Ferill 823. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1503  —  823. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa ráðuneytið og stofnanir þess boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo er, hvernig hefur henni verið háttað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra sjá til þess að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess fái slíka fræðslu?

    Menningar- og viðskiptaráðuneyti hefur bókað námskeið á vegum Samtakanna '78 sem snýr að fjölbreytileika, orða- og hugtakanotkun og hatursorðræðu. Vonast ráðherra til að þýðing á tilskipun Evrópuráðsins um skyldur aðildarríkja til að vinna gegn hatursumræðu verði þýdd og hugtakið í framhaldi af þeirri vinnu skilgreint á íslensku ásamt því sem viðeigandi fræðsla verði í boði.
    Varðandi fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur á vegum stofnana ráðuneytisins þá hafa Ríkisútvarpið ohf., Þjóðleikhúsið og Þjóðskjalasafn Íslands boðið upp á slíka fræðslu. Í svari Ríkisútvarpsins ohf. kom fram að um væri að ræða margvíslega fræðslu þar sem komið hefði verið inn á þætti sem eru tengdir kynþáttum, fötlun, kynjum, hinseginleika o.s.frv. og varða öráreiti og fordóma í íslensku samfélagi. Í svari Þjóðleikhússins kom fram að haustið 2023 hefði stofnunin fengið fræðsluerindi frá Auðnast, Samtökunum '78 og REC Arts Reykjavík um samskipti, fjölbreytileika, hinseginleika og inngildingu. Í svari Þjóðskjalasafns Íslands kom fram að nú síðast hefði verið boðið upp á vinnustofu um fjölbreytileika, fordóma og hvernig hægt væri að stuðla að inngildandi vinnustaðamenningu. Áður hafði verið boðið upp á fræðsluerindi um svipað efni.
    Aðrar stofnanir ráðuneytisins hafa ekki boðið upp á markvissa fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur. Ráðuneytið hefur hins vegar hvatt til að hennar verði aflað.
    Þess má geta að í svari fjölmiðlanefndar við fyrirspurninni kom fram að starfsmenn hennar hefðu verulega þekkingu á hatursorðræðu en hún væri umfjöllunarefni á nær öllum ráðstefnum og erlendum fundum sem sóttir væru. Fjölmiðlanefnd hefði eftirlit með 27. gr laga um fjölmiðla sem tekur á hatursorðræðu í fjölmiðlum og hefði það lögbundna hlutverk að stuðla að auknu miðlalæsi. Hluti af þeirri fræðslu byggðist á rannsóknum sem nefndin léti gera reglubundið til að kanna hvort fólk teldi sig verða fyrir hatursorðræðu. Fjölmiðlanefnd hefði því lögbundið fræðsluhlutverk í þessum efnum gagnvart öllum aldurshópum.
    Þá upplýsti Ferðamálastofa um að hún hefði fengið kynningu frá Samtökunum '78 þar sem einnig hefði verið komið inn á hatursorðræðu.
    Í svörum Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. og Þjóðminjasafns Íslands kom fram að til stæði að fræðsla á vegum Samtakanna '78 færi fram á næstunni.