15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það mætti vissulega margt segja um þau orð, sem fallið hafa í þessari umr., en ég ætla ekki að fara ítarlega út í einstök atriði. Mér sýnist að umr, beri vott um það, að þeir ágætu hv. þm. Reykv., sem hér hafa talað, styðji eindregið þá stefnu að afla tekna til Rafmagnsveitna ríkisins og annarra fyrirtækja, sem sinna félagslegum þörfum og erfiðum markaði, með beinni skattlagningu eða fjármagna þau með beinum framlögum úr ríkissjóði. Það er vissulega ánægjuefni að fá einhlítan stuðning við slíka stefnu, að það verði gert, og rétt að hafa það í huga í framtíðinni. Ég get alveg tekið undir það, að mér hefði hugnast sú leið á margan hátt betur en fara þá leið sem hér er lögð til ásamt hinni að vísu. Það er verið að leggja til að fara báðar þessar leiðir, annars vegar að leggja Rafmagnsveitum ríkisins til í fyrsta sinn um a.m.k. langt skeið beint eigandaframlag, beint framlag úr ríkissjóði til þess að standa undir kostnaði við rekstur og framkvæmdir og að auki að ná nokkru eftir verðjöfnunarleiðinni og hlutfallslega nokkru meira en áður. Ástæðan fyrir því, að báðar þessar leiðir eru hér farnar og lagt er til af ríkisstj. að það sé gert, er sú, að okkur er ljóst að ekki er viðunandi að ætla þeim, sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, að standa lengur undir þeim mikla kostnaði sem á þá er lagður við raforkukaup.

Ég vil svara nokkrum atriðum úr máli manna. Til að byrja með ætla ég að upplýsa hvað það er í krónum talið eða aurum á kwst. sem hér er verið að leggja á með því að bæta 6% ofan á verðjöfnunargjaldið frá því sem áður hefur verið.

Núverandi gjald á kwst. samkv. heimilistaxta í Reykjavík mun vera 19.82 kr. og það hækkar upp í 20.71 kr. samkv. þessu frv. Þetta þýðir að viðbótarkostnaðurinn er 0.89 kr. eða 89 aurar á kwst. Hækkunin nemur 4.5%. Viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins greiða hins vegar 1.68 kr. til viðbótar á kwst., eða u.þ.b. tvöfalda upphæð miðað við Reykvíkinga og marga fleiri sem búa við álíka hagstætt orkuverð. Það er því mikið öfugmæli þegar talað er um að verið sé að leggja þarna skatt fyrst og fremst á Reykvíkinga. Þetta bætist ofan á kostnað þeirra sem þegar greiða hæsta verðið fyrir, og það er ekki sísti ókosturinn við þá leið sem hér er þó farin, og ég get tekið undir það með hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að vissulega hefði verið æskilegt að breyta þessu prósentuhlutfalli og jafnvel afnema það á þeim sem hæst raforkuverðið greiða. En við töldum það ekki skynsamlegt. Ég býst við að þá hefðu þyngri orð fallið hér um þetta en verið hefur.

Það hefur verið minnst á það af hv. þm. Einari Ágústssyni o.fl., og vitnað þá til grg. Sambands ísl. rafveitna, að hér sé farið mjög inn á ranga braut í ýmsum efnum. Ég hef fengið erindi og álitsgerð frá Sambandi ísl. rafveitna sem stjórnarformaður þeirra og framkvæmdastjóri sendu frá sér í nafni Sambandsins. Ég skal ekkert um það segja, hvort þeir tala þar fyrir munn allra rafveitna í landinu, ég dreg það mjög í efa, og ég vil minna á að Rafmagnsveitur ríkisins eru aðili að Sambandi ísl. rafveitna og eru einn besti gjaldandi til þess sambands. Álit mitt er það, að margt af því, sem fram kemur í grg. Sambands ísl. rafveitna og mér barst í gær, sé afar villandi og nánast ekki sæmandi sambandi sem þessu að bera slíkt fram og rugla hv. alþm. í ríminu í sambandi við ýmsa þætti málsins.

Það er ofur eðlilegt að menn vitni í þetta málsgagn, sem komið er frá þessari stofnun, flutt í nafni hennar. En þar gætir bæði vissra rangfærslna og misskilnings að mínu mati. Eitt af því, sem fram var tekið og sótt í þessa grg. Sambands ísl. rafveitna, er að þetta hafi mikil áhrif á framfærsluvísitölu. Það er rétt að upplýsa það, að áhrifin á verðbótavísitölu vegna hækkunar verðjöfnunargjaldsins eru 0.06%, og getur það ekki talist mikið.

Vikið hefur verið að því af nokkrum hv. þm., sem hér hafa talað, að það væri ósanngjarnt að skattleggja Reykvíkinga og rafveitur annarra sveitarfélaga sem hafi komið upp hjá sér raforkuvirkjum og þannig tryggt sér hagstætt raforkuverð. Ég vil minna á að það eru margir fleiri sem lagt hafa í þau raforkuver, sem meginhluti landsmanna nýtur góðs af, þ. á m. ríkissjóður, bæði sem eigandi, núverandi eigandi að hálfu á móti Reykjavíkurborg í Landsvirkjun og ríkissjóður með því að tryggja því myndarlega orkuöflunarfyrirtæki hagstæð lán og það margfalt hagstæðari lán en Rafmagnsveitur ríkisins hafa notið, enda má ekki síst rekja vanda þeirra til þess, að hvorki hafa verið lögð fram eigendaframlög né heldur tryggð eðlileg lánakjör í sambandi við nauðsynlega uppbyggingu fyrirtækisins.

Verulegur þáttur í gagnrýni manna á verðjöfnunargjaldið og hækkun þess felst í að benda á ranga taxta, sem menn nefna svo, hjá Rafmagnsveitum ríkisins og ranga verðlagningu í tengslum við þessa taxta. Þarna gætir mjög mikils misskilnings og hann á rót sína að rekja, hygg ég, til þeirrar grg. sem komin er frá Sambandi ísl. rafveitna, þar sem þessu sjónarmiði er hampað. Það eru ekki síst villandi upplýsingar um þetta atriði sem ég tel ekki sæmilegt að bornar séu fram í nafni Sambands ísl. rafveitna.

Hv. þm. Pálmi Jónsson, sem þekkir mjög vel til málefna Rafmagnsveitna ríkisins og er nú stjórnarformaður þess fyrirtækis, tók af mér ómakið að útskýra samsetningu hins svokallaða marktaxta sem mjög hefur verið vitnað til og mikið hefur verið gagnrýndur af hv. þm. hér og sagt að væri ranglega uppbyggður og ætti að hækka stórlega. Þessi taxti er fyrst og fremst notaður af bændum landsins og hann er miðaður við það að reyna að draga úr þeim afltoppi sem Rafmagnsveiturnar nota í samningum um orkukaup. Um 3/4 hlutar af orkukaupum Rafmagnsveitna ríkisins eru bundnir toppgjaldi sem tengist afli, en aðeins um 1/4 hluti snertir kwst.- gjöld, og því er það fyrirtækinu mjög mikið í hag að þessi afltoppur hækki ekki. Marktaxtinn er notaður á sveitabýlum fyrst og fremst, en þó mun hann víðar notaður. Alls var það 2781 aðili sem í marsmánuði s.l. keypti samkv. þessum taxta af um 12 þús. viðskiptavinum Rafmagnsveitnanna. Þessi marktaxti hvetur til þess að menn reyni að jafna raforkunotkun sína í tíma yfir daginn, og það er hagkvæmt í senn fyrir notandann og það er hagkvæmt fyrir Rafmagnsveiturnar einnig. Ef ætti að hverfa frá þessum marktaxta og fara að verðleggja hvern notkunarþátt, þá kostaði það í fyrsta lagi margfalt mælakerfi, það kostaði flókið innheimtukerfi og það þýddi það, að menn hættu að hugsa um að spara í aflnotkun og þessi afltoppur yrði miklu hærri en ella og það kallaði á aukið og styrkara dreifikerfi. Er það þó nógu bágt í sveitum landsins. Þetta kallaði einnig fyrr en ella á virkjanir, svo að það er með öllu óréttmætt að vera að gagnrýna þennan taxta og telja að hann sé óhagstæður og honum eigi að breyta. Ég vil þó ekki þar með fullyrða að þar megi engu breyta eða í sambandi við samsetningu á gjaldskrám Rafmagnsveitna ríkisins. Það er einmitt fyrirhugað að fara ofan í saumana á þeim til þess að reyna að finna þar enn betri leiðir en tekist hefur, og það standa yfir samningar milli Rafmagnsveitna ríkisins og Raunvísindastofnunar háskólans nú, að Raunvísindastofnun gangi í þetta verkefni, hún mun geta talist hlutlaus aðili, og að því verður unnið. En ég á ekki von á að það leiði til neinna verulegra breytinga á hagkvæmni hjá Rafmagnsveitunum, þó að ástæða sé þó til að vona að það geti orðið í einhverjum efnum.

Hitunartaxtinn, sem einnig hefur verið gagnrýndur, og líklega eru það 2700 notendur sem greiða samkv. húshitunartaxtanum, er miðaður við olíuverð. Það er vissulega pólitísk ákvörðun, hvort á að hækka gjald fyrir rafhitun langt fram úr því sem það kostar að kynda með olíu. Það hefur ekki verið metið réttmætt hingað til, enda yrði það til að auka enn frekar á óréttlætið.

Ég hef getið þess oftar en einu sinni hér í hv. þd., að mismunurinn á hitunarkostnaði húsa hér á Reykjavíkursvæðinu hjá þeim, sem búa við hagstæðar hitaveitur, og hins vegar hjá þeim, sem kaupa orku til húshitunar, ýmist með olíu eða samkv. húshitunartaxta, sem er á sambærilegu verði, er um 250%. Hann er margfaldur á við þann mun sem er á raforkuverðinu miðað við heimilistaxta, svo að ég held að menn ættu að hugsa sig um áður en þeir fara að leggja til að þessum hlutföllum verði breytt. Hitt er vissulega annað mál, hvort það er í öllum tilvikum skynsamleg stefna að fara út í beina rafhitun á svæðum þar sem ekki er von til þess að fá jarðvarma. Þau mál eru í gaumgæfilegri athugun nú, m.a. á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og iðnrn., og hafa verið það um skeið. Þar eru menn að athuga, hvort ekki séu hagkvæmari kostir að stefna að fjarvarmaveitum í þéttbýli, þar sem takmörkuð von er um jarðvarma, og hverfa frá þeirri stefnu, sem hefur verið í gildi og hefur verið framfylgt víða um landið þar sem ekki eru komnar hitaveitur og lítil von er talin á þeim, að miða við beina rafhitun.

Þetta dæmi hefur enn ekki verið gert upp í heild sinni, en menn eru að færast nær því að geta markað stefnu um þetta, hvort ekki sé réttmætt, og ég hef frekar trú á því að sú verði niðurstaðan að koma upp fjarvarmaveitum á þéttbýlisstöðum, þótt þeir eigi ekki von á jarðvarma til að leysa sín húshitunarmál. Athugun varðandi þetta mun verða hraðað eftir föngum þannig að ekki sé haldið lengra á braut beinnar rafhitunar án þess að þetta dæmi sé gert upp.

Það hefur verið fullyrt hér, að mikill meiri hluti af viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins sé á þessum töxtum og greiði hvað snertir meðalverð á kwst. miklu lægra en hér hafa verið rakin dæmi um og getið er um í fskj. með frv. Þetta er misskilningur. Það er hins vegar rétt, að meiri hlutinn af orkukaupunum fer fram samkv. húshitunartaxta og marktaxta. En ef við lítum á fjölda viðskiptavina Rafmagnsveitnanna, sem er um 12 þús., þá voru það ekki færri í marsmánuði s.l. en 9792 sem kaupa samkv. húshitunartaxtanum, sem er 88% hærri nú hjá Rafmagnsveitunum en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Af þessu vænti ég að menn sjái hvílíkt hagsmunamál hér er á ferðinni fyrir fjölda heimila í landinu og hversu rangt það er að bera fram þau rök, að mikill meiri hluti viðskiptavina Rafmagnsveitnanna sé á einhverjum allt öðrum og hagkvæmari töxtum.

Ég held að mjög margt í málflutningi þeirra hv. þm., sem gagnrýnt hafa þetta frv., sé á misskilningi byggt hvað snertir ýmis efnisatriði, og ég vænti þess, að þeir komist að annarri niðurstöðu varðandi ýmislegt, sem þeir hafa hér sagt, við nánari skoðun. Það er ekkert óeðlilegt að slíks misskilnings gæti, vegna þess að menn hafa fengið og verið fóðraðir á röngum upplýsingum af aðilum sem betur ættu að vita. Vissulega eru þessi mál nokkuð flókin, samsetning á þessum gjaldskrám og þessum töxtum, og það er tiltölulega auðunnið verk að rugla menn þar í ríminu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. En ég vænti þess eindregið, að það fái stuðning mikils meiri hl. hv, þm. og menn reynist það miklir jafnaðarmenn og réttlætissinnar, að þó að þeir séu ekki að fullu ánægðir með þá leið, sem hér er valin til að bæta úr því sára misrétti sem margir landsmenn búa við hvað snertir orkuverð, þá verði þeir þó reiðubúnir til þess að stuðla að framgangi þessa máls hér. Það er aðeins stefnt að því að lögfesta þetta í eitt ár í viðbót, og ég tek undir það, að sjálfsagt er að leita annarra leiða, ef færar þykja, en hér er lögð til og mörkuð hefur verið. Ég get vel stutt það sjónarmið, að það sé réttmætt að stefna að því að ná inn jöfnuði í raforkuverði meira með þeim hætti að leggja fram bein framlög úr opinberum sjóðum til Rafmagnsveitnanna og svo að sjálfsögðu að reyna að tryggja sem bestan rekstur, orkusparnað og góða orkunýtingu og betra skipulag á raforkumálum landsmanna en tekist hefur að ná fram til þessa, en að þeim málum er unnið.