23.10.1978
Efri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

8. mál, niðurfærsla vöruverðs

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera langorður um þetta frv. við 1. umr. hæstv. forsrh. hefur skýrt frv. með nokkrum orðum. Mér virðist liggja ljóst fyrir að brbl., sem liggja til grundvallar því, voru sett til þess að tryggja að tekið yrði mið af síðari lagasetningu við útreikning vísitölunnar. Að vissu leyti má því segja að þetta frv. sé um formsatriði, en þau efnisatriði, sem ástæða væri að ræða sérstaklega um, er að finna í öðrum brbl., þ.e.a.s. brbl. um kjaramál frá 8. sept. s.l. Þegar frv. til staðfestingar á þeim kemur til umr. verður vissulega ástæða til þess að ræða efnislega um þau og þá um það sem lá til grundvallar því, að þessi brbl., sem hér eru til umr., voru sett.

Þetta frv. fjallar um vísitöluna og það er til komið vegna verknaðar sem stundum hefur verið kallaður fölsun vísitölunnar. Í umr. hér í síðustu viku um frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu kom ég nokkuð inn á þann þátt málanna, sem víkur að fölsun vísitölunnar, og ég sé ekki ástæðu til að vera að endurtaka við þessa umr. neitt af því sem ég sagði þá.

Þetta mál fer nú til n. og fær þar venjulega meðferð. Við sjálfstæðismenn munum ræða þetta mál frekar og kjósum frekar að ræða það þegar frv. um efnisleg atriði málsins hefur verið lagt fram.