18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

95. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

, Herra forseti. Ég þakka hv, menntmn. Ed. fyrir stuðning n. við þetta stjfrv. og það að hraða afgreiðslu málsins. Eins og fram kom við 1. umr. er meginefni frv. að staðfesta tilverurétt sjálfstæðra leikhópa í lögunum sjálfum, þannig að tekin séu af öll tvímæli um að aðrir sjálfstæðir atvinnuleikhópar en Leikfélag Akureyrar og Leikfélag Reykjavíkur geti fengið sérstakar fjárveitingar á fjárl. Nú hefur hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, flutt till. um að einnig væri þar bætt við lið sem héti: Til óperustarfsemi. Ég verð að segja að mér finnst það nokkuð góð ábending.

Ég held að mál sönglistarinnar í landinu séu á svo frumstæðu stigi hjá okkur að ekki veiti af að veita þeim þann stuðning sem í þessari brtt. felst. Ég er því reiðubúinn að gjalda henni jáyrði og tel að það yrði tvímælalaust til bóta að Alþ. veitti hverju sinni einhverja upphæð sérstaklega til óperustarfsemi, vegna þess að staðreyndin er sú, að þó að við viljum gjarnan reyna að láta Þjóðleikhúsið annast slíka starfsemi, þá er því um megn að sinna því hlutverki sínu sem skyldi.

Ég verð hins vegar að segja það, að mér finnst langar orðræður hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um leiklistarráð vera af minna tilefni. Mér finnst að þar sé ekki verið að flytja stórmál. Ég held að allt tal um hugsanlegt ófrelsi af völdum þessa leiklistarráðs sé nokkuð úr hófi fram. Ég held að ekki sé nokkur minnsta hætta á ferðum þó að þetta ráð fái að starfa og frelsi í íslenskri menningu verði engu minna eftir sem áður. Það kemur skýrt fram í lögunum, að leiklistarráði er ætlað að vera vettvangur skoðanaskipta og ráðgefandi aðili um leiklistarmál, ætlað að stuðla að útgáfu og ritun leikrita og almennt fjalla um hagsmunamál þessarar greinar íslenskrar menningar. Og þó að það sé tekið fram, að leiklistarráð eigi að stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma, þá dettur auðvitað engum manni í hug að leiklistarráð eigi að fara að ákveða hvaða listastefnu skuli fylgja eða hvaða stefnu skuli fylgt í ritun leikrita. Það er ekki það sem átt er við. Ég er sannfærður um að þeim, sem sömdu frv. til leiklistarlaga á sínum tíma, fannst ekki taka því að vera að orða það á þann veg að afstýrt gæti misskilningi með þessum hætti, því að þeim hefur ekki dottið í hug að nokkur gæti túlkað orðalagið í þessa átt. Auðvitað er átt við það, að leiklistarráð stuðli að stefnumótun á þessu sviði hvað snertir aðgerðir ríkisvaldsins og stuðning við þessa starfsemi, að leiklistarráð fjalli um það á hverjum tíma hvað þurfi að lagfæra í aðgerðum og stuðningsviðleitni ríkisvaldsins á hverjum tíma til þess að bæta úr þeim ágöllum sem fram koma á þessu sviði. Við höfum mörg ráð af þessu tagi, við höfum Rannsóknaráð ríkisins, sem er líka ráðgefandi aðili af þessu tagi á einu ákveðnu sviði menningar okkar. Einnig í atvinnulífinu höfum við ráð af þessu tagi, svo sem Fiskiþing er eða Búnaðarþing, þar sem menn koma saman, fjalla um hagsmunamál viðkomandi atvinnugreinar og gera tillögur til úrbóta. Það er nákvæmlega þetta sem leiklistarráðinu er ætlað að gera.

Ég vil að lokum taka undir orð hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar, fyrrv. menntmrh., sem hann lét falla áðan, að þetta ráð hefði ekki starfað svo lengi að ástæða væri til þess að fara að afnema það strax, það væri réttara að fá einhverja reynslu af störfum þess. Ég tel að við ættum alls ekki að gera neina breytingu hvað þetta atriði snertir og það sé síður en svo nokkur minnsta hætta á ferðum þó að ráð af þessu tagi fái að koma saman árlega til skoðanaskipta um leiklist og menningarmál.