Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1166  —  582. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um fullnustu dóma.


     1.      Um hvers konar kynferðisbrot var að ræða í fjórum fangelsisdómum fyrir kynferðisbrot sem höfðu fyrnst síðastliðinn áratug, sbr. skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun, og hversu þungir dómar höfðu fallið í þeim?
    Dómarnir sem um ræðir vörðuðu brot gegn 209. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og voru dæmdar refsingar almennt á bilinu níu mánaða til tveggja ára fangelsi. Ráðuneytið telur ekki unnt að veita frekari upplýsingar er það varðar þar sem tilvikin eru það fá að um persónugreinanlegar upplýsingar gæti verið að ræða.

     2.      Um hvers konar ofbeldisbrot var að ræða í alls 31 dómi fyrir ofbeldisbrot sem höfðu fyrnst á sama tímabili og hversu þungir dómar höfðu fallið í þeim?
         Dómarnir sem um ræðir vörðuðu brot gegn 1. mgr. 106. gr., 1. mgr. 217. gr., 1. og 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga og voru dæmdar refsingar almennt á bilinu fjögurra til 24 mánaða fangelsi. Ráðuneytið telur ekki unnt að veita frekari upplýsingar er það varðar þar sem tilvikin eru það fá að um persónugreinanlegar upplýsingar gæti verið að ræða.

     3.      Telur ráðherra boðlegt að vegna vanfjármögnunar hafi fangelsi landsins ekki burði til að framfylgja niðurstöðum dómstóla og fullnusta refsidóma?
    Að mati ráðherra er óboðlegt að dæmt fólk komist hjá refsingum vegna þess að fangelsiskerfið hafi ekki tök á að boða dómþola í afplánun. Dómsmálaráðuneytið hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að stytta boðunarlista og þá hefur auknum fjármunum verið veitt í málaflokkinn, m.a. til að geta fullnýtt þau pláss sem þegar eru til staðar í fangelsum. Það er þó mat ráðherra að grípa þurfi til enn frekari aðgerða, en ráðuneytið er t.d. að hefja vinnu við heildstæða stefnumótun þegar kemur að málaflokknum. Markmiðið er að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti svo að unnt sé að tryggja bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif refsinga en einnig til að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að endurhæfingu og aðlögun dómþola að samfélaginu. Meðal þess sem er til skoðunar er möguleiki á fjölbreyttari fullnustuúrræðum og að greina stöðuna í húsnæðismálum með langtímasjónarmið í huga.

     4.      Um hversu margra ára skeið hefur Fangelsismálastofnun sætt niðurskurðarkröfum?
    Frá árinu 2005 og til ársins í ár hefur verið gerð hagræðingarkrafa til Fangelsismálastofnunar, að undanskildum árunum 2006 og 2017. Þó er rétt að benda á að nýjum verkefnum hefur oft fylgt fjármagn, til dæmis var byggt nýtt fangelsi á Hólmsheiði á þessum tíma. Í fjáraukalögum 2022 var samþykkt 150 millj. kr. framlag til styrkingar starfseminni og árið 2023 var lagt til um 300 millj. kr. fjárveiting til að mæta veikleikum í rekstri Fangelsismálastofnunar.
    Þá er rétt að nefna að nýlega hefur ráðherra kynnt stórtækar umbætur í fangelsismálum, með uppbyggingu nýs fangelsis og fjölgun rýma í fangelsinu á Sogni. Samhliða umbótum á innviðum fangelsiskerfisins, sem framangreindar aðgerðir fela sannarlega í sér, verður farið í endurskoðun fullnustulaga með áherslu á endurhæfingu og nútímalega nálgun.