21.12.1978
Neðri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eins og ég hafði spáð, var mjög naumt á mununum í atkvgr. við 2. umr. um þetta mál og ljóst er að um þetta er verulegur ágreiningur og sá ágreiningur nær langt inn í raðir allra þingflokkanna. Á þessu vek ég athygli til þess að undirstrika það sem ég sagði áðan, að það er afar vafasamt og hæpið að knýja á um afgreiðslu þessa máls í ljósi þess, að þetta verðjöfnunargjald og sú hækkun, sem þar er gert ráð fyrir, orkar mjög tvímælis. Á það hefur verið bent með mjög þungum rökum við þær umr. sem fram hafa farið, að þetta gjald er að mörgu leyti ákaflega ranglátt og það nær alls ekki tilgangi sínum eins og heiti gjaldsins segir til um.

Ég hélt því fram áðan í ræðu minni við 2. umr., að verðjöfnunargjaldið leiddi ekki til verðjöfnunar. Ég hélt því fram, að þetta gjald legðist á þá taxta sem fyrir væru, og væri til þess eins að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, greiða niður skuldahalann og verja þessu fé til frekari framkvæmda. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson greip fram í fyrir mér í þeirri ræðu og hélt því fram, að mér skildist, að þetta væri rangt með farið, og vitnaði til þess, að um það hefði verið gefin yfirlýsing, að þessu fjármagni yrði beitt með öðrum hætti. Nú hef ég að vísu misst af þeirri yfirlýsingu, en ég met það nokkurs ef hún hefur verið gefin og ef um einhverja stefnubreytingu er að ræða hjá núv. iðnrh. í þeim efnum að verja þessu fé alfarið til þess að jafna verðið, til þess að greiða niður þá taxta sem hæstir eru.

Ef nú verður haldið áfram með þetta mál og knúið á um afgreiðslu þess í ljósi þeirrar atkvgr., sem fram fór áðan, með þeim nauma meiri hl., sem fylgir þessu frv., og með því að algerlega er hafnað tilboði stjórnarandstöðunnar um að leita annarra ráða í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna um lausn á þessu máli, þá sýnist mér nauðsynlegt að gera breytingar á frv. til þess að leggja áherslu á að því fé, sem aflað er með hækkun verðjöfnunargjaldsins, verði varið til þess að jafna verðið, til þess að lækka þá taxta sem verst eru settir. Þess vegna mun ég leyfa mér, herra forseti, að bera hér fram skriflega brtt. við 1. gr. frv. Sú brtt. mundi hljóða eitthvað á þá leið, að í stað 2. mgr. frv., eins og hún hljóðar nú, kæmi eftirfarandi:

Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að greiða niður heimilistaxta hjá viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Rafmagnsveitur ríkisins skulu fá sem svarar 80% af tekjum af verðjöfnunargjaldi, en Orkubú Vestfjarða 20%.

Þessa till. leyfi ég mér að bera hér fram til undirstrikunar á því, að ef á annað borð er verið að setja slíkt verðjöfnunargjald, þá á að verja því til þess að lækka þá taxta sem verst eru settir, en ekki til þess að greiða skuldahala og standa undir frekari framkvæmdum.

Ég vek athygli á því, að í 2. mgr. frv., sem ég geri till. um að breytt verði, þá segir: „Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða.“ Með þessu er auðvitað beinlínis sagt að þessu fé skuli varið til þess að bæta fjárhaginn, eins og hann er, til þess að greiða niður skuldir o.s.frv., en alls ekki tekið sérstaklega fram, að því skuli varið til verðjöfnunar. Alla vega er ljóst, að með þessu orðalagi, eins og frv. hljóðar nú, er það algerlega opið og frjálst fyrir þá, sem eiga að framkvæma þessi lög, að ráðstafa þessu fé nokkurn veginn að vild til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða án tillits til þess sjónarmiðs sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Ég geri mér grein fyrir því, að þessi till. er of seint fram komin og ég óska eftir afbrigðum um að hún verði tekin á dagskrá og fáist hér rædd.