08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Á þskj. 39 flyt ég ásamt hv. þm. Garðari Sigurðssyni till. til þál. um skipulagningu á fisklöndun til fiskvinnslustöðva. Þetta mun vera í þriðja skipti sem ég flyt þessa till. Hér er um að ræða eitt af þýðingarmestu málum að mínum dómi eins og nú standa sakir í okkar fiskveiðimálum og fiskvinnslumálum.

Efni þessarar till. er í aðalatriðum að Alþ. feli sjútvrn. að undirbúa löggjöf um skipulag á fisklöndun til fiskvinnslustöðva með það að markmiði að fiskiskipafloti landsmanna nýtist sem best til þess að tryggja fiskvinnslustöðvum sem jafnast og best hráefni til samfelldrar vinnslu. Hér er sem sagt um að ræða að reyna að koma í lagabúning, eftir því sem þörf er talin á, föstu skipulagi á því hvernig hægt er að samhæfa fiskveiðar og fiskvinnslu í landinu.

Það fer ekki á milli mála, að nú á síðari árum hefur komið æ betur í ljós hve nauðsynlegt er að fiskveiðarnar séu stundaðar eftir því sem aðstaða er til með fiskvinnslu í landi, en ekki meira og minna óháð því, hvernig þar stendur á. Á sama hátt má segja að öll aðstaða til fiskvinnslunnar sé miðuð við fiskveiðarnar eða aðstöðu til þeirra.

Í till. kemur fram m.a. að leggja skuli áherslu á eftirfarandi atriði í sambandi við undirbúning þessa máls:

1. Landinu sé skipt í löndunarsvæði í samræmi við samgönguaðstæður og hagkvæm samskipti á milli fiskvinnslustöðva. Endanlegt ákvörðunarvald um svæðaskiptingu hafi hagsmunaaðilar á svæðunum.

2. Yfirstjórn á hverju löndunarsvæði sé í höndum heimaaðila á svæðinu, þ.e.a.s. í höndum fulltrúa fiskvinnslustöðva, útgerðaraðila og sjómanna, sem sagt sjómanna og fiskvinnslufólks.

3. Að stefnt sé að því að miðla hráefni á sem hagkvæmastan hátt á milli fiskvinnslustöðva, þannig að vinna geti verið samfelld og hagkvæm í öllum vinnslustöðvum svæðisins.

4. Að fiskafli sé fluttur í kældum og lokuðum flutningatækjum á milli vinnslustöðva eftir því sem þörf er á.

5. Að að því sé stefnt að fiskveiðiflotinn, sem veiðir fyrir svæðið, sé í góðu samræmi við afkastagetu vinnslustöðvanna.

6. Að tryggt sé í væntanlegri löggjöf, að ríkissjóður leggi fram nokkurt fé til að koma skipulagningunni á og til þess að standa undir hluta af rekstri nauðsynlegra flutningatækja. Einnig er gert ráð fyrir í till. að heimilað verði að taka nokkurt gjald af öllum lönduðum fiski á svæði til þess að standa undir þessum sameiginlega kostnaði.

Það kom í minn hlut árið 1973, af því að þá vildi svo til að ég var sjútvrh., að flytja hér á Alþingi frv. um skipulag á loðnulöndun til vinnslu í landi. Ég held að allir séu sammála um að það skipulag, sem þá var tekið upp og farið hefur verið eftir í meginatriðum, þó með nokkrum breytingum frá ári til árs, hafi verið til mikilla bóta frá því sem áður var. Þó er það skoðun mín að þar þyrfti enn að gera nokkrar breytingar á til þess að tryggja enn betur en nú er gert samræmi á milli vinnslunnar í landi og veiðimöguleika og aðstæðna í þessum efnum. En það er alveg eftir að gera hliðstætt átak í sambandi við hina almennu fiskvinnslu, þ.e.a.s. vinnslu á þorski, ýsu, ufsa og öðrum slíkum fiski sem unninn er í okkar aðalverkunarstöðvum, í frystihúsum og saltfisksverkunarstöðvum.

Þegar ég hef flutt þessa till. áður og talað fyrir henni hafa komið fram mjög góðar undirtektir og fyrrv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, lýsti yfir að hann væri samþykkur meginstefnunni sem fram kæmi í þessari till., hann teldi að að þessu þyrfti að vinna. Enn hefur hins vegar lítið orðið úr því, að tekið væri á þessu máli, og til þess liggja auðvitað margar ástæður. Við vitum, að þó að ekki hafi verið komið hér á almennu og föstu skipulagi í þessum efnum, þá hafa þó orðið á þessu sviði miklar umbætur á síðustu árum, einkum eftir að hinir svonefndu minni skuttogarar fóru að gilda nokkuð mikið í okkar fiskveiðiflota og þeir voru jafntengdir fiskvinnslustöðvunum og reyndin hefur orðið á. Þannig hefur ýmsum fiskvinnslustöðvum í landinu tekist að tryggja rekstur sinn þannig að segja má að þar sé í þeim fáu tilvikum orðið allgott samræmi á milli veiða og vinnslu, enda er ekkert um það að villast, að afkoma þeirra aðila, sem við það skipulag búa, er miklum mun betri en hinna, sem meira og minna eru í gamla skipulaginu hvað þetta snertir. Það er enginn vafi á því, að þetta stóra vandamál verður ekki leyst hjá okkur á þann hátt að hver einstakur útgerðarbær eða hvert einstakt útgerðarfyrirtæki í landinu leysi þessi mál beint út frá sínum sérsjónarmiðum. Hér þarf að vera um ákveðna samvinnu, ákveðið samstarf að ræða, þannig að tiltölulega auðvelt sé að flytja fiskafla á milli verkunarstöðva, þannig að segja megi að vel takist að samræma veiðar og vinnslu.

Ég hef lagt á það áherslu í þessari till., að að þessu verki þurfi að vinna í mjög nánu samráði við þá aðila sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, þ.e.a.s. bæði þá, sem eiga fiskiskipin og starfa á þeim, og eins hina, sem hafa með að gera reksturinn á fiskvinnslustöðvunum og vinna í þeim. Það er ekki líklegt að vel fari að grípa inn í þetta frá löggjafans hálfu með öðrum hætti en reynt sé að gera þetta í mjög nánu samráði við þessa aðila.

Ég held að það væri hægt að tryggja mjög mörgum fiskvinnslustöðvum í landinu miklu jafnari rekstrarskilyrði en þau búa við í dag, ef skipulag af þeirri tegund, sem felst í þessari till., yrði tekið upp. Og ég lít á það sem beint framhald af því sem hefur verið að gerast í þessum efnum á síðustu árum, þar sem hefur þó orðið um gífurlega mikla framför að ræða.

Það er ekki þörf á því fyrir mig að halda hér langa ræðu um þetta mál vegna þess að ég hef rætt þetta mál allítarlega á hv. Alþ. áður. En ég undirstrika það enn einu sinni, að það er enginn vafi á því, að hér er um eitt allra stærsta og þýðingarmesta hagsmunamál að ræða sem um er að ræða nú í íslenskum fiskveiðum og fiskiðnaði. Á þessi mál þurfum við að koma skipulagi. Menn reka sig á það t.d., þegar rætt er um hvort heimila eigi einstökum aðilum að kaupa ný fiskiskip, eins og er nú svo að segja daglegt verkefni þeirra sem með þau mál hafa að gera, þá getur verið mjög erfitt að ætla að neita einstökum útgerðaraðilum eða heilum byggðarlögum um rétt til þess að eignast nýtt fiskiskip, kannske í staðinn fyrir gamalt og úrelt, einfaldlega á þeim grundvelli að segja: Það er þegar komið nóg af fiskiskipum í landið. Hins vegar væri hægt að leysa mál þessara aðila í mjög mörgum tilfellum, einkum á það við um hin minni svæðin, með tiltekinni samvinnu og samstarfi varðandi dreifingu á fiskaflanum.

Í þessu efni vil ég einnig minna á það, að sá tími er liðinn hjá þeim sem nokkuð þekkja til þessa rekstrar, að fyrir þá, sem geta ráðið yfir miklum afla af einhverjum ástæðum, sé hagkvæmt að reyna að vinna einir og sjálfir allan aflann sem þeir geta komist yfir, hvernig svo sem aðstæður eru. Sá tími er liðinn. Menn hafa þegar lært, að það er miklu hagkvæmara í fiskvinnslunni að geta tryggt sér jafnan og öruggan rekstur, þar sem byggt er á fastri vinnu svo að segja hvern dag og eðlilegum vinnutíma, en losa sig hins vegar út úr því að þurfa að vinna svo að seg ja tvöfaldan vinnudag einn og einn dag í viku, en hafa svo lítið eða ekkert að gera annan daginn. Slík vinnsluaðstaða er dýr og óhagkvæm, og það kemur alltaf fram á gæðum þeirrar vöru sem er verið að vinna. Því er það að flestir, sem hér eiga hlut að máli, hafa þegar áttað sig á því, að það geti verið hagkvæmt fyrir þá að losna við svonefnda toppa í veiðinni, ekkert síður en það getur verið hagkvæmt fyrir aðra að fá þessa toppa til sín til vinnslu. Öfugstreymi af þeirri tegund þekkist enn, að jafnvel í sama byggðarlagi getur ein fiskvinnslustöðin ekki haldið uppi eðlilegri vinnu vegna þess að það vantar hráefni, á sama tíma og önnur fiskvinnslustöð í sama byggðarlagi hefur svo mikinn afla úr að vinna að hún ræður ekki við hann. Vitanlega verður að reyna að koma sér út úr slíkum vanda með eðlilegu skipulagi. En það getur verið að á forustu opinberra aðila þurfi að halda til þess að koma a.m.k. föstu skipulagi á til að leysa þennan vanda.

Þó að hér sé um stórt og þýðingarmikið mál að ræða, þá er nú hvort tveggja, að aðstaða mín er þannig og röddin þannig núna, að ég treysti mér ekki til að tala umfram það sem ég nauðsynlega þarf, og ég tel ekki beina þörf á því eins og sakir standa. Að lokum vil ég leggja til að við frestun þessarar till. verði henni vísað til hv, atvmn, til fyrirgreiðslu, og vænti ég að sú n. afgreiði nú þessa till., svo langan tíma sem hún hefur legið fyrir Alþ. til athugunar.