Ferill 868. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1302  —  868. mál.




Beiðni um skýrslu


frá matvælaráðherra um skeldýrarækt.


Frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Þórarni Inga Péturssyni, Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, Stefáni Vagni Stefánssyni, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, Ágústi Bjarna Garðarssyni, Kristni Rúnari Tryggvasyni og Halldóru K. Hauksdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að matvælaráðherra flytji Alþingi skýrslu um skeldýrarækt. Í skýrslunni komi fram:
     a.      umfang skeldýraræktar frá árinu 2011,
     b.      áhrif laga um skeldýrarækt, nr. 90/2011, á greinina,
     c.      munur á regluverki, gjaldskrám og leyfum eftir stærð skeldýraræktar,
     d.      samanburður á starfsumhverfi og samkeppnishæfni við önnur Evrópulönd,
     e.      kröfur sem gerðar eru um sýnatöku og með hvaða hætti stjórnvöld geti einfaldað það ferli,
     f.      framtíðarsýn ráðherra að því er varðar skeldýrarækt.

Greinargerð.

    Í skeldýrarækt felst ræktun skeldýra með skipulegri umhirðu og vöktun á afmörkuðu svæði þar sem engin fóðrun á sér stað. Hluti af ræktun er einnig skipuleg söfnun og veiði á skeldýrum til áframhaldandi ræktunar. Sú skeldýrarækt sem helst hefur verið stunduð á Íslandi er línurækt. Umfang hennar hefur verið lítið en einna mest í kræklingarækt. Þá hafa verið stundaðar tilraunir með ostrurækt. Ræktun skelfisks hefur átt erfitt uppdráttar hérlendis sökum mikils eftirlitskostnaðar, en nefna má að í Danmörku er fastur kostnaður vegna eftirlits tengdur umfangi framleiðslu. Skeldýrarækt er mjög umhverfisvæn og til hennar þarf hvorki áburð né fóður heldur einungis sjó. Aðstæður hér við land eru fullkomnar til skeldýraræktar, sem er ein sjálfbærasta matvælaframleiðsla sem völ er á. Mikilvægt er að auka framleiðslu á matvælum sem hægt er að rækta á sjálfbæran hátt. Þótt gríðarleg tækifæri felist í aukinni skeldýrarækt er ekkert fjallað um framtíðarmöguleika hennar í nýlegri skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þess vegna er brýnt að safna saman fjölbreyttum upplýsingum um greinina á einn stað.