Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1136  —  755. mál.




Beiðni um skýrslu


frá matvælaráðherra um gjaldtöku í sjókvíaeldi.


Frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Ingibjörgu Isaksen, Ágústi Bjarna Garðarssyni, Þórarni Inga Péturssyni, Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni, Eyjólfi Ármannssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni og Ingu Sæland.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að matvælaráðherra flytji Alþingi skýrslu um gjaldtöku í sjókvíaeldi. Í skýrslunni komi fram:
     a.      yfirlit yfir heildargjaldtöku af sjókvíaeldi frá árinu 2018 og undir hverju tekjunum var ætlað að standa, sem og hvernig þeim tekjum hefur verið skipt á milli ríkis og sveitarfélaga,
     b.      hvernig tekjur af gjaldtöku hafi skilað sér til uppbyggingar á nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og hvort og þá hvernig tryggt sé að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga í samræmi við kröfur um sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.

Greinargerð.

    Sjókvíaeldi er nýleg atvinnugrein hér á landi sem hefur byggst hratt upp undanfarinn áratug. Fari framleiðsla í hámarksmagn samkvæmt burðarþolsmati svæða sem fiskeldinu eru afmörkuð er talið að útflutningsverðmætið verði nær 65 milljörðum kr. Í dag er útflutningsverðmæti um 40 milljarðar kr. árlega og starfa um 600 manns í atvinnugreininni. Fjárfesting upp á tugi milljarða króna er bundin í greininni og frekari fjárfesting bíður þess að fá leyfi til rekstrar. Útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda. Innviðir þurfa að vera fyrir hendi til að styðja við uppbyggingu greinarinnar sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt greinarinnar og sem mestan ávinning af henni.
    Árið 2004 ákváðu stjórnvöld að sjókvíaeldi yrði einungis leyft á hluta Austfjarða og Vestfjarða og í Eyjafirði. Sú ákvörðun byggðist á því að vernda þyrfti ár þar sem stundaðar væru veiðar á villtum laxi. Frá þeim tíma hafa sveitarfélög á Vestfjörðum og Austfjörðum sem hýsa þessa starfsemi unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla. Sveitarfélögin njóta þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist með hlutfallslegri fjölgun yngra fólks. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir fyrir sveitarfélög svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu. Því er mikilvægt að hugað sé að gjaldtöku af greininni með það að markmiði að styrkja nærsamfélögin.
    Í janúar 2023 kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis sem innihélt stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi og sneri hún að lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti með eldinu. Þar komu fram ábendingar um að endurskoða þurfi lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019. Staðfest er í skýrslunni að ör vöxtur greinarinnar hafi leitt til áskorana og áhyggjuefna og má þar helst nefna mikla og fjármagnsfreka innviðauppbyggingu sveitarfélaga til að styðja við lagareldi og starfsfólk þess. Skortur á fjárfestingum í innviðum síðastliðna áratugi gerir þessa áskorun enn stærri. Þá hefur verið vöntun á sanngirni í gjaldtöku og hlutfalli þeirra tekna sem renna til sveitarfélaga ásamt því að gjaldtaka hefur ekki verið í samhengi við umfang, nýtingu á sameiginlegum auðlindum og kostnað við eftirlit með starfseminni. Auk þess eru lög um hafnargjöld ekki löguð sérstaklega að lagareldi sem aftur getur leitt til óheilbrigðrar samkeppni milli sveitarfélaga sem vilja laða að sér lagareldi og vinnslu. Bent er á að öryggi tekjustrauma í tengslum við lagareldi sé takmarkað og þrátt fyrir fjármagnsfreka innviðauppbyggingu sé lítið sem hindri fyrirtæki í að flytja starfsemi sína í burtu, t.d. slátrun, auk þess sem skortur sé á íbúðarhúsnæði, félagslegum innviðum og þjónustu við starfsmenn í lagareldi og fjölskyldur þeirra. Að lokum var bent á að núverandi fyrirkomulag úthlutunarkerfis á gjöldum fyrir fiskeldi (fiskeldissjóður) skapi samkeppni milli sveitarfélaga, íþyngi stjórnsýslu þeirra og geri þeim erfitt um vik að ráðast í þær langtímafjárfestingar sem þörf er á.
    Með þessari skýrslubeiðni er kallað eftir yfirliti um heildargjaldtöku af sjókvíaeldi frá árinu 2018 og hvernig skipting á þeim tekjum hefur verið milli sveitarfélaga og ríkisins á ári frá þeim tíma. Þá er kallað eftir upplýsingum um það hvort tekjur af gjaldtökunni hafi skilað sér til uppbyggingar á nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga í samræmi við kröfur um sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.