12.02.1979
Efri deild: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég harma að hæstv. iðnrh. skyldi ekki geta tekið undir þá hógværu ósk sem hér var borin fram fyrir Siglfirðinga varðandi smávægilega breytingu á þessu frv., þar sem um það er rætt að verðjöfnunargjald gæti ekki gengið einungis til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, heldur líka annarra sem við sambærilegan fjárhags- og orkuöflunarvanda eiga að etja, eins og það var orðað. Það er út af fyrir sig rétt, að Rafveita Siglufjarðar hefur leitast við að hafa heimilistaxta svipaðan og er hér í Reykjavík, en hins vegar eru aðrir taxtar þar miklu hærri og t.d. mun vera 27% hærri hitataxti hjá Rafveitu Siglufjarðar en hjá Rafmagnsveitum ríkisins, svo að dæmi sé nefnt.

Þess er að gæta, að þetta raforkusvæði Siglufjarðar er algerlega einangrað. Það er ekki tengt við svæði Rafmagnsveitna ríkisins. Þess vegna þarf að hafa þar mismikla varaorku. Aftur á móti selur Rafveita Siglufjarðar inn á RARIK-línu, bæði til Ólafsfjarðar og eins í Fljótin, og léttir undir með Rafmagnsveitum ríkisins að því leyti. Þess vegna finnst mér að þessi málaleitun sé sanngjörn, og þetta er þar að auki ekki nema heimildarákvæði sem farið er fram á að inn í lögin verði sett. En hvað sem því líður, þá vænti ég þess a.m.k., að forráðamönnum Rafveitu Siglufjarðar verði gert kleift að ræða þetta mál við þá n. sem það fær til umfjöllunar. Þá mun sjónarmið þeirra koma í ljós. Ég treysti því að n. reyni að taka tillit til þessara hógværu óska.