Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 911  —  608. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2023.

1. Inngangur.
    Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Á hefðbundnu starfsári kemur ráðið saman tvisvar, annars vegar á þemaráðstefnu að vetri og hins vegar á ársfundi að hausti. Á árinu 2023 fór þemaráðstefnan fram í Þórshöfn í Færeyjum og ársfundurinn í Reykjavík. Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar, var formaður Vestnorræna ráðsins frá ágúst 2022 til loka ágúst 2023 og tók við formennsku af Kim Kielsen frá Grænlandi.
    Þemaráðstefnan fór fram í Þórshöfn í Færeyjum dagana 6.–10. febrúar. Óveður setti strik í reikninginn og varð grænlenska landsdeildin veðurteppt í Kaupmannahöfn og tók þátt í ráðstefnunni í gegnum fjarfundarbúnað. Yfirskrift ráðstefnunnar var Fæðuöryggi og sjálfbærni á Vestur-Norðurlöndum. Áhersla var lögð á að styrkja Vestnorræna samvinnu á sviði matvælaframleiðslu, sjálfbærni og fæðuöryggis. Utanaðkomandi áhrif á borð við heimsfaraldur og árásarstríð Rússa í Úkraínu sýna glöggt hve mikilvægt er að tryggja eigin fæðuöryggi.
    Ársfundur ráðsins var haldinn á Alþingi í Reykjavík í lok ágúst. Á honum voru samþykktar fjórar ályktanir sem verða sendar til ríkisstjórna og þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Þar eru stjórnvöld og ríkisstjórnir hvattar til samvinnu, fundahalda og að skiptast á reynslu sinni. Þrjár þessara ályktana tengjast fæðuöryggi, ein fjallar um hafið sem matarkistu okkar, önnur um sameiginlegar vestnorrænar næringarráðleggingar og sú þriðja um matarsóun. Fjórða ályktunin hvetur stjórnvöld til að kanna möguleika á auknu samstarfi í tengslum við lýðskóla (d. efterskole). Með lýðskóla er átt við skólastig fyrir nemendur á aldrinum 14–18 ára. Jenis av Rana, formaður færeysku landsdeildarinnar, var kjörinn formaður Vestnorræna ráðsins í lok fundarins og tók hann við af Steinunni Þóru Árnadóttir sem setið hafði sem formaður frá síðasta ársfundi. Í tengslum við ársfundinn hélt Vestnorræna ráðið opinn borgarafund í Norræna húsinu í Reykjavík. Þetta var fyrsti opni borgarafundurinn sem ráðið heldur en ákvörðun var tekin um að halda slíkan fund á ársfundi ráðsins í Nuuk árið 2022. Umfjöllunarefni fundarins var hvað vestnorrænu löndin eiga sameiginlegt og á hverju samvinna þeirra byggist.
    Steinunn Þóra Árnadóttir tók þátt í fundi þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem fram fór í Washington í apríl. Þar var helst á dagskrá starf þingmannanefndarinnar og hvernig hægt er að halda starfinu áfram án þátttöku Rússa eftir innrás þeirra í Úkraínu. Jafnframt voru rædd þau mál sem brenna á öllum samfélögum á svæðinu, þ.e. loftslagsbreytingar, staða ungs fólks og framtíðarþróun svæðisins. Norðmenn kynntu einnig formennskuáætlun sína í Norðurskautsráðinu en þeir tóku við formennsku í maí 2023. Vestnorræna ráðið og þingmannaráðstefna um norðurskautsmál hafa gert með sér samstarfssamning sem veitir ráðinu og þingmannanefndinni gagnkvæman þátttökurétt á fundum sínum.
    Vestnorræna ráðið hélt í samstarfi við Norðurlandaráð og þingmannaráðstefnu um norðurslóðamál málstofu á Hringborði norðurslóða sem fram fór í Reykjavík í október. Málstofan bar yfirskriftina Fæðuöryggi og sjálfbærni á norðurslóðum. Steinunn Þóra Árnadóttir tók þátt í pallborðsumræðum fyrir hönd Vestnorræna ráðsins. Mikilvægi þess að nota auðlindir á sjálfbæran hátt og velja heildstæða nálgun þegar kemur að fæðuöryggi voru aðaláherslur umræðunnar. Íbúar á norðurslóðum verða að hafa sjálfsákvörðunarrétt þegar kemur að nýtingu auðlindanna og verndun lífríkis. Heilbrigði lífríkisins, vernd umhverfisins og sjálfbær nýting er nauðsynleg fyrir fæðuöryggi íbúanna. Fólkið sem býr á svæðinu þarf að hafa vald og rétt til þess að taka ákvarðanir er varða þessa hluti.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tók þátt í Norðurlandaráðsþingi í Ósló. Einnig fundaði hún með fulltrúum Evrópuþingsins í Brussel þar sem helstu mál á dagskrá voru norðurslóðamál, öryggismál og loftslagsmál og sótti Eyjólfur Ármannsson, varaformaður Íslandsdeildar, fundinn fyrir Íslands hönd. Auk þess átti Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, fund með Mark Pritchard, varaforseta ÖSE-þingsins og sérstökum fulltrúa í málefnum norðurslóða, og fund með þingmönnum úr utanríkismálanefnd grænlenska þingsins (Inatsisartut).
    
2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins byggðist fyrst og fremst á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi árið 1997 var samþykktur nýr stofnsamningur og nafni samtakanna um leið breytt í Vestnorræna ráðið. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Árið 2016 var ákveðið að auka við fjárráð ráðsins og ráða annan starfsmann í hálft starf til að sinna málefnum norðurslóða og Norðurskautsráðs. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í byrjun árs og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru teknar til umfjöllunar í þjóðþingum landanna sem þingsályktunartillögur. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirrituð yfirlýsing um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með yfirlýsingunni var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og var hann tekinn til endurskoðunar á árinu 2021. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að taka ályktanir Vestnorræna ráðsins til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 sem fjallaði um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum.
    Árið 2008 komu Vestnorræna ráðið og Evrópuþingið sér saman um að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og árið 2016 gerði ráðið jafnframt samning um samstarf við Hringborð norðurslóða. Loks gerði Vestnorræna ráðið samstarfssamning við þingmannanefnd um norðurskautsmál í tengslum við ársfund ráðsins í ágúst 2022 sem veitir Vestnorræna ráðinu og þingmannanefndinni gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og kveður á um árlegan fund formannanna tveggja í tengslum við aðra fundi sem bæði samtök sækja.
    
3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2023 voru aðalmenn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þau Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristrún Frostadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Orri Páll Jóhannsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Jakob Frímann Magnússon, þingflokki Flokks fólksins, Hildur Sverrisdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðbrandur Einarsson, þingflokki Viðreisnar, og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks.
    Hinn 18. september tók Jón Gunnarsson sæti Ásmundar Friðrikssonar sem aðalmaður í Vestnorræna ráðinu fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hinn 26. september tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Miðflokksins, sæti Kristrúnar Frostadóttur, þingflokki Samfylkingarinnar, sem aðalmaður í Vestnorræna ráðinu og þá tók Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokksins, sæti Loga Einarssonar, þingflokki Samfylkingarinnar, sem varamaður í Vestnorræna ráðinu.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu og vann að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi. Íslandsdeildin lagði fram tillögu til þingsályktunar á 153. þingi um framfylgd fjögurra ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundinum 2022. Tillagan var samþykkt sem ályktun Alþingis nr. 16/153 hinn 23. maí 2023.
    Íslandsdeild hélt níu fundi á árinu 2023 þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Ragnar G. Kristjánsson og Ögmundur Hrafn Magnússon frá utanríkisráðuneyti voru gestir á einum fundanna þar sem þeir kynntu Hoyvíkursamninginn og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fékk Íslandsdeild Jósep Gíslason og Skúla Pálsson frá KALAK – vinafélagi Grænlands og Íslands á sinn fund þar sem þeir kynntu starfsemi félagsins og svöruðu spurningum. Einn fundanna níu var sameiginlegur fundur með Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál þar sem landsdeildirnar fóru yfir störf sín og ræddu sameiginleg áherslumál.
    
4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2023.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins árið 2023 fór fram í Þórshöfn í Færeyjum í febrúar. Vestnorræna ráðið kom saman til ársfundar í Reykjavík í ágúst þar sem fjórar ályktanir voru samþykktar. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tók þátt í Norðurlandaráðsþingi í Ósló í október og átti fund með Evrópuþinginu í Brussel í nóvember. Auk þess átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins nokkra fundi, bæði fjarfundi og staðfundi.
    
Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 19. janúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Á dagskrá fundarins var undirbúningur fyrir þemaráðstefnu, innri fund og fund forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 6.–9. febrúar (sjá fylgiskjal I).
    
Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 6.–10. febrúar 2023.
    Af hálfu Alþingis sóttu ráðstefnuna Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, ásamt Auði Örlygsdóttur, sérfræðingi í alþjóðamálum. Þemaráðstefnan bar yfirskriftina Fæðuöryggi og sjálfbærni á Vestur-Norðurlöndum. Landsdeild Grænlands tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað frá Danmörku sökum veðurs (sjá fylgiskjal II).
    
Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 24. apríl 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Meginefni fundarins var undirbúningur fyrir ársfund ráðsins og opinn fund sem halda á í tengslum við ársfundinn (sjá fylgiskjal III).
    
Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Reykjavík 20. júní 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Umræðuefni fundarins voru næstu fundir forsætisnefndar, undirbúningur fyrir ársfund og opinn fund auk þess sem farið var yfir þær tillögur sem landsdeildirnar höfðu lagt fram fyrir ársfundinn. Þá kynnti Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, tillögur að verklagi við endurskoðun reglna ráðsins (sjá fylgiskjal IV).
    
Ársfundur Vestnorræna ráðsins á Alþingi í Reykjavík 29.–30. ágúst.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, auk Hildar Edwald, sérfræðings í alþjóðamálum. Á fundinum gerðu fulltrúar landsdeildanna grein fyrir starfinu á liðnu ári. Þá ávörpuðu samstarfsaðilar Vestnorræna ráðsins fundinn. Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands tóku þátt í umræðum undir yfirskriftinni Hvernig geta vestnorrænu löndin unnið betur saman, hvernig getum við styrkt samstarfið og hvar liggja áskoranirnar? Samstarfsráðherrar Íslands og Grænlands tóku þátt í umræðum undir yfirskriftinni Staða ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum. Ársfundurinn samþykkti jafnframt fjórar ályktanir sem sendar verða ríkisstjórnum og þjóðþingum landanna þriggja til umfjöllunar (sjá fylgiskjal V).
    
Þátttaka í 75. Norðurlandaráðsþingi í Ósló 30. október – 2. nóvember 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Auk þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með annars vegar fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs og hins vegar vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlandanna (sjá fylgiskjal VI).
    
Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu í Brussel 30. nóvember 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Eyjólfur Ármannsson, varaformaður Íslandsdeildar, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Helstu mál á dagskrá voru norðurslóðamál, öryggismál og loftslagsmál (sjá fylgiskjal VII).
         
Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 11. desember 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Á dagskrá fundarins var skipun í dómnefnd barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins, endurskoðaðar starfsreglur og undirbúningur fyrir þemaráðstefnu í Tasiilaq á Grænlandi í mars 2024 (sjá fylgiskjal VIII).
    
5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 29.–30. ágúst 2023.
          Ályktun nr. 1/2023, um hafið sem matarkistu okkar.
          Ályktun nr. 2/2023, um vestnorræna næringarráðgjöf.
          Ályktun nr. 3/2022, um matarsóun.
          Ályktun nr. 4/2023, um lýðskóla.

Alþingi, 25. janúar 2024.

Steinunn Þóra Árnadóttir,
form.
Eyjólfur Ármannsson,
varaform.
Jón Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.




Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 19. janúar 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum. Aðrir fundarmenn voru Jenis av Rana, 1. varaformaður Vestnorræna ráðsins og formaður landsdeildar Færeyja, Hans Peter Poulsen, meðlimur í grænlensku landsdeildinni, sem tók sæti Kim Kielsen á fundinum, annars varaformanns Vestnorræna ráðsins, Poula Árnadóttir Lervig, ritari færeysku landsdeildarinnar, Atli Arnfinsson Thomassen, ritari grænlensku landsdeildarinnar, og Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.
    Meginefni fundarins var undirbúningur fyrir þemaráðstefnu, innri fund og fund forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 6.–9. febrúar. Forsætisnefndin samþykkti dagskrá og fjárhagsáætlun þemaráðstefnunnar auk þess sem hún ræddi lista yfir þátttakendur. Nefndin samþykkti tillögu að áliti til samþykktar á innri fundi Vestnorræna ráðsins 8. febrúar þar sem Vestnorræna ráðið lýsti yfir ánægju sinni með Norður-Atlantshafsbekkinn (NGK). Þá var fjallað um fjárhagsreglur í tengslum við fundi Vestnorræna ráðsins. Ákveðið var að bjóða leiðtoga Orkneyjaráðs á 39. ársfund Vestnorræna ráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í ágúst 2023.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.



Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN af þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn 6.–10. febrúar 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, ásamt Auði Örlygsdóttur, sérfræðingi í alþjóðamálum.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Þórshöfn í Færeyjum og bar yfirskriftina Fæðuöryggi og sjálfbærni á Vestur-Norðurlöndum. Frummælendur voru Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, Dennis Holm, sjávarútvegs- og samgönguráðherra Færeyja, Kailstat Lund, landbúnaðar-, sjálfbærni-, orkumála- og umhverfisráðherra Grænlands og Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Veður setti strik í reikninginn og tók landsdeild Grænlands þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað frá Danmörku. Óluva Zachariassen, blaðamaður og samskiptaráðgjafi hjá OZON-samskiptum í Færeyjum, bauð gesti velkomna en hún var jafnframt fundarstjóri þemaráðstefnunnar. Í opnunarávörpum kom fram mikilvægi þess að styrkja Vestnorræna samvinnu á sviði matvælaframleiðslu, sjálfbærni og fæðuöryggis. Ríkin væru í raun háð innflutningi á hrávöru í matvælaframleiðslu og þyrftu að ráðast í mikilvæga innviðauppbyggingu til þess að tryggja betur eigin fæðuöryggi og draga úr utanaðkomandi áhrifum á borð við COVID-19 og árásarstríð Rússa í Úkraínu. Í þessu samhengi skipti einnig máli að tryggja aðgengi að vörunni og að varan væri á viðráðanlegu verði. Það væru tækifæri fólgin í því að vörur úr heimabyggð nytu sífellt meiri vinsælda, í takti við aukna áherslu á sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, og að auka þyrfti menntun og færni á þessu sviði. Ríkin gætu verið stolt af eigin afurðum, sögu og menningu, og ættu að nýta það til frekari þróunar og uppbyggingar á sviði fæðuöryggis.
    Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, flutti erindi um fæðuöryggi og sjálfbærni á Íslandi. Hann fjallaði m.a. um muninn á hugtökunum fæðuöryggi og matvælaöryggi og sagði það síðarnefnda í raun einn anga fæðuöryggis en ná utan um þrengra svið innan þess. Þá sagði hann jafnframt að umræðan um það hvort ríki væru sjálfum sér nóg með framleiðslu á fæðu félli í raun ekki að umræðu um fæðuöryggi. Fæðuöryggi tæki inn í myndina bæði innflutning og útflutning og tæki mið af heildaraðgengi að mat en ekki því hvort fæðan væri að öllu leyti framleidd innan lands eða hvort hún væri háð innflutningi. Í kringum aldamótin 1800 hefði Ísland framleitt 90–95% af allri fæðu sem neytt var innan lands en þá hefðu komið tímabil þar sem sú framleiðsla tryggði ekki fæðuöryggi allra. Í pallborðsumræðum kom fram að Færeyingar hefðu svipaða sögu að segja en nú væri meira horft til fæðuöryggis, uppruna og gæða. Þá kom einnig fram að sjálfbærni væri meiri í Færeyjum og á Íslandi en á Grænlandi og að þar hefði olíunotkun grænlenskra fiskiskipa mikil áhrif. Í því samhengi var lagt til að sameiginlegt markmið landanna þriggja ætti að vera að framleiða umhverfisvæna orkugjafa fyrir samgöngur. Þá komu einnig fram hugmyndir varðandi aukið samstarf og hvernig draga mætti lærdóm af ólíkum aðstæðum og nálgunum í löndunum þremur og eins hvernig horfa mætti til nýjunga og fullvinnslu á sviði fiskvinnslu fyrir landbúnaðinn. Þá væri einnig mikilvægt að vekja áhuga ungs fólks á landbúnaði til þess að stuðla að aukinni endurnýjun í greininni og eins þyrfti að huga að styrkjakerfinu og hvernig nýta mætti styrki til þess að auka fjölbreytni í landbúnaði.
    Elisabeth Skarðhamar Olsen, doktorsnemi við háskólann í Færeyjum, hélt erindi um það hvað við gætum lært af staðbundnum matarmenningarháttum og tók sem dæmi landbúnaðinn í Færeyjum. Hún taldi hefðbundinn landbúnað í raun undirstöðu fæðu í Færeyjum en taldi að of mikið væri einblínt á sjávarútveginn í allri umræðu. Þar vantaði meiri pólitískan stuðning og skýrari sýn á málaflokkinn. Landbúnaðurinn í Færeyjum byggðist fyrst og fremst á bændamarkaði og óformlegum viðskiptum með matvöru sem gerði það að verkum að litið væri fram hjá honum við útreikninga á fæðuöryggi í Færeyjum. Í pallborðsumræðum kom fram að Færeyingar leggja áherslu á að geta slátrað heima og orðið sér sjálfir út um mat og unnið til manneldis. Rætt var um að mögulega þyrfti að setja sveigjanlegri reglur varðandi kaup og sölu á landbúnaðarvörum á milli vestnorrænu landanna. Samræma mætti betur reglur landanna þriggja og skapa þannig fordæmi fyrir breiðara norrænt samstarf. Mikilvægt væri að hugsa um fæðuöryggi út frá menningu og umhverfi og taka mið af staðbundnum þáttum.
    Í umræðum um matvælaframleiðslu í vestnorrænu löndunum hélt Aviaja Lyberth Hauptmann, aðjunkt við Rannsóknasetur Grænlands í lýðheilsufræðum, erindi í gegnum fjarfundarbúnað. Hún fjallaði m.a. um það hvernig grænlensk menning grundvallaðist að miklu leyti á veiðum og að vera í nánum tengslum við náttúruna. Grænlensk börn alist upp við tilteknar hugsjónir í tengslum við veiði og að ekki megi ganga á náttúruna. Í þessu samhengi minntist hún á það hvernig tengslin hefðu rofnað við uppruna fæðunnar og þann grundvallarmun sem fælist í því að veiða sér til matar og að skreppa út í búð. Þá sagði hún einnig samfélagið á Grænlandi búa í nánu sambandi við náttúruna og það að læra að veiða væri hluti af líffræðikennslu og um leið fræðsla um næringu og efnafræði. Samfélagsgerðin væri að breytast og þekking og kunnátta að tapast á því hvernig hægt væri að stunda sjálfbærar veiðar. Þá væru utanaðkomandi áhrif einnig mikil varðandi ráðleggingar og hugmyndir um hollustu og að þar skorti oft að taka tillit til aðstæðna og matarmenningar á hverjum stað fyrir sig.
    Jenis av Rana flutti lokaávarp ráðstefnunnar þar sem hann lagði m.a. áherslu á það hvernig taka mætti umræðuna áfram og þróa hana í átt til aðgerða.
    Í kjölfar ráðstefnunnar hélt Vestnorræna ráðið innri fund. Umfjöllunarefnið á þeim fundi var m.a. að skoða samstarfsfleti vestnorrænu landanna. Aukin yfirsýn um hvar löndin væru nú þegar að vinna saman væri nauðsynleg og með þeim hætti væri auðveldara að sjá hvernig hægt væri að styrkja samstarfið enn frekar. Í því samhengi væri hægt að líta til margra þátta, t.d. menningar, matarhefða, landbúnaðar og jarðnýtingar. Mikilvægt væri einnig að taka loftslagsbreytingar inn í allt samstarf og ákvarðanir. Þá var einnig rætt um tillögur fyrir næsta ársfund sem fram fer í Reykjavík í lok ágúst 2023 og einnig opinn fund sem haldinn verður í tengslum við ársfundinn. Að auki var sú ákvörðun tekin að leggja fram tillögu til utanríkisráðherra landanna þriggja um að skoða aukna verslun með matvöru á vestnorræna svæðinu.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.



Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 24. apríl 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Aðrir fundarmenn voru Jenis av Rana, 1. varaformaður Vestnorræna ráðsins og formaður landsdeildar Færeyja, Poula Árnadóttir Lervig, ritari færeysku landsdeildarinnar, Atli Arnfinsson Thomassen, ritari grænlensku landsdeildarinnar, og Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.
    Meginefni fundarins var undirbúningur fyrir ársfund ráðsins og opinn fund sem halda á í tengslum við ársfundinn. Nefndin samþykkti þemu fyrir umræður á ársfundinum við samstarfsráðherra annars vegar og utanríkisráðherra hins vegar. Lárus Valgarðsson fór yfir stöðu undirbúnings fyrir opinn fund.
    Þá var rætt um fundadagskrá ráðsins og þá viðburði sem fram undan eru, m.a. vestnorrænan dag í Washington D.C.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.



Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN af forsætisnefndarfundi Vestnorræna ráðsins í Reykjavík 15. júní 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Hildur Edwald, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Henrik Old, varaformaður landsdeildar Færeyja, Kim Kielsen, 2. varaformaður og formaður landsdeildar Grænlands, Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Poula Árnadóttir Lervig, starfsmaður færeysku landsdeildarinnar, og Atli Arnfinsson Thomassen, starfsmaður grænlensku landsdeildarinnar.
    Fjallað var um næstu fundi forsætisnefndar, ársfundur ráðsins sem halda á í Reykjavík dagana 29.–30. ágúst var undirbúinn og drög að dagskrá rædd. Þá var einnig rætt um opinn fund sem halda á í Norræna húsinu þriðjudaginn 29. ágúst í tengslum við ársfundinn.
    Forsætisnefnd fór þá yfir þær tillögur að ályktunum sem landsdeildirnar hafa lagt fram fyrir ársfundinn og ákváðu að kynna þær fyrir landsdeildunum og ræða þær frekar á forsætisnefndarfundi í ágúst.
    Framkvæmdastjóri ráðsins kynnti tillögur að verklagi við endurskoðun reglna ráðsins og setti fram tímaáætlun þar að lútandi.
    Nefndin ræddi samstarf Vestnorræna ráðsins við Norðurskautsráðið og þátttöku Vestnorræna ráðsins í alþjóðlegu samstarfi.
    Gestur fundarins var Oddný G. Harðardóttir, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sem kynnti áherslur Íslands og vinnu við formennskuáætlun Íslands en Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði árið 2024. Oddný lýsti yfir ánægju með samstarf Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og sagðist vona að framhald yrði á því góða samstarfi.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.



Fylgiskjal V.


FRÁSÖGN af ársfundi Vestnorræna ráðsins á Alþingi í Reykjavík 29.–30. ágúst 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, auk Hildar Edwald, alþjóðaritara.
    Steinunn Þóra Árnadóttir flutti frásögn fráfarandi formanns Vestnorræna ráðsins. Hún fór yfir starf ráðsins á síðastliðnu ári og sagði frá því helsta sem gert hefur verið. Þá gerðu fulltrúar landsdeildanna grein fyrir starfinu á liðnu ári. Eyjólfur Ármannsson, varaformaður Íslandsdeildar, flutti skýrslu þar sem hann skýrði frá fundum hennar. Hann sagði m.a. frá gestakomum á fundi Íslandsdeildar, annars vegar frá fulltrúum utanríkisráðuneytisins þar sem þeir fjölluðu um Hoyvíkursamninginn og hins vegar frá KALAK – vinafélagi Grænlands og Íslands. Því næst flutti Steinunn Þóra Árnadóttir greinargerð um alþjóðlega samvinnu og norrænt samstarf.
    Fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins ávörpuðu þá fundinn. Anna Starbrink, sem situr í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, sagði í ræðu sinni að á síðustu árum hefðu efnistök Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins verið mjög svipuð. Málefni ungs fólks, græn þróun og loftslagsmálin væru málefni sem stæðu báðum ráðum mjög nærri. Mikilvægt væri að Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið ynnu saman og deildu reynslu sinni og upplýsingum. Þá fjallaði hún um öryggismál og inngöngu Svía og Finna í NATO.
    Nils T. Bjørke, 2. varaforseti Stórþingsins, ávarpaði fundinn og talaði hann um hve Noregur og hinar vestnorrænu þjóðir stæðu nærri hver annarri, bæði sögulega og landfræðilega. Í ræðu sinni fjallaði hann um búnaðarmál, laxeldi og fór að lokum yfir það sem er helst á dagskrá í norskum stjórnmálum. Halla Nolsøe Poulsen, framkvæmdastjóri Norræna Atlantssamstarfsins (NORA), og Bjartur Nolsøe, framkvæmdastjóri Vestnordenfonden, kynntu hvort um sig starfsemi sinna stofnana. Að lokum flutti Hrannar B. Arnarsson, formaður Norræna félagsins, ávarp þar sem hann lýsti m.a. yfir áhyggjum sínum yfir að dregið hefði úr vilja til samstarfs milli ríkisstjórna Norðurlandanna.
    Í almennum umræðum hóf Eyjólfur Ármannsson umræðuna á fríverslunarmálum. Fríverslun ætti að vera grunnur samstarfsins og að taka þyrfti upp Hoyvíkursamninginn. Lagði hann fram þá hugmynd að stofna dómstól sem dæmdi í málum tengdum samningnum. Í verslun á milli landanna væru miklir möguleikar og hægt væri að auka hana til muna með samvinnu og sameiginlegum skilningi. Grænland, Færeyjar og Ísland gætu líka átt í mun meiri og nánari samvinnu í ferðamannaiðnaðinum. Samstarf gæti verið á milli landanna varðandi stóru skemmtiferðaskipin. Reglur varðandi skemmtiferðaskipin ættu að vera sambærilegar á milli landanna og skattar sömuleiðis.
    Mikil umræða hófst í kjölfarið um skemmtiferðaskip. Hefur komum þeirra fjölgað mikið og hafa þau ýmis áhrif á samfélagið sem og umhverfið. Henrik Old, þingmaður Færeyja, lagði áherslu á að við þyrftum að geta ráðið því hvernig við högum þessu. Hvalveiðar og koma skemmtiferðaskipa fara ekki endilega saman en þjóðirnar sjálfar geta ekki látið ferðamannastrauminn stýra því hvernig við umgöngumst auðlindir okkar og náttúru. Harald Bianco, þingmaður Grænlendinga, sagði að komur skemmtiferðaskipa væru ekki vandamál alls staðar á Grænlandi. Hann sagði að vandamálin væru helst á Vestur-Grænlandi. Skemmtiferðaskipin hefðu áhrif á hvalveiðar, þau fældu hvalina frá. Hann tók undir að Ísland, Grænland og Færeyjar ættu að vinna saman að því að setja reglur um skemmtiferðaskip.
    Í almennum umræðum var einnig rætt um samgöngur landanna á milli og þá helst flug. Kom þar fram að þær aðstæður skapist oft þegar hægt er að fljúga á milli Íslands og Grænlands en innanlandsflug á Grænlandi liggur niðri. Er hér um tækifæri til aukins samstarfs á milli Íslands og Grænlands að ræða.
    Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, Vivian Motzfeldt, samstarfsráðherra og ráðherra utanríkis-, verslunar- og umhverfismála á Grænlandi, og Høgni Hoydal, ráðherra utanríkis- og iðnaðarmála í Færeyjum, tóku þátt í umræðum undir yfirskriftinni Hvernig geta vestnorrænu löndin unnið betur saman, hvernig getum við styrkt samstarfið og hvar liggja áskoranirnar? Þórdís Kolbrún lagði áherslu á samvinnu og samstöðu landanna í alþjóðlegu samstarfi. Þjóðirnar vinna saman víða, m.a. í Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu. Þar hafa lausnir verið mótaðar sem hafa áhrif um allan heim. Mikilvægt er að hafa aðkomu að þessu starfi þar sem mál svæðisins verða sífellt flóknari og víðtækari og ná m.a. til þátta eins og fiskveiðieftirlits, samspils fiskveiðistjórnar og líffræðilegs fjölbreytileika og áhrifa loftslagsbreytinga á fiskveiðistjórn. Þess vegna er mikilvægt að rödd okkar sem hafa mikla hagsmuni af sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda hafsins heyrist vel og sé áberandi.
    Þórdís Kolbrún fjallaði einnig um viðskipti. Viðskipti milli vestnorrænu ríkjanna þriggja eru talsverð en gætu verið miklu meiri. Hún sagði að stjórnvöld á Íslandi og Grænlandi hefðu lýst yfir vilja til að efla tvíhliða viðskipti og efnahagssamstarf sín á milli með það að markmiði að greina möguleika og hindranir sem gætu falist í tvíhliða viðskiptum á milli landanna. Verkefni stjórnvalda væri að auka möguleika fyrirtækja til að starfa þvert á landamæri.
    Høgni Hoydal ræddi um þann mikla áhuga sem það svæði sem við búum á fær frá heimsbyggðinni. Öryggi á norðurslóðum er enn einu sinni farið að skipta miklu máli. Loftslagsbreytingar hafa hér mikil áhrif og það skiptir máli hvað við sem hér búum gerum til að sporna gegn þeim. Sjálfbær nýting auðlinda og umhverfisvernd er það sem við leggjum áherslu á. Hægt væri að auka samstarf vestnorrænu landanna mikið. Það þarf að tengja betur saman atvinnulíf á milli landanna, unga fólkið þarf að eiga í frekari samskiptum og auka þarf samstarf á alþjóðasviðinu. Það eru mikil tækifæri fyrir vestnorrænu löndin og sú framtíðarsýn sem talað hefur verið um í mörg ár þarf nú að raungerast.
    Vivian Motzfeldt lagði einnig áherslu á að styrkja samstarf ríkjanna þriggja. Hún fjallaði um þær miklu áskoranir sem við stæðum frammi fyrir í loftslagsmálum og að umhverfismálum fylgdu ekki bara áskoranir heldur einnig tækifæri. Þá sagði hún að árás Rússa á Úkraínu hefði haft mikil áhrif. Grænland hefði misst mikinn útflutning á fiski til Rússlands. Finna þyrfti nýja útflutningsmarkaði og vestnorrænu löndin gætu unnið saman að því markmiði.
    Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Íslands, og Vivian Motzfeldt, samstarfsráðherra Grænlands, tóku þátt í umræðum undir yfirskriftinni Staða ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum. Guðmundur Ingi fjallaði um þær áskoranir og möguleika sem ungt fólk á Grænlandi, í Færeyjum og á Íslandi stendur frammi fyrir í dag. Miklir möguleikar væru á að auka samvinnu á milli landanna og fjölga ungu fólki sem fer á milli landanna til þess að mennta sig og starfa. Það þarf að hvetja ungt fólk til þess að taka þátt í samstarfi landanna á milli. Rödd þess þarf að heyrast og þannig getur það sagt hvað það vill. Hægt er að horfa til samstarfs eins og Nordjobb og Nordplus og vinna með það á vettvangi vestnorrænu landanna. Vivian Motzfeldt sagði frá vinnustofu sem haldin var með embættismönnum í Reykjavík í júní 2022 þar sem unnið var að því að bæta vinnu við ályktanir Vestnorræna ráðsins. Hún fór svo yfir hver staðan væri á þeim ályktunum sem þegar hafa verið samþykktar og hvar í ferlinu þær væru staddar.
    Ársfundurinn samþykkti fjórar ályktanir sem verða sendar til ríkisstjórna og þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Í þeirri fyrstu voru leiðtogar ríkisstjórnanna hvattir til að útbúa heildræna áætlun um það hvernig vestnorrænu löndin geta unnið saman og staðið vörð um hafið sem matarkistu okkar og þannig komið í veg fyrir að auðlindir fari til spillis og tryggt fæðuöryggi. Ríkisstjórnir Vestur-Norðurlandanna voru hvattar til að bregðast við mengun, tryggja að norðurskautið verði áfram lágspennusvæði og vernda líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi hafsins. Vestnorrænu löndin eru frumkvöðlar sem eiga að setja sér það markmið að Norður-Atlantshafið sé sjálfbærasta hafsvæði heims og vera til fyrirmyndar á alþjóðavísu.
    Í annarri ályktuninni voru ríkisstjórnir landanna hvattar til að kanna möguleika á að koma á fót sameiginlegum staðbundnum vestnorrænum næringarráðleggingum. Í þeirri þriðju voru vestnorrænir umhverfisráðherrar hvattir til að halda fund á árinu 2024. Fundarefnið væri að skiptast á reynslu í sambandi við hvernig ríkin vinna að því að draga úr matarsóun. Þá eru umhverfisráðherrarnir hvattir til að útbúa sameiginlega áætlun um hvernig draga megi úr matarsóun og þar með auka matvælaöryggi á Vestur-Norðurlöndum. Í fjórðu ályktuninni voru stjórnvöld hvött til að kanna möguleika á auknu samstarfi í tengslum við lýðskóla (skólastig fyrir 14–18 ára) og að athuga hvort nemendur slíkra skóla gætu sótt um styrk til uppihalds meðan á slíku námi stendur.
    Á ársfundi var samþykkt að þema starfsársins 2023–2024 yrði vestnorræn tungumál í stafrænum heimi. Þá var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði haldin á Grænlandi og að ársfundur yrði haldinn í Færeyjum. Forsætisnefnd var falið að finna hentugar tímasetningar fyrir fundina. Að lokum var Jenis av Rana einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi.
    Í tengslum við ársfundinn hélt Vestnorræna ráðið opinn borgarafund í Norræna húsinu. Þetta var í fyrsta sinn sem Vestnorræna ráðið stóð fyrir slíkum fundi en á ársfundi ráðsins í Nuuk árið 2022 var tekin ákvörðun um að halda slíkan fund þar sem almenningi gæfist kostur á að ræða við vestnorræna þingmenn. Á borgarafundinum voru pallborðsumræður um hvað vestnorrænu löndin eiga sameiginlegt og á hverju samvinna þeirra á milli er byggð. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru Svava Þóra Árnadóttir, stúdent frá Norður-Atlantshafsbekknum, Magnus Steinsson við Streym, alþjóðafulltrúi Landssamtaka stúdenta í Færeyjum, og Karl Faurschou, starfsmaður ráðuneytis utanríkis-, umhverfis- og verslunarmála í Grænlandi. Fundarstjóri borgarafundarins var Hrannar B. Arnarsson, formaður Norræna félagsins á Íslandi.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.



Fylgiskjal VI.


FRÁSÖGN af fundum Vestnorræna ráðsins á 75. Norðurlandaráðsþingi í Ósló 30. október til 2. nóvember 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Hildur Edwald, alþjóðaritari. Auk þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Einnig var haldinn undirbúningsfundur fyrir þessa fundi. Af hálfu landsdeildar Grænlands sóttu þingið Doris J. Jensen, formaður, og Atli Arnfinsson, alþjóðaritari. Jenis av Rana, formaður landsdeildar Færeyja og formaður Vestnorræna ráðsins, og Annika Mouritsen, alþjóðaritari, tóku þátt fyrir hönd landsdeildar Færeyja.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hélt fund í Stórþinginu í Ósló 30. október. Á fundinum voru aðrir fundir sem voru á dagskrá á Norðurlandaráðsþingi undirbúnir. Þá fór forsætisnefnd yfir síðasta ársfund og ræddi hvað vel hefði gengið og hvað betur mætti fara. Rætt var um túlkun. Voru allir sammála um að gefist hefði vel að bjóða upp á túlkun á fundum Vestnorræna ráðsins og það mætti útfæra frekar til framtíðar. Einnig var rætt um að auka samvinnu við Heimskautsráð inúíta (e. Inuit Circumpolar Council, ICC). Ákveðið var að halda þemaráðstefnu ársins 2024 í 10. viku það ár í Tasiilaq á Austur-Grænlandi.
    Fundarstjóri á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var Helge Orten, varaforseti Norðurlandaráðs. Meginefni fundarins var samfélagsöryggi og önnur sameiginleg málefni ráðanna tveggja. Rætt var um fæðuöryggi, Hringborð norðurslóða og mikilvægi þess að raddir ungs fólks heyrist, en einnig um ósk Grænlands og Færeyja um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Þá sagði Steinunn Þóra Árnadóttir frá ályktunum sem Vestnorræna ráðið samþykkti á síðasta ársfundi sínum. Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs, fór vel yfir þá vinnu sem hafin er við endurskoðun Helsingfors-samningsins og ræddi um aðild Grænlands og Færeyja í því samhengi. Að lokum sagði Steinunn Þóra frá vilja Vestnorræna ráðsins til að koma á fót vestnorrænu ráði ungs fólks sem yrði með svipuðu sniði og Norðurlandaráð æskunnar. Rasmus Emborg, fráfarandi forseti Norðurlandaráðs æskunnar, tók vel í það og bauð upp á samstarf þar um.
    Hefð er fyrir því að forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda meðan á Norðurlandaráðsþingi stendur. Að þessu sinni náðist einungis að funda með færeyska samstarfsráðherranum, Bjarna Kárasyni Petersen. Auk hans sátu fundinn Gunvør Balle og Petur Petersen frá færeyska utanríkisráðuneytinu og Ragnheiður Harðardóttir frá íslenska utanríkisráðuneytinu. Jenis av Rana hóf fund á því að segja frá starfi Vestnorræna ráðsins, frá síðasta þemaþingi og þema næsta árs, og frá ársfundinum síðasta. Þá var rætt um mikilvægi vestnorræns samstarfs. Samstarf vestnorrænna landa er mjög mikilvægt, ekki síður en samstarf Norðurlanda, því að vestnorræn ríki eiga enn meira sameiginlegt en Norðurlönd í heild. Má nefna einangrun, fjarlægð frá öðrum löndum, fólksfæð og stórt landsvæði. Ferðamannaiðnaður fer sívaxandi í öllum löndunum þremur. Vestnorræn ríki þurfa að takast saman á við þær áskoranir sem honum tengjast, til að mynda með því að útbúa regluverk varðandi skemmtiferðaskip. Nýting og stjórn náttúruauðlinda er einnig mikilvæg. Þar geta vestnorræn ríki unnið vel saman.
    Þá var rætt um þær tillögur sem samþykktar voru á síðasta ársfundi og stöðu lýðskóla í löndunum þremur.
    Sjálfstæð aðild Færeyinga og Grænlendinga að Norðurlandaráði var einnig til umræðu og styður Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins málið. Endurskoðun Helsingfors-samningsins í Norðurlandaráði er kjörið tækifæri til að skoða það nánar. Einnig þarf að huga að tungumálum, stöðu þeirra og notkun í því samtali.



Fylgiskjal VII.


FRÁSÖGN af fundi Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu í Brussel 30. nóvember 2023.

    
    Árlegur fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með þingnefnd Evrópuþingsins fór fram í Brussel 30. nóvember. Þingnefndin sinnir samskiptum Evrópuþingsins við Sviss, Noreg, Ísland og EES auk norðursins og er kölluð DEEA-nefndin. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Eyjólfur Ármannsson, varaformaður Íslandsdeildar, og Hildur Edwald, alþjóðaritari. Fyrir hönd Færeyja sóttu fundinn Jenis av Rana, formaður færeysku landsdeildarinnar og formaður Vestnorræna ráðsins, og Poula Árnadóttir Lervig, alþjóðaritari. Fyrir hönd Grænlands sóttu fundinn Doris J. Jensen, formaður grænlensku landsdeildarinnar, og Inga Olsen, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru norðurslóðamál, öryggismál og loftslagsmál.
    Andreas Schwab, formaður þingnefndar Evrópuþingsins um norðurslóðasamvinnu og samskipti við EES-löndin, opnaði fundinn og bauð forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins velkomna til Brussel. Jenis av Rana, formaður Vestnorræna ráðsins, sagði frá því helsta sem gerst hefði á Vestnorræna svæðinu frá síðasta fundi ráðsins og DEEA nefndarinnar, m.a. kosningum og nýrri ríkisstjórn í Færeyjum. Þá sagði hann frá starfi Vestnorræna ráðsins á síðastliðnu ári, þemaráðstefnunni um fæðuöryggi í Færeyjum og ársfundi Vestnorræna ráðsins í Reykjavík og fór yfir hvað yrði á döfinni hjá ráðinu á næsta ári.
    Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart norðurslóðum, flutti erindi um stöðuna á norðurslóðum frá sjónarhóli Evrópusambandsins. Hún sagði frá stefnu Evrópusambandsins í norðurslóðamálum. Loftslagsmálin skipta mestu máli en öryggisvandamál í tengslum við Rússa eru einnig mjög mikilvæg. Áskoranir á norðurslóðum eru miklar, mengun, breytingar á lífríkinu, hlýnun sem hefur slæm áhrif m.a. á innviði og hröð bráðnun íss eru mikil áhyggjuefni. Takast þarf á við loftslagsbreytingarnar og mikilvægt er að taka ákvarðanir í samvinnu við íbúa svæðisins. Í norðurslóðastefnu Evrópusambandsins er áhersla lögð á náttúruvernd, vernd lífríkisins, samstarf við frumbyggja og ungt fólk á norðurslóðum. Evrópusambandið hefur styrkt fjölda verkefna sem snúa að rannsóknum á norðurslóðum og styrkt ungt fólk meðal frumbyggja til þátttöku í stefnumótun. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi samvinnu og að áhersla á íbúa svæðisins væri mikilvæg. Frumbyggjar yrðu að vera með í ráðum við stefnumótun og ákvörðunartöku sem snýr að þeirra búsvæði. Rætt var um frumbyggja Rússlands og mikilvægi þess að útiloka þá ekki frá samstarfi, þeir væru í viðkvæmri stöðu.
    Morten Høglund, sendiherra Noregs gagnvart norðurslóðum, sagði frá áskorunum og lausnum í starfi Norðurskautsráðsins þar sem Noregur er nú með formennsku. Norðmenn ákváðu þegar þeir tóku við formennsku í maí á þessu ári að breyta um stefnu gagnvart Rússum. Nýtt samkomulag náðist um nýjar reglur fyrir vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem gefur þeim takmarkaða heimild til að vinna áfram. Norðurskautsráðið er því ekki enn í frosti og vinnan þokast áfram þó hægt sé. Ekki eru haldnir opinberir fundir en tvíhliða fundir eru heimilaðir. Starf Norðurskautsráðsins er mikilvægt og ekki er gott að stöðva allt það vísindastarf sem þar fer fram. Styrkur ráðsins er að öryggis- og hernaðarmál heyra ekki undir það. Norðurskautsráðið fjallar um umhverfismál, sjálfbæra þróun og nýtingu, björgunarmál og íbúa á norðurslóðum. Gögn og upplýsingar frá öllu svæðinu eru starfinu mjög mikilvæg.
    Samu Paukkunen frá alþjóðamálastofnun Finnlands fjallaði um öryggismál á norðurslóðum eins og það snýr að NATO. Hann fór yfir málin frá sögulegu sjónarmiði og fór yfir stöðuna varðandi Rússland. Hann sagði Rússland vera í deilum við Vesturlönd og að innrás Rússa á lýðræðisríki hefði miklar afleiðingar. Rússar væru að reyna að draga línu sem þeir vilja ekki að Vesturlönd fari yfir. Þá ræddi Paukkunen um inngöngu Svía og Finna í NATO sem hann segir hafa áhrif á öryggi á norðurslóðum. Finnar og Svíar þurfi að endurhugsa varnir sínar og öryggisáætlanir. Vesturveldin þurfa að móta framtíð þar sem þau vinna saman að umhverfisvernd, sjálfbærni og grænu hagkerfi. Paukkunen telur Rússa ekki hafa áhuga á slíku samstarfi og að þeir leggi áherslu á auðlindir og hernaðaruppbyggingu. Eyjólfur Ármannsson benti á mikilvægi þess að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði og að bæði Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð legðu mikla áherslu á það.
    Að lokum flutti Olivia Lazard, fræðimaður við Carnegie Europe með áherslu á áhrif loftslagsbreytinga á alþjóðastjórnmál, erindi um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og áskoranir þeim tengdum. Hún sagði hlýnun jarðar gerast hraðar og hraðar og að hætta sé á því að tveggja gráðu þröskuldinum verði náð við lok næsta áratugar sem hefði gríðarleg áhrif á báða pólana. Við sjáum nú þegar dýrategundir sem flytja búsvæði sín, stærri svæði jarðar eru ólífvænleg þar sem ekki er nægt vatn og næring og samkeppni um auðlindir eins og vatn verður sífellt harðari. Rússar og Kínverjar hafa tekið þessa þróun með í reikninginn þegar þeir móta framtíðarstefnu sína. Þeir sjá hag sinn í opnun siglingaleiða og keppast um að ná í auðlindir á norðurslóðum. Fleiri keppast um áhrif á norðurslóðum og eykur það á öryggisógnina. Rússar eiga nú um 1/ 5 af vatnsauðlindum jarðar. Vesturveldin eru ekki farin að taka loftslagsbreytingarnar og hugsanleg áhrif þeirra inn í framtíðarstefnu sína í jafn miklum mæli og Rússar og Kínverjar. Taka þarf þær með í reikninginn, sérstaklega þegar öryggisáætlanir eru gerðar. Samvinna er mikilvæg og finna þarf nýjar leiðir við orkunýtingu og orkuöflun.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti einnig fund með sendiherrum Grænlands, Færeyja og Íslands í sendiráði Íslands í Brussel. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra, hóf fundinn og sagði frá starfsemi sendiráðsins, innri markaði EES og tveggja stoða kerfi EES. Elisabeth F. Rasmussen, sendiherra Færeyja, sagði frá færeysku sendiskrifstofunni og fór yfir hvernig sambandi Færeyja og Evrópusambandsins væri háttað en það byggist á þremur samningum þeirra á milli. Færeyingar hafa takmarkaðan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og eru í raun ekki með formlegt samstarf. Báðir aðilar hafa lýst yfir vilja til að styrkja samstarfið. Inuuteq Holm Olsen, sendiherra Grænlands, fór að lokum yfir störf grænlenska sendiráðsins og sagði frá tengslum Grænlands og Evrópusambandsins.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.



Fylgiskjal VIII.


FRÁSÖGN af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 11. desember 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar, og Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum. Aðrir fundarmenn voru Jenis av Rana, formaður Vestnorræna ráðsins og formaður landsdeildar Færeyja, Poula Árnadóttir Lervig, ritari færeysku landsdeildarinnar, Doris J. Jensen, formaður grænlensku landsdeildarinnar, Inga Olsen, ritari grænlensku landsdeildarinnar, og Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.
    Forsætisnefnd fór yfir fyrirhuguð störf í tengslum við barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins, tilnefningar í dómnefnd verðlaunanna og hugsanlegar breytingar á fyrirkomulagi verðlaunanna. Ákveðið var að setja fyrirkomulag verðlaunanna á dagskrá innri fundar ráðsins í Tasiilaq á Grænlandi í mars.
    Nefndin ræddi breytingar á vefsíðu ráðsins, hvað birta ætti þar og reglur um birtingu fundargerða og annarra gagna ráðsins. Þá var einnig fjallað um starf við endurskoðun starfsreglna ráðsins. Framkvæmdastjóri hefur gert drög að endurskoðuðum starfsreglum og hyggst funda með hverri landsdeild fyrir sig í byrjun næsta árs til að kynna drögin.
    Á fundinum var fjallað um undirbúning og skipulag þemaráðstefnunnar sem fram fer í Tasiilaq á Grænlandi í mars sem og ársfundinn sem fyrirhugaður er í Þórshöfn í Færeyjum í ágúst.
    Þá var rætt um samstarf Vestnorræna ráðsins við Hringborð norðurslóða og 40 ára stórafmæli Vestnorræna ráðsins árið 2025.
    Frekari upplýsingar má nálgast hjá ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og á vefsvæðinu www.vestnordisk.is.