06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar býsna fjölskrúðugar og komið er fram á kvöld, en ég held að ég verði nú að grípa niður á ýmsu, sem fram hefur komið, engu að síður og byrja þá kannske á að víkja að ummælum síðasta ræðumanns.

Hann tók rétt eftir því, að ég lagði mikið upp úr því að við hefðum vald á að hindra sérhvert brambolt sem gæti stofnað lífi í sjónum í hættu, þó að við hygðumst ekki endilega fara sjálfir að stunda námuvinnslu eða annað slíkt.

Að því er síðustu spurningu hans varðar, um friðlýsingu Norður-Atlantshafsins, þá get ég tekið undir hana, með því skilyrði að vísu að það sé full friðlýsing, bannaðar séu allar ferðir allra herskipa og kafbáta um þetta svæði. Ég er ansi hræddur um að okkur takist ekki að ná því fram. En ef okkur gæti tekist það í sameiningu, og kannske mundu Bandaríkjamenn frekar hlusta á mig og Rússar kannske á hans flokksbræður einhverja, þá væri þetta náttúrlega stórkostlegur ávinningur. En ég er voðalega hræddur um að við náum ekki árangri í þessu efni. En það ræðum við betur síðar. Við höfum raunar rætt það oft einslega og eigum eftir að gera.

Þá langar mig að víkja að tveim næstu ræðum þar á undan, ágætisræðu Gils Guðmundssonar, þar sem hann benti á að það væri ekki fagurt til frásagnar ef við Íslendingar teldumst gráðugustu hákarlarnir hér á norðurslóðum með því að vilja allt gleypa. Hann benti réttilega á að það gæti stórskaðað okkur á alþjóðlegum vettvangi ef við ætluðum nú að sýna mátt okkar og megin, þegar við hefðum náð þessum miðum, og hrekja Færeyinga héðan í burtu. Það var allt hyggilegt sem hann sagði í því efni. En þegar hann aftur á móti kom að umr. um Jan Mayen, þá fannst mér eins og hann væri heldur tregur til að viðurkenna nauðsyn þess að hefja formlegar viðræður og teldi að í því gæti verið fólgin einhver viðurkenning á rétti Norðmanna. Við skulum segja að svo sé, að það felist í ósk um formlegar viðræður viðurkenning á einhverjum rétti Norðmanna. Ég vil viðurkenna einhvern rétt Norðmanna. Ég held að þrátt fyrir það að Norðmenn hafa um stutt skeið átt Jan Mayen eða talið sig eiga hana, við skulum viðurkenna að svo sé, þá eiga þeir a.m.k. einhver réttindi, enda gæti aldrei farið svo að þeir ættu ekki 12 mílna landhelgi og væntanlega einhver hugsanleg frekari réttindi. Þess vegna held ég að það sé engu hætt með því að viðurkenna að Norðmenn eigi þar réttindi, þeir eigi Jan Mayen og eigi 12 mílurnar. Það gefur okkur fullt tilefni til þess að ræða við þá. Þar að auki er vitað, á allra vitorði, að í Noregi er rætt meðál æðstu stjórnvalda um þann möguleika að færa út efnahagslögsögu við Jan Mayen í 200 mílur, og við getum óskað formlegra viðræðna bara á þeim grundvelli að slíkt hefur spurst. Við etvm ekki að viðurkenna eitt eða neitt með því, og það er ekki nokkur lifandi leið að skjóta sér undan því að taka upp þessar formlegu viðræður, þær hljóta að hefjast von bráðar. Menn hljóta að gefast upp á þessari tregðu sem ríkt hefur því miður.

Þá er komið að ræðu Kjartans Ólafssonar, hv. þm., og var þar líka margt gott sagt í upphafi ræðunnar, þótt hún drægist allmjög á langinn og gæfi raunar tilefni til að fara út í gamla tímann, t.d. að víkja aðeins að árinu 1976 sem hann talaði um, þá hefði allt verið í góðu gengi, því að Bretar hefðu gefist upp og hefðu ætlað sér sjálfir að taka upp 200 mílur, það hefðu menn mátt sjá fyrir og þess vegna gæti enginn hælst yfir því að hafa átt frumkvæði eða eitthvað stuðlað að 200 mílunum. Mig langar aðeins til þess að lesa hérna örlítinn kafla úr merku blaði, það heitir Þjóðviljinn og ritstjóri að þessu blaði var um þessar mundir maður að nafni Kjartan Ólafsson, sýnist mér hér, og svo annar, Svavar Gestsson, en hann mun hafa borið ábyrgðina um þetta leyti. En það er hér ritstjórnargrein sem er skrifuð 30. ágúst 1973 eða birtist þann dag — hún er væntanlega skrifuð daginn áður, og þar er fjallað um landhelgismál. Greinin hefst á þessu, með leyfi forseta:

„Það hefur áreiðanlega verið fróðlegt fyrir þjóðina að fá að fylgjast með málefnalegri einangrun ritstjóra Morgunblaðsins á sjónvarpsskerminum í fyrrakvöld, þegar hann var að reyna að útlista framtíðarkenningar sínar. Morgunblaðið hefur undir forustu þessa manns að undanförnu reynt að gera Sjálfstfl. dýrlegan með mikilli umræðu um 200 mílurnar.“ Síðan er margt fróðlegt í greininni, ég les svo bara niðurlagið, það er svona: „En Íslendingar vita fullvel, að undanhaldssjónarmiðin, sem haldið er fram í stærsta dagblaði landsins, eru bundin við einangraða klíku valdamanna í Sjálfstfl. Þau sjónarmið eiga ekkert fylgi utan þessarar klíku. Einangrun Morgunblaðsritstjórans á sjónvarpsskerminum var að vísu eftirtektarverð, en skoðuð í samanburði við viðhorf allrar þjóðarinnar í landhelgismálinu í dag er einangrunin alger. 50 mílurnar eru dagsverkið. Þær heyra ekki fortíðinni til nema í gerviheimi ritstjóra Morgunblaðsins.“

Daginn eftir birtist í þessu sama blaði þessa manns viðtal við formann Alþb. núv., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, þar sem m.a. stendur þessi setning, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er allt annað mál, hvort við Íslendingar tökum okkur 200 mílna landhelgi einhvern tíma í framtíðinni, þegar slíkt er heimilt samkv. breyttum“ — segi og skrifa: „breyttum alþjóðalögum eða að aflokinni Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.“

Þetta var sem sagt þrem árum áður en síðasta skipið breska sigldi út úr íslenskri fiskveiðilandhelgi. Þessar kempur töluðu þá á þennan veg. Og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði að alþjóðalög yrðu að breytast eða Hafréttarráðstefnu að ljúka til þess að við gætum svo mikið sem talað um 200 mílur. Einangrun Morgunblaðsritstjórans byggðist á því að hann sýndi kort af 200 mílunum á sjónvarpsskerminum og boðaði það að Íslendingar ættu að berjast fyrir 200 mílunum. Svo kemur þessi maður, hv. þm. Kjartan Ólafsson, slær um sig og segir að það sé helst allt honum og hans flokksmönnum að þakka að við unnum sigur í landhelgismálinu.

En úr því að ég er búinn að nefna hér formann Alþb. og raunar einn ráðh. úr Alþb. sem var ritstjóri þessa blaðs, þá get ég ekki verið að mismuna mönnum. Það má ekki gleyma neinum öðrum og þess vegna er nú kannske rétt að athuga hvað hæstv. forsrh., sem því miður er ekki viðstaddur hér í kvöld, sagði í þessum sama sjónvarpsþætti orðrétt, með leyfi forseta:

„En ég vil benda á það, að þó að menn séu bjartsýnir um að 200 sjómílurnar muni sigra á þessari Hafréttarráðstefnu, þá er það nú ekki svo að það sé komið strax í gang. Ég er nú hræddur um það, því miður, að menn séu kannske heldur um of bjartsýnir. En við skulum samt vona, að það takist. En Hafréttarráðstefnan getur tekið 2–3 ár a.m.k. Og auk þess vil ég benda á það, að sú samþykkt, sem var gerð á Hafréttarráðstefnunni 1958 um vernd fiskveiða, hún var ekki fullgilt af nægilegum fjölda fyrr en eftir 8 ár. Þannig er nú „prósessinn“ í þessu, þetta tekur svona tíma. Þeir standa í þeirri meiningu, að það sé nóg að þessi alþjóðlega ráðstefna bara geri þessa samþykkt. En fullgilding ríkja þarf að koma til. Þess vegna er ég nú ekki í nokkrum vafa um það, að 50 mílurnar okkar verða orðnar vel tryggðar áður en búið er að ganga frá 200 mílunum, sem vonandi verður samt.“

Sem sagt, hæstv. forsrh. gerði því skóna í septembermánuði, um mánaðamótin ágúst-sept. 1976, að svo sem 10–11 ár þyrfti þangað til hreyfa mætti við 200 mílunum.

Í þessum sama þætti sagði hæstv. viðskrh., sem því miður er ekki heldur viðstaddur hér:

„Við höfum fært landhelgina út í 50 mílur. Við erum að tala um hana núna hérna, og í hinni næstu framtíð er að sjálfsögðu okkar höfuðkeppikefli að friða 50 mílna landhelgina fyrir erlendum veiðiskipum.“

Og á öðrum stað í þessari ræðu, sem ég nenni ekki að fara að sækja, segir hann, að það verði a.m.k. næstu árin hugsað um 50 mílurnar og annað ekki.

Þessi sönnunargögn nægja að því er baráttuna fyrir 200 mílunum varðar. En ég held að ég lesi hér upp smáræðustúf, sem ég hef raunar sjálfur flutt úr þessum stól í des. 1976, úr því að verið er að tala nú sérstaklega um það ár, til þess að sýna mönnum fram á hvaða réttmæti sé í því að ásaka okkur sjálfstæðismenn um að hafa sérstaklega viljað semja við Efnahagsbandalagið og hafa verið með undanslátt. Hún er hér í 1421. dálki, þessi ræða, hún er örstutt og ég leyfi mér að lesa síðari hluta hennar, með leyfi forseta. Hann er svo hljóðandi:

„En tilefni þess, að ég kveð mér nú hljóðs, er að ég tel rétt og kannske skylt að upplýsa hér atvik frá liðnu sumri, — atvik sem gerðist úti í New York. Þrír sendimenn Efnahagsbandalagsins óskuðu þá viðræðna við íslensku sendinefndina hjá Sameinuðu þjóðunum. Þeir sögðust vilja ræða almennt um viðhorf okkar til hafréttarmála. Á þessum fundi mættu fulltrúar allra íslensku stjórnmálaflokkanna auk Hans G. Andersens og Más Elíssonar. Þegar umr. höfðu staðið í um það bil klukkutíma um gagnslitla hluti, þá var komið að því, sem auðvitað var erindið, að reyna að þreifa fyrir sér um það hver væri skoðun okkar á því að Bretar fengju veiðiheimildir eftir 1. des., og það var Prescott, sá breski, sem hingað hefur komið oftar en einu sinni og var okkur vinsamlegur í landhelgismálinu, eins og allir þekkja, sem upphóf þessa spurningu. Hans G. Andersen sagði að rétt væri að stjórnmálamenn svöruðu þessu og beindi spurningunni til mín. Ég afsakaði það við viðmælendur okkar, að við íslensku sendinefndarmennirnir töluðum saman augnablik á móðurmáli okkar, og spurði félaga mína, sem voru þeir hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, Gils Guðmundsson, Jón Árm. Héðinsson og Magnús T. Ólafsson, sem eru hér allir staddir og geta staðfest orð mín, — ég spurði þá að því, hvort við vorum ekki sammála um að svara því til að eftir 1. des. fengju Bretar að mati okkar allra, fulltrúa allra íslensku stjórnmálaflokkanna, engar veiðiheimildir, þeir yrðu að hverfa héðan burt. Það væri nær að spyrja þá Efnahagsbandalagsmennina hvað við ættum að fá fyrir það aflamagn, sem þeir mega veiða á Íslandsmiðum, áður en þeir spyrðu hvort þeir fengju eitthvað meira þegar við fengjum ekki neitt. Þá kom fram sú hugmynd frá öðrum en mér að við yrði bætt, að það eina, sem til greina kæmi, væru gagnkvæmar veiðiheimildir. Yfirlýsing efnislega á þennan veg var gefin í nafni okkar allra. Við sögðum að vísu: Við höfum ekki umboð flokka okkar. — En á þennan veg var yfirlýsing gefin og það var ekki ég sem átti viðbótina, en það má liggja á milli hluta, ég samþykkti hana og taldi sjálfsagt að við öll stæðum að því að tala við mennina á þessum grundvelli. Þetta tel ég — (Gripið fram í: Vill hv, þm. upplýsa, hver það var?)“ — Sá, sem fram í greip, var einmitt hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sem vildi fá að vita hverjir það höfðu verið sem vildu fá þessa viðbót. Og þá segir ræðumaður: „Nei, þetta, sem ég nú hef sagt, tel ég rétt og skylt að fram komi og þetta á þing og þjóð heimtingu á að vita. Ef einhver ber ábyrgð á því að taka upp þessar viðræður, ef ábyrgð skyldi kalla, þá eru það fulltrúar stjórnmálaflokkanna allra, þeir sem á Hafréttarráðstefnunni voru, og ég tel það þeim öllum til heiðurs og samstaða var alger þar. Þar bar ekki neitt á milli. Við stóðum þar saman og vorum allir að hugsa um hag íslensku þjóðarinnar og annað ekki, og það erum við enn að gera öllsömul.“

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð, vænti ég. Ég ætla að vona að ásökunum um það, að sjálfstæðismenn hafi viljað semja við Efnahagsbandalagsríkin, en aðrir ekki, t.d. um gagnkvæmar veiðiheimildir, linni. Það er hér staðfest að það var a.m.k. ekki fulltrúi Sjálfstfl. sem það vildi fyrst og fremst gera, en það verður hins vegar ekki upplýst hvernig orðaskipti að öðru leyti fóru fram. Og það er reyndar kominn tími til að við reynum að snúa bökum saman, og umr. hér í dag og í gær sýna það raunar, að þessum deilum og ásökunum ætti að linna. Það er engum til gamans og síst þeim sem jafnóheiðarlegan málflutning hafa hér í frammi og hv. ræðumaður Kjartan Ólafsson eða hans flokkur.

Þá vík ég að því sem er aðaltilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs að nýju, en það var ræða hæstv. utanrrh. Og af því að ég er nú búinn að nefna tvo formenn stjórnarflokkanna og afstöðu þeirra til 200 mílnanna, þá verður auðvitað ekki komist hjá því að minna á ummæli þm. Benedikts Gröndals á þessum tíma, þegar hann gerði mikið grín að því, að barist væri fyrir 200 mílum, og sagði að við mundum lenda uppi á Grænlandsjökli, svo fráleitar væru 200 mílurnar. Hann hafði ekki heyrt talað um miðlínur. Þar með er búið að vitna í formenn allra stjórnarflokkanna. Er furða þó að maður vilji fá málin á hreint og treysti kannske þessum forustumönnum ekki fyllilega, sérstaklega þegar um er að ræða þróun og nýjungar í hafréttarmálum sem þeir virðast ekki vilja skilja á stundum.

Þá kem ég að ræðu hæstv. utanrrh. Það, sem helst hefði mátt kalla bitastætt í þeirri ræðu, var orðalag eitthvað á þennan veg: Við höfum ekki afsalað okkur neinum rétti. — Þetta mun áreiðanlega vera rétt. Það hefur enginn íslenskur stjórnmálamaður — ekki viljandi a.m.k. — afsalað Íslendingum neinum rétti. En hvað segir þessi setning: Við höfum ekki afsalað okkur neinum rétti, — og hvað er um hana að segja? Bla, bla! Í henni er ekkert fullyrt. Og að segja slíka setningu, ja, sá gamli þakki þeim! Og hin setningin var: Áskiljum okkur allan rétt á Jan Mayen-svæðinu. — Hvað segir þessi setning: Áskiljum okkur allan rétt á Jan Mayen-svæðinu, öll réttindi áskilin. — Bla bla, því miður. Yfirlýsingarnar, sem gengið hefur verið eftir af hálfu hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstj., eru þessar. Þegar beðið er um að því sé lýst skýrt og skorinort yfir, að Íslendingar eigi réttindi á Jan Mayen-svæðinu utan 200 mílnanna og ætli sér að halda þeim til streitu og viðurkenni ekki og virði neinar einhliða aðgerðir Norðmanna og muni óska eftir formlegum viðræðum við þá, þá er sagt: Höfum ekki afsalað okkur neinum rétti, áskiljum okkur allan rétt. Amen.

Hæstv. utanrrh. hóf ræðu sína á því að kenna fjárlagaafgreiðslu um, að ekkert hefði verið aðhafst að því er hafsbotninn varðar, og sagði sérstaklega, að það hefðu verið strikuð út úr fjárl. framlög til hafréttarmálanna, til að huga að hafréttarmálunum. Úr því að menn mega segja það sem þeir sjálfir segja á utanrmn.-fundum, þá get ég þó a.m.k. skýrt frá því, að þegar ég féllst á það tregur að fresta afgreiðslu tillagna minna og okkar sjálfstæðismanna í byrjun des. fram undir jólin, þá sagði ég þar: Ef hæstv. utanrrh. eða hv. formaður utanrmn. flytur till. við lokaafgreiðslu fjárl., 3. umr., um t.d. 20–30 millj., þá greiðir auðvitað hver einasti þm. atkv. með því hvað sem öllum deilum um alla aðra hluti líður. Það er í lófa lagið að tryggja þetta. — Það hefði enginn þm. Íslendinga látið hjá liða að greiða atkv. með slíkum fjárframlögum. Þetta lá fyrir, þetta er ekki afsökun.

En verst var þó hitt, sem hæstv. ráðh. sagði hér um afgreiðslu till. Hann sagði að það væri reginmunur á því, hvort till. væri vísað til ríkisstj. eða hún samþykkt, og bætti við, að Alþ. vísaði slíkum till. til ríkisstj. ef það vildi ekki taka ákvörðun. Sem sagt, hann gefur í skyn að Alþingi Íslendinga hafi ekki viljað taka ákvarðanir um orðalag þessara tillagna eins og þær voru afgreiddar frá utanrmn. Þessi ummæli eru nærri því verri en þau í norska sjónvarpinu og þau ber að taka aftur. Það vita það allir hér inni, að hver einasti alþm. og þar með utanrrh. vill þetta. (Utanrrh.: Herra minn trúr.) Herra minn trúr, segir hæstv. utanrrh. Ég er farinn að halda að við fáum ekki önnur svör en á þennan veg frá honum.

Þá er komið að því sem er auðvitað mergurinn málsins, að hæstv. utanrrh. hefur lýst hér yfir að aðgerðir hans í málinu, aðgerðaleysi, allt sem gert hefur verið og ekki verið gert, um það sé ríkisstj. sammála. Þetta er sem sagt ekki lengur orðið mál hæstv. utanrrh., þetta er ekki heldur mál ríkisstj. einnar, þetta hlýtur að vera mál ríkisstjórnarflokkanna. Svo gerist það, að hér koma að vísu tveir hv. þm., annar í dag og hinn í Ed. í gær, þeir Jónas Árnason og Stefán Jónsson, með réttmætar og sjálfsagðar aths. sem er þakkarvert, en t.d. hv. þm. Kjartan Ólafsson sér enga ástæðu til að minnast á þetta í klukkutímaræðunni sinni. Aðrir hv. þm. stjórnarflokkanna allra sitja tvo daga og hlusta á þetta, að slíkar yfirlýsingar fást ekki fram. Því er jafnvel haldið fram, að þetta hafi bara verið þykjustuafgreiðsla Alþingis á tillögunum, það sé reginmunur á því, hvort þeim sé vísað til ríkisstj., það sé sjálfsagt bara hugmyndin þá að þær eigi að lenda í ruslakörfunni, þó að bókun hafi verið gerð og lesin upp af formanni utanrmn., sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gerði grein fyrir hér fyrr í dag, um skilning n. allrar á því, hvernig með málið skyldi farið. Ég furða mig á þessu og furða mig þeim mun meira sem tíminn liður lengur án þess að skýlaus svör fáist og skýlausar yfirlýsingar af hálfu ríkisstj. og ríkisstjórnarflokkanna.

Að því er varðar það atriði, eins og hæstv. utanrrh. komst að orði, að núv. valdhafar í Noregi mundu ekki gera neitt án þess að gera okkur aðvart, þá treysti ég því, að það sé rétt sem hæstv. ráðh. sagði, að þessir menn hafi heitið honum því og þeir persónulega muni ekkert aðhafast án þess a.m.k. að tilkynna okkur um það fyrir fram, ef Scottice verður þá ekki bilaður. Það er ekkert víst hvað lengi þessir menn sitja að völdum. Þess vegna verðum við auðvitað að taka upp formlegar viðræður. Það duga engar viðræður á einhverjum fundum, þar sem þessir menn hittist einhvers staðar úti í heimi, jafnvel ekki í gegnum sendiráðin. Mér finnst það liggja í augum uppi, að formlegar viðræður verði að hefja í allra augsýn, þar sem Alþ. fylgist með því sem fram fer, en sé ekki bara einhver einn maður og við fáum að vita hvað er að gerast, hvað er rætt, hvað er farið fram á, hvernig á okkar málstað er haldið. — Ég læt mér ekki nægja, eftir það sem á undan er gengið, að það verði eingöngu sérlegur fulltrúi ríkisstj. einn. Ég held að það sé lágmarkskrafa að stjórnarandstaðan fái a.m.k. að fylgjast með, eins og þessi mál hafa þróast illu heilli. Og þar með læt ég máli mínu lokið.