Ferill 656. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 971  —  656. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2023.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.
    Líkt og árið á undan var staða Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands áberandi í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu. Hinn 27. júní var sérstök athöfn í Schaan í Liechtenstein til að marka upphaf viðræðna við Úkraínu um endurbættan og nútímalegri fríverslunarsamning. Fyrirhugað er að fyrsta samningalota fari fram 2024. Samhljómur var um að um mikilvægt skref væri að ræða. EFTA-ríkin hefðu sýnt Úkraínu stuðning í verki, m.a. með því að kalla eftir að Rússland léti af árásum á Úkraínu. Á árinu var jafnframt fjallað um þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi sem EES–EFTA-ríkin hafa tekið þátt í. Fjallað var um nýjar þvingunaraðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir að aðilar komi sér undan reglunum, m.a. þannig að reglurnar taki til skipaflota sem tengdir eru Rússlandi án þess þó að vera skráðir þar í landi. Þá var fjallað um mögulegar aðildarviðræður Úkraínu við ESB en Úkraínu var formlega veitt staða umsóknarríkis að ESB í júní 2022 og í desember sl. samþykkti ESB að hefja viðræður við ríkið.
    Þróun alþjóðaviðskipta, viðskiptastefna ESB og aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu innri markaðarins var jafnframt áberandi umfjöllunarefni. Fjallað var um iðnaðaráætlun græna sáttmála ESB sem og um tvær tillögur að lagasetningu, annars vegar um aðgengi að hrávörum innan ESB og hins vegar um kolefnislausan iðnað. Tillögur þessar miða m.a. að því að draga úr hættu á því að ESB verði háð einstökum ríkjum um mikilvægar hrávörur eða um orkugjafa. Þeim er jafnframt ætlað að stuðla að umhverfisvænni framleiðslu orku og tækni á innri markaðnum. Þessi stefna er viðbragð við umfangsmiklum stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum.
    Á fundi þingmannanefndar EES í Strassborg í mars fjölluðu íslenskir þingmenn um þau verulegu áhrif sem breytingar á EES-löggjöfinni um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug myndu hafa á íslenska hagsmuni
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. Fríverslunarsamningar fela í sér lækkun tolla og aukinn fyrirsjáanleika í alþjóðaviðskiptum, t.d. með ákvæðum um takmarkanir á beitingu tæknilegra viðskiptahindrana og um upprunareglur. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 30 talsins og taka til 41 ríkis. Samanlagt eru þessi fríverslunarsamstarfsríki næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. Fríverslunarsamningur við Moldóvu var undirritaður í Vaduz, Liechtenstein, 27. júní 2023. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu, Kósovó og Víetnam. Þá var, líkt og fram kom hér að framan, tilkynnt um upphaf viðræðna við Úkraínu um uppfærðan fríverslunarsamning. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna slíka samninga og afla stuðnings við gerð þeirra. Farið var í slíka heimsókn til Indlands í apríl 2023 þar sem sendinefnd EFTA-þingmanna átti fundi með þingnefndum, ráðherrum, stofnunum og hagsmunaaðilum um aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands standa yfir.
    Af öðrum málum sem voru á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES má að lokum nefna málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, stöðu EES-samstarfsins, stækkunarmál Evrópusambandsins, orku- og loftslagsmál o.fl.
    
2. Almennt um þingmannanefnd EFTA, þingmannanefnd EES og sameiginlega þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.
    
Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi en Svisslendingar sitja fundi sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Ísland á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og tvisvar fundar hún með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum.
    
Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er nefndin hluti af stofnanakerfi samningsins. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, 12 frá Evrópuþinginu og 12 frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES (EFTA-hluta sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum 12 fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA- og EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.
    
Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom saman tvisvar á ári framan af, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.
    
3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Í byrjun árs 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Ingibjörg Isaksen, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Gísli Rafn Ólafsson, þingflokki Pírata. Varamenn voru Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingflokki Pírata, Jódís Skúladóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sigmar Guðmundsson, þingflokki Viðreisnar, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Sú breyting var gerð hinn 12. september að Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingflokki Pírata, tók sæti aðalmanns en Gísli Rafn Ólafsson, sama þingflokki, sæti varamanns. Ritarar Íslandsdeildar voru Gunnþóra Elín Erlingsdóttir fram til 31. október og eftir það Eggert Ólafsson, lögfræðingar EES-mála.
    
4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2023.
    Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES auk sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.
    
Fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel 8.–9. febrúar 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara. Fundurinn var helgaður viðskiptamálum og var m.a. fjallað um nýjar stuðningsaðgerðir Bandaríkjanna við grænan iðnað, viðskiptastefnu ESB, sér í lagi tillögu að nýrri löggjöf um aðgengi að mikilvægri hrávöru, og fríverslunarsamninga EFTA (sjá fylgiskjal I).
    
Fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 15.–16. mars 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara. Á fundinum var einkum fjallað um þróun og framkvæmd EES-samningsins, löggjöf ESB, sér í lagi um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug, stríðið í Úkraínu og bann við vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu (sjá fylgiskjal II).
    
Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Nýju Delí og Mumbai 17.–21. apríl 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES sóttu fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara. Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Indlands var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi yfirstandandi fríverslunarviðræðna milli EFTA-ríkjanna og Indlands (sjá fylgiskjal III).
    
Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Vaduz 27. júní 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara. Á fundinum var fjallað um græna tækni og styrkjakerfi á heimsvísu, fríverslunarviðræður við Indland og stöðu annarra viðræðna EFTA. Þá voru haldnar athafnir, annars vegar þar sem fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Moldóvu var undirritaður og hins vegar til að marka upphaf viðræðna við Úkraínu um endurbættan fríverslunarsamning (sjá fylgiskjal IV).
    
Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA 21. september 2023 (fjarfundur).
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Stígs Stefánssonar, deildarstjóra alþjóðadeildar. Á fundinum var rætt um störf nefndanna fram undan.
    
Fundir þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Brussel 21.–22. nóvember 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir, auk Eggerts Ólafssonar, ritara. Á fundinum var m.a. fjallað um stöðu EES-samningsins, þróun ákvarðanatöku innan ESB, stöðuna í Úkraínu og stöðu fríverslunarviðræðna (sjá fylgiskjal V).
    
Fundur þingmannanefndar EES í Vaduz 15. desember 2023.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES sóttu fundinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Diljá Mist Einarsdóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, auk Eggerts Ólafssonar, ritara. Á fundinum var fjallað um framkvæmd EES-samningsins, tillögur ESB um reglur um kolefnislausan iðnað og aðgengi að mikilvægum hrávörum og þvingunarráðstafanir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu (sjá fylgiskjal VI).
    
5. Ályktanir árið 2023.
Ályktun þingmannanefndar EES:
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2022, samþykkt á fundi þingmannanefndar EES í Vaduz 15. desember 2023.

Alþingi, 1. febrúar 2024.

Ingibjörg Isaksen,
form.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaform. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Diljá Mist Einarsdóttir.

Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar EFTA í Brussel 8.–9. febrúar 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara.
    Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum helgað fyrsta fund hvers starfsárs alþjóðlegum viðskiptamálum.
    Fundurinn hófst með umfjöllun um viðbrögð Evrópusambandsins (ESB) við nýjum stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum ( Inflation Reduction Act – IRA). Um er að ræða yfirgripsmikinn og margbrotinn löggjafarpakka með það að markmiði að draga úr verðbólgu. Græn orkuskipti og stuðningur við grænan iðnað eru þó undirliggjandi meginmarkmið löggjafarinnar. Um er að ræða tímamótalöggjöf þar sem slíkar áherslur á hreinorkuskipti og grænan iðnað hafa ekki áður þekkst í löggjöf þar í landi. Áhyggjur ESB snúa að gríðarlegu umfangi skattaívilnana sem ríki ESB telja sig ekki geta keppt við. Óttast er að þessar víðtæku skattaívilnanir muni hvetja fyrirtæki á sviði grænnar iðnaðarframleiðslu til að flytja starfsemi sína frá ESB til Bandaríkjanna. Viðbrögð ESB við löggjöfinni hafa verið mótuð í stefnu sem ber heitið Iðnaðaráætlun græna sáttmálans (e. Green Deal Industrial Plan). Áætlunin þykir um margt jákvæð og lykilatriði er að finna jafnvægið milli þess að einfalda samkeppnisreglur og vernda um leið innri markað ESB.
    Næst var fjallað um lagasetningu um aðgengi að mikilvægri hrávöru innan ESB (e. European Critical Raw Materials Act). Markmið tillögunnar er að tryggja framboð og aðgang að mikilvægum hrávörum innan ESB. ESB er nú mjög háð innflutningi á ýmsum mikilvægum hráefnum og er reglugerðinni ætlað að sporna gegn því að ríki ESB séu háð tilteknum birgjum. Áhersla verður lögð á að auka eigin framleiðslu mikilvægra hráefna og endurvinnslu slíkra efna og auka fjölbreytni í aðfangakeðjum.
    Fram kom að EFTA fylgist grannt með viðskiptastefnu ESB og fríverslunarsamningagerð á vegum sambandsins. Þegar ESB semur um betri viðskiptakjör á erlendum mörkuðum en EFTA-ríkin njóta skerðist samkeppnisstaða fyrirtækja í EFTA-ríkjunum á viðkomandi mörkuðum gagnvart fyrirtækjum innan ESB. Því leggur EFTA áherslu á að tryggja nýja samninga eða uppfærslu eldri samninga eftir því sem ESB útvíkkar og dýpkar fríverslunarsamninga sína. Í umfjöllun um viðskiptastefnu ESB kom m.a. fram að ESB hefði staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum. Lögð hefði verið áhersla á að undirbúa jarðveginn og styrkja viðeigandi löggjöf til að móta umgjörð um gerð nútímalegri fríverslunarsamninga. Markmiðið væri ekki einungis aukin viðskipti heldur einnig betri viðskipti í samfélagslegu samhengi, líkt og aukin áhersla á græn orkuskipti. Áhersla væri lögð á að nútímavæða þá fríverslunarsamninga sem fyrir væru auk þess að halda nýjum áherslum á lofti í yfirstandandi viðræðum.
    Fjallað var um væntanlega heimsókn þingmannanefndar EFTA til Indlands sem fyrirhuguð er í apríl nk. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna þá og afla stuðnings við gerð þeirra. Farið var yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA við Indland sem hófust árið 2008 og var nærri lokið 2013 þegar kosningar á Indlandi settu strik í reikninginn. Viðræðurnar voru teknar upp 2017 og hafa lítið þokast áfram síðan. Breyting varð á þegar Indland lauk nýverið fríverslunarviðræðum við Kanada og Ástralíu. Í kjölfarið færðist líf í viðræðurnar, m.a. fyrir tilstilli þess að árið 2023 eru 75 ár síðan stjórnmálasamband komst á milli Indlands og Sviss. Indverjar standa að vissu leyti á tímamótum þar sem stjórnvöld hafa þurft að horfast í augu við nýjan veruleika í alþjóðastjórnmálum og leitast markvisst eftir að lenda ekki í utanríkispólitískri einangrun vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Því er nú fyrir hendi gluggi til að nýta þennan meðbyr og auka samstarf milli Indlands og EFTA-ríkjanna.
    Í umfjöllun um alþjóðaviðskipti bar margt á góma og bar hæst umræðuna um grænar áherslur. Farið var yfir ólíkar leiðir að því hvernig beita mætti viðskiptaráðstöfunum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Meðal annars var rætt um tillögu ESB að reglugerð um upptöku á kolefnisjöfnunargjaldi við landamæri, (e. Carbon Border Adjustment Mechanism – CBAM). Þá kom til tals hvort ESB hygðist nýta hluta af gjaldinu til að aðstoða þróunarlönd við græn umskipti. Í kjölfarið var fjallað um stöðu lágtekjulanda í kjölfar COVID-19 sem hefði aukið enn á neyð þessara ríkja. Loks var rætt um samspil viðskipta og félagslegs réttlætis, lausn deilumála og mikilvægi þess að fæðuöryggi væri tryggt.
    Nefndin fundaði með Ngozi Okonjo-Iweala, aðalframkvæmdastjóra WTO. Okonjo-Iweala sagði að viðskipti hefðu haft slæmt orð á sér undanfarin ár. Vinna þyrfti bug á þeirri mýtu að aukin viðskipti stuðluðu að fækkun starfa þegar raunin væri sú að auknum viðskiptum fylgdi aukin velsæld. Hún lagði áherslu á skjótan og áþreifanlegan árangur og sagði óboðlegt að það að komast að samkomulagi um viðskiptasamninga á vettvangi WTO tæki tugi ára. Hún sagði mikilvægt að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki (SMEs) og styrkja samkeppnisstöðu bænda í þróunarríkjum. Framtíðin fæli í sér grænar stafrænar lausnir sem ná þyrftu til allra ríkja. Hún sagði stöðu mála í Afríku vera áhyggjuefni. Afríka reiddi sig um of á innflutning matvæla og stæði aðeins fyrir 3% alþjóðlegra viðskipta í heiminum. Mikil tækifæri væru fyrir hendi í álfunni með tilliti til fríverslunarsamninga þar sem markaðurinn væri mjög stór og gæti laðað að sér erlenda fjárfestingu.

Fylgiskjal II.
    

     FRÁSÖGN
    af fundi þingmannanefndar EES í Strassborg 15.–16. mars 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögu í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Rolf Einar Fife, fyrir hönd formennsku EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni og EES-ráðinu, Marcus Mangan, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Thomas McClenaghan, fyrir hönd formennsku ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og Arne Røksund, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Í erindum þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var fjallað um stöðu EES-samstarfsins í kjölfar erfiðra aðstæðna síðustu misseri, fyrst með COVID-19-faraldrinum og svo með innrás Rússlands í Úkraínu. Samstaða ESB og EFTA-ríkjanna innan EES væri mikilvægari en nokkru sinni fyrr og standa þyrfti vörð um sameiginleg gildi. Síðustu tvö ár hefðu sýnt fram á þörfina fyrir samræmdar aðgerðir sem oft gengju lengra en gildissvið EES-samningsins næði til. Mikilvægt væri að standa vörð um innri markaðinn og í því ljósi væri nauðsynlegt að tryggja hraða upptöku ESB-gerða í EES-samninginn.
    Ingibjörg Isaksen vakti máls á fyrirhuguðum breytingum á núgildandi EES-löggjöf um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug (ETS-kerfið) og þeim verulegu áhrifum sem þær kæmu til með að hafa á íslenska hagsmuni yrðu þær teknar óbreyttar upp í EES-samninginn og í kjölfarið innleiddar í landsrétt. Ingibjörg lagði áherslu á að Ísland tæki að fullu þátt í markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsmál og hefði sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Vegna landfræðilegrar legu Íslands myndi löggjöfin að óbreyttu hafa umtalsvert meiri kostnaðaráhrif á flug til og frá Íslandi en í Evrópu almennt auk þess að raska samkeppnisstöðu tengiflugs yfir Norður-Atlantshafið. Þess bæri að geta að flugstarfsemi og tengdur rekstur næmi um 13–14% af landsframleiðslu Íslands. Þá yrði að líta til þess að íbúar hefðu ekki raunhæfa möguleika á samgöngum við umheiminn aðra en flug.
    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók undir með Ingibjörgu og sagði að neikvæð áhrif breytinganna yrðu mestar á Ísland af öllum EES-ríkjunum. Þá sagði hún hættu á kolefnisleka ef farþegar myndu frekar kjósa að fljúga með flugfélögum þriðju ríkja. Mikilvægt væri að líta til þeirrar einstöku stöðu sem Ísland væri í og þeirra alvarlegu afleiðinga sem myndu hljótast af því að innleiða löggjöfina óbreytta. Hún sagðist sannfærð um að hægt væri að komast að ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli.
    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagðist taka undir með Ingibjörgu og Bjarkeyju. Nauðsynlegt væri að taka áhyggjur Íslands alvarlega. Þá minntist hún á mikilvægi hvala í baráttunni við loftslagsbreytingar. Árlegri kolefnisbindingu hvers hvals svipaði til bindingar þúsund trjáa og hver hvalur fangaði um 33 tonn af kolefni yfir ævina. Í ljósi þessa væri hún hlynnt banni við hvalveiðum Íslendinga. Evrópuþingmaðurinn Thomas McClenaghan sagði framkvæmdastjórnina vera meðvitaða um áhyggjur Íslands. Fjöldi funda hefði átt sér stað og verið væri að kanna hvernig hægt væri að finna ásættanlega lausn.
    Næst var fjallað var um þróun stríðsins í Úkraínu. Fram kom að rúmt ár væri liðið frá innrásinni og að EES-ríkin stæðu staðföst að baki Úkraínu. Úkraína væri að berjast fyrir vestrænum gildum og mikilvægt væri að styðja Úkraínu eftir öllum mögulegum leiðum. Ingibjörg sagði að fyrir nokkrum árum hefði tilhugsunin um stríð í Evrópu verið óhugsandi. Hún ítrekaði mikilvægi þess að tryggja stuðning við Úkraínu eins lengi og þörf krefði. Rússland þyrfti að vera ábyrgt gjörða sinna. Í kjölfar stríðsins þyrfti að tryggja varanlegan frið í álfunni.
    Næst var fjallað um stöðu orkumála innan Evrópu. Stríðið í Úkraínu varpaði ljósi á það hversu háð rússneskum orkugjöfum Evrópa hefði verið. Rætt var um þörfina á að hraða grænum orkuskiptum og tryggja orkuöryggi í Evrópu. Fram kom að orkuverð hefði farið hækkandi fyrir innrásina í Úkraínu, ekki síst í kjölfar COVID-19-faraldursins. Þegar stríðið brast á hefði orkuverð aftur á móti farið úr böndunum. Hátt orkuverð hefði áhrif á almenna borgara og hætta væri á að popúlískar stjórnmálahreyfingar nýttu sér vaxandi óánægju almennings sér til framdráttar. Ingibjörg Isaksen sagði Íslendinga búa yfir mikilli þekkingu í orkumálum sem þeir væru tilbúnir að miðla. Mikil gróska væri í nýsköpunarverkefnum á sviði orkumála, meðal annars í bindingu og förgun kolefnis.
    Næst var fjallað um viðbrögð Evrópu við stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum ( Inflation Reduction Act – IRA). Um væri að ræða yfirgripsmikinn og margbrotinn löggjafarpakka sem hefði það að markmiði að draga úr verðbólgu. Græn orkuskipti og stuðningur við grænan iðnað væri þó undirliggjandi meginmarkmið löggjafarinnar. Áhyggjur ESB sneru að gríðarlegu umfangi skattaívilnana sem ríki ESB gætu ekki keppt við. Þorgerður Katrín var framsögumaður í umræðunni. Hún sagði hvetjandi að Bandaríkin væru loksins að taka ákveðin skref í baráttunni við loftslagsbreytingar. Það vekti aftur á móti áhyggjur að sjá frambærileg evrópsk fyrirtæki íhuga að flytja starfsemi sína til Bandaríkjanna. Mikilvægt væri að finna lausn sem tryggja myndi samkeppnishæfni Evrópu. Þá væri nauðsynlegt að þær lausnir sem ESB og Bandaríkin kæmu til með að semja um tækju jafnframt til EFTA-ríkjanna innan EES.
    Sérstök umræða var um löggjöf sem hefur það að markmiði að tryggja virkni innri markaðarins þegar neyðarástand steðjar að ( Single Market Emergency Mechanism – SMEM). Tilefni löggjafarinnar er sú krísa sem innri markaðurinn stóð frammi fyrir vegna hamlanna sem heimsfaraldur kórónuveiru leiddi af sér. Í framsögu Evrópuþingmannsins Andreas Schwab kom fram að mikilvægt væri að löggjöfin tæki til EFTA-ríkjanna innan EES. Sérstaklega þyrfti að huga að smáríkjum (e. microstates) þar sem þau hefðu verið sett til hliðar í COVID-19-faraldrinum. Gísli Rafn Ólafsson var framsögumaður í umræðunni. Hann áréttaði að krísur fylgdu ekki landamærum. Alþjóðlegi mannúðargeirinn hefði mikla reynslu af krísustjórnun sem líta þyrfti til. Þar á meðal mætti líta annars vegar til ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 46/182, sem lýtur að því að styrkja samhæfingu þegar kemur að veitingu mannúðaraðstoðar í neyð, og hins vegar til almannavarnakerfis ESB (e. Civil Protection Mechanism). Þessi tvö kerfi hefðu sannað sig í reynd og mikilvægt væri að draga lærdóm af þeim við mótun SMEM. Þá sagði hann EFTA-ríkin innan EES órjúfanlegan hluta af innri markaðnum og að löggjöfin ætti því eðli málsins samkvæmt einnig að taka til þeirra.
    Að síðustu var fjallað um bann við vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu. Fram kom að fyrir lægi tillaga að reglugerð ESB þar sem mælt væri fyrir um að vörur sem eru framleiddar með nauðungarvinnu, að hluta eða öllu leyti, yrðu bannaðar á innri markaðnum. Fram kom að um væri að ræða sérlega viðkvæman og víðfeðman málaflokk og talið væri að tæplega 27 milljónir manna væru í nauðungarvinnu á heimsvísu. Lykilatriði væri að auka ábyrgð fyrirtækja með áherslu á að bæta aðfangakeðjur. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði mikilvægt að líta til þessara þátta í tengslum við fríverslunarsamninga ESB og EFTA-ríkjanna við þriðju ríki. Ganga þyrfti fram af gagnsæi og ábyrgð.

Fylgiskjal III.
    

FRÁSÖGN
    af fundum framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Nýju Delí og Mumbai
    17.–21. apríl 2023.

    
    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Indlands var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi yfirstandandi fríverslunarviðræðna milli EFTA-ríkjanna og Indlands. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Ingibjörg Isaksen og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur ritara.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd í auknum mæli beint sjónum sínum að gerð tvíhliða eða marghliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 30 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA.
    Fríverslunarviðræður EFTA við Indland hófust upphaflega árið 2008 en hlé var gert á þeim árið 2013. Viðræðurnar voru endurvaktar 2016 og hafa staðið yfir síðan með hléum. Viðskipti EFTA við Indland námu um 5,9 milljörðum evra árið 2022. Þar af námu viðskipti Íslands og Indlands um 147 milljónum evra eða 22 milljörðum íslenskra króna. Fríverslunarviðræður eru nú í gangi á milli Indlands og ESB, Bretlands, Kanada og Ísraels. Þá gerði Indland nýlega fríverslunarsamning við Ástralíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin (UAE). Indverjar standa að vissu leyti á tímamótum þar sem stjórnvöld hafa þurft að horfast í augu við nýjan veruleika í alþjóðastjórnmálum og leitast markvisst við að lenda ekki í utanríkispólitískri einangrun vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þannig má segja að stjórnmálaástandið í heiminum hafi fært Indland nær Vesturlöndum. Því eru uppi góðar aðstæður til að nýta þennan meðbyr og auka samstarf milli Indlands og EFTA-ríkjanna.
    Heimsókn þingmannanefndar EFTA til Indlands var sem fyrr segir liður í að auka skilning á og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamnings ríkjanna. Í Delí átti sendinefndin fundi í indverska þinginu með Om Birla, forseta neðri deildar þingsins, auk funda með fulltrúum viðskiptanefndar og utanríkismálanefnd þingsins. Þá átti nefndin fund með Piyush Goyal, viðskipta- og iðnaðarráðherra Indlands, og Sanjay Varma, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins (Secretary West). Sendinefndin fundaði jafnframt í Delí og Mumbai með aðilum vinnumarkaðarins, hugveitum, alþjóðastofnunum, verkalýðsfélögum og sendiherrum EFTA-ríkjanna í landinu. Íslenska sendinefndin átti jafnframt fund með Gul Kripalani, aðalkjörræðismanni Indlands í Mumbai.
    Formaður þingmannanefndar EFTA hélt framsögu á öllum fundum þar sem áhersla var lögð á þann ávinning sem fríverslunarsamningur gæti skilað. Samskipti EFTA-ríkjanna og Indlands væru góð og fríverslunarsamningur myndi ekki aðeins stuðla að auknum viðskiptum heldur myndu samskipti ríkjanna um leið verða skýrari og formfastari.
    Á fundunum gafst formönnum einstakra landsdeilda kostur á að taka upp tvíhliða áherslur. Ingibjörg Isaksen lagði áherslu á að Ísland liti svo á að fríverslunarsamningur milli ríkjanna fæli í sér gagnkvæman ávinning. Hún sagði Ísland og Indland deila sameiginlegum gildum, þ.m.t. virðingu fyrir lýðræði og mikilvægi þess að stuðla að sjálfbærri framtíð okkar allra. Ríkin tvö hefðu notið góðs af samvinnu milli landanna, m.a. á vettvangi Jarðhitaskóla og Sjávarútvegsskóla UNESCO (GRÓ). Þá væri starfandi sérstakur verkefnishópur (e. task force) sem hefði það hlutverk að fara yfir samstarfsmöguleika í nýtingu jarðvarma. Mikil tækifæri væru fyrir hendi til að auka samstarf Íslands og Indlands í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Sem dæmi nefndi Ingibjörg að áhugavert gæti verið að skoða hvort lausnir á borð við þær sem Carbfix og Carbon Recycling International hefðu fram að færa gætu nýst á Indlandi.
    Viðmælendur sendinefndar EFTA á fundum á Indlandi voru jákvæðir gagnvart aukinni efnahagssamvinnu við Indland. Ríkið væri að styrkja tengsl sín á alþjóðavettvangi og nú væru allar forsendur fyrir hendi til að klára fríverslunarviðræðurnar innan tveggja ára.

Fylgiskjal IV.
    

FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Vaduz 27. júní 2023.

    
    Hefðbundinn sumarfundur þingmannanefndar, ráðgjafarnefndar og ráðherra EFTA fór fram í Vaduz í Liechtenstein auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafarnefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Ingibjörg Isaksen, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, ritara.
    Á fundi ráðherra EFTA með þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd samtakanna fjallaði fyrsti dagskrárliðurinn um græna tækni og styrkjakerfi á heimsvísu. Rætt var um tengsl loftslagsbreytinga og viðskipta. Hæst bar umræður um umfangsmikinn löggjafarpakka Bandaríkjanna (e. Inflation Reduction Act) sem hefur það að markmiði að draga úr verðbólgu. Græn orkuskipti og stuðningur við grænan iðnað eru þó undirliggjandi meginmarkmið löggjafarinnar. Samhljómur var um að mikilvægt væri að finna lausn sem tryggja myndi samkeppnishæfni Evrópu. Þá væri nauðsynlegt að þær lausnir sem Evrópusambandið og Bandaríkin kæmu til með að semja um myndu jafnframt taka til EFTA-ríkjanna innan EES.
    Í Schaan var sérstök athöfn þar sem fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Moldóvu var undirritaður. Viðræður um samninginn hófust vorið 2021 og er þetta í fyrsta skipti sem fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna inniheldur sérstakan kafla um rafræn viðskipti.
    Næst var fjallað um stöðu mála í Úkraínu. Á fundinum í Schaan var sérstök athöfn til að marka upphaf fríverslunarviðræðna við Úkraínu um endurbættan og nútímalegri fríverslunarsamning. Samhljómur var um að um mikilvægt skref væri að ræða. EFTA-ríkin hefðu sýnt Úkraínu stuðning í verki, m.a. með því að kalla eftir að Rússland léti af árásum á Úkraínu og með þátttöku í þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússlandi. Þá hefðu EFTA-ríkin fordæmt aðkomu Hvíta-Rússlands að stríðinu. Þorgerður Katrín kallaði eftir því að ráðherrar EFTA-ríkjanna myndu sammælast um að fella niður tolla á landbúnaðarvörur frá Úkraínu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, sagði mikilvægt að samningaviðræður um fríverslunarsamninginn yrðu skjótar og skilvirkar. Úkraínumenn væru að berjast fyrir frelsi Evrópu.
    Þá var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA við Indland. Fram kom að heimsókn þingmannanefndar EFTA til Indlands í apríl sl. hefði verið farsæl og stutt við fríverslunarviðræðurnar. Hápunktur heimsóknarinnar hefði verið fundur með Piyush Goyal, efnahags- og iðnaðarráðherra Indlands. Fram kom að fyrsti ráðherrafundur Indlands og EFTA-ríkjanna hefði átt sér stað 26. apríl sl. Þeim fundi hefði verið fylgt eftir með öðrum ráðherrafundi 14. maí sl. Þá væri næsta samningalota áætluð í byrjun júlí. Viðræðurnar væru þó óformlegar þar sem Goyal hefði enn ekki tilkynnt um formlega endurupptöku samningaviðræðna. Þó væri ljóst að Indland væri áhugasamt og glugginn til viðræðna væri opinn fram á haust þegar kosningabarátta fyrir þingkosningarnar 2024 hefst.
    Næst var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA. Fyrst var rætt um Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Fram kom að staðan á alþjóðavettvangi hefði breyst verulega frá því síðustu samningaviðræðum lauk árið 2019. Síðan þá hefðu forsetakosningar farið fram í Brasilíu og kosningar væru fram undan í Argentínu. Samhljómur var um að mikilvægt væri fyrir EFTA-ríkin að fylgjast náið með þróun mála í álfunni og vera tilbúin að stökkva til ef hentug tækifæri sköpuðust til frekari viðræðna. Fram kom að nokkurrar bjartsýni gætti um gang fríverslunarviðræðna við Síle og stefnt væri á lokasamningalotu í nóvember nk. Samningaviðræður við Víetnam hefðu aftur á móti gengið hægt undanfarin ár en greina mætti nýjan og jákvæðari tón sem skapaði væntingar um skilvirkara framhald viðræðna. Þá hefðu viðræður við Mexíkó hafist að nýju í febrúar 2022 með það að markmiði að nútímavæða fríverslunarsamninginn frá 2001. Nýleg ráðherraskipti í Mexíkó hefðu þó falið í sér miklar breytingar á skipulagi efnahagsráðuneytisins svo að óvissu gætti um framhald viðræðna. Loks kom fram að engar samningaviðræður væru í gangi við Nýja-Sjáland og Ástralíu og litlar væntingar um að sú staða kæmi til með að breytast á næstunni.
    Að síðustu var stuttlega rætt um þau ríki sem EFTA-ríkin hafa flokkað sem líklega viðsemjendur á næstu misserum, Singapúr, Malasíu og Samband ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN). Sérstaklega var áréttað að töluverður framgangur væri í viðræðum milli EFTA-ríkjanna og Singapúr um samning um stafrænt hagkerfi og að vonir stæðu til að hægt væri að ljúka þeim viðræðum á næstunni.

Fylgiskjal V.
    

FRÁSÖGN
af fundum þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Brussel 21.–22. nóvember 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Ingibjörg Isaksen, formaður, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk Eggerts Ólafssonar, ritara.
    Í Brussel átti þingmannanefnd EFTA fund með fulltrúa ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál og fund með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið, viðbrögð við stríðinu í Úkraínu o.fl. Að auki hélt þingmannanefndin eigin fund auk sameiginlegs fundar með ráðgjafarnefnd EFTA.
    Á fundi með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES var farið yfir stöðu alþjóðastjórnmála og stöðu EES-svæðisins og EFTA-ríkjanna í því samhengi. Ljóst væri að bakslag væri í alþjóðavæðingu sem hefði áhrif á alþjóðaviðskipti EFTA. EES-samningurinn stæði hins vegar traustum fótum en samningurinn verður 30 ára á næsta ári og verður það nýtt til að vekja athygli á honum. Hvað varðar framkvæmd samningsins og þátttöku í ákvörðunarferli ESB þá væri mikilvægt að EFTA-ríkin kæmu athugasemdum um tiltekin mál til ESB sem fyrst í ferlinu í formi sameiginlegra umsagna. Ingibjörg Isaksen spurði hvað þingmenn landanna gætu gert til að koma þessum athugasemdum á framfæri. Var það mat ráðherranna að gagn gæti verið að því en gæta þyrfti að því að skilaboðin væru samræmd. Því næst var rætt um stöðu mála í Úkraínu og mikilvægi þess að áfram væri stutt við landið eftir innrás Rússa sem EFTA-ríkin hefðu fordæmt. Þá var fjallað um nauðsyn þess að EFTA-ríkin verði reiðubúin að aðstoða landið við uppbyggingu á forsendum heimamanna þegar kemur að endurreisn þess eftir að stríðinu lýkur. Loks var rætt um viðræður við ESB um framlög í uppbyggingarsjóð EFTA. Þeim verður lokið síðar á árinu og verður útkoman ásættanleg fyrir báða aðila. Diljá Mist Einarsdóttir spurði um viðræður um markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir sem eiga sér stað samhliða viðræðum um uppbyggingarsjóðinn. Svaraði utanríkisráðherra Íslands því til að markmiðið væri ávallt að ná sem mestum markaðsaðgangi og reynt verði að ná sem lengst í þeim efnum.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með formanni ráðherraráðs EFTA talaði Helene Budliger Artieda, ráðuneytisstjóri efnahagsráðuneytis Sviss, fyrir hönd EFTA-ríkjanna og fjallaði um yfirstandandi fríverslunarviðræður EFTA við þriðju ríki. Í kjölfar beiðni Úkraínu um uppfærslu fríverslunarsamnings við EFTA frá 2010 var tilkynnt um upphaf viðræðna á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Schaan í júní á þessu ári. Fyrsta samningalota er fyrirhuguð á fyrri hluta árs 2024 og er markmiðið bæði að uppfæra samninginn og bæta nýjum köflum við. Viðræður við Asíuríkin Indland, Taíland, Malasíu og Víetnam eru yfirstandandi og á þessu ári hófust viðræður við Singapúr um samning á sviði stafræna hagkerfisins. Þegar kemur að Ameríkuríkjum eru samningaviðræður við Mercosur-löndin og Síle enn yfirstandandi og er vonast til að þeim geti lokið bráðum. Hins vegar hafa viðræður við Mexíkó legið í dvala.
    Á eiginlegum fundi þingmannanefndar EFTA var einnig fjallað um áætlun um alþjóðlega gátt ESB ( The EU Global Gateway) sem miðar að því að auka fjárfestingar ESB á sviði stafrænna mála sem og umhverfis-, samgöngu- og heilbrigðismála sem og í rannsóknir og þróun. Þá var rætt um stefnu ESB á sviði efnahagsöryggis sem miðar að því að Evrópa verði ekki háð öðrum löndum um innflutning á mikilvægum vörum. Þá var rætt um stjórnmálaþróun í EFTA-ríkjunum og gerði Ingibjörg Isaksen grein fyrir jarðhræringum á Reykjanesskaga, viðbrögðum við þeim og samþykkt löggjafar um vernd innviða.
    Í tengslum við fundina í Brussel átti þingmannanefnd EFTA ásamt ráðgjafarnefnd EFTA fundi með gestum um eftirfarandi efni: Stuðningur ESB við Úkraínu, efnahagsstuðningur og aðgangur landsins að Evrópumarkaðinum; Þróun öruggrar gervigreindar í Evrópu og víðar; Horfur í Evrópuþingskosningum 2024; Möguleikar á stækkun Evrópusambandsins og hugsanlegar breytingar á stofnanaumhverfi þess.

Fylgiskjal VI.
    

FRÁSÖGN
af fundi þingmannanefndar EES í Vaduz 15. desember 2023.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES sóttu fundinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, Diljá Mist Einarsdóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, auk Eggerts Ólafssonar, ritara.
    Fundurinn hófst með opnunarávarpi Dr. Graziella Marok-Wachter, innviða- og dómsmálaráðherra Liechtenstein. Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að viðhalda góðu gengi samningsins og mikilvægi þátttöku þingmanna í því sambandi.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögu um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Pascal Schafhauser, fyrir hönd formennsku EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni og EES-ráðinu, Borja Cortés-Bretón Brinkmann, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, og Thomas McClenaghan, fyrir hönd formennsku ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Í erindum þeirra og umræðu fundarmanna var fjallað um áherslumál Evrópusambandsins sem snúa að því að auka samkeppnishæfni innri markaðarins. Þá var fjallað um mikilvægi EES-samningsins, sér í lagi í ljósi ástandsins í Úkraínu og í Mið-Austurlöndum, og nýtt samkomulag um framlög í uppbyggingarsjóð EES. Rætt var um fjölda stjórnskipulegra fyrirvara í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hvernig mætti auka skilvirkni mála í þingum EFTA–EES-ríkjanna. Loks var þess getið að á árinu 2024 mun EES-samningurinn hafa verið í gildi í þrjátíu ár. Þeim áfanga og árangri sem náðst hefur yrði fagnað sérstaklega.
    Næst var fjallað um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins fyrir árið 2022. Í skýrslunni segir m.a. frá um samvinnu ESB og EFTA–EES-ríkjanna við að styðja við Úkraínu. Einnig var fjallað um upptöku gerða er varða COVID-19 og almenningsflug og aðgerðaáætlun um að taka upp í samninginn gerðir sem hefðu verið útistandandi um nokkurt skeið. Það hefði leitt til þess að gerðir um fjármálaþjónustu hefðu verið teknar upp í samninginn. Þingmannanefnd EES samþykkti ályktun um ársskýrsluna.
    Næst var fjallað um tvær tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem er ætlað að hraða þróun stafrænnar og umhverfisvænnar tækni á innri markaðinum, annars vegar tilskipun um kolefnishlutlausan iðnað ( Net Zero Industry Act) og hins vegar reglugerð um mikilvægar hrávörur ( Critical Raw Materials Act). Frummælendur um fyrri gerðina voru Evrópuþingmaðurinn Christophe Grudler, sem jafnframt er varaframsögumaður málsins í Evrópuþinginu (e. shadow rapporteur) og tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Grudler fjallaði um afstöðu og áherslur Evrópuþingsins í tengslum við þríhliða viðræður þess, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar sem myndu brátt hefjast. Stefnt væri að því að tillagan yrði samþykkt áður en kosningar til Evrópuþingsins fara fram 2024. Í ræðu sinni fjallaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir um sameiginlega umsögn EES–EFTA-ríkjanna um tillögu þessa sem birt var 11. desember 2023. Í umsögninni kemur fram að EES–EFTA-ríkin séu sammála markmiðum um að styrkja framleiðslugetu Evrópu til að laða að fjárfestingu og styðji tillöguna í meginatriðum. Þó gera ríkin ákveðnar athugasemdir og tillögur um breytingar. Sérstök áhersla er lögð á að verkefni á sviði kolefnisbindingar eigi að falla undir gildissvið tilskipunarinnar en Ísland og Noregur séu brautryðjendur á þessu sviði. Í kjölfarið fóru fram almennar umræður um gerðina og spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir um kjarnorku og hvort hún myndi falla undir tilskipunina. Það var sagt líklegt þar sem hún losaði ekki koltvísýring í andrúmsloftið. Hins vegar væri ljóst að skiptar skoðanir væru um notkun slíkrar orku í ríkjum ESB og væri undir hverju og einu þeirra komið hvort framleiðsla hennar færi fram.
    Frummælendur um seinni gerðina voru Evrópuþingmaðurinn Hildegard Bentele, sem jafnframt er varaframsögumaður málsins í Evrópuþinginu og tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað, og norski þingmaðurinn Trine Lise Sundnes. Gerð þessi hafði verið samþykkt vikunni áður af stofnunum ESB. Í máli frummælenda var fjallað um markmið reglugerðarinnar, að auka samkeppnishæfni innri markaðarins, og þær breytingar sem hún gerir. Með gerðinni eru hráefni, sem talin eru mikilvæg fyrir lykiltæknisvið, skilgreind og eru sett ákvæði sem er ætlað að styrkja framleiðslu þeirra innan Evrópu sem og að bæta virðiskeðjur og dreifa innflutningi frá þriðju ríkjum. Fjallað var um umsögn EES–EFTA-ríkjanna um gerðina og rætt um tengsl gerðarinnar við reglur um hringrásarkerfið. Þá var rætt um þörfina á því að veita neytendum upplýsingar um hvaðan hráefnin í tæknivörum koma þannig að þeir geti verið meðvitaðir um umhverfisáhrifin af framleiðslu þeirra.
    Að síðustu var fjallað um þvingunarráðstafanir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Framsögumenn voru Klaus Wiedner, skrifstofustjóri hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (DG FISMA) sem tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað, og Michael Schöb, yfirmaður fjármálagreiningadeildar Liechtenstein. Í máli sínu rakti Klaus Wiedner sögu þessara þvingunarráðstafana og árangurinn sem þær hafa haft til þessa. Hann fjallaði um þær áskoranir sem horfa þyrfti til svo að aðgerðir af þessu tagi nái markmiðum sínum en unnið væri að því að auka þekkingu og getu á þessu sviði. Þá fjallaði hann um tólfta aðgerðapakkann sem var til umræðu innan stofnana Evrópusambandsins. Honum væri ætlað að hafa áhrif á alþjóðaviðskipti Rússlands og skipaflota sem tengdir eru Rússlandi og flytja vörur til eða frá landinu án þess þó að vera skráðir þar í landi. Þá væru frekari aðgerðir í bígerð til þess að frysta fjármuni, sem eru í eigu rússneskra aðila, og hagnað af viðskiptum þeirra. Lagði hann áherslu á að EFTA-ríkin og Evrópusambandið væru samstiga í þessum aðgerðum. Michael Schöb fjallaði um skipulag fjármáladeildarinnar í Liechtenstein, hvernig þvingunaraðgerðir væru innleiddar og framkvæmdar þar í landi.