30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

75. mál, kaup og sala notaðra bifreiða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tek undir meginmálið í þeirri till., sem hér hefur verið reifuð, og einnig undir þær ábendingar, sem hv. 1. flm. kom með hér varðandi það, hvernig þetta mætti þannig úr garði gera, að sett væri undir lekann að svo miklu leyti sem mögulegt er með löggjöf. Hann gat þess, að ég hefði flutt í Ed. frv. um sölu notaðra lausafjármuna sem snertir þetta beint. Þetta frv. flutti ég á þinginu í fyrra og hef gaman af því til upplýsingar fyrir menn hér, að þegar þetta frv. var sent til umsagnar þess aðila sem hefði átt að vita gerst um þessi mál, þá kom fram í þeirri umsögn að allar frekari reglur hér um væru atgerlega óþarfar. Þetta er staðfest í umsögn sem send var þá fjh.- og viðskn. Ed., þannig að menn virtust ekki hafa mikinn grun um það þá, að eitthvert misferli gæti átt sér stað í þessum efnum. (Gripið fram í: Hver sendi þessa umsögn). Þessi ágæta umsögn var frá Verslunarráði Íslands, og ég skal ekkert um það segja, hvort þarna sé um visst réttmæti að ræða í þessu efni, því vafalaust má finna einhver lög sem eiga að koma í veg fyrir þetta. En þau lög hafa þá alla vega verið sniðgengin eins rækilega og raun hefur borið vitni um í vetur, þegar upplýsingar hafa komið fram um hið hrikalegasta misferli í þessum efnum.

Í þessu frv., sem ég var með í Ed. í fyrra og aftur nú, var stuðst beinlínis við gögn og ábendingar frá Landssambandi löggiltra bílasala í Noregi sem þeir vildu sjálfir fá fram, að vísu í reglugerð þar frekar en í lögum. Sumt er þar þegar í lögum, af því að þar eru sérstök lög um fornverslanir og annað sem lýtur að sölu á notuðum lausafjármunum, þannig að þeir voru aðallega að hugsa um nánari reglugerðarákvæði. Þar kem ég einmitt inn á ýmisleg atriði sem hv. þm. nefndi, en önnur var hann hér með sem ég held að skylt væri að taka til athugunar bæði hjá þeirri n., sem fær mitt mál til meðferðar í Ed., og sömuleiðis hjá þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, því hér hlýtur að vera hægt að samræma hlutina þannig að nokkuð tryggilega verði frá gengið. Skráning og strangari kröfur til þessara aðila eru einmitt faldar í þeim frvgr. sem ég lagði fram. Þar er þessum aðilum og reyndar þeim, sem fást við verslun eða umboðssölu með notaða eða gamla lausafjármuni, lagðar vissar skyldur á herðar sem tæpast er hægt að segja að þeim séu lagðar á herðar í dag. Alveg sérstaklega er talað um það, hvernig með þennan varning skuli fara og hvaða aðstæður skuli vera hjá þeim sem með þessa verslun fara.

Eðli fornverslana eða umboðssölu notaðra bifreiða skal ég ekki fara nánar út í hér, en ég held að það sé brýnt, eins og hv. 1. flm. þessarar till. kom inn á, að sett verði sérstök lög sem einmitt ættu að tryggja sæmilegt réttaröryggi í þessum viðskiptum. Ég er ekki heldur dómbær frekar en hann um það, hvort 8. gr. þessa frv. sem lýtur sérstaklega að þessu tiltekna atriði varðandi bílasalana, er nægileg. Mér hefur verið bent á það, að þessar svokölluðu raðsölur, þar sem aðalsvindlið hefur átt sér stað, verði ekki með öllu hindraðar þó að 8. gr. frv. um vottorð frá Bifreiðaeftirlitinu gangi í gildi, menn hafi enn þá visst svigrúm og vissa möguleika til þess að fara þar í kringum. Þá er skylt auðvitað að ganga þannig frá að réttaröryggi manna í þessum efnum verði enn tryggara.

Það er hins vegar athyglisvert, að það eru bílasalarnir sjálfir í Noregi sem óska eftir því og fara fram á það alveg sérstaklega, að strangari reglugerð verði sett um þessi viðskipti. Þeir óska einmitt sérstaklega eftir því þrátt fyrir betri lög og nákvæmari hjá sér, að enn strangari viðurlög verði við þessu, og það er alls ekki allt tekið hér inn í. Mér blátt áfram kom ekki til hugar að setja ýmis þau atriði inn, enda hljóta þau að verða reglugerðaratriði, sem þeir eru þar með, og kveða enn nánar á bæði um eftirlit og viðurlög í þessum efnum. En slíkt kemur ekki fyrir hér, og þegar á þetta er minnt og um þetta er leitað umsagna, þá kemur þvert á móti fram, að mönnum þykir hér allt með felldu, allt vera í lagi og eru ánægðir með það ástand sem hefur ríkt hér í þessum efnum og við höfum fengið ljós dæmi um nú í vetur. Á það vil ég hins vegar ekki leggja neinn dóm, hvað mikið þetta er. Það er allt núna í rannsókn og ekki rétt að fara nákvæmlega út í það, en hitt er ljóst, að mikið misferli hefur þar átt sér stað, hvað alvarlegt er hins vegar óljóst enn.

Ég sem sagt vil aðeins vekja athygli á því, að það væri áreiðanlega rétt að reyna að samræma þessa hluti, það sem er í frv. mínu annars vegar og þá nánari útfærslu á þessari till. sem hv. 1. flm. kom inn á áðan, þannig að hægt væri að standa sameiginlega að löggjöf í þessum efnum með svo aftur nákvæmari reglugerð, sem girti eins mikið fyrir þetta misferli og mögulegt væri.