10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að segja örfá orð um frv. um þjóðgarð á Vestfjörðum, og það, sem ég hef þá um það að segja, er þetta, að ég fæ nú ekki séð, í hverju sú vernd ætti að liggja, sem hv. Alþ. gæti veitt Hornstrandasvæðinu. Ég er hræddur um, að það yrði nú meira í munni heldur en á borði, meira í orði heldur en á borði. Mér virðist það vera svo um þá staði, sem hafa verið friðaðir, eins og kallað er, og settir undir sérstaka stjórn, að þeir hafi nú notið í reynd fremur lítillar verndar. Ég nefni í þessu sambandi Þingvelli t. d. Þar hefur hvað eftir annað orðið leiðinlegur umferðarusli, þrátt fyrir vernd og friðun. Ég held, að Hrafnseyrarnefnd hafi litla verndarþýðingu haft fyrir Hrafnseyrarstað og þannig mætti lengi telja, að óspillt náttúra hefur lítils notið í sambandi við þá löghelguðu vernd, sem nokkrum einstökum stöðum hefur verið veitt á pappír. Mig skortir sem sé trú á það, að nokkuð raunhæft gerist til verndar þessu svæði, sem sannarlega er, eins og hv. frsm. tók fram, mikillar náttúru, fagurrar og tignarlegrar með fjölbreytt fuglalíf, eins og hann sagði, í Hornbjargi og Hælavíkurbjargi og eitt af stórbrotnustu héruðum þessa lands að því er náttúruhrikaleik snertir. En allt þetta svæði er nú, eins og frsm. sagði, mannlaust, nema bara vitavarðarfjölskyldan á Látravíkurvita, og svæðið allt alfrjálst umferðar gestum og gangandi og svo mundi það vera án nokkurrar breytingar á því. Hins vegar er þarna um það að ræða, að á þessu svæði á fjöldi fólks enn þá eignir, jarðeignir, húseignir, mannvirki, sem vart yrðu af þessu fólki teknar samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar, nema almannaþörf krefðist. Ég kem ekki auga á þá almannaþörf, sem hægt væri að réttlæta það með að taka húseignir og jarðeignir þessa fólks, nema því aðeins að samningar tækjust um það. og það er vissulega gert ráð fyrir því í 7. gr. að reyna samningaleiðina, en svo er hert á og sagt, að ef annar hvor málsaðili vilji eigi una mati eða samningar ekki takast, geti hann krafizt yfirmats og eignarnám fari fram samkv. eignarnámslögum og svo er gefin vísbending um það, hvaða tillit til verðmats skuli tekið, þ. e. a. s. það skal höfð hliðsjón af skattframtali síðustu þriggja ára, er eignir og hlunnindi eru metin. Yfirleitt held ég, að þetta mundi benda til þess, að matsnefndirnar ættu að komast að niðurstöðu um mjög lágt verð, sem ég efast um, að eigendurnir teldu sig miklu bættari með að fá, mundu heldur kjósa að eiga þessar eignir arðlitlar áfram. Hins vegar er ekki fyrir það að synja, að nokkrar af þessum eignum gæfu einhvern arð. Ég hygg t. d., að þeir, sem eiga lönd í Hornbjargi, gætu talið, að þeim væri mögulegt að hafa nokkrar tekjur af þeim eignum sínum, sem þar liggja, og af Hælavíkurbjargi einnig, og efa ég það, það yrði auðsótt mál að losa um eignahönd þessara eigna. Annars má það vel vera, að hv. flm. hafi t. d. kynnt sér afstöðu Átthagafélags Sléttuhreppsbúa eða einstaklinga, sem eiga þarna eignarréttarhagsmuna að gæta, og þeir þannig viti, að þessi mál séu auðsótt við þá menn, sem þarna eiga eignir. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé nú ekki alveg víst, að Hornstrandir byggist ekki á ný. Það er sagt í annálum frá því, að tvisvar sinnum eða þrisvar sinnum í Íslandssögunni hafi Hornstrandir eyðzt og þær hafa byggzt aftur. Það, sem lagði Hornstrandir í eyði, var ekki það, að þar berði hungursneyð að dyrum fyrr en annars staðar á Íslandi, miklu síður þar en annars staðar. Þar voru auðsuppsprettur ýmsar og menn lifðu þar löngum án skorts og fátæktar, þegar víða svarf að annars staðar. Það voru samgönguerfiðleikarnir, sem torvelduðu þar áframhald byggðar nú síðast, en það eru hlutir, sem geta tekið breytingum og eru og hafa verið að taka stökkbreytingum, og þannig ekki loku fyrir það skotið, að byggðarlög eins og Grunnavík og Aðalvík kynnu að byggjast á ný. Þetta eru velmegunarpláss með ýmsa landkosti og aðstöðu til sjávar, sem ekki stendur að baki því, sem víða annars staðar er á landi okkar.

Ég skyldi ekki hreyfa neinum andmælum gegn þessu frv., ef það kæmi í ljós, að leitað hefði verið álits þess fólks, sem þarna á eignir og er tryggðaböndum bundið við þessi héruð og vill vera það áfram, það hefur sýnt það, fólkið. Það hefur haldið tengslunum við bæði í Grunnavík og Aðalvík og Hesteyri og víða á Ströndunum, og ég held, að það megi segja, að þetta fólk sumt hefur haldið vel við eignum sínum þarna. Þær eru ekki í hirðuleysi, þær eru ekki að drafna niður margar hverjar, heldur vel við haldið og ég hygg, að það yrði ekki mikið umbætt umgengni, þó að vernd Alþingis kæmi til á pappír umfram það, sem nú er. Hitt er rétt, að það hefur komið fyrir, að illrar umgengni hefur orðið vart í sjúkraskýlum og björgunarskýlum Slysavarnafélagsins, en ég er afar hræddur um, að það yrði litlu meira öryggi, sem þessi hús fengju, þó að vernd Alþingis ætti að heita að vera yfir þeim. Það eru til þeir sóðar í landi voru, sem náttúran er hvergi örugg fyrir og valda alls staðar usla, þar sem þeir fara, og hirða hvorki um almennar umgengnisvenjur né lagafyrirmæli áreiðanlega, ef þeir eru þannig innrættir, eins og dæmin því miður sanna.

Ég sem sé læt í ljós ugg um það, að fólk, sem þarna á hagsmuna að gæta á Strandasvæðinu, telji sér síður en svo greiða gerðan með þessum frumvarpsflutningi um þjóðgarð á Vestfjörðum, og sé ekki, að það hafi neina þýðingu fyrir Vestfirðinga né aðra landsmenn. Svæðið allt er til frjálsrar umferðar, þrátt fyrir einkaeign manna þarna á nokkrum smámannvirkjum, og svo þarf það að vera, en ég held, að ekkert verði um það bætt með því að gefa svæðinu heitið þjóðgarður. Ef þjóðfélagið tæki á sig einhverjar sérstakar skyldur til þess að vernda þetta svæði, þá er það vel, og þá mætti líta á plúsa og mínusa, en ég sé ekki neitt það í þessu frv., sem bendir til þess, að ríkið eigi að taka á sig nokkrar skyldur gagnvart þessu svæði annað en það á að heita þjóðgarður Íslendinga. Og ef ekki koma upplýsingar um það, að þetta mál sé stutt af því fólki, sem þarna á hagsmuna að gæta, þá mun ég ekki ljá þessu frv. atkvæði mitt.