaklingar skulu sjálfir tilkynna um brottfall aðsetursskráningar en að öðrum kosti fellur hún sjálfkrafa niður þegar ár er liðið frá upphaflegri skráningu.
    Skráning aðseturs samkvæmt þessari grein nær einnig til skráningar í fjöldahjálparstöðvum, frístundabyggð og öðru húsnæði sem tilgreint er í reglugerð sem ráðherra setur.

2. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Sérstakt aðsetur.

    Einstaklingi sem skráður er til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs er heimilt að skrá sérstakt aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir ekki skilyrði 3. og 4. mgr. 2. gr.
    Heimild skv. 1. mgr. fellur niður að einu ári liðnu nema óskað sé eftir áframhaldandi aðsetursskráningu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um þinglýstan eiganda atvinnuhúsnæðis þar sem einstaklingur hefur skráð sérstakt aðsetur sitt skv. 11. gr. a.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þinglýstur eigandi fasteignar ákveður hversu margir einstaklingar megi hafa lögheimili í fasteign hans og tilkynnir Þjóðskrá Íslands ákvörðun sína. Þinglýstur eigandi getur ekki flutt skráðan einstakling úr eign sinni með því að tilkynna fækkun þeirra sem mega vera skráðir á eignina.

4. gr.

    Á eftir orðinu „lögheimili“ í 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: eða aðsetri skv. 11. gr. a.

5. gr.

    Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú eru einstaklingar sem skráðir eru á eign þinglýsts eiganda of margir og getur þá Þjóðskrá Íslands breytt skráningu og skráð þá án tilgreinds heimilisfangs eða á annan hátt sem Þjóðskrá Íslands telur eiga við.

6. gr.

    Á eftir orðinu „gegn“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: 12. gr. og.


7. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: mat á fjölda lögheimilisskráninga í íbúðarhúsnæði.

II. KAFLI

Breyting á lögum um mannvirki, nr. 160/2010.

8. gr.

    Á eftir 57. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (57. gr. a.)

Stjórnvaldssektir.

    Byggingarfulltrúi getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem:
     1.      hefur framkvæmdir sem eru byggingarleyfisskyldar án þess að hafa fengið byggingarleyfi skv. 9. gr.,
     2.      tekur mannvirki í notkun án þess að hafa óskað eftir og fengið útgefið vottorð um öryggisúttekt skv. 35. gr.,
     3.      óskar ekki eftir og fær ekki útgefið vottorð um lokaúttekt á mannvirki innan þriggja ára frá því að það var tekið í notkun og lokaúttekt fór fram skv. 36. gr.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á 1. mgr. innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
    Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 25.000 kr. til 25.000.000 kr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun byggingarfulltrúa um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Ákvörðun byggingarfulltrúa er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og er málshöfðunarfrestur þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.

    b. (57. gr. b.)

Réttur til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Eftirlitsaðilar skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

    c. (57. gr. c.)

Frestur til að beita viðurlögum.

    Heimild eftirlitsaðila til að leggja á stjórnvaldssektir eða beita öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

III. KAFLI

Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.

9. gr.

    Skilgreiningar í 3. gr. laganna skulu tölusettar.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, g-liður, svohljóðandi: gefa umsagnir um brunavarnir óski annað stjórnvald eða stofnun eftir því.
     b.      Á eftir orðunum „skv. a-lið 1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: við eftirlit með búsetu í atvinnuhúsnæði skv. c-lið 1. mgr., við eftirlit skv. e-lið 1. mgr., þegar eftirlitið leiðir til skriflegrar áminningar vegna þess að brunaöryggi mannvirkis hefur ekki verið viðhaldið í samræmi við forsendur útgefins byggingarleyfis og eðli starfsemi á hverjum tíma, og við umsagnir um brunavarnir skv. g-lið 1. mgr.

11. gr.

    Í stað 1. mgr. 20. gr. laganna koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Slökkviliðsstjóri og eftirlitsmenn hans geta, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði og öllum þeim stöðum til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til myndatöku, þar sem skoðunar eða eftirlits er þörf samkvæmt lögum þessum.
    Aðgangur skv. 1. mgr. að íbúðarhúsi sem tekið hefur verið í notkun skal ákveðinn með úrskurði dómara nema fyrir liggi samþykki eiganda eða forráðamanns húsnæðisins um aðgang, sbr. þó 3. mgr. Úrskurður skal liggja fyrir svo fljótt sem verða má en eigi síðar en innan þriggja sólarhringa frá því að beiðni um aðgang er lögð fram í héraðsdómi.
    Hafi eigandi eða forráðamaður neitað slökkviliðsstjóra eða eftirlitsmönnum hans um aðgang að húsnæði, eða ekki næst í hann, þarf eitt af eftirfarandi skilyrðum að vera fyrir hendi svo að slökkvilið geti farið fram á úrskurð dómara:
     a.      samsetning íbúa í húsnæði veldur áhyggjum, t.d. vegna búsetu barna og viðkvæmra hópa,
     b.      grunur leikur á að húsnæðinu hafi verið breytt án leyfis,
     c.      grunngerð húss, svo sem stærð, tegund, byggingarefni eða byggingarár, veldur aukinni áhættu að mati slökkviliðs,
     d.      grunur er um að brunavörnum sé verulega áfátt í húsnæði,
     e.      húseigandi eða forráðamaður ógnar öryggi annarra að mati slökkviliðs eða
     f.      húsnæði ber með sér að það þurfi viðhald.
    Heimilt er að fara inn í íbúðarhús skv. 2. mgr. án dómsúrskurðar ef rökstuddur grunur leikur á að íbúar séu í hættu þar inni og bið eftir dómsúrskurði myndi ógna lífi íbúa.
    Heimilt er að fara inn í atvinnuhúsnæði þar sem búseta fer fram án úrskurðar dómara, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr.
    Aldrei má ganga lengra við beitingu heimilda 1.–5. mgr. en þörf er á hverju sinni.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef ekki næst í eiganda eða forráðamann mannvirkis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til samráðs er slökkviliðsstjóra heimilt að knýja fram úrbætur skv. 2. mgr., skipa öryggisvakt skv. 30. gr. og eftir atvikum loka mannvirki skv. 31. gr.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef ekki næst í eiganda eða forráðamann mannvirkis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til samráðs er slökkviliðsstjóra heimilt að knýja fram úrbætur samkvæmt málsgrein þessari, skipa öryggisvakt skv. 30. gr. og eftir atvikum loka mannvirki skv. 31. gr.

13. gr.

    Á eftir 34. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (34. gr. a.)

Stjórnvaldssektir slökkviliðsstjóra.

    Slökkviliðsstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn ákvæðum 23. og 24. gr.
    Stjórnvaldssektir geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr.
    Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna lögaðila. Slökkviliðsstjóra er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti eða brot verið framið í hagnaðarskyni.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun slökkviliðsstjóra um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.

    b. (34. gr. b.)

Réttur til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Eftirlitsaðilar skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

    c. (34. gr. c.)

Frestur til að beita viðurlögum.

    Heimild eftirlitsaðila til að leggja á stjórnvaldssektir eða beita öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

14. gr.

    Fyrirsögn 38. gr. laganna orðast svo: Fræðslusjóður brunamála.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „þjónustuaðili“ og „þjónustuaðila“ í 2. málsl. 1. mgr. og tvívegis í 4. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: ábyrgðarmaður.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                 Þeir sem annast uppsetningu, viðhald og þjónustu brunaviðvörunarkerfa og búnaðar sem tengist þeim, hvort sem um er að ræða hand- eða sjálfvirkan búnað, t.d. hand- eða sjálfvirka reyklosun, sjálfvirkan lokunarbúnað hurða, reyktjöld og hurðaopnara, samskiptabúnað fyrir örugg svæði hreyfihamlaðra, slökkvikerfi, brunadælu eða úti- og neyðarlýsingar, svo og þeir sem annast brunaþéttingar mannvirkja, skulu hafa starfsleyfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og skulu viðkomandi starfsmenn hafa lokið námi sem stofnunin viðurkennir.
     c.      Við 3. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með eftirlit með gæðastjórnunarkerfum þjónustuaðila brunavarna sem skal fara fram á minnst fimm ára fresti, auk þess sem heimilt er að framkvæma aukið og/eða tíðara eftirlit ef ítrekað kemur í ljós að störfum þeirra sé ábótavant. Við framkvæmd eftirlits, sem og við umsókn um starfsleyfi eða endurnýjun þess, skulu eftirlitsskyldir aðilar afla og leggja fram úttektarskýrslu um gerð eða virkni gæðastjórnunarkerfis frá faggiltri skoðunarstofu eða vottunarstofu. Komi í ljós við eftirlit að gæðastjórnunarkerfi uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim skal gefa eftirlitsskyldum aðila kost á að bæta úr því nema um alvarlegt brot sé að ræða. Um alvarleg og ítrekuð brot fer skv. 4. mgr.
     d.      6. mgr. orðast svo:
                 Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða hún tekur að sér, m.a. fyrir undirbúning, svo sem vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og útgáfu starfsleyfa og löggildinga, samkvæmt gjaldskrá sem stjórn stofnunarinnar setur. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem hlýst af því að veita þjónustuna.

16. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal ráðast í átak í skjalfestingu brunavarna í eldri timburhúsum með því að hvetja eigendur eða forráðamenn slíkra húsa til að framkvæma sjálfsmat á stöðu brunavarna og skrá niðurstöður matsins í gagnagrunn stofnunarinnar óski viðkomandi þess. Skal stofnunin sækja upplýsingar um þinglýsta eigendur viðkomandi fasteigna í fasteignaskrá.
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að miðla niðurstöðum sjálfsmats til slökkviliða til að tryggja rétt viðbrögð og aukið öryggi íbúa komi upp eldur. Stofnuninni er jafnframt heimilt að nýta upplýsingar sem aflað er á grundvelli ákvæðisins til að leggja mat á aðferðir við að ná fram hvötum til að bæta brunavarnir og í tölfræðivinnslu um stöðu brunavarna almennt.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019.
17. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingagjöf slökkviliðs.

    Fái Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við framkvæmd lögbundinna verkefna sinna upplýsingar um búsetu fólks í húsnæði sem leigt er til íbúðar og fullnægir ekki kröfum um brunavarnir íbúðarhúsnæðis sem settar eru fram í lögum og reglugerðum skal stofnunin þrátt fyrir 9. og 10. gr. tilkynna slökkviliði hlutaðeigandi sveitarfélags þar um.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi nema b-liður 3. gr. sem öðlast gildi 1. febrúar 2025.
    Ákvæði 2. gr., a-liðar 3. gr. og 4. gr. laga þessara falla úr gildi 1. maí 2030.