25.01.1979
Sameinað þing: 43. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

43. mál, orkusparnaður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þá þáltill., sem hér er til umr. og hv. 3. þm. Norðurl. e., Bragi Sigurjónsson, hefur gert grein fyrir. Ég tel efni hennar í senn tímabært og aðkallandi. Á vegum iðnrn. eru nú í undirbúningi aðgerðir og stefnumörkun á þessu sviði í framhaldi af góðum áformum sem drög voru lögð að fyrir nokkrum árum.

Tillaga um sama efni kom fram fyrir hálfu öðru ári. Nokkru áður er hún kom fram hafði Alþb. fjallað um þessi mál og markað um þau stefnu eins og aðra helstu þætti orkumálanna. Voru samþykktir þar að lútandi gerðar á flokksráðsfundi Alþb. í nóv. 1976 og birtust í ritinu Íslensk orkustefna. Ég tel rétt að rifja upp, með leyfi hæstv. forseta, það sem segir í flokkssamþykkt Alþb. um orkusparnað og hagkvæma orkunýtingu:

„Að skynsamlegri orkunýtingu verði unnið með víðtækri fræðslu, þar sem m.a. sé lögð áhersla á að orka er dýrmæt auðlind, sem miklu þarf að kosta til að afla. Stefnt verði að hagkvæmri orkunotkun í atvinnurekstri, m.a. varðandi gerðir og umhirðu véla og val og nýtingu orkugjafa í skipum og fiskiðnaði, svo sem við mjölþurrkun og frystikerfi, varðandi vélanotkun, áburðarnotkun og heyverkunaraðferðir í landbúnaði. Unnið verði að fjölnýtingu varmaorku, þannig að sem minnst orka fari til spillis, t.d. með ylrækt og hitaveitum samhliða raforkuvinnslu úr jarðvarma. Við skipulag byggða verði orkusparnaður hafður í huga, m.a. með því að hafa hóflegar vegalengdir frá íbúðahverfum til vinnustaða og þjónustumiðstöðva svo og með góðum almenningssamgöngum. Hagkvæma orkunýtingu þarf einnig að hafa í huga við hönnun húsnæðis, jafnt íbúða og atvinnuhúsnæðis, við gerð ljósabúnaðar og hitakerfa, við hönnun og notkun vélbúnaðar, m.a. með samnýtingu og góðu viðhaldi.“ — Tilvitnun lýkur hér í flokkssamþykkt Alþb. frá nóvembermánuði 1976.

Um þessa samþykkt og stefnumörkun flokksins í orkumálum var algjör einhugur, þannig að ekki þarf að efast um efnislegan stuðning Alþb. við þá þáltill. sem hér er til umr.

Mér er það minnisstætt frá undirbúningi þessarar stefnumörkunar, að við höfðum gefið þessum þætti ályktunar okkar fyrirsögnina: „Orkusparnaður“. En einhver fann að því þá í umr., að sparnaðarheitið mundi ekki falla í góðan jarðveg í landi þar sem nóg væri um óbeislaðar orkulindir, slíkt bæri keim af höftum og auðvelt að gera slíka stefnu tortryggilega í augum almennings. Því rifja ég þetta hér upp, að það segir nokkra sögu um viðhorfsbreytingu, sem síðan hefur átt sér stað, að ég leyfi mér að vona, og hún endurspeglast m.a. í fyrirsögn þessarar þáltill.

Eins og margir góðir straumar hefur áhugi á orkusparnaði borist til okkar erlendis frá eða a.m.k. hjálpað til að vekja okkur til umhugsunar um þessi mál. Aðgerðir annarra þjóða, sem m.a. birtust okkur í mikilli verðhækkun á olíu haustið 1973, áttu ekki síður þátt í að rumska við okkur og minna á að orkulindir jarðar eru ekki óþrjótandi og verðlag á orku og meðferð hennar skiptir miklu fyrir efnahag hverrar þjóðar. Við skulum vera minnug þess, að það er ekki aðeins hin innflutta orka í formi eldsneytis sem hefur margfaldast í verði hin síðustu ár, heldur hafa aðföng til vatnsaflsvirkjana okkar, raflína og hitaveitna stigið ört í verði, m.a. vegna hækkunar olíuverðs, á sama tíma og lánakjör á því fjármagni, sem við höfum tekið erlendis til slíkra framkvæmda, hafa orðið til muna óhagstæðari. Þannig hefur tilkostnaður við öflun innlendrar orku hækkað ört að raungildi á stuttum tíma og engu minni ástæða til hagsýni og sparnaðar við nýtingu hennar en hinna innfluttu orkugjafa.

Í grg. þeirrar þáltill., sem hér er á dagskrá, koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar og ábendingar, en ég tel þó rétt að bæta við nokkru og greina hv. þd. um leið frá nokkrum þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að á vegum opinberra aðila á síðustu árum varðandi orkusparnað, og raunar koma einnig áhugamenn og sjálfboðaliðastörf inn í þá mynd. Jafnframt vil ég greina frá nokkrum þáttum, sem í undirbúningi eru eða ég hef í huga að ýta á eftir á vettvangi iðnrn. og í samstarfi við aðra aðila.

Heildarnotkun Íslendinga umreiknuð í jafngildi olíu samkv. alþjóðlegum staðli var á árinu 1977 talin nema 1 460 000 tonnum af olíu, en var á árinu 1972 talin jafngilda um 1 100 000 tonnum af olíu og hefur þannig vaxið um 33% — eða þriðjung — á 5 árum. Svarar þetta til um 17 þús. gwst. umreiknað í raforku. Ef eingöngu er litið á þá orku sem notanda er afhent nú, jafngildir það 13 370 gwst á ári, sem skiptist þannig: 32 2% eru jarðvarmi eða ættuð frá jarðvarma, 15.8% raforka framleidd með vatnsafli og 52% olía. Þannig er sú orka, sem notendum í landinu er nú afhent, 52% erlend orka innflutt sem eldsneyti og 48% innlend orka, raforka og jarðvarmi.

Þetta háa hlutfall innfluttrar orku leiðir hugann fyrst og fremst að tveimur atriðum: Í fyrsta lagi, hversu mjög við erum háð olíunni, sem þegar til lengri tíma er lítið verður að teljast ótryggur orkugjafi. Af þessum sökum hljótum við eins og aðrar þjóðir að kosta kapps um að auka hlut innlendra orkugjafa alls staðar þar sem því verður við komið. Í annan stað sýnir hlutdeild innfluttrar orku okkur glöggt hvaða þýðingu spámaður og bætt nýting eldsneytis hefur fyrir orkubúskap þjóðarinnar og gjaldeyrisstöðu. Á því sviði má að líkindum ná skjótustum árangri. Er þá ekki dregið úr þýðingu sparnaðar á innlenda geiranum, svo sem að draga úr töpum í raforkuflutningi og í flutningi á heitu vatni og nýtingu þessara orkugjafa á heimilum og í atvinnurekstri.

Sjávarútvegurinn og skipafloti okkar notar drjúgan hluta innflutts eldsneytis í formi olíu. Árið 1977 nam heildarsala á olíu 310 þús. tonnum, þar af notuðu fiskiskip okkar 130 þús. tonn og til húshitunar fóru 104 þús. tonn. Afgangurinn fór til annarra nota: á bifreiðar, vinnuvélar, rafstöðvar o.fl. En inn í þessa mynd vantar notkun fraktskipa okkar, sem kaupa stóran hluta af olíu sinni erlendis. Eðlilegt er í ljósi þessarar skiptingar að horft sé sérstaklega til skipastólsins og til húshitunar með eldsneyti.

Að því er varðar fiskiskipin koma til margir samverkandi þættir, allt frá skipulagi veiðanna til þeirrar tegundar olíu, sem notuð er, og nýtingar hennar. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni skipulag veiðanna, stjórnun og sumpart stjórnleysi, en um það hafa verið dregin fram mörg dæmi á undanförnum árum og sum mjög umhugsunarverð. Á því sviði þyrftum við sannarlega að ná árangri fyrr en seinna til að sjávarútvegur okkar verði arðgæfari en nú er, og þetta snertir það stórmál sem er verndun og nýting fiskstofna innan íslenskrar lögsögu.

Hinn þátturinn er hinn tæknilega hlið olíunotkunar í skipunum og þeir möguleikar sem þar eru á sparnaði, m.a. með notkun svartolíu í stað gasolíu. Olíunotkun á hvern togara mun vera á bilinu 1.3 til 2.1 millj. lítra á ári og fjöldi togaranna er nú að nálgast 80, þannig að olíunotkun togaraflotans gæti numið um 130 millj. lítra af olíu á ári. Verð lítra af gasolíu er nú nálægt 57 kr. á lítra án söluskatts og í vændum eru verulegar hækkanir á því verði, en miðað við 57 kr. á lítra er orkukostnaður fyrir togaraflotann á bilinu 7–8 milljarðar kr. á ári. Þar fyrir utan er svo loðnuflotinn og minni bátar. Verð á svartolíu er nú rúmlega 40% lægra en á gasolíu og því augljóst hver hagkvæmni er að því ef unnt er að knýja skipastól okkar í vaxandi mæli með þessu ódýrara eldsneyti. Að þessu, þ.e. breytingu á togurum okkar frá gasolíu yfir á svartolíu, — og þá er kannske rétt að skjóta því inn að það, sem hér er nefnt svartolía og flutt er til landsins nú, er ekki það sama og víða erlendis gengur undir því nafni, heldur er þar um að ræða olíu af betri gæðaflokki en hin algengasta svartolía er, — en það hefur verið unnið að þessum breytingum á undanförnum árum, m.a. með samstarfi stjórnvalda og útgerðaraðila. Svartolíunefnd, sem skipuð var af sjútvrh. vinstri stjórnarinnar 1971–1974, vann mjög gott starf á þessu sviði. Nú ganga 13 eða 14 togarar fyrir svonefndri svartolíu hér á landi.

Ég er ekki viss um að menn átti sig á þeim upphæðum, sem hér eru í húfi, og vil því nefna nokkur dæmi.

Við horfum eðlilega mjög til þeirrar olíu, sem fer til upphitunar húsa, og hún er umtalsverð að magni og var, eins og ég áðan gat um, 104 þús. tonn árið 2977. Þannig eru t.d. notaðir til beinnar olíukyndingará stað eins og Höfn í Hornafirði 1.9 millj. lítrar af olíu á ári, þ.e. miðað við árið 1977, en það er þó ekki meira en meðaltalsolíunotkun á hvern togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Togarar Bæjarútgerðarinnar ganga fyrir gasolíu, og mér er tjáð af sérfróðum aðilum, að sparnaður af því að breyta þeim yfir á svartolíu gæti numið allt að 45 millj. kr. á hvert skip á ári, eða ca. 135 millj. kr. fyrir þessa útgerð Reykvíkinga á einu ári. Þá má nefna breytingu sem gerð var á Herjólfi fyrir 9 mánuðum frá gasolíu yfir á svartolíu. Samkv, upplýsingum útgerðarinnar hefur sparnaður verið um 70 þús. kr. á dag, eða um 2 millj. kr. á mánuði. — Þannig eru sparnaðaraðgerðir af þessu tagi í gangi, og þó að ég sé ekki sérfróður um þessa hluti og vilji ekki leggja á þá dóm í einstökum atriðum, virðist mér að miðað við jákvæða reynslu mætti spretta verulega úr spori í þessum efnum og ekki óeðlilegt að þau skip, sem gerð eru út af ríkinu á vegum Skipaútgerðar ríkisins, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslu, komi einnig inn í þessa mynd.

Því vek ég sérstaka athygli á þessum þætti sem snýr að olíunotkun skipa, að ekki er um hann fjallað í annars fróðlegri grg. með þessari till. Hér er um aðgerðir að ræða sem verulega munar um í krónum talið og unnt á að vera að framkvæma mun hraðar en nú er gert, ef vilji og skilningur er fyrir hendi. Vert er líka að minna á þær miklu verðhækkanir sem orðið hafa á olíu á heimsmarkaði erlendis á árinu sem leið og eru enn í gangi og eiga eftir að segja til sín í verðkerfi okkar að verulegu leyti og auka á þann vanda sem fyrir er. Þannig nam hækkun á dísilolíu á liðlega þriggja mánaða tímabili, frá júlí til nóvember, svo dæmi sé tekið, rúmum 34%, og nú fyrir nokkru tilkynntu OPEC-ríkin áform sín um 14% hækkun á óhreinsaðri olíu á næstu 2 árum og kom fyrsti áfangi þessarar hækkunar, eða 5%, til framkvæmda um síðustu áramót. Af þessu er ljóst, að við þurfum að búa okkur undir að mæta á næstunni verulegum hækkunum á olíuverði til viðbótar þeim sem þegar hafa dunið yfir vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Það munar um það þegar nálega fjórði hver fiskur — og sumir segja þriðji hver — sem á land kemur fer í að borga orkukostnað veiðiskips. Sú þróun má ekki halda áfram ef unnt er að koma þar vörnum við.

En í sambandi við olíunotkun í landi er ekki síður ástæða til aðgerða, ekki aðeins í þá átt að útrýma olíunni eftir því sem skynsamlegt er, heldur engu síður og tafarlaust að tryggja bætta nýtingu. Þetta á m.a. við um nýtingu ollu til húshitunar, hvort heldur um er að ræða íbúðarhús, vinnustaði eða opinberar byggingar, svo sem sjúkrahús og skóla.

Hér var fyrr á þessu þingi til umr. þáltill. um jöfnun hitunarkostnaðar í skólum. Eðlilegt er að slíkar hugmyndir komi fram þegar hitunarkostnaður skóla, sem nota olíu, er orðinn þrisvar til fjórum sinnum meiri en samsvarandi skóla á hitaveitusvæðum. En aðalatriðið í þessu efni hlýtur að vera, svo sem bent var á í umræddri till., að kanna á hvern hátt er unnt að lækka þennan kostnað, t.d. með bættri nýtingu olíunnar, með því að stilla betur kynditækin, með því að koma í veg fyrir að stór hluti varmans úr olíunni tapist gegnum illa einangraða veggi eða þök ellegar glugga með einföldu gleri.

Við athuganir, sem fram hafa farið á nokkrum stöðum á landinu varðandi brennslunýtni olíukatla, hefur komið í ljós að með eðlilegu viðhaldi og stillingu kynditækja má auðveldlega ná a. m. k. 10–12% betri nýtingu og lækkun hitunarkostnaðar sem því nemur, og í mörgum tilvikum er þarna um margfalt hærra hlutfall að ræða. Það sýnir sig að ekki er rétt að treysta alfarið á þjónustu olíufélaganna í þessu sambandi, enda hagur þeirra af sparnaði minni en enginn. Í þessu efni er skylt að minnast lofsverðs framtaks nemenda úr Vélskóla Íslands, sem undir forustu kennara tóku myndarlega til hendi fyrir nokkrum árum á Akranesi. Þar lét árangur ekki á sér standa — ég hef heyrt nefnda 10–15% bætta nýtingu þar í kaupstaðnum, — og líklega er hvergi í þéttbýll með umtalsverða olíukyndingu lægri hitunarkostnaður nú en einmitt þar. Þetta dæmi Vélskólans, sem kostaði lítið sem ekkert, en færði nemendum verðmæta reynslu, vísar á ónotaða möguleika í tengslum við skólastarf í landinu, þ.e. að láta nemendur verknámsskóla og annarra skóla glíma við hagnýt verkefni af þessu tagi og öðlast um leið skilning á gildi orkusparnaðar og að flytja þau viðhorf til almennings og almenningi til hagsbóta. — Þetta á ekki síður við um sveitir, þar sem menn búa víða við olíukyndingu og dreifikerfi anna ekki rafhitun fyrr en að loknum kostnaðarsömum aðgerðum við styrkingu þeirra. Fáir munu þakklátari en bændur að fá aðstoð í þessum efnum, og fyllilega kemur til álita að notast um skeið og e.t.v. til nokkurrar frambúðar við hvort tveggja raforku og olíu til hitunar húsa í sveitum og nýta þannig þann búnað sem fyrir er á meðan hann endist og unnið er að styrkingu dreifikerfanna. Þar gæti raforkan t.d. lagt til 70% orkunnar á sveitabýli, en olían 30% og yrði notuð til að taka toppana af í álaginu, en um þá munar mest við álag á dreifikerfið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í ítarlega upptalningu fleiri þátta, þar sem fara þarf ofan í saumana á olíunotkun með tilliti til sparnaðar, þótt af mörgu sé að taka til viðbótar, ekki síst í atvinnurekstri til sjávar og sveita. Þar hljótum við að stefna að því að taka í notkun innlenda orkugjafa eftir því sem tækni og hagkvæmni býður. Hins vegar skulum við varast að líta á olíuna sem af hinu illa hvarvetna, sem aðskotahlut í orkubúskap okkar sem útrýma beri hvarvetna þar sem kostur er. Þar held ég að hagkvæmnismat verði að ráða ferðinni samhliða mati á öryggi landsmanna og orkukerfanna. Ég leyfi mér í þessu sambandi að benda á þær athuganir sem nú er unnið að varðandi fjarvarmaveitur í þeim landshlutum sem lítinn kost virðast eiga á jarðvarma, fyrst um sinn a.m.k. Hugsanleg hagkvæmni fjarvarmaveitnanna umfram beina rafhitun byggist á nýtingu afgangsraforku til upphitunar ásamt olíu til að hlaupa undir bagga og til öryggis. Kostur fjarvarmaveitnanna með slíkri blöndun orkugjafa umfram rafhitun felst ekki síst í auknu öryggi, en einnig á að koma til lægri kostnaður notenda og markaður fyrir afgangsorku. Hagkvæmnin kemur einnig og ekki síst fram í því, að unnt á að vera að tímasetja nýjar virkjanir fyrir orkukerfið síðar en ella væri ef bein rafhitun ætti í hlut. Málefni slíkra fjarvarmaveitna eru nú í athugun í iðnrn., m.a. varðandi hugsanleg skil milli eignar- og rekstraraðila að kyndistöðvum annars vegar og að dreifikerfinu út frá þeim hins vegar.

Á árinu 1975 fól iðnrn. áætlanadeild Framkvæmastofnunar ríkisins að gera tillögur að samræmingu áætlunargerðar um nýtingu innlendra orkugjafa til hús= hitunar, iðnaðarþarfa og annarrar almennrar notkunar. Hefur verið unnið talsvert starf á vegum Framkvæmdastofnunar að þessu verkefni undir vinnuheitinu: „Úttekt á orkubúskap Íslendinga“, en það er sama orðalag og fram kemur í fyrirliggjandi þáltill. Studdist Framkvæmdastofnun við sérstakan samráðshóp við mótun þessa verks og hafði samráð og samstarf við fyrirtæki innan orkugeirans, ekki síst Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun. Meginvinna að þessu máli á vegum Framkvæmdastofnunar hefur beinst að könnun á húsakosti landsmanna og æskilegri úrlausn varðandi húshitun, ekki síst utan þeirra svæða sem líkur eru á að leysi húshitunarmál með jarðvarma. Einnig lét stofnunin vinna almennari athuganir um orkumál Vestfjarða og að svokallaðri Norðurlandsvirkjun. Sitt hvað gagnlegt liggur fyrir úr þessu starfi, en mér sýnist þó að nokkuð hafi skort á um samhengi í málsmeðferð, sem m.a. hafi stafað af óvissu um skipulag raforkuiðnaðarins. Einnig hefði verið eðlilegt að tryggja betri tengsl við Orkustofnun um þetta verkefni og að mínu mati verið eðlilegra að fela henni það frá byrjun, enda slíkar athuganir á orkubúskap þjóðarinnar lögum samkv. í verkahring Orkustofnunar, en í 2. gr. orkulaga segir m.a. um hlutverk stofnunarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk Orkustofnunar er:

1. Að vera ríkisstj. til ráðuneytis um orkumál.

2. Að annast:

Yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra; yfirlitsrannsóknir á orkubúskap þjóðarinnar, er miði að því, að unnt sé að tryggja, að orkuþörf þjóðarinnar sé fullnægt og orkulindir landsins hagnýttar á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.“ — Og síðar í sömu lagagr.:

„Að vinna að áætlunargerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda landsins. Um þetta skal Orkustofnun hafa samvinnu við aðrar ríkisstofnanir og aðila, sem vinna að áætlunargerð til langs tíma.“

Þetta rifja ég upp hér til að taka af tvímæli um að eðlilegt er að Orkustofnun sé falin forusta um úttekt af því tagi sem fyrirliggjandi þáltill. gerir ráð fyrir undir stjórn viðkomandi rn. Nokkurrar tilhneigingar hefur hins vegar gætt á liðnum árum að sniðganga stofnunina í stað þess að tryggja að hún geti sinnt og sinni þeim verkefnum sem lög bjóða.

Af því verkefni, sem Framkvæmdastofnunin hafði í gangi, er nú helst eftir að fylla í nokkrar eyður í gagnasöfnun varðandi húshitunarmál á Austurlandi og mun iðnrn. stuðla að því, að því verki verði lokið sem fyrst, en að öðru leyti verði Orkustofnun framvegis falin forusta um úttekt á orkubúskap okkar og orkunýtingu, að orkusparnaði meðtöldum, ásamt þeirri vinnu sem sjálft rn. getur lagt í té. Þar með er ekki sagt að stofnunin eigi ein sér að rækja þessi verkefni. Ég tel miklu skipta, að leitað sé samstarfs á breiðum grundvelli um þessi mál, og minni á, að framkvæmd skiptir hér mestu máli og ekki dugir að láta sitja við orðin tóm.

Í tíð fyrrv. iðnrh. óskaði rn. eftir því við Orkustofnun, að hún tæki til athugunar ráðstafanir til orkusparnaðar hérlendis. Skilaði Orkustofnun í des. 1977 ábendingum til rn. um ýmsar hugsanlegar ráðstafanir til orkusparnaðar og flokkaði þær í þrennt eftir því, hvort líklegt væri talið að þær skiluðu verulegum árangri fljótlega, eða innan 5 ára, á næstu 10–15 árum og í þriðja lagi langtímaráðstafanir, þar sem verulegs árangurs væri vart að vænta fyrr en undir næstu aldamót. Jafnframt leitaði stofnunin til nokkurra aðila um samstarf og hóf upplýsingasöfnun. Minna var að gert á þessu sviði en fyrirhugað var, einkum vegna niðurskurðar á fjárveitingum til stofnunarinnar s.l. vor. Þá starfaði vinnuhópur undir forustu Egils Skúla Ingibergssonar rafmagnsverkfræðings og nú borgarstjóra að því að gera tillögur um ráðstafanir til að draga úr orkutöpum í dreifikerfum raforku. Hefur hann lokið störfum og er skýrsla væntanleg innan skamms frá þessum hópi.

Ég hef lagt á það áherslu við orkumálastjóra, að stofnun hans leggi aukna áherslu á athuganir varðandi orkusparnað, og hefur það hlotið ,góðar undirtektir hans. Þannig er nú fyrirhugað að koma á fót vinnuhópum eftir því sem fjárveitingar frekast leyfa. Hyggst Orkustofnun tilnefna af sinni hálfu formenn í slíka hópa, en í flestum tilvikum kaupa að vinnu og leita samstarfs við aðra aðila. Þeir hópar, sem fyrirhugað er að setja á laggirnar til að byrja með, eru:

1. Samstarfshópur með Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins til að fjalla um möguleika á orkusparnaði í hitun húsa og hönnun húsrýmis með tilliti til hans.

2. Samstarfshópur með Fiskifélagi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna til að fjalla um möguleika á að spara olíu á fiskiskipaflotanum.

3. Samstarfshópur með Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins til að fjalla um orkusparnað í fiskiðnaði, t.d. frystiiðnaði og fiskmjölsiðnaði.

4. Samstarfshópur með Iðntæknistofnun Íslands um orkusparnað í öðrum iðnaði en fiskiðnaði.

5. Samstarfshópur með Vélskóla Íslands um olíusparnað í hitun húsa.

Þá vinnur orkuspárnefnd, sem er samstarfsnefnd fyrirtækja og stofnana í orkuiðnaðinum, að spá fram til ársins 2000 um aðrar orkutegundir en raforku, en nefnd þessi sendi í júlí s.l. frá sér raforkuspá til sama tíma, þ.e. til ársins 2000, eins og hv. alþm. er kunnugt. Slíkar orkuspár eru mikilsverð hjálpartæki við mótun orkumálastefnu til langs tíma og einnig til að meta þjóðhagslegan ávinning af aðgerðum til orkusparnaðar. Hins vegar ber að varast að taka þær bókstaflega og gagnrýnilaust, því að forsendur eru misjafnlega áreiðanlegar og þarfnast því endurmats með stuttu millibili.

Fræðsla til almennings um orkumál og aðgerðir til orkusparnaðar er nauðsynleg eigi árangur að nást á þessu sviði sem öðrum. Slíkt hefur enn ekki komist á rekspöl hérlendis, enda skammt síðan farið var að huga að þessum málum fyrir alvöru og stefna enn lítt mótuð. Ég mun hins vegar beita mér fyrir því, að hafist verði handa í þessu efni, og leita um það samstarfs við fræðsluyfirvöld og fjölmiðla, og hefur það raunar þegar verið gert, en einnig hafa í huga frumkvæði á vegum iðnrn. og stofnana er starfa á þess vegum, bæði Orkustofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Hefur hin síðast talda raunar unnið að rannsóknum, og útgáfustarfsemi varðandi orkusparnað birtist í bók um einangrun húsa er út kom á s.l. sumri, og annað rit er í vændum varðandi upphitun húsa. Slíkar rannsóknir og samhæfðar og víðtækar aðgerðir ásamt fræðslu eru vænlegar til að ná árangri í því mikilsverða máli sem hér er til umr.

Umhugsun um orkusparnað og aðgerðir á því sviði fara vissulega í bág við þann sóunarhugsunarhátt sem alið er á í hinu óhefta markaðskerfi iðnaðarþjóðfélaga á Vesturlöndum. Óðaverðbólga eins og sú sem við búum við er ekki heldur hvetjandi til sparnaðar, hvorki varðandi orku né efnisleg verðmæti. Andóf gegn þessum hugsunarhætti og því auglýsingaskrumi, sem ótrúlega miklu ræður um hvað menn telja sig þurfa, er kannske ekki líklegt til að bera skjótan árangur, en skylt er engu að síður að sýna þar viðleitni. Það tengist beint og óbeint baráttunni við þann vanda sem við er að fást í efnahagslífi okkar. Orkusparnaður og hagkvæm orkunýting á ekkert skylt við skömmtunarhugarfar, boð eða bönn gagnvart almenningi. Þvert á móti er það liður í viðleitni til jafnari og betri lífskjara og hugarfars, sem hollt er að rækta í þjóðfélögum þar sem gengið er hraðar á takmarkaðar auðlindir en góðu hófi gegnir.

Við Íslendingar höfum á margan hátt hagstæða stöðu í þeim undirstöðuþætti sem orkan er í samfélagi nútímans. Þeirri stöðu þurfum við að halda með því að standa vörð um orkulindir okkar, nýta þær af hagsýni og umfram allt viðhalda yfirráðum okkar yfir þessum dýrmætu auðlindum. Okkur ber ekki aðeins að nýta þær okkur til hagsbóta horft til langs tíma og á þann hátt að sem minnstri röskun valdi á náttúrlegu umhverfi og landkostum, heldur einnig að fylgjast með og rannsaka nýja þróunarkosti, svo sem hugsanlega framleiðslu eldsneytis til eigin þarfa, svo sem methanóls og vetnis, og til útflutnings. Við erum nú vitni að vaxandi átökum meðal grannþjóða vegna þrenginga í orkumálum og andstöðu almennings og útbreiddan geig við kjarnorkunotkun. Sú reynsla ætti að vera okkur, sem búum að öðrum og betri kostum í orkumálum, hvatning til að halda vel á því sem okkar gjöfula land hefur að bjóða.

Ég vil svo að endingu kynna fyrir hv. þm. nokkur atriði sem ég hef lagt fyrir ríkisstj. til athugunar og kynningar, og vildi raunar svo til að þau komu þar á borð í dag. Ég tel rétt af tilefni þeirrar umr., sem hér er hafin um orkusparnað, að greina þinginu frá þessum aðgerðum og hugmyndum sem á döfinni eru.

Iðnrn. hefur undanfarnar vikur og mánuði haft þessi mál til meðferðar og tillögur í undirbúningi og við væntum þess að geta komið þeim á rekspöl nú alveg á næstunni. Þegar ítarlegar tillögur um þetta efni liggja fyrir, þá mun rn. leita samstarfs við alla þá fjölmörgu aðila, sem eiga hlut að máli, stofnanir og fyrirtæki sem búa yfir sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði.

Að mati rn. verður að ganga að þessu verki með áfangamarkmið í huga og kosta kapps um að hefja fyrst markvissar aðgerðir á þeim sviðum sem hafa mesta efnahagslega þýðingu fyrir samfélagið. Í fyrstu verður lögð höfuðáhersla á að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að spara innflutt eldsneyti. Þar ber hæst: 1. Olíunotkun fiskiskipa. 2. Notkun olíu til húskyndingar. — Verður reynt að draga upp grófa hugmynd um það, hve miklum sparnaði muni unnt að ná fram á þessum tveim afmörkuðu sviðum og vil ég nefna nokkur atriði í því sambandi.

Varðandi olíunotkun fiskiskipa hefur þegar nokkuð komið fram í máli mínu, en til að draga það saman vil ég geta þess, að árið 1977 var skipting olíunotkunar fiskiskipaflotans milli orkugjafa eftirfarandi: Gasolía 130 þús. tonn, eða 91.5%. Svartolía 12 þús. tonn eða 8.5%. Samtals voru þetta 142 þús. tonn. — Að mati sérfróðra manna er talið að nýta megi svartolíu á nær allan skuttogaraflota landsmanna. Við slík umskipti gæti skipting milli orkugjafa á fiskiskipaflotanum orðið: Gasolía 62 þús. tonn, eða 44%. Svartolía 80 þús. tonn, eða 56%. Þetta er miðað við upphæðina 142 þús. tonn. Fjármagnssparnaður fyrir útgerðina á væntanlegu markaðsverði yrði því á bilinu 2000–2500 millj, og gjaldeyrissparnaður á bilinu 1500–1800 millj. Sparnaður við rekstur einstakra togara, sem leiðir af breytingu yfir á svonefnda svartolíu, er á bilinu 20–40 millj. kr. á ári að talið er, eftir stærð togarans. En fjárfestingarkostnaður í skipum við að breyta yfir í slíka ódýrari olíu er talinn nema 4–6 millj. kr. Hlutdeild olíukostnaðar í aflaverðmæti er um 16–18% og er sú viðmiðun þá miðuð við verðið 57.50 kr. á lítra af dísilolíu. Með hliðsjón á verðmismun á þessum tveimur olíutegundum má leiða að því líkur, að breyting yfir í svartolíu væri jafngildi u.þ.b. 7% fisksverðshækkunar.

Nú er unnið að því að koma á fót samstarfshóp þriggja viðskrn., sjútvrn. og iðnrn., sem ætlað er að kanna með hvaða hætti stjórnkerfið geti stuðlað að því með eðlilegum hætti, að svartolía verði notuð í stað gasolíu í togurum þar sem fært þykir að ráðast í slíkt af tæknilegum ástæðum — og náttúrlega með samþykki þeirra sem að útgerð þeirra standa. Jafnframt og óháð ofangreindri könnun er nauðsynlegt að ríkisvaldið hafi forustu um að koma á fót ráðgjafarþjónustu á þessu sviði fyrir útgerðaraðila og aðra er málið varðar. Slík ráðgjafarþjónusta gæti haft það hlutverk að miðla upplýsingum, að veita aðstoð við breytingar á skipum, að fylgjast með framvindu svartolíubrennslu, því að við vitum að það hafa ýmsir verið með spurningar í sambandi við það út frá tæknilegum forsendum m.a. að skrásetja og flokka þær bilanir, sem upp kunna að koma og rekja mætti til slíkra breytinga, og leita heppilegustu úrlausna á hugsanlegum vandamálum. Um frekari skilgreiningu á verksviði og starfsaðferðum slíkrar ráðgjafarþjónustu þyrfti að hafa náið samráð og samstarf við Landssamband ísl. útvegsmanna.

Nauðsynlegt verður að afla einhvers fjármagns í þessu skyni, og ég mun teita eftir því að slíkt fjármagn fáist, þannig að ekki verði dráttur á því að hafnar verði nauðsynlegar aðgerðir á þessu sviði sem gefið geta þjóðarbúinu verulegar upphæðir með beinum og óbeinum hætti.

Þá vil ég aðeins víkja að notkun olíu til húskyndingar, en á árinu 1977 nam sala á gasolíu til húshitunar, eins og áður segir 104 þús. tonnum og sala á svartolíu til húshitunar 10 þús. tonnum. Komið hefur í ljós að olíunotkun til húshitunar er víða 20–30% hærri en eðlilegt getur talist miðað við stærð hússins og sums staðar allt að 50% hærri. Helstu ástæður þessa eru ófullnægjandi stilling kynditækja, léleg einangrun og óþétt hús. Til að gefa einhverja hugmynd um hvaða fjárhæðir hér er um að ræða má nefna að 10% sparnaður í olíunotkun samsvarar rúmlega 500 millj. kr. á ári á væntanlegu markaðsverði gasolíunnar.

Aðgerðir, sem iðnrn. mun beita sér nú á næstunni fyrir, eru tvíþættar varðandi olíukynt hús: Í fyrsta lagi stillingu olíukyntra katla og í öðru lagi könnun á einangrun eldri íbúðarhúsa í samvinnu við þær stofnanir, sem færastar eru að fjalla um þau efni. Er fyrirhugað að skipuleggja leiðangra til að stilla kynditæki og tekin verði fyrir ákveðin svæði úti um landið í áföngum. Verður leitað samstarfs við nemendur og kennara ýmissa skóla í þessu skyni. Jafnframt slíkum aðgerðum til stillingar kynditækja verður reynt að kanna ástand annarra þátta sem áhrif hafa á olíunotkun húsanna. Á grundvelli þeirrar reynslu og niðurstöðu, sem af þessu fæst, mun ráðuneytið leggja fram tillögur um áframhaldandi aðgerðir.

Eins og ég hef þegar að vikið eru fjölmargir aðrir þættir, sem horfa þarf til, þó ekki sé annað en það sem snertir hið innflutta eldsneyti, fyrir utan okkar innlendu orkugjafa. Það er m.a. á sviði húshitunar. Það þarf að koma til rannsókn á mögulegri notkun svartolíu til húshitunar í ríkari mæli en nú er, þar sem hús verða áfram kynt með olíu, tæknilegir möguleikar, umhverfisáhrif af slíku o.fl., fjarhitun með afgangsorku og svartolíu á þéttbýlisstöðum og áhrif í því sambandi á raforkukerfið og fjárfestingu í raforkuiðnaðinum. Hugsanleg fjarhitun frá sorpeyðingarstöðvum þykir nú kannske hljóma sem framtíðarmúsík, en ég hygg að menn viti að sums staðar erlendis eru heil þéttbýlissvæði hituð upp með hita frá sorpeyðingarstöðvum. Þar hygg ég að af borgum í Evrópu hafi Parísarborg riðið á vaðið, og ég veit ekki betur en hún nýti allan þann varma sem fæst við sorpeyðingu á sínum vegum. Einnig þarf að athuga í sambandi við þetta beina rafhitun og samhengið þarna á milli.

Varðandi fiskveiðarnar þarf að koma til athugun á nýtingu á kælivatni við upphitun skipa. Líka þarf að kanna betur en orðið er og upplýsa um þætti sem snerta ganghraða fiskiskipa og samhengið á milli orkunýtingar og ganghraða við hinar ýmsu aðstæður. Þarna hygg ég að vanti upplýsingar til skipstjórnarmanna. Þó að auðvitað sé erfitt að gefa ákveðnar formúlur er þekking á þessu sviði mjög æskileg og raunar nauðsynleg. Svo þarf, eins og ég vék að áður, að koma til skynsamlegri stjórnun ásamt skipulagi veiða og vinnslu, sem hangir saman og verið hefur til umræðu oftar en einu sinni hér í þinginu á þessum vetri.

Í sambandi við samgöngur þarf í framtíðinni að líta til gangkerfa í bifreiðum og til notkunar einkabifreiða og möguleika á aukinni notkun almenningsfarartækja og nýtingu í því sambandi. Til athugunar hafa verið hjá einstökum aðilum möguleikar á að skipta yfir í rafknúnar bifreiðar, og er sjálfsagt að styðja við slíkar athuganir. Í sambandi við samgöngurnar þarf einnig að koma til könnun á orkuþörf og orkunotkun varðandi vöruflutninga bæði á sjó og landi.

Á sviði iðnaðar þarf að líta til orkusparnaðar í almennum iðnaði og fiskiðnaði og fara fram athugun á nýtingu innlendra orkugjafa í loðnubræðslum og í einstökum verksmiðjum, t.d. í Sementsverksmiðjunni á Akranesi, en forráðamenn hennar hafa nú hug á að kanna möguleika á að breyta til í sambandi við orkunotkun til meiri hagkvæmni.

Þannig eru þau svið fjölmörg og nánast ótæmandi sem hægt er að vísa til, þar sem rétt er að huga að mögulegum orkusparnaði í framtíðinni. En eins og ég hef rakið skiptir mestu að leggja áherslu á þá þætti sem skila þjóðhagslega mestum hagnaði í sambandi við orkusparnað, og á það mun iðnrn. leggja sérstaka áherslu. Að fræðsluþættinum verður einnig hugað og hefur þegar verið bryddað upp á kynningu á þessum þáttum við sjónvarp og útvarp.

Ég læt svo máli mínu lokið.