15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5327 í B-deild Alþingistíðinda. (4607)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er þéttskipaður fundarsalur og okkur ekkert að vanbúnaði að halda áfram umræðu um þetta mikilsverða mál. Eins og fram hefur komið í ræðum flestra ef ekki allra þeirra hv. þm. og hæstv. ráðh. sem hér hafa talað er hér á ferðinni mjög þýðingarmikið mál, sem getur haft mikil áhrif á stöðu landbúnaðar á Íslandi, rétt eins og þau lög sem í gildi eru, forveri þessara, hafa um áratuga skeið haft veruleg áhrif á alla starfsemi landbúnaðarins í landinu. Það gefur því auga leið að þegar breytt er í grundvallaratriðum sjálfri vinnulöggjöfinni fyrir heila atvinnugrein er í talsvert mikið ráðist og því mikið í húfi að vel takist til. Ég er þess vegna ekki alveg nógu vel sáttur við þá röksemdafærslu hæstv. landbrh. að það eigi að nægja efnislega — eins og ég skildi hann, ég tek það fram að ég er ekki að hafa orðrétt eftir-en efnislega eitthvað á þá leið að svo margt horfi til bóta í þessu frv. frá þeirri skipan mála sem fyrir er að það hljóti að duga hv. þm. til þess að styðja framgang málsins. Ég er ekki ánægður með þessa röksemdafærslu eða þesslegan þankagang vegna þess að ég held að hv. Alþingi eigi að setja sér rishærri metnað en þann að sættast á framgang mála vegna þess að þau horfi nokkuð til bóta. Aðeins það besta er nógu gott að mínu mati í þessum efnum, hæstv. landbrh. Við skulum leita þeirra lausna sem við teljum bestar og sætta okkur ekki við neitt minna.

Ég er reyndar sammála því að það eru viss atriði í þessu frv. sem horfa til bóta frá því fyrirkomulagi sem fyrir er. Og út af fyrir sig, ef við færum ofan í efnisatriði frv., þá er ég tilbúinn til að tíunda þau eins og þau koma hér fyrir sjónir nú. En að sama skapi held ég að hér séu önnur atriði sem ekki horfi til bóta, fari jafnvel í öfuga átt, og þar með er mér það engan veginn nóg röksemdafærsla að stuðla betur að þessu frv., gera það að lögum nú með sem minnstum töfum, vegna þess að þar sé að finna ákveðin jákvæð atriði. Ég hygg að það megi nefnilega einnig finna hin, sem séu afturför frá þeim lögum sem fyrir eru, eða þá lakari kostur en ýmis önnur tilhögun mála gæti gefið tilefni til, hvort sem hún er nú fyrir í lögum eður ei.

Ég get viðurkennt það hér, herra forseti, að ég hef ekki lesið þetta frv., sem kom hér á borðin í gær, mjög ítarlega í gegn, ósköp einfaldlega vegna þess að allan síðasta sólarhring hef ég verið mjög önnum kafinn við störf hér á hv. Alþingi, var t. d. á nefndarfundum langt fram eftir í gær og hóf þegar störf árla í morgun, þannig að mér er vonandi nokkur vorkunn. Ég hef einnig ekki sett mig eins vel inn í þau drög sem við fengum í hendur, eins og rétt er hermt hjá hæstv. landbrh., fyrir um mánuði síðan, ósköp einfaldlega vegna þess að það lá fyrir að á þeim yrðu gerðar talsverðar breytingar, og önnum köfnum þm. hlýtur að fyrirgefast nokkuð þó að þeir eyði ekki miklum tíma í að kynna sér drög sem síðan birtast í talsvert breyttri mynd í þinginu, því að það gæti að einhverju eða kannske verulegu leyti verið tímasóun, og ekki ber að mæla með slíkri ráðstöfun á tíma hv. alþm. þegar þingannir eru sem mestar á vordögum.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh. að það er e. t. v. ekki ástæða til þess að fara yfir það ítarlega hér að hve miklu leyti athugasemdir og ábendingar stéttarsambandsþings og sexmannanefndar þess hafa verið teknar til greina. En það er óhjákvæmilegt að það verði gert og þá í þingnefnd, og það vekur aftur upp spurningarnar um það hversu mikill tími hv. landbn. þessarar deildar verður ætlaður til að sinna þessu verki. Hæstv. ráðh. svaraði ekki beinlínis þeirri spurningu minni hvort hann eða hæstv. ríkisstj. væri ekki til viðræðna um að fresta afgreiðslu þessa máls og setja niður vinnunefnd allra flokka til að fara yfir það og vinna það áfram í samráði við bændur og aðra hagsmunaaðila í þessu máli. Ég hefði gjarnan viljað fá þá hreint afsvar við þeirri formlegu beiðni minni, formlegu ósk minni hér, sem ég hygg að ég megi bera fram í nafni míns þingflokks, að við teldum það æskilegri málsmeðferð en þá sem hér er til lögð.

Það væri auðvitað fullt tilefni til að ræða stöðu landbúnaðarins í heild sinni og stöðu bænda í tengslum við þetta frv. Ég efast um að okkur gefist, herra forseti, annað vænlegra tækifæri til þess en í umr. um þetta mál, kannske ekki endilega 1. umr. sem hér fer fram, en allavega þegar það verður hér á dagskrá síðar. Ég innti eftir því hvað annað væri væntanlegt af hálfu hæstv. ríkisstj. í málefnum landbúnaðar og við því komu lítil svör. Ég náði ekki að nema það af munni hæstv. landbrh. að fleiri málefni í formi tillöguflutnings á Alþingi væru væntanleg sem snerta landbúnaðinn. Ég bið hann þá að leiðrétta mig ef svo er. En auðvitað er óhugsandi að slíta slíka löggjöf, slíka heildarlagasetningu úr tengslum við stöðu atvinnugreinarinnar eins og hún er í dag.

Það er nú ekki næg réttlæting þess í mínum huga að þessi vinnubrögð séu fullnægjandi þó að framleiðsluráðslög, sem voru sett á árinu 1947 að mig minnir, hafi ekki fengið mikið meiri skoðun en ætla mætti að þetta mál fengi á þeim tíma sem eftir lifir þessa þings. Ég hef að vísu engar dagsetningar heyrt eða séð frá hæstv. ríkisstj. um það hvenær hún hugsar sér þinglausnir. En það hlýtur auðvitað að skipta nokkru máli, þegar svona viðamikil frumvörp koma inn í þingið á þessum tíma, að menn hafi einhverja hugmynd um það hvenær hæstv. ríkisstj. hugsar sér þinglausnir. Ég tel það skipta allverulegu máli. T. d. segi ég það persónulega fyrir mína hönd sem nm. í hv. landbn. þessarar deildar að það skiptir verulegu máli hvort við erum að tala um mánaðamótin maí-júní eða hvort við erum að tala um dagsetningu öðru hvoru megin við þjóðhátíð Íslendinga, þann 17. júní. Eða hugsar ríkisstj. sér jafnvel að láta þingið sitja enn þá lengur? Það virðist reyndar einsýnt ef hún ætlar að ná fram öllum sínum 70 óskum sem hún hefur á fróman hátt greint hv. Alþingi frá að hún hafi hug á að ná hér fram.

Nokkur orð voru látin falla hér um framleiðslustjórnunina og þann kafla þessara væntanlegu laga sem að henni lýtur. Ég lýsti þá þeirri minni skoðun að ég teldi að slík stjórnun næði ekki markmiðum sínum. hún væri í raun og veru engan veginn viðunandi og fullnægjandi fyrr en og ef hún tæki á því hver ætti að vera hin rekstrarlega arðbæra eining í landbúnaðinum. Ég nefndi fjölskyldubúið sem þá einingu sem ég taldi að ætti að stuðla að og þá á ég við það að með hóflegu vinnuálagi við bú af hóflegri stærð geti ein fjölskylda framfleytt sér af afurðum þess. Ég tek það einnig fram til að firra öllum misskilningi, af því að þetta var sérstaklega nefnt sem stefna Stéttarsambandsins og Framsfl., að þetta er einnig að sjálfsögðu stefna Alþb. og hefur lengi verið. En við höfum líka lagt á það áherslu og gerum enn að félagsbúskap, félagslegu formi á rekstri í landbúnaði sé einnig gert jafnhátt undir höfði. Ég tel það alveg einsýnt að eins og einni fjölskyldu á að vera gert kleift að hafa framfæri sitt á mannsæmandi hátt af búi af hóflegri stærð eigi fjölskyldum að vera gert jafnauðvelt skv. lögunum að leggja saman krafta sína og starfa í félagi að framleiðslunni. Hitt tel ég miklu meira efamál hvort á að ýta undir það eða leyfa það ótakmarkað að einstaklingar geti staðið fyrir stórrekstri í landbúnaði í eigin nafni, í nafni eins einstaklings, og ráðið jafnvel verulegt aðfengið vinnuafl með tilliti til þeirrar framleiðslustjórnar sem þegar hefur verið tekin upp. Það tel ég orka miklu meira tvímælis auk þess sem allt er nú ósannað um hagkvæmni þess búskaparforms. Einkum og sér í lagi tel ég að það sé ósannað í hinum hefðbundnu búgreinum.

Ég held að allir hv. þm. sjái hversu mikil áhrif þessi stefnumörkun getur haft á byggðastefnuna og búsetudreifinguna í landinu. Það gefur auga leið, ef menn leiða að þessu hugann, að hér er í raun og veru komið að grundvallaratriði hvað þetta varðar. Ég er mjög tregur til að taka undir það að það geti verið æskilegt markmið í sjálfu sér að fækka bændum í landinu. Ég verð að segja það alveg eins og er. Því að í því felst aðeins eitt, að ákveðnar sveitir, sem tæpt standa í dag. þær hrynja. Það getur bókstaflega ekkert annað gerst. Ef bændum fækkar á ákveðnum svæðum, eins og búsetan er orðin gisin í mörgum héruðum, þá getur ekkert annað gerst, ef menn stefna að ákveðinni fækkun, en að ákveðnar byggðir hrynja. Og þeim mun frekar sem mörg þessi jaðarsvæði með gisna byggð standa yfirleitt miklu tæpar en hin sem mættu kannske við því að missa einn og einn bónda úr keðjunni. Þannig er það því miður. Og ef ekki verður með einhverjum hætti tekið á þessu máli þá óttast ég að það verði þessar byggðir sem liði fyrir það og afleiðingin verði áframhaldandi byggðaröskun og hrun byggða á ákveðnum svæðum á landinu. Og það er í mörgum tilfellum þeim mun óheppilegra sem maður hugsar til þess að þar eru oft og tíðum bestu afréttarlöndin og beitilöndin fyrir hendi sem þyldu jafnvel aukningu á bústofni frekar en hitt.

Búreksturinn í landinu er ekki í fullu samræmi við landkostina í héruðum og landshlutum eins og þeir gefast og gerast. Þetta er vitað og að því ætti að stefna að mínu mati að reyna að ná þarna fullu samræmi. Því er oft haldið fram, um það hafa verið skrifaðar langar greinar og heilir leiðarar í dagblöð, að það sé í raun og veru bara misskilningur að hægt sé að halda uppi búskap á Íslandi. Þetta sé bara einhver þrái, einhver kergja, arfleifð frá gömlu tímunum þegar mönnum stóð ekkert annað til boða, en þetta sé í raun og veru bara misskilningur og vitleysa. Við séum hér á mörkum freðmýrabeltisins, eins og einn lærður ritstjóri skrifar oft um, og þess vegna sé þetta allt saman vitleysa. Ég hef haldið hinu gagnstæða fram og geri það enn. Ég held að það séu í raun og veru fá lönd sem séu jafn vel fallin til búskapar eins og Ísland. Ég hef búið í einu því landi þar sem framleiðslukostnaður landbúnaðarafurða er talinn vera hvað lægstur í heiminum, a. m. k. bjóða þarlendir sínar vörur á lægra verði en eiginlega nokkur önnur þjóð. Menn standa oft í þeirri meiningu að þar sé kjötið, ef svo má segja, tínt af trjánum, þetta geri sig allt sjálfkrafa, þar sé ekki við nokkra erfiðleika að etja á nokkurn hátt, þetta sé bara allt ein allsherjar sæla. En því fer fjarri. Landbúnaður í þeim löndum á líka við sína erfiðleika að etja. Hann hefur sinn djöful að draga. Þar má nefna ýmislegt sem við Íslendingar erum algjörlega lausir við. Okkar góða land nýtur þess á ýmsa vegu að loftslag er t. d. eins og það er hér í sambandi við sjúkdóma og í sambandi við ýmsa erfiðleika við búrekstur, sérstaklega í sauðfjárbúskap. Þessu ættu menn ekki að gleyma þegar menn eru að gera slíkan samanburð. Ég er með öðrum orðum að segja að ég tel samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi miklu, miklu sterkari en menn hafa yfirleitt gert sér grein fyrir. Í raun og veru er samkeppnisstaða Íslands, t. d. hvað varðar kindakjötsframleiðslu, miklu sterkari en menn hafa áttað sig á. Það er mín sannfæring að hægt sé að keppa þar á miklu meiri jafnréttisgrundvelli en menn hafa haldið.

Við höfum hins vegar ekki náð að nýta okkur þessa sérstöku kosti Íslands og læra af reynslu annarra til þess að standa sem best að vígi á öllum sviðum. Við erum áratugi á eftir hvað varðar kjötvinnslu og hvað varðar markaðssetningu, hvað varðar það að fullvinna okkar vöru og flytja hana með lágmarks flutningskostnaði o. s. frv. Þetta eru ósköp einfaldlega staðreyndir. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og segja bara: Þetta er svo erfitt. Þetta er erfitt af ákveðnum ástæðum. Og að hluta til eru þær ástæður í okkar valdi og við gætum gert við þeim. Ég vil nefna þetta hér vegna þess að ég vil að menn geri sér fulla grein fyrir því að ef menn ætla að halda inn á þá samdráttarbraut, áframhaldandi samdráttarbraut sem mér virðist hér vera gerðir skórnir, þó að vísu eigi að taka sér nokkurn tíma í þeim efnum, þá þurfa menn í fyrsta lagi að vera alveg vissir um að það sé óhjákvæmilegt og í öðru lagi þurfa þeir að vera tilbúnir að mæta afleiðingunum. Ég held nefnilega að afleiðingar verði miklu alvarlegri og víðtækari en menn hafa yfirleitt gert sér grein fyrir. Það er a. m. k. mín niðurstaða af því að hafa skoðað það hvernig framleiðslusamdrátturinn á undanförnum árum hefur komið niður, hversu víðtæk áhrif hans hafa verið, ekki einasta á sjálfan landbúnaðinn og landbúnaðarreksturinn og þau afurðasölufyrirtæki sem við hann skipta, heldur og á alla þá þjónustu sem landbúnaðurinn kaupir og þiggur af hverjum sem er í landinu. Það er nefnilega þannig að margfeldisáhrif landbúnaðarins eru mjög mikil. Þetta er nokkuð þjónustufrekur atvinnurekstur. Það þarf ekki annað en skoða hvernig rekstrargrundvöllurinn lítur út í dag til þess að gera sér grein fyrir því að landbúnaðarrekstur sem slíkur kemur víða við, hann nýtur þjónustu úr ýmsum áttum og skiptir við fjölmarga aðila. Trúi menn því ekki geta þeir t. d. farið í bíltúr um Reykjavík og horft á öll þau stórfyrirtæki sem að meira eða minna leyti byggja starfsemi sína á þjónustu við íslenskan landbúnað. Það þarf því enginn að láta sér detta annað í hug en verulegur samdráttur í þessum atvinnurekstri komi þarna niður eins og alls staðar annars staðar þar sem við hann er skipt.

Menn geta skoðað tölur um þjóðarframleiðsluna, um landsframleiðsluna, þ. e. verðmætasköpun landbúnaðarins í innanlandsframleiðslunni og þau umsvif sem hann hefur. Það gefur auga leið, það sést á tölum að hann er þar mjög stór. M. ö. o., landbúnaðurinn er mjög stór atvinnuvegur í landinu og þau áhrif sem hann hefur eru því mjög mikil. Menn flaska oft á því að taka einungis hina gjaldeyrisskapandi framleiðslu og reikna stærðir allra hluta út frá því hversu miklar útflutningstekjur viðkomandi atvinnuvegur gefur. En það er að sjálfsögðu ekki einhlítur mælikvarði á þetta, vegna þess að framleiðsla sem haldið er uppi innanlands er vissulega gjaldeyrissparandi á sinn hátt, því að við flytjum ekki inn það sem við framleiðum hér og notum innanlands. Það liggur í augum uppi. En menn eiga að varast að einfalda hlutina um of fyrir sér. Og hættulegast af öllu er það ef menn halda að þetta sé bara spurningin um að fækka bændum pínulítið, til að leysa þetta vandamál sé nóg að fækka bændum svolítið. Það er nefnilega miklu, miklu meira sem hér hangir á spýtunni.

Nú er það auðvitað alveg rétt, eins og bent var á af hv. 3. þm. Reykv. og kom víðar fram í umr., að það er í raun óhjákvæmilegt að ræða hluti eins og niðurgreiðslur í tengslum við þetta lagasetningarstarf hér, því að auðvitað hefur niðurgreiðslustigið veruleg áhrif á neysluna, það sýnir reynslan frá undanförnum árum. Það er einkum tvennt sem hefur veruleg áhrif á hana. Það er kaupmátturinn í landinu og það er niðurgreiðslustigið og verður nú ekki sagt að þetta tvennt standi beinlínis með blóma hjá hæstv. ríkisstj. Þeim mun óheppilegra er það auðvitað að niðurgreiðslurnar skuli fara lækkandi sem kaupmátturinn er jafnlágur og raun ber vitni. Það gefur auðvitað auga leið að það væri ákaflega heppilegt að hafa í landinu einhverja stefnu um niðurgreiðslu búvöruverðs til þess að hægt væri að sjá eitthvað fram í tímann í þessum efnum. Það er ákaflega óheppilegt að rokka með niðurgreiðslur upp og niður með tilliti til þess að menn vilji marka einhverja skynsamlega stefnu til einhverrar framtíðar um framleiðslumagnið í landinu, það gefur auðvitað auga leið. Vegna þess að niðurgreiðslur, sem hafa á stuttum ríma leikið á bilinu 5–10% og upp í 60% af verði vöru hljóta að hafa afgerandi áhrif á neyslustigið og samkeppnisstöðu þessarar vöru gagnvart öðrum.

Það væri ástæða til að inna hæstv. landbrh. eftir því fyrir hönd hæstv. ríkisstj. hvaða stefnu þeir hafa í niðurgreiðslumálum. Er það meiningin að halda áfram að lækka þær jafnt og þétt og láta þær hverfa út úr myndinni? Er það sá veruleiki sem við eigum að búast við þegar við vinnum að þessari lagasetningu hér? Það er eiginlega alveg óhjákvæmilegt að fá einhver svör við því. Ætlar hæstv. ríkisstj. að stoppa við núverandi niðurgreiðslustig og láta hér við sitja, eða er þess að vænta að niðurgreiðslur verði e. t. v. auknar, og þá á hvaða vörutegundum og í hve miklum mæli?

Ég veit ekki hvað mikil ástæða er til, herra forseti, að fara víðara út í efnahagsmálastjórn hæstv. ríkisstj. Vaxtamál voru nefnd hér til umræðunnar og vissulega eru þau bændum erfið eins og staðan er í dag. Og auðvitað er það rétt hjá hæstv. landbrh. að það eru e. t. v. ekki fyrst og fremst vextirnir hjá stofnlánadeild og á þeirra langtímaskuldum sem eru þeim erfiðir, heldur eru það þeirra viðskiptaskuldir með háum vöxtum og alls konar lausaskuldir sem eru þeim erfiðar eins og reyndar öðrum í landinu. Það liggur fyrir að gífurleg skuldaaukning hefur orðið hjá íslenskum bændum. Enda þótt skammtímaskuldum hafi að einhverju leyti verið breytt í löng lán breytir það engu um það að skuldir bænda og fjölmargra afurðasölufyrirtækja þeirra eru mjög vaxandi. Það eru nefndar jafnvel ótrúlegar tölur í þeim efnum á síðasta ári. Það er náttúrlega ákaflega óheppilegt að ræða þessa framtíðarskipan mála hér án þess að nokkuð komi upp á borð þm. frá hæstv. ríkisstj. um úrlausn í þessum efnum, annað en þá að vitna til einhverrar skuldabreytingar sem þegar hefur verið framkvæmd. Ég neita því ekki, herra forseti, að hún leysti ákveðinn vanda. En ég hefði viljað standa öðruvísi að henni og flutti reyndar um það tillögur hér á hv. þingi. Hún leysti ákveðinn vanda, en það hefur engu að síður sýnt sig að miklu, miklu meira þarf að koma til. Það er alveg morgunljóst.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég hef þetta öllu lengra í bili. Ég held að það væri þá svo fjöldamargt sem ástæða væri til að ræða og spyrja um ef ætti að fara út í efnislega mikla umræðu um þetta frv. Ég veit ekki hvort ég á að biðja hæstv. landbrh. að reyna að bæta aðeins við svar sitt varðandi það atriði að færa þetta fjármagn inn í Framleiðnisjóð landbúnaðarins undir stjórn ráðh., sem starfar skv. grg. frá ráðh. Það er nú í mínum huga svona frekar stjórnskipulegt eða þingræðislegt atriði hvort menn eigi að standa þannig að málum. Ég er ekki að væna hæstv. ráðh. um eitt né neitt í því sambandi. Ég er bara að velta því upp hér hvort menn telji þetta yfirleitt eðlileg vinnubrögð, eðlilega að málum staðið, að hv. Alþingi standi svona að málum, að ráðstafa með þessum hætti út úr þinginu óskiptum þetta stórum fjárveitingalið, sem er bundinn skv. lögum við ákveðið hlutfall af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslu, og menn vita að þar er um verulegar upphæðir að ræða, verði staðið við þau lög, sem við skulum nú vona. Þá held ég að menn ættu að velta því fyrir sér hvort þeir telja þetta eðlilega tilhögun. Það er auðvitað ekki nokkur vandi að standa öðruvísi að þessu, það má ljóst vera. Það er sömuleiðis ekki nokkur vandi að standa öðruvísi að því og fela öðrum en hæstv. landbrh. það vald sem til hans er flutt og sett eru lagaákvæði hér um. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það að það er skynsamlegt að hafa trausta lagastoð fyrir þeirri framleiðslustjórnun sem reynt er að viðhafa hverju sinni. En það þarf ekki að þýða í sjálfu sér að það þurfi allt að falla undir vald ráðh. Það eru auðvitað ýmsar aðrar aðferðir til í þeim efnum, m. a. sú að skilja eitthvert vald eftir hjá Framleiðsluráðinu og öðrum slíkum aðilum sem geta haft það á hendi.

Að síðustu, herra forseti, hefði ég gjarnan viljað endurtaka mína fyrstu spurningu, sem ég reyndar endurtók áður, þ. e. hvort ráðh. sé til viðræðu um það, hvort hann vilji hugleiða þann möguleika að fresta afgreiðslu þessa frv. á þessu þingi með tilliti til allra aðstæðna, og væri hægt að halda nokkuð langa ræðu um það hvernig aðstæður eru hér til lagasetningar nú á þessum vordögum og hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hegðað sér í þeim efnum, hvort hæstv. ráðh. er tilbúinn til þess með tilliti til þessa að fresta afgreiðslu málsins og vinna að því í sumar og haust með þeim hætti sem ég hef hér gert tillögur um. Ég vona að hæstv. ráðh. geti svarað þessu einhverju. Fari svo að hann sé ekki til viðræðu um það og hæstv. ríkisstj. vilji keyra þetta mál í gegn þá er það auðvitað eftir öðru, herra forseti. Það er auðvitað eftir öðru að mál af þessari lengd hellist hér inn á þessum dögum og það sé ætlast til þess að við afgreiðum þau nánast viðstöðulaust.

Ég ætla að segja hér frá því, herra forseti. að ég sit í hv. samgn. og þar höfum við fundað stíft undanfarna daga um frv. sem er ekkert ósvipað þessu. Það er svona bálkur á borð við þetta, þó líklega talsvert viðameira, og við höfum viljað vinna þar vel og samviskusamlega eins og við alltaf gerum í þeirri nefnd. Við höfum þurft að halda fjölmarga fundi og eyða gífurlegum tíma í að fara yfir það mál, lesa það saman og fá til viðræðna við okkur menn, þrátt fyrir það að frv. sé til umfjöllunar í seinni deild og þrátt fyrir það að frv. hafi verið samið og undirbúið um árabil af öllum helstu sérfræðingum og hagsmunaaðilum sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Ég er hér að tala um siglingalög. Ég vil sem sagt endurtaka þá spurningu mína til hæstv. landbrh., einkum og sér í lagi með tilliti til þess að mér er tjáð að hann hafi verið forseti á hv. Alþingi um langa hríð, það var fyrir mína daga hér, hvort hann hafi ekki pínulitlar efasemdir um þessi vinnubrögð svona almennt, að dæla inn viðamiklum, afdrifaríkum frv. á vordögum og ætlast til þess að þm. afgreiði þau á örfáum dögum.