14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Eins og kom fram í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. óskuðum við hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson og ég að skila sérstöku nál. í sambandi við þetta mál.

Minni hl. er samþykkur ráðstöfun 50% gengismunar til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, úr því að sú leið er enn einu sinni farin að láta ekki gengismismun ganga óskertan beint til útflytjenda, eins og gert er að því er útflutningsaðila iðnaðarins varðar. Hins vegar finnst okkur allt hæpnara um ráðstöfun fjár samkv. b-lið 3. gr. frv., enda hefur gengið erfiðlega að fá fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd þessara ákvæða. En þess ber að gæta, að það getur valdið fyrirtækjum og einstaklingum miklum erfiðleikum ef ákvörðun um ráðstöfun þessa fjár bregst, og vill minni hl. n. því ekki verða valdur að slíkum drætti og mun því ekki torvelda framgang málsins, þrátt fyrir ýmsa annmarka sem við teljum að séu á málinu.

Minni hl. leggur áherslu á að það fjármagn, sem ætlað er til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði, verði afgreitt af stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands, og telur eðlilegt að það fari gegnum þá deild sem stofnuð var með reglugerð frá 8. júní s.l. og ætluð er til hagræðingar í fiskiðnaði.

Eðlilegt er, eins og oft hefur verið gert áður, að létta stofnkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra fjárskuldbindinga, en við teljum þó að teflt sé á tæpasta vað með hlutdeild útgerðarinnar sjálfrar í gengishagnaðinum. Við teljum eðlilegt að það fjármagn, sem ætlað er til að hætta rekstri úreltra og gamalla skipa, verði afgreitt í gegnum Aldurslagasjóð fiskiskipa, sbr. lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, og eðlilegt að stjórn þess sjóðs fjalli endanlega um úthlutun þessa fjármagns.

Með tilvísun til 2. gr. frv., þar sem segir að ríkisstj. kveði nánar á um til hvaða aðila fjármunir úr gengismunarsjóði skuli renna, viljum við benda á að skreiðarframleiðendur og í sumum tilfellum saltfiskframleiðendur stóðu fyrir gengisbreytinguna höllum fótum og kæmi því að okkar dómi mjög til álita, að hluti framleiðslu þeirra verði greiddur útflytjendum á hinu nýja gengi.